Súrnun sjávar - heimildarmyndir.

Heimildarmyndin A Sea Change 

Í næsta mánuði (þann 26. september) verður sýnd heimildamyndin A Sea Change, sem er um súrnun sjávar (e. ocean acidification). Hún er sýnd á sjónvarpstöðinni Planet Green Network, en sú stöð skylst mér að sé hluti af Discovery Network. Nú er ég ekki nógu vel að mér í sjónvarpsfræðum til að vita hvort þessi stöð næst á einhvern hátt hér á landi, þó er ég nokkuð viss um að ef það er möguleiki að sjá stöðina, þá er það helst í gegnum gervihnött.

Hægt er að lesa sig til um myndina hér: New Film on Ocean Acidification Reveals Unseen Face of CO2 Pollution og hér fyrir neðan eru tvö sýnishorn úr myndinni:

Heimildarmyndin Acid Test 

Við gerð þessarar færslu rakst ég á umfjöllun um aðra heimildarmynd um súrnun sjávar sem einnig á að sýna á sömu sjónvarpstöð, þann 12. ágúst. Sjá umfjöllun um þessa heimildarmynd hér: ACID TEST: The Global Challenge of Ocean Acidification og hér er svo sýnishorn:

Um súrnun sjávar

Súrnun sjávar er aukaafurð losunar á CO2 út í andrúmsloftið og oft kallað "hitt CO2-vandamálið" (á eftir hlýnun jarðar). Vegna aukningar CO2 í andrúmsloftinu gleypir sjórinn aukið magn CO2 og við það verða efnaskipti sem breyta pH gildi sjávar - sjórinn súrnar.

Súrnun sjávar hefur aukist það mikið undanfarna áratugi að talin er mikil hætta á því, að við munum verða vitni að svipaðri súrnun sjávar og varð fyrir 55-56 milljónum ára. Sú súrnun olli miklum útdauða sjávarlífvera. 1/6 af fæðu mannkyns er fengin úr sjónum og því eru miklir hagsmunir í húfi fyrir mannkynið (fyrir utan siðferðislega skyldu okkar að eyðileggja ekki lífsafkomu annarra lífvera). 

Það má því segja að jafnvel þeir sem viðurkenna ekki staðreyndina um hlýnun jarðar af mannavöldum, ættu að geta tekið undir það að nú verði að bregðast við aukningu CO2 andrúmsloftsins, áður en illa fer. Við núverandi losun CO2, þá er talið að súrnun sjávar verði farin að nálgast hættumörk árið 2030 (við CO2 magn í lofthjúpnum í sirka 450 ppm) en nú þegar er talið að áhrifa súrnunar sjávar sé farið að gæta. 

Frekari upplýsingar um súrnun sjávar:

CO2 - vágestur úthafanna (gömul bloggfærsla mín, frá því ég heyrði fyrst af þessu vandamáli).
Heimshöfin súrna jafnt og þétt (af erlendri bloggsíðu sem fjallar eingöngu um súrnun sjávar - hér hafa þeir tekið grein sem birtist í fréttablaðinu í mars og birt í heild).
Súrnun sjávar (hér er umfjöllun mín um áðurnefnda grein sem var í fréttablaðinu).
Í hverju felst súrnun hafsins? (af heimasíðu EPOCA - European Project on OCean Acidification).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Vil þakka þér frábært blog!

Með kveðju,

Eiríkur Sjóberg, 11.8.2009 kl. 19:49

2 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Þetta er mjög athyglisvert með höfin og það er víst ekki svo langt síðan að vísindamenn fóru að rannsaka þetta að einhverju ráði. Þetta er alvarlegt mál sem þarf að bregðast við og finna einhverjar lausnir á. Persónulega sé ég nú ekkert annað í stöðunni en að draga úr losun koldíoxíðs...

Sveinn Atli Gunnarsson, 11.8.2009 kl. 20:28

3 Smámynd: Loftslag.is

Eiríkur, takk fyrir að lesa.

Sveinn, já þetta er athyglisvert. Það var aðeins fyrst eftir að ég fór að fylgjast af viti með umræðu um loftslagsmál síðastliðinn vetur að ég fór að rekast á fréttir og skýrslur um þetta vandamál. Mér skilst að the Royal Society í Bretlandi muni gefa út mjög ítarlega skýrslu um súrnun sjávar í September, við fylgjumst með því. 

Loftslag.is, 11.8.2009 kl. 20:55

4 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

....en að draga úr losun koldíoxíðs er hins vegar ekkert auðvelt mál.

Eitt af því sem þarf að vinna gegn er hugarfar/vanþekking/meðvitundarleysi fólks um vánna.  Ég hef lent í rifrildi út af þessum málum við flesta sem ég hef umgengist, mitt nánasta fólk, fjölskyldu og vinnufélaga.  Mér finnst eins og fólk "vilji" fyrir enga muni taka undir það að mannskepnan er að marka djúpt spor í vistkerfi jarðar með athöfnum sínum og að það skipti máli hvernig við hegðum okkur innan þessa takmarkaða og í raun viðkvæma heims.  Það læðist stundum að manni sjá grunur að fólk sé ekki tilbúið að játa þetta þar sem það gæti þýtt að við drögum talsvert úr efnislegum gæðum í lífi okkar, a.m.k. tímabundið, þar til nýjar, vistvænni uppgötvanir koma fram.  Fólk er sem sé vill halda lifnaðarháttum sínum óbreyttum fram í rauðan dauðann, jafnvel þótt merki í náttúrunni hrópi á það!  Og allt þetta sama fólk ber fyrir sig þeim fáu vísindamönnum og greinum sem tala gegn meginstraumi vísindasamfélagsins!

Ég hef reynt að útskýra þetta með einföldum hætti fyrir fólki.  Í hnotskurn er vandamálið þetta:

1) Gróðurhúsalofttegundir eru þeirrar náttúru að þær gleypa í sig varma og stuðla þannig að hlýnun jarðar.  Um er að ræða koltvísýring, metangas og vatn.

2) Mannskepnan brennir kolum og olíu í gífurlegu magni á hverri mínútu og við það myndast gróðurhúsaslofttegundir sem bætast í lofthjúp jarðar.

3) Ef við minnkum jörðina í huganum niður í stærð á við appelsínu þá væri meginhluti lofthjúpsins svo þunnur að við sæjum hann ekki.  Þegar við höfum þetta í huga, og staðreyndir 1 og 2 að ofan, þá getum við séð í hendi okkar að brölt mannskepnunnar hefur veruleg áhrif.

 Það náttúrulega vantar fullt af staðreyndum og tölum inn í ofangreindar forsendur til að sýna raunverulega fram á að þær gangi upp sem raunveruleg röksemd fyrir því að brölt mannskepnunnar stuðli að hlýnun jarðar.  Það er þó ekki af þeim orsökum einum sem fólk bregst venjulega við þessum röksemdafærslum með því að segja:"Svo koma eldgos.  Og þá kemur mun meira af slíkum efnum upp í lofthjúpinn en frá mannskepnunni!"  Þessum fullyrðingum fylgja heldur engar tölur.  Og það gleymist að brölt mannskepnunnar kemur til viðbótar því sem kemur í náttúrulegum ferlum.

Svo er það staðreynd að koltvísýringurinn í lofthjúpi jarðar hefur aukist allt frá lokum síðustu ísaldar og aukningin hefur verið í takt við atferli mannsins, brennslu viðar og síðar kola og jarðefna annarra.  Nú er svo komið að koltvísýringur í lofthjúpi jarðar er meiri en hann hefur verið í mörg hundruð milljón ár!

Eiríkur Sjóberg, 11.8.2009 kl. 21:00

5 Smámynd: Loftslag.is

Eiríkur, það er að mörgu leyti rétt hjá þér þetta með hugarfar/vanþekkingu/meðvitundarleysi fólks. Ég held þó og vona að það sé smám saman að verða vakning í þessum efnum.

Ef þig vantar heimildir þá ættirðu að geta fundið ýmislegt t.d. um eldgosin á yfirlitsíðu sem ég gerði og sjá má sem fasta síðu á forsíðunni (sjá Yfirlitsíða (efni fyrrihluta árs 2009))

Annars er þetta fín útskýring hjá þér (liðir 1-3).

Loftslag.is, 11.8.2009 kl. 21:17

6 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Fyrir nokkru hlustaði ég á viðtal við framleiðandann í podcasti sem kallast SETI radio og er á vegum SETI stofnunarinnar í Bandaríkjunum. Þetta er frábært podcast sem ég mæli eindregið með. Slóðin á viðtalið við þennan mann er http://radio.seti.org/episodes/Seas_the_Moment

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 11.8.2009 kl. 22:00

7 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Tek undir þetta hjá þér Eiríkur, það vantar hugarfarsbreytingu til að fólk skilji vandamálið. Við verðum bara að vona að það verði vakning um þessi mál, eins og Höskuldur kemur inn á. Ég hef gert færslu um þetta efni, um hugarfarsbreytinguna, sjá hér, ef þú skildir hafa áhuga.

Sveinn Atli Gunnarsson, 11.8.2009 kl. 23:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband