Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Loftslag.is - Nýtt efni síðustu daga

loftslagHér kemur stutt kynning á því efni sem birst hefur á Loftslag.is síðustu daga.

Í athyglisverðu myndbandi Carl Sagan eru hugleiðingar um stærð Jarðar í alheiminum gerð skil á fróðlegan hátt. Hversu stór er eiginlega hinn blái punktur sem við búum á.

Það eru ýmis tól sem okkur standa til boða á netinu, meðal annars er hægt að skoða ýmis áhrif af sjávarstöðubreytingum, hvaða áhrif hefur t.d. 1 m hækkun sjávarborðs? Skoðið tengilinn í þessari færslu á Sea Level Explorer.

Bandarísk auglýsing vekur furðu. 

Í kjölfarið á auglýsingunni er svo hægt að skoða blogg sem kemur inn á hugsanlega áhrif aukningar CO2 í andrúmsloftinu, eru þau áhrif eingöngu jákvæð?

Að lokum er svo frétt um rannsóknir sem Met Office (breska veðurstofan) hefur birt um hugsanlega hitastigshækkun verði ekkert að gert til að draga úr losun koldíoxíðs.


Frétt - Loftslag.is

Umfangsmikil rannsókn á jöklum Suðurskautsins og Grænlands sýnir að jökulþynning á Grænlandi er byrjuð á Norður-Grænlandi og hefur dreifst um allt Suðurskautið. Þynningin er að aukast inn á land á báðum jökulbreiðunum (e. Ice Sheet), samkvæmt nýrri grein í Nature. Í greininni kemur fram að þynningin hefur haldið áfram í áratugi eftir uppbrotnun íshellna/jökulþylja (e. Ice Shelf) og segir þar að ástæða þess sé hlýrri sumur, en þó ennfremur hlýrri hafstraumar.

Nánar má lesa um þetta á loftslag.is.

 


mbl.is Pólísinn þynnist hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjávarstöðubreytingar og jökulísinn á Grænlandi og Suðurskautinu

loftslagÍ dag hafa birst 2 nýjar færslur á Loftslag.is sem fjalla um, annars vegar sjávarstöðubreytingar og hins vegar um jökulísinn á Grænlandi og Suðurskautinu. Fyrst er um að ræða myndband, þar sem m.a. er tekið fyrir hækkun sjávarstöðu og spárnar um það. Hvað segja spárnar um hækkun sjávarstöðu, hvað er með í þeim spám og hvað ekki? Myndbandið er frá Greenman3610, sem er YouTube notandi og hefur gert nokkur myndbönd um loftslagsbreytingar. Það má segja að hann hafi persónulegan stíl við gerð sinna myndbanda, þar sem hann getur verið nokkuð meinhæðinn. Hin færslan er frétt um þynningu jökla á Grænlandi og Suðurskautinu. Þar er sagt frá nýjum rannsóknum er varða þynningu jökla á þessum svæðum.

Tenglar:
Myndband: Sjávarstöðubreytingar
Frétt: Þynning jökla á Grænlandi og Suðurskautinu


Fréttir liðinnar viku - Loftslag.is

Ritstjórn Loftslag.is hefur tekið þá ákvörðun að útbúa vikuyfirlit yfir fréttir liðinnar viku. Þetta eru m.a. fréttir sem við rekumst á við fréttaöflun vikunnar. Þetta verða stuttar fréttir sem í flestum tilfellum tengjast loftslagsmálum á einhvern hátt, beint eða óbeint. Við munum segja stuttlega frá innihaldi frétta og höfum svo tengil á þær, svo lesendur geti kynnt sér málið betur ef áhugi er fyrir því. Þetta geta verið ýmsar fréttir sem við rekumst á, en skrifum ekki frekari fréttir um í undanfarinni viku. Einnig verður stutt yfirlit yfir nokkrar af þeim færslum sem birst hafa á Loftslag.is í vikunni.

Stuttar fréttir:

100 ára veður viðburðir eru veðurfyrirbæri sem er svo öfgakennd, að öllu jafna má aðeins búast við því að atburðurinn eigi sér stað einu sinni á hverri öld. T.d. getur þetta átt við um storma, mikla úrkomu og fleiri þess háttar atburði. Það er misjafnt eftir svæðum hvaða atburðir teljast 100 ára veður viðburðir. Í borginni Atlanta í fylkinu Georgíu í BNA, hefur verið fossandi rigning að undanförnu. Þetta er veðurviðburður sem hægt er að flokka sem 100 ára veður viðburð. En verða 100 ára veður viðburðir aðeins einu sinni á hverri öld? Í raun er verið að tala um líkur á að ákveðin atburður geti átt sér stað miðað við fyrri reynslu, en þeir geta í raun gerst með nokkura ára millibili þó slíkt sé mjög sjaldgæft. Sjá nánar frétt af vef Live Science.

Sökkvandi óshólmar er vandamál sem virðist vera að aukast á flestu þéttbýlustu svæðum heims. Hér er þó ekki hægt að kenna hlýnandi loftslagi um, en það gæti aftur aukið á vandan sem hækkandi sjávarstaða í framtíðinni getur valdið og gera svæði sem milljónir manna búa á í aukinni hættu vegna storma og flóða. Ástæðan er talin vera margs konar, meðal annars út af stíflum sem koma í veg fyrir frekari framburð fljótana og vegna aukinnar búsetu á þeim - sem eykur á þyngsli jarðlaganna. Einnig er dæling vatns úr jarðlögum undir óshólmanum líklegur orsakavaldur. Sjá nánar frétt á vef BBC.

Mikið moldviðri var í Sydney fyrr í vikunni, en Einar Sveinbjörnsson fjallaði um það allvel. Einnig er góða umfjöllun að finna á vef BBC.

Yfirlit vikunnar af Loftslag.is:

Laugardaginn 19. september opnaði síðan Loftslag.is formlega. Fyrsti gestapistillinn er eftir Halldór Björnsson og ber titilinn “Um gróðurhúsaáhrif og afleiðingar þeirra“. Síðan hafa ýmsar fréttir birst í vikunni, m.a. um myndun íshellunnar á Suðurskautinu, hitastig sjávar í síðastliðnum ágústmánuði, um niðursveiflu í virkni sólar og um nýjar rannsóknir varðandi bráðnun í Grænlandsjökli fyrir 6000-9000 árum, svo einhver dæmi séu tekin. Fyrir utan bloggfærslur þær sem birtust á opnunardaginn, þá hefur Höskuldur bloggað um eldvirkni og loftslag. Síðast en ekki síst viljum við nefna gestapistil eftir Emil Hannes Valgeirsson, nefnist pistill hans “Er hafísinn á hverfanda hveli?“.

Við viljum þakka gestapistlahöfundunum sérstaklega fyrir vandaða pistla. Við hlökkum til að afhjúpa næstu gestapistlahöfunda og gerum við ráð fyrir að birting gestapistla verði fastur liður á fimmtudögum.


Loftslag.is - upplýsingasíða um loftslagsmál

Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér nánar upplýsingar um loftslagsmál, þá er upplýsingasíðan Loftslag.is full af fróðleik um málefnið.

M.a. er hægt að lesa um kenningarnar, fyrri loftslagsbreytingar, hugsanlegar afleiðingar, ýmsar mýtur um loftslagsmál ásamt ýmsu fleiru. 

 


mbl.is Blásið til sóknar í loftslagsmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrstu dagar Loftslag.is

Fyrstu dagar heimasíðunnar Loftslag.is hafa gengið ljómandi. Frá því vefurinn fór í loftið hafa komið yfir 1.000 gestir og yfir 2.000 heimsóknir. Það verður að teljast nokkuð gott fyrir svona framtak.

Eyjan.is setti tengil á síðuna að morgni þess 19. september. Opnunin gekk að óskum og klukkan 18:00 byrjuðu fyrstu færslurnar að dúkka upp, þær síðustu birtust svo örstuttu síðar. Ýmsar fréttir, ásamt opnunarbloggfærslunum og gestapistli eftir Halldór Björnsson voru aðalefniviður síðunnar við opnunina. 

Að kvöldi þess 19. september skrifaði Einar Sveinbjörnsson færslu þar sem hann fjallaði um Loftslag.is og kunnum við honum þakkir fyrir. Að morgni þess 20. september var frétt á MBL um opnun síðunnar og í gær (21. september) mætti Sveinn í viðtal í Síðdegisútvarpinu (um klukkan 16:40) á Rás 2 um Loftslag.is og loftslagsbreytingar almennt.

Það má því segja að við höfum fengið ágætis byr í seglin þessa fyrstu daga og erum við að vonum sáttir við það.

Nú er stefnan tekin á áframhaldandi starf við síðuna, næsti gestapistill fer væntanlega í loftið á fimmtudag og einnig verður unnið að áframhaldandi efnisöflun fyrir síðuna. Við viljum líka minna á Facebook síðuna, þar eru nú komnir um 240 meðlimir.

 

loftslag


Loftslag.is opin

Núna opnar heimasíðan loftslag.is formlega, en þar kennir ýmissa grasa.

Þar munu t.d. birtast í dag fréttir um sjávarhita í ágúst, myndun íshellunnar á suðurskautinu og nýjar rannsóknir sem segja að niðursveifla í sólinni hægi á hlýnun jarðar af mannavöldum. Einnig má finna nokkur myndbönd, m.a. kynningu á kvikmynd sem verður frumsýnd á þriðjudaginn næsta.

Minnst verður á áhrif hlýnunar jarðar á tékkneska bjórinn og margt fleira sem of mikið er að telja upp hér. Þá verða samkvæmt venju opnunarpistlar ritstjórnar og svo rúsínan í pylsuendanum fyrsti gestapistillinn, en þar mun Halldór Björnsson skrifa gestapistil um sögu vísindanna og afleiðingar loftslagsbreytinga.

Auk þess eru föstu síðurnar margar hverjar tilbúnar - en þær sem á vantar koma á næstu vikum.
Endilega kíkið við og takið þátt frá byrjun


Hafís Norðurskautsins - staðan við sumarlágmark

Þann 12 september er talið að hafíslágmarkinu hafi verið náð, en ólíklegt er að bráðnun nái sér aftur á strik í haust. Lágmarkið í hafísútbreiðslu í ár var það þriðja lægsta frá upphafi mælinga (um 5,1 milljónir ferkílómetra), en þó um 23% hærra en árið 2007 sem var óvenjulegt ár. Þrátt fyrir það þá er hafíslágmarkið í ár 24% minna en meðaltalið 1979-2000:

20090917_Figure2

Línuritið sýnir stöðuna á hafísútbreiðslu fyrir 15. september 2009. Bláa línan sýnir útbreiðslu frá júní-september 2009, dökkbláa línan 2008 og græna brotalínan 2007. Til samanburðar er sýnd fjórða lægsta útbreiðslan sem varð árið 2005 (ljósgræna línan) og meðaltalið 1979-2000 sem grá lína. Gráa svæðið utan um meðaltalið sýnir staðalfrávik meðaltalsins (Mynd National Snow and Ice Data Center).

Vísindamenn líta á það sem svo að ísinn sé ekki að sækja í sig veðrið. Hann er enn töluvert fyrir neðan meðaltal og einnig fyrir neðan þá línu sem sýnir langtímaþróun hafíss frá 1979. Hafísinn er enn þunnur og viðkvæmur fyrir bráðnun og því telja þeir að langtímaniðursveifla hafíss haldi áfram næstu ár.

Sjá meira á loftslag.is en þar er einnig fjallað um lágmarkið árið 2008 og sú síða verður uppfærð í október þegar endanlegar tölur eru komnar.


mbl.is Dregur úr bráðnun hafíssins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirlestur Dr. Pachauri, formanns IPCC, laugardaginn 19. september

Dr. Rajendra K. Pachauri formaður Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) mun halda fyrirlestur í Hátíðasal Aðalbyggingar Háskóla Íslands laugardaginn 19. september klukkan 11:30. Fyrirlesturinn ber heitið "Can Science determine the Politics of Climate Change". Í upphafi fundarins flytur forseti Íslands stutt ávarp en Kristín Ingólfsdóttir rektor stýrir samkomunni.

Dr. Pachauri tók við Nóbelsverðlaunum fyrir hönd IPCC árið 2007,  þegar Al Gore fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna voru einnig veitt Nóbelsverðlaunin. Dr. Pachauri er jafnframt forstöðumaður vísinda- og tæknistofnunarinnar TERI í Delhi á Indlandi en hún fæst öðru fremur við rannsóknir á orkunýtingu og endurnýjanlegum orkugjöfum. Samningur hefur verið gerður milli Háskóla Íslands og TERI.

Fyrirlesturinn fer fram á ensku og er öllum opinn.

Í leiðinni er rétt að minnast á það að á loftslag.is munum við halda utan um spennandi viðburði sem tengjast loftslagsbreytingum. Viðburðaskráin mun sjást á stikunni sem er hægra megin neðarlega, endilega kíkja, því það er margt spennandi í gangi á næstu vikum.


Loftslag.is - Hvað er það?

loftslagSíðan Loftslag.is fer formlega í loftið laugardaginn 19. september klukkan 18. En hvað er þetta Loftslag.is eiginlega og hverju viljum við ná fram með þessari síðu?

Það má kannski segja að aðal markmiðið sé að koma ýmsum upplýsingum á framfæri, ýmsum upplýsingum eins og t.d. óvissa varðandi loftslagbreytingarnar og hvaða ár eru þau heitustu í heiminum frá því mælingar hófust ásamt t.d. ýtarlegri upplýsingum um t.d. um loftslagbreytingar fyrri tíma.

Þá mun ritstjórnin leitast við það að fá gestapistla, þar sem gestir skrifa um mál sem tengjast loftslagsvísindunum og eru þeim hugleikinn. Ritstjórn hefur nú þegar fengið vilyrði tveggja gestahöfunda sem við hlökkum til að kynna til sögunnar á Loftslag.is. Blogg ritstjórnar verður fastur liður, ásamt reglulegum fréttum úr heimi loftslagsvísindanna. Heitur reitur þar sem ýmis málefni, tenglar og myndbönd fá sitt pláss, verður einnig einn af föstu liðunum á Loftslag.is.

Vefurinn verður lifandi, þ.e. hægt verður að gera athugasemdir við m.a. blogg og fréttir, sem gerir það að verkum að lesendur geta tekið þátt í umræðunni strax frá upphafi.

Við viljum einnig minna á Facebook síðu Loftslag.is fyrir Facebook notendur.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband