Færsluflokkur: Um Loftslagsbloggið

Ritskoðun

Merkilegt nokk, þá höfum við nú upplifað mjög snögga lokun á báða ritstjóra loftslag.is hjá Hilmari Þór Hafsteinssyni. Færsla hans fjallaði um Eðlileg hamskipti - þar sem hann hélt því fram að 500 vísindamenn hafi gefið út gögn sem andmæla viðurkenndum vísindum um loftslagsfræðin. Við í ritstjórninni lögðum fram okkar gögn og heimildir og báðum um heimildir varðandi þessa 500 vísindamenn og greinar þeirra. Ekki bólaði nú á þeim heimildum, en það endaði með því að Hilmar Þór lokaði á okkur báða... Jæja, svona er þetta nú stundum þegar fólk kemst í rökþrot. Síðasta athugasemd Sveins (sem var blokkuð) er hér undir fyrir þá sem vilja lesa hana, annars vísum við bara í færsluna þar sem fram kemur geysilegt rökleysi þeirra sem afneita vísindum og mótsagnirnar eru ótrúlegar.

Athugasemdin sem var blokkuð:

---

Jæja, Hilmar, það er fróðlegt að sjá þig detta í algert rökþrot, enda hefurðu ekki getað stutt mál þitt með minnstu röksemdum eða heimildum sem standast skoðun. Þá er lang best fyrir þig (eins og marga á undan þér) að ráðast að okkur persónulega og búa til einhverjar skoðanir eða hugmyndir sem þú telur okkur hafa... Ég man nú ekki eftir að hafa boðað skatta eða heimsendi, en þú getur kannski fundið þá heimild...eða nei, þú skalt bara halda áfram að fullyrða út í loftið, þú virðist kunna það best...

En rannsóknir og mælingar gerðar með vísindalegum aðferðum hafa ekkert með einhver trúarbrögð eða fagnaðarerindi að gera. En staflausar staðhæfingar þínar, Hilmar, gætu flokkast í undir flokk hindurvitna eða fagnaðarboðskaps...enda stenst þessi málatilbúnaður þinn enga skoðun. Ég skrifaði líka ágæta grein - Mýtan um trúarbrögð í loftslagsvísindum. Þar er m.a. komið inn á muninn á trúarbrögðum og vísindalegum aðferðum (sem virðast vera þér hulin ráðgáta). Þar stendur m.a. eftirfarandi:

Trúarbrögð:trú á tiltekinn guð (tiltekna guði eða goðmögn), guðsdýrkun samkvæmt ákveðnu hugmyndakerfi (tekið úr veforðabók, íslensk orðabók, snara.is); önnur skilgreining er trú á yfirnáttúrulegar verur, guði eða dýrlinga ásamt siðfræði, venjum og jafnvel stofnunum tengdum trúnni.” (tekið af Wikipedia, íslenska útgáfan, sjá hér).

Vísindi: athuganir, rannsóknir gerðar á kerfisbundinn, óhlutdrægan, raunsæjan hátt til að afla þekkingar” (tekið úr veforðabók, íslensk orðabók, snara.is)

Vísindaleg aðferð: “aðferðafræði ber að leggja mikla áherslu á að athuganir séu hlutlægar og að aðrir vísindamenn geti sannreynt niðurstöðurnar, og að rannsóknir skuli miðast við að sannreyna afleiðingar sem hægt er að leiða út af kenningum.” (sjá wikipedia)

Kenning: “er sett fram af þeim sem framkvæmdi tilraunina og fer hún eftir niðurstöðunum úr henni. Hverjar sem niðurstöðurnar verða, þá er hægt að setja fram kenningu um það sem prófað var. Þegar kenning er mynduð þarf að fylgja lýsing á öllu ferlinu ásamt þeim rannsóknargögnum sem leiddu til niðurstöðunnar svo að aðrir geti staðfest eða afsannað kenningu. Í heimi vísindanna er ekkert sem telst algerlega sannað og byggist allt á því sem að menn vita best á hverjum tíma.” (sjá wikipedia)

Þú hefðir gott af því að skoða þetta, Hilmar, enda virðistu aðhyllast innihaldslausar fullyrðingar sem mest virðast eiga skylt með blinda trú, frekar en eitthvað sem hefur með vísindi að gera. Samt hefurðu gert þig breiðan á þeim forsendum að nóg sé til af vísindaefni (eftir hina 500 meintu vísindamenn), en getur þó ekki bent á eina heimild sem líkist aðferðafræði vísinda og styður mál þitt.


Saga loftslagsvísindanna

Upphafið

Saga hugmynda og kenninga um loftslagsbreytingar er nokkuð löng. Þegar vísindamenn uppgötvuðu ísaldir fortíðar varð mönnum ljóst að miklar loftslagsbreytingar hefðu átt sér stað í fyrndinni. Menn tengdu það breytingum í hita sólar, eldgos, fellingahreyfingar fjalla sem breyttu vindáttum og sjávarstraumum. Einnig komu fram hugmyndir um að breytingar hefðu átt sér stað í andrúmsloftinu.

Árið 1896 rannsakaði sænskur vísindamaður að nafni Svante Arrhenius þá hugmynd að með brennslu jarðefnaeldsneytis, sem yki CO2 í andrúmsloftinu, myndi meðalhitastig jarðar aukast. Þetta þótti ekki líklegt á þeim tíma, þar sem eðlis- og efnafræðin á bakvið kenninguna var ekki nægilega þekkt.

Svante Arrhenius

Svante Arrhenius

Á fjórða áratug síðustu aldar, tóku menn eftir því að Bandaríkin og svæði umhverfis Norður-Atlantshafið hafði hlýnað töluvert síðastliðna hálfa öld. Vísindamenn töldu að þetta væri bara tímabundið skeið náttúrulegra breytinga af óvissum ástæðum. Reyndar hélt maður að nafni G.S Callandar á lofti kenningu um einhvers konar gróðurhúsaáhrif. En hver sem ástæðan fyrir hlýnuninni var, þá fögnuðu menn henni.

Á sjötta áratugnum fóru nokkrir vísindamenn að kanna gróðurhúsakenningu Callandars með betri tækni og útreikningum. Þessar rannsóknir sýndu fram á að CO2 gæti vissulega safnast upp í lofthjúpnum og myndi valda hlýnun. Mælingar sýndu fram á það árið 1961 að magn CO2 væri í raun að vaxa í lofthjúpnum.

Framfarir

Á næstu áratugum fleygði vísindunum fram, þegar fram komu einföld stærðfræðilíkön sem höfðu getu til að reikna út loftslagsbreytingar. Rannsóknir á fornloftslagi út frá frjókornum og steingervingum skelja tóku einnig kipp og smám saman áttuðu menn sig á því að meiriháttar loftslagsbreytingar væru mögulegar og höfðu  gerst. Árið 1967 sýndu útreikningar að meðalhiti jarðar gæti hækkað um nokkrar gráðu innan 100 ára af völdum útblásturs CO2. Ekki þótti ástæða til að hafa áhyggjur af þessu en sýnt hafði verið fram á að það þyrfti að rannsaka þetta betur.

---------------------------

Þetta er sýnishorn af fróðleik um loftslagsvísindin, af heimasíðunni Loftslag.is. Á næstunni munum við birta meira efni af heimasíðunni hér á blogginu.

[Restina af færslunni er hægt að lesa með því að smella á þennan tengil]

Annar pistill sem einnig kemur inn á sögu loftslagsvísindanna er fróðlegur gestapistill Halldórs Björnssonar sérfræðings af veðurstofunni. Pistill hans nefnist Um gróðurhúsaáhrif og afleiðingar þeirra


Eru loftslagsmálin einföld eða flókin?

loftslagEmil Hannes Valgeirsson hefur skrifað sinn annan gestapistil á Loftslag.is. Að þessu sinni veltir hann upp spurningunni, "Eru loftslagsmálin einföld eða flókin?". Pistillinn byrjar með þessum orðum:

"Eins og flest annað í þessum heimi geta loftslagsmálin í senn verið einföld og flókin. Þau geta líka verið auðskilin eða torskilin en mjög oft eru þau líka misskilin. Fyrir mér eru hugmyndir um hlýnandi loftslag af mannavöldum í sinni einföldustu mynd eitthvað svipaðar því sem sést hér á myndinni."

[Pistil Emils má lesa hér]

Einnig má benda á ýmsa aðra gestapistla sem birst hafa á síðunni, m.a. um fugla, jöklabreytingar, Norðurheimsskautið og fleira fróðlegt, sjá gestapistla síðunnar

 

 Hlýnun af mannavöldum


Fyrstu dagar Loftslag.is

Fyrstu dagar heimasíðunnar Loftslag.is hafa gengið ljómandi. Frá því vefurinn fór í loftið hafa komið yfir 1.000 gestir og yfir 2.000 heimsóknir. Það verður að teljast nokkuð gott fyrir svona framtak.

Eyjan.is setti tengil á síðuna að morgni þess 19. september. Opnunin gekk að óskum og klukkan 18:00 byrjuðu fyrstu færslurnar að dúkka upp, þær síðustu birtust svo örstuttu síðar. Ýmsar fréttir, ásamt opnunarbloggfærslunum og gestapistli eftir Halldór Björnsson voru aðalefniviður síðunnar við opnunina. 

Að kvöldi þess 19. september skrifaði Einar Sveinbjörnsson færslu þar sem hann fjallaði um Loftslag.is og kunnum við honum þakkir fyrir. Að morgni þess 20. september var frétt á MBL um opnun síðunnar og í gær (21. september) mætti Sveinn í viðtal í Síðdegisútvarpinu (um klukkan 16:40) á Rás 2 um Loftslag.is og loftslagsbreytingar almennt.

Það má því segja að við höfum fengið ágætis byr í seglin þessa fyrstu daga og erum við að vonum sáttir við það.

Nú er stefnan tekin á áframhaldandi starf við síðuna, næsti gestapistill fer væntanlega í loftið á fimmtudag og einnig verður unnið að áframhaldandi efnisöflun fyrir síðuna. Við viljum líka minna á Facebook síðuna, þar eru nú komnir um 240 meðlimir.

 

loftslag


Loftslag.is - Hvað er það?

loftslagSíðan Loftslag.is fer formlega í loftið laugardaginn 19. september klukkan 18. En hvað er þetta Loftslag.is eiginlega og hverju viljum við ná fram með þessari síðu?

Það má kannski segja að aðal markmiðið sé að koma ýmsum upplýsingum á framfæri, ýmsum upplýsingum eins og t.d. óvissa varðandi loftslagbreytingarnar og hvaða ár eru þau heitustu í heiminum frá því mælingar hófust ásamt t.d. ýtarlegri upplýsingum um t.d. um loftslagbreytingar fyrri tíma.

Þá mun ritstjórnin leitast við það að fá gestapistla, þar sem gestir skrifa um mál sem tengjast loftslagsvísindunum og eru þeim hugleikinn. Ritstjórn hefur nú þegar fengið vilyrði tveggja gestahöfunda sem við hlökkum til að kynna til sögunnar á Loftslag.is. Blogg ritstjórnar verður fastur liður, ásamt reglulegum fréttum úr heimi loftslagsvísindanna. Heitur reitur þar sem ýmis málefni, tenglar og myndbönd fá sitt pláss, verður einnig einn af föstu liðunum á Loftslag.is.

Vefurinn verður lifandi, þ.e. hægt verður að gera athugasemdir við m.a. blogg og fréttir, sem gerir það að verkum að lesendur geta tekið þátt í umræðunni strax frá upphafi.

Við viljum einnig minna á Facebook síðu Loftslag.is fyrir Facebook notendur.


Ný heimasíða - Loftslag.is

loftslagÞeir sem skoða þessa bloggsíðu hafa mögulega tekið eftir breytingum á fjölda færsla og innihaldi. Ástæðan er sú að höfundur síðunnar hefur verið upptekinn við að setja upp heimasíðu um loftslagsbreytingar, ásamt Sveini Atla. Stefnt er á opnun síðunnar þann 19. september næstkomandi og verður slóðin http://www.loftslag.is, en nú er hægt að skoða hvernig hún mun líta út. Eitthvað af efni er komið inn, en það er enn verið að vinna í henni svo hún er ekki fullkláruð. 

Þessi bloggsíða hér mun smám saman breytast enn meir og verða andlit heimasíðunnar  í moggabloggheimum – þar sem birtar verða fréttir og annað sem okkur mun þykja þess virði að tilkynna hér.  Þessi bloggsíða mun því alls ekki deyja drottni sínum, en sinna aðeins öðru hlutverki en hingað til.

Fram að opnun loftslags.is er möguleiki að einstaka síða sem birt verður þar, rati einnig hér inn – þá er um að gera að koma með athugasemdir og benda á hluti sem betur mega fara.


Mótrök

Hér á síðunni til vinstri má nú sjá fasta síðu þar sem sjá má yfirlit yfir þau mótrök gegn hlýnun jarðar af mannavöldum sem ég hef reynt að hrekja. Smellið á tengilinn til vinstri eða bara HÉR

Hví að blogga um loftslagsmál?

Ég tók það upp hjá sjálfum mér að blogga um loftslagsmál fyrir nokkrum vikum síðan, því mér fannst sem sumir bloggarar og lesendur þeirra væru í mörgum tilfellum að fara með rangt mál, en margir hverjir hafa ansi skrítnar upplýsingar í höndunum um það hvað er að gerast á þessari jörð - sumir halda að ekki sé að hlýna, aðrir segja að ekki sé að hlýna af mannavöldum og sumir halda því jafnvel fram að það sé bara gott ef það er að hlýna. Áður hafði ég skautað í gegnum hitt og þetta og komist að þeirri niðurstöðu að líklega væri jörðin að hlýna og að allt benti til þess að það væri af mannavöldum, en ég var alls ekki viss en hafði gaman af því að rökræða þessi mál og finna upplýsingar með og á móti. Skemmtilegt áhugamál jafnvel.

Fyrst eftir að ég byrjaði að blogga um þetta, þá tók ég það því upp á mitt einsdæmi að skoða þær upplýsingar sem eru til á netinu, en netið er endalaus uppspretta upplýsinga um hin ýmsustu álitamál.  Ég hef eytt ótal kvöldstundum síðustu vikur við að skoða hitt og þetta um þessi mál, en á netinu má finna hafsjó af upplýsingum um hlýnun jarðar af mannavöldum og einnig fullt af síðum um menn sem fullyrða að kenningin sé röng.

Ég las bókina Gróðurhúsaáhrif og Loftslagsbreytingar eftir Halldór Björnsson, auk þess sem ég hef blaðað í gegnum skýrslu sem gefin var út í fyrra um áhrif hnattrænna loftslagsbreytinga á Íslandi (pdf 10 mb). Þessi rit eru á vel skiljanlegu máli og enginn heimsendastíll í þeim, en rauði þráðurinn er þó sá að hlýnun jarðar af mannavöldum er raunveruleg og áhrifa þeirra gætir nú þegar og að allt bendir til þess að þetta eigi eftir að versna.

Þetta var í ákveðinni mótsögn við margt af því sem maður hefur verið að lesa á erlendum netsíðum, en þar eru ákveðnar síður sem endurspegla þær skoðanir sem margir netverjar íslenskir halda fram um hlýnun jarðar, að búið sé að afsanna kenningar um hlýnun jarðar af mannavöldum, talað um samsæri vísindamanna og annað í svipuðum stíl.

Svo rak á fjörur mínar Ritið: 1/2007 og Ritið 2/2008 (takk Guðni). Það síðarnefnda verð að segja að ætti að vera skyldulesning fyrir áhugafólk um loftslagsbreytingar - þá á ég að sjálfsögðu við greinarnar sem fjalla um hlýnun jarðar (en fjölbreyttar greinar um önnur mál eru í þessu tímariti).

Ég ætla að fjalla lítillega um Ritið 2/2008, en mæli einnig með grein Guðna í Ritinu 1/2007 sem fjallar um gróðurhúsaáhrifin og íslenska umræðuhefð.

1012690    1015085

Þar er grein eftir Þorstein Vilhjálmsson sem heitir Viðhorf og vistkreppa, sem er eiginlega sögulegt yfirlit um hugmyndir að vistkreppu, auðlindaþurrð og hlýnun jarðar. Einn punktur vakti helst athygli mína en það er að spár um framtíðina (t.d. hlýnun jarðar), eru ekki í raun forsagnir um það sem koma skal, heldur aðvaranir um það sem getur gerst ef ekki verður brugðist við, því falla þessar spár um sjálft sig ef brugðist er við vandanum (eins og gert var með ósonlagið). Þetta eru því ekki í raun heimsendaspámenn, heldur eru þetta aðvaranaorð frá mönnum sem hafa vit í sínu fagi. Lokaorðin voru líka viðeigandi:

Að lokum er rétt að tilfæra hér frægt spakmæli frá Kenía sem lýsir kjarna málsins. Í rauninni ættu allar ritsmíðar um umhverfismál að enda á því:

Við höfum ekki fengið jörðina til eignar frá foreldrum okkur; við höfum hana að láni frá börnunum okkar.

Grein Halldórs Björnssonar og Tómasar Jóhannessonar er skyldulesning, þar er fjallað um á einföldu máli hvað er lagt til grundvallar kenningunni um gróðurhúsaáhrifin og hlýnun jarðar og afleiðingar þeirra. Einnig er farið yfir nokkur rök efasemdamanna um hlýnun jarðar af mannavöldum og þau hrakin.

Þarna var einnig grein eftir Snorra Baldursson um áhrif hlýnunar á lífríki jarðar og Íslands, svolítið yfirborðskennt enda um víðfeðmt efni að ræða og erfitt að kafa djúpt í slíkt í lítilli grein í tímariti - þetta efni á erindi í bók og mæli ég með að einhver kýli á að skrifa þá bók. Fínt yfirlit samt.

Þá er merkileg grein eftir Guðna Elísson um efahyggju og afneitun. Fjallar hann um pólitíkina í kringum þetta viðfangsefni og umfjöllun manna hér á landi um hlýnun jarðar. Mjög uppljóstrandi og lýsir hann ótta frjálshyggjumanna við þessar kenningar og hvernig þær geti grafið undan þeirra hugmyndum um frelsi (þetta er mín túlkun). Hann vitnar í Hannes Hólmstein hér:

"Hvers vegna ættum við að afsala okkar þægilegu lífi venjulegs Vesturlandamanns fyrir orð þeirra ein? Kapitalisminn hefur fært okkur stórkostleg lífsgæði. Ég ætla ekki í björgunarbátana, fyrr en ég er viss um, að skipið sé að sökkva," sagði Hannes Hólmsteinn Gissurarsson í einni af mörgum greinum sínum um umhverfismál um þá sem varað hafa við hættunni af alvarlegum loftslagsbreytingum. Skipið sem Hannes vísar til er jörðin sjálf, en Hannes fer ekki nánar út í hvert hann ætlar að fara.

Það sem vakti þó einna helst athygli mína var þýdd grein í Ritinu og er eftir George Monbiot, en sú grein fjallar um afneitunariðnaðinn. Eftir lestur þeirrar greinar áttar maður sig á þeim sterku öflum sem hvíla þungt á baki margra af þeim röddum sem eru hvað háværastar um það að hlýnun jarðar af mannavöldum sé bull. Búið er að sá efasemdafræjum víða (og hér á landi virðast þau vaxa vel).

Margir geta vottað það að ég hef verið duglegur síðustu vikur að blogga um þetta málefni og jafnvel svarað færslum annarra um þessi mál og reynt að rökstyðja mál þeirra sem halda því fram að hlýnun jarðar af mannavöldum sé veruleiki. En alltaf koma upp aftur og aftur sömu rökin, sem hafa verið hrakin og því fer þetta að verða leiðingjarnt til lengdar. Því er ég mikið að íhuga að hætta þessu bara, leyfa efasemdaröddunum að eiga sig, enda virðist pólitíska landslagið loks vera að lagast út í hinum stóra heim (Obama virðist ætla að gera góða hluti og loks er kominn forseti sem er ekki í eigu afnetunarsinnanna). Þá er sá flokkur hér á landi sem er hvað harðastur á því að hlýnun jarðar af mannavöldum sé ekki staðreynd, kominn í stjórnarandstöðu og vonandi tekur við ríkisstjórn sem tekur á þessum málum af festu.

Því er það eingöngu vandræðalegt að hér á landi skuli vera svona sterkar raddir á móti kenningunni um hlýnun jarðar, en ég held að það muni ekki hafa nein úrslitaáhrif á þróunina hnattrænt séð - þótt vissulega séu Íslendingar hálfgerðir umhverfissóðar hvað varðar útblástur CO2  - og þótt eingöngu væri fyrir stolt okkar sem upplýsta þjóð, þá ættum við að standa okkur betur.


Keypti bók

Ég keypti í dag bókina Gróðurhúsaáhrif og loftslagsbreytingar eftir Halldór Björnsson, sem kom út í fyrra. Það verður því minna um blogg næstu daga, en hendi inn einhverju þegar við á.

Bendi mönnum á frétt um sólina sem Ágúst H. Bjarnason skrifaði færslu um. Það verður fróðlegt að skoða í framhaldinu hvað gerist. Ekki apríl gabb Cool


Kviksyndið.

quicksand_0208_445x260 

Á þessum tíu dögum síðan ég byrjaði þetta blogg hef ég notað þann litla tíma sem ég hef til að þvælast inn á ótal síður með og á móti kenningum um hlýnun jarðar og þvílíkt kviksyndi sem þetta viðfangsefni er. Öfgarnir eru miklir og hvort sem maður skoðar þá sem eru á móti kenningunni (um hlýnun jarðar af mannavöldum) og þá sem eru fylgjandi henni, þá er sífellt verið að vitna í rannsóknir sem eru annað hvort illa ígrundaðar eða algjört rugl. Svo er það blásið upp fram og til baka. En inn á milli reynast gullmolar sem verðugt er að skoða. 

Þegar ég byrjaði þetta blogg þá var hugmyndin að tæpa á helstu kenningum með og á móti kenningunni um hlýnun jarðar af mannavöldum og færa fréttir í leiðinni utan úr heimi um það helsta sem væri nýtt í þessum málum. Í leiðinni að velta upp hugmyndum um það hvaða áhrif þetta hefur á okkur hér á Íslandi og fleira og fleira. Þetta hefur þróast í allar áttir og ég hef ekki hugmynd um framhaldið.

Þeir sem tekið hafa eftir á hvaða tímum sólarhrings ég er að blogga, sjá að ég stunda þetta helst eftir klukkan níu á kvöldin og um helgar, en það eru einu lausu stundirnar sem ég hef því ég er í fastri vinnu, auk þess sem ég þarf að aðstoða við að næra börnin og koma þeim til svefns. Auk þess er nauðsyn að fylgjast með pólitískri umræðu hérlendis og um efnahagsmálin, svona eins og maður hefur orku í. Svo þarf maður víst að sofa í sirka 6 tíma á sólarhring. Nú er það skattaskýrslan sem mun taka alla mína aukaorku og því verður líklega lítið skrifað hér á næstunni.

Nefni þó sitthvað sem gæti verið gaman að kynna fyrir ykkur, þegar tími gefst:

  • Sjávarstöðubreytingar og þá deilur um sjávarstöðubreytingar á Indlandshafi og ræða það í samhengi við hvað við megum búast hér, en við bráðnun jökla hér þá minnkar fargið á landið og því rís landið miðað við ímyndað fast sjávarborð, hvort það vegi upp á móti hækkun sjávarstöðu vegna hlýnunar jarðar, mun ég vonandi komast að.
  • Annað sem gaman væri að skrifa um er t.d. skriðuhætta vegna loftslagsbreytinga og þá er sérstaklega áhugavert að skoða hvort eitthvað hefur verið skrifað um hættu á berghlaupum þar sem jöklar eru að hopa (t.d. á Íslandi, Ölpunum og Himalajafjöllum).
  • Í síðustu færslu datt mér í hug að skoða áhrif loftslagsbreytinga á farflug fugla.
  • Svo datt mér í hug við eldgosið í Tonga að skoða hvort það sé nægilega öflugt til að hafa áhrif á veðurfar tímabundið til kólnunar.

En allavega þá er ekki líklegt að það verði skrifaðar langar færslur fyrr en ég er búinn með skattaskýrsluna.

Ég held þó ótrauður áfram að vaða kviksyndið að henni lokinni og held áfram að sökkva í þetta upplýsingakviksyndi sem internetið er. Því meira sem ég les því fleiri umfjöllunarefni langar mig að fjalla um og því meira fattar maður hvað maður veit lítið.  


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband