Vangaveltur varðandi mistök IPCC

Það eru uppi vangaveltur um þýðingu þeirra mistaka sem gerð voru hjá IPCC í 4. matsskýrslunni um loftslagsmál. Fyrir þá sem ekki þekkja til, þá kom fram mikilvæg villa í skýrslu vinnuhópis II (WG II) hjá IPCC. Villan er sú að þar er talað um að mögulega hverfi jöklar Himalaya fyrir árið 2035, nánar má lesa um þetta í færslunni, Jökla Himalaya og álitshnekkir IPCC.

En hvað gerðist eiginlega?

Það má segja að vinnuhópur II, sem skrifar skýrslu um afleiðingar loftslagsbreytinga, hafi gert þessi mistök. Þeir höfðu ekki ritrýndar heimildir fyrir skrifum sínum, eins og fram kemur í færslunni um málið. Eftir að þetta kom upp hefur orðið mikil umræða um störf Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC). Þessi villa er m.a. í mótsögn við það sem t.d. kemur fram í skýrslu vinnuhóps I (WG I) um jökla Himalaya. Í vinnuhópi I eru sérfræðingar á hverju sviði sem stjórna skýrslugerðinni. Þar kemur m.a. fram að “Asian High Mts.” skera sig ekki úr hvað afkomu varðar, (Sjá t.d. mynd 4.15 í WG I) eða þá málsgrein á bls. 360 í WG I þar sem sagt er að háfjallajöklar í Asíu “have generally shrunk at varying rates”, auk þess sem nefnd eru dæmi um jökla sem hafa þykknað eða gengið fram. (sjá nánar athugasemd eftir Halldór Björnsson). Raunar er líka merkilegt að þessi villa hafi ekki komið upp fyrr, en ein ástæðan fyrir því gæti verið að þessi texti var djúpt grafinn í skýrslu vinnuhóps II og kom m.a. ekki fram í úrdráttum um þann hluta matsskýrslunnar.

fig-4-15
Fig. 4.15 úr skýrslu IPCC (WG I)

Eins og fram kom í færslu okkar, þá mun þetta mál væntanlega hafa þau áhrif að efasemdarmenn fá byr í seglin:

Þetta mál á væntanlega eftir að gefa efasemdarmönnum byr í seglin, þar sem þeir munu væntanlega taka djúpt í árina og oftúlka merkingu þessa atviks. Jafnvel mun verða reynt að tengja þetta Climategate málinu svokallaða, þar sem ummæli vísindamanna í tölvupóstum voru oftúlkuð og rangtúlkuð í mörgum tilfellum og af ýmsum talin grafa undan sjálfum vísindunum, sem þó er fjarri lagi.

Það er mikilvægt að hafa í huga að matsskýrslur IPCC eru upp á ca. 3.000 bls. og það kemur fjöldinn allur af skýrsluhöfundum að gerð þeirra. Þessi mistök velta í sjálfu sér ekki loftslagsvísindunum, jörðin er því miður enn að hlýna og það mun væntanlega hafa einhverjar afleiðingar í framtíðinni, hvað sem um þessa meinlegu villu er hægt að segja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þegar tómar vitleysur slæðast í vísindaskýrslur, sama hvort þær innihalda fáar eða margar blaðsíður, þá minnkar trúverugleoki heildarinnar. Þið hljótið að viðurkenna það.

Gunnar Th. Gunnarsson, 22.1.2010 kl. 17:06

2 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Það varpar óneitanlega skugga á verkið Gunnar. En þessi eina villa (sama hversu bagaleg hún nú er) þýðir alls ekki að verkið sem slíkt sé allt út í rangfærslum. Við erum þrátt fyrir allt ekki að tala um tómar vitleysur, eins og þú velur að orða það. 

Ef þú lest þetta aftur yfir, sérðu einnig að það er ákveðin mótsögn í því sem villan fjallar um og þeim grunni sem er hjá vinnuhópi I, þar sem höfundar eru sérfræðingar á þeim sviðum sem þar eru tekin fyrir.

Gunnar, það væri reyndar fróðlegt að vita hvað það er sem þú heldur að sé rangt við þessi fræði. Ég man ekki eftir efnislegri gagnrýni af þinni hálfu áður

Sveinn Atli Gunnarsson, 22.1.2010 kl. 18:20

3 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Þessi villa í skýrslu IPCC er ekkert einsdæmi. Þegar skýrslan kom út árið 2007 var í henni meinleg og augljós villa sem bar vott um einstaka fljótfærni og lítið gæðaeftirlit. Villan stakk svo í augun að hún fór ekki fram hjá þeim sem lásu hana af athygli.

Ég bloggaði um málið á sínum tíma (3. febrúar 2007) strax eftir að skýrslan kom út. Færslan nefnist einfaldlega: "Skýrsla Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar er hér:".

---

 Í pistlinum er eftirfarandi mynd og viðeigandi texti sem tekin var úr Summary for Policymakers, þ.e. samantekt skýrslunnar þar sem aðalatriðin koma fram.

"Meinleg villa í skýrslunni?  Sjá töflu SPM-0 á blaðsíðu 5. Þar stendur:

     Sum of individual climate contributions to sea level rise     0.11 ± 0.05      0.28 ± 0.07

Prófið nú að leggja saman tölurnar þar fyrir ofan. Útkoman er allt önnur en 0,11 eða 0,28

 (0,042+0,05+0,05+0,14=0,11 ?  og   0.16+0.077+0.21+0.21 = 0.28 ?  !!!).  Það er ekki heldur að sjá að óvissuþættirnir leggist rétt saman. Hvernig í ósköpunum getur svona augljós villa verið í  skýrslu IPCC, Summary for Policymakers? Sjá myndina hér fyrir neðan" .

  IPCC-villan

 ---

 Ef IPCC vill lagfæra vinnubrögðin hjá sér til að koma í veg fyrir að óþarfa villur komist inn í skýrsluna þá er nauðsynlegt að taka upp vottaða verkferla og innra eftirlit.

Þéir ættu meðal annars að taka upp vottuð gæðakerfi, eins og öll stærri fyrirtæki á almennum markaði gera, þ.e. ef þau vilja láta taka mark á sér. Stofnanir, sem vilja að mark sé á þeim tekið, ættu að gera hið sama, þar með talið CRU og aðrar sem meðhöndla gögn sem til dæmis eru notuð í loftslagsvísindum..

Ég nefni tvö gæðakerfi sem gætu komið að miklu gagni:

ISO 9000: Alþjóðastaðall um gæðastjórnun. Sjá t.d. hér og hér.

ISO 8000:  Nýr alþjóðastaðall sem fjallar um gæði gagna. Sjá t.d. hér og hér.

Með svona vottuðum gæðakerfum er hægt að minnka verulega líkur á óvönduðum vinnubrögðum og mistökum sem af þeim leiða.  

Ágúst H Bjarnason, 23.1.2010 kl. 07:10

4 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Það má alltaf gott bæta Ágúst, held að við getum verið sammála um það. Enda er reglan sú í skýrslum IPCC að nota ritrýnt efni, þó svo það hafi klikkað í því tilfelli þar sem villan var gerð sem er efni þessa pistils hér að ofan.

Þessi villa sem þú nefnir Ágúst er innsláttarvilla sem var í uppkasti Summary for Policymakers úr 4. matsskýrslunni. Þetta uppkast kom út í byrjun febrúar 2007 og villan uppgötvaðist nokkrum klukkustundum síðar og komst því aldrei í lokaskýrsluna (ætli það sé ekki hægt að orða það svo að "gæðakerfið" hafi séð þessa villu). Í sjálfri lokaskýrslunni er þessi tafla rétt, sjá t.d. hér, bls. 7, tafla SPM 1.

Sveinn Atli Gunnarsson, 23.1.2010 kl. 10:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband