Sofandi risi?

Ég rakst á áhugaverða frétt á heimasíðu um loftslagsbreytingar á vegum hins virta tímarits Nature, en sú grein heitir á ensku A sleeping giant?

Greinin fjallar í stuttu máli um hættuna af því þegar stór forðabúr af metani (sem er gróðurhúsalofttegund) fara að losna úr frosnum jarðlögum, meðal annars á landgrunni Síberíu við hlýnun jarðar og hafsins.

Vísindamenn eru nú þegar farnir að sjá merki þess að metan geti verið byrjað að losna úr þessum jarðlögum, en metan er um 25 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2. Því gæti þetta haft geigvænleg áhrif og magnað upp hlýnun jarðar margfalt og sett af stað atburðarrás sem ekki sér fyrir endan á. Hlýnun - nokkurt magn Metans losnar - hlýnar enn meir - meira magn Metans losnar og svo koll af kolli (svokallað á ensku "positive feedback" - "jákvæð afturverkun").

Þetta er vissulega áhyggjuefni, en bent hefur verið á að þetta geti verið staðbundið fyrirbæri eða hluti af lengri atburðarrás og því ótengt núverandi hlýnun jarðar.

Landgrunn Síberíu er talið geyma um 1400 milljarða tonna af metangasi, um tvöfallt meira af kolefni en öll tré, grös og blóm á jörðinni. 

IBCAO_betamap
Landgrunn Síberíu er ljósbláa hafsvæðið norðan við Síberíu Rússlands (mynd stolin frá Wikipedia).

Ofan á þessum jarðlögum á botni Síberíu-landgrunnsins er grjótharður freri sem virkar eins og lok á undirliggjandi jarðlög og kemur í veg fyrir að metangasið losni (reiknað hefur verið út að ef sjórinn hitni um eina gráðu þá losni metanið). Metan hefur mælst í nokkru magni undan ströndum landanna við norðurskautið en hvort hægt sé að sanna að það sé úr þessum jarðlögum er annar höfuðverkur.

Einnig hafa menn áhyggjur af sífrera á landi á norðurslóðum (þá einna helst í Síberíu), en þiðnun hans er nú þegar hafin. Talið er að samtals sé um 950 miljarðar tonna af kolefni bundið í sífrera á norðurhveli jarðar, helmingur þess í sífrera sem kallaður er yedoma og er mjög ríkur af lífrænum efnum en megnið af því hefur verið frosið síðan á Pleistósen (tímabil jarðsögunnar frá því ísöld hófst og þar til síðasta jökulskeiði lauk fyrir um 10 þúsund árum). Þar sem yedoma er byrjað að þiðna hefur orðið vart við nokkurn metan-leka.

A sleeping giant?
Yedoma sífrerinn er byrjaður að losa kolefni við þiðnun (mynd stolin af Nature síðunni).

Jæja, ég ætla nú ekki að endurskrifa alla greinina þar sem ég er enginn þýðandi (hvað þá þíðandi), en mæli með að fólk renni í gegnum hana.

Bendi þó á línurit sem er í greininni sem sýnir magn metans í lofthjúpnum síðastliðin ár.

climate.2009.24-f1 
Svolítið óskýr mynd, en hún sýnir magn metans í lofthjúpi jarðar frá sirka 1997-2008 (tekin af Nature síðunni).

Vísindamenn veðja á að skýringin á þessari aukningu árið 2007 sé að finna í votlendi norðurslóða og að metan-aukningin sé til komin vegna bráðnunar sífrera. Það verður áhugavert að sjá á næstu árum hvort metan eykst eða hvort það minnki aftur.

Athugið að nú er upplagt að koma fram með kenningar um auknar meltingatruflanir hjá kvikfénaði árið 2007.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Loftslag.is

Loftslag.is, 11.3.2009 kl. 11:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband