CO2 - vágestur úthafanna

Ég er sjómannssonur, frændur mínir og vinir eru margir hverjir sjómenn. Ég eyddi 12-13 sumrum frá 12 ára aldri út á sjó, verðmæt reynsla. Mig langar í litla trillu þegar ég verð kominn á seinni hluta ævinnar, stunda handfæri og jafnvel leggja nokkur grásleppunet á vorin. Kenna sonum mínum handtökin og ef synir mínir myndu vilja verða sjómenn þá myndi ég ekki hika við að hvetja þá í því.

Því hef ég sérstakar áhyggjur af ástandi sjávar og hingað til mestar áhyggjur af afleiðingum hlýnunar á vistkerfi sjávar við Ísland. Ég hef ekki kynnt mér nýjustu kenningar um mögulegar breytingar á hafstraumum, en einhvern tíma las ég kenningar um það að við aukna bráðnun hafíss norðurskautsins þá gæti flæði kaldra hafstrauma úr norðri, með lítilli seltu, haft þau áhrif að Golfstraumurinn myndi þrjóta kraftur og að Norður-Atlantshafstraumurinn myndi ekki lengur ná til Íslands. Hafsvæðið í kringum Ísland er á mótum kaldra næringarríkra hafstrauma úr norðri og heitra næringarsnauðra hafstrauma úr suðri. Það er ein meginástæða þess hversu mikill fiskur hefur verið við Íslands strendur síðastliðna öld.


Hér sést hringrás Norður-Atlantshafsstraumsins (tekið af vísindavefurinn.is).

Ef eitthvað er að marka þessar kenningar um hafstraumabreytingar (en það hefur lítið farið fyrir fréttum af þeim síðustu ár), þá er rétt að fylgjast vel með breytingum á hafís norðurskautsins sem helst í hendur við hlýnun jarðar undanfarin ár, sjá t.d. nýja bloggfærslu um hafís norðurskautsins og frétt á mbl.is um leiðangur á norðurskautið. En þetta er bara útúrdúr, ég ætlaði ekki að tala um þessa gömlu kenningu.

¨¨¨¨¨¨

Nú koma fréttir af annarri vá sem bætist ofan á hlýnunina sem talin er fylgja útblæstri manna á CO2, eitthvað sem gæti ógnað lífríki sjávar allóhugnalega. Sjá frétt á vefsíðunni Guardian, Carbon emissions creating acidic oceans not seen since dinosaurs.  Ég rakst einnig á blogg þar sem nær eingöngu er fjallað um þessa súrnun úthafana, en þar er viðtal við einn af þeim sem eru með erindi á ráðstefnunni í Kaupmannahöfn sem ég minntist á í fyrri færslu, en erindi um súrnun úthafana var til umræðu þar í dag (hægt er að skoða ágrip erinda hér). Svo ég grípi niður í brot úr þessari færslu af fyrrgreindu bloggi (Deep reductions, or deep trouble for the oceans):

A researcher from California’s Carnegie Institution presents a stern warning. “If current trends in carbon dioxide emissions are not reversed soon, we will produce chemical changes in the oceans of a magnitude that has not been seen for many tens of millions of years,” says climate scientist Ken Caldeira. “A failure to cut carbon dioxide emissions deeply and soon risks widespread extinctions in the marine environment, with difficult-to-predict consequences for marine ecosystems generally.”

Lauslega þýtt þá segir þessi Ken Caldeira: "Ef núverandi þróun í útblæstri CO2 er ekki snúið við fljótlega, þá verða breytingar í efnafræði úthafanna af stærðargráðu sem við höfum ekki séð í tugi milljón ára." Svo segir hann: "Ef okkur mistekst að draga úr losun CO2 mikið og fljótt, þá er gríðarleg hætta á viðamiklum útdauða í úthöfunum, með afleiðingum sem erfitt er að sjá fyrir í vistkerfi sjávar." [Illa þýtt, en þið skiljið þetta hvort sem er]

Fleiri fréttir um þessi mál hafa rekist inn á erlendar síður undanfarnar vikur og mánuði, t.d.  PlanetEarth: Ocean acidification - the other CO2 problem og önnur af vefsíðu TimesOnline: The toxic sea og hér er svo ein af vefsíðunni ScienceDaily: Coral Reefs May Start Dissolving When Atmospheric Carbon Dioxide Doubles.

horpudiskur_310308
Hörpudiskur er ein af þeim sjávarlífverum sem verða hart úti ef spárnar ganga eftir (mynd af vísindavefnum)

Það er spurning hvort þetta er eitthvað rugl og að þeir séu í sínum spám að fara með einhverjar fleipur, en ef sá möguleiki er fyrir hendi að eitthvað sé til í þessu, þá er ljóst að jarðarbúar verða að taka sig saman í andlitinu og minnka útblástur CO2. Ég veit að við Íslendingar erum ekki stór biti af heildar-CO2-kökunni, en við hljótum að geta haft einhver áhrif, framtíð okkar sjávarútvegs gæti oltið á því að losun CO2 minnki.

Þetta var heimsendaspá dagsins í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Loftslag.is

Hér er grein sem tengist þessu efni að einhverju leiti: http://www.sciencedaily.com/releases/2009/03/090317094729.htm

Loftslag.is, 21.3.2009 kl. 15:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband