Kemur ekki á óvart

Þessi grein frá Siddall o.fl var nokkuð á skjön við það sem aðrir vísindamenn hafa spáð. Spá Siddall gerði ráð fyrir mun minni sjávarstöðubreytingum en aðrar nýlegar rannsóknir. Um þessa grein segir á Loftslag.is (sjá Sjávarstöðubreytingar):

Með því að bera saman hvernig sjávarstöðubreytingar urðu miðað við hitabreytingar við lok síðasta jökulskeiðs (fyrir um 10 þús árum), þá fundu þeir út að IPCC hefði verið nokkuð nærri lagi í sínum útreikningum. Samkvæmt þeirra niðurstöðum þá þýðir 1,1-6,4°C hækkun í hitastigi um 7-82 sm hækkun sjávarstöðu árið 2100, sem er mun minna en spár undanfarin misseri hafa bent til og líkt tölum IPCC sem hljóðar upp á 18-76 sm.

Það skal á það bent að aðferðafræðin sem ofangreind rannsókn byggir á, hefur verið dregin í efa. Auk þess er á það bent að nánast útilokað sé að sjávarstöðubreyting upp á 7 sm geti staðist, því miðað við núverandi hraða sjávarstöðubreytinga þá er ljóst að hækkunin verður allavega 34 sm um næstu aldamót.

Á það skal einnig bent að hinar hógværari spár IPCC um sjávarstöðuhækkanir, hafa sýnt sig að vera of hógværar hingað til og hafa sjávarstöðuhækkanir verið við efri mörk þess sem þeir hafa spáð.

Sjávarstöðubreytingar síðastliðin 40 ár.  Rauða línan sýnir mælingar sjávarfalla og útreikninga á sjávarstöðubreytingum frá þeim og bláa línan er fengin út frá gervihnöttum. Gráa svæðið sýnir að spár IPCC hafa vanmetið sjávarstöðubreytingarnar. 
Sjávarstöðubreytingar síðastliðin 40 ár. Rauða línan sýnir mælingar sjávarfalla og útreikninga á sjávarstöðubreytingum frá þeim og bláa línan er fengin út frá gervihnöttum. Gráa svæðið sýnir að spár IPCC hafa vanmetið sjávarstöðubreytingarnar.

Margar spár um sjávarstöðubreytingar gera ráð fyrir að sjávarstaða geti orðið 1-2 m hærri en hún er í dag um næstu aldamót. Það er þó talið að tæplega hálfs metra hækkun sjávarstöðu sé nóg til að hafa víðtæk áhrif:

Einungis 40 sm hækkun í sjávarstöðu við Bengalflóa, mun færa 11 prósent af strandsvæðum viðkomandi landa í kaf og hrekja 7-10 milljón manns á flótta undan loftslagsbreytingum.

Ítarefni:


mbl.is Óvissa um hækkun sjávarborðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er uppalinn í vesturbænum í Reykjavík og er kominn vel yfir sjötugt.

Það hefur ekki orðið nein "sjávarstöðubreyting" um einn millimetra á þessum tíma.

Í Guðana bænum hættið þessu kjaftæði.

Al Gore ætlaði að halda fyrirlestur um hlýnun jarðar í Kaupmannahöfni í febrúar, en nú veit engin hvar það fífl er niðurkomið, enda þorir hann ekki að opna kjaftinn í dag

V. Jóhannsson (IP-tala skráð) 23.2.2010 kl. 20:16

2 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

V. Jóhannsson: Segðu mér, hefurðu mælt sjávarstöðubreytingar á þessum tíma?

 Þér til upplýsingar þá hafa sjávarstöðubreytingar í Reykjavík verið um 5,5 mm á ári (hluti af því er þó vegna landsigs - eða um 2,1 mm). Þannig að undanfarinn áratug þá er sjávarstaða við Reykjavík um hækkað um sirka 5 sm.

Þessar breytingar voru hægari í byrjun síðustu aldar, en sjávarstaða ætti þó að hafa hækkað um hátt í 25 sm frá því að þú fæddist - lauslega reiknað.

Höskuldur Búi Jónsson, 23.2.2010 kl. 21:11

3 identicon

Að sjálfsögðu er þetta allt reiknað með gerfihnöttum, en ég hef litla trú á sannleiksgildinu samt. Það hefur margsannast á mínu lífsskeiði endalausar breytingar og nýjar mælingar sem kollvarpa eldri mælingum og STAÐREYNDUM!!!

Sjáðu hollustukjaftæðið með mat t.d.  Ein kona í Svíþjóð varði doktorsritgerð og sannaði að hænum líður betur ef það er hani í hópnum.

Þeir eru ný búnir að uppgötva það , að börn sem hreyfa sig mikið á daginn sofa betur á nóttinni.  Það væri gaman að vita hvað þessir fávitar hafa í laun af skattpeningum þegnana. Nei, ég tek allar rannsóknir með varúð.

Og þetta með Bengalflóa, þá man ég ekki eftir öðru en flóðum og harmleik nánast hvert einasta ár og sem hefur fylgt þessu svæði væntanlega í árþúsundir.

V. Jóhannsson (IP-tala skráð) 23.2.2010 kl. 23:37

4 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Stundum þarf að rannsaka hið "augljósa" til að athuga hvort það er "augljóslega" rétt.

Annars ber að taka undir að taka þarf hlutunum með fyrirvara. En þegar mælarnir sýna hækkandi sjávarstöðu og hækkandi hitastig, sem er hugsanlega af völdum aukningar gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum, þá verður einnig að skoða það nánar. Það ber ekki vott um visku að stinga höfðinu í sandinn og telja að heimurinn sé fasti sem við getum ekki haft áhrif á.

Sveinn Atli Gunnarsson, 23.2.2010 kl. 23:51

5 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Gervihnettir, sjávarfallamælingar (á stöðum þar sem ekki er landris og landsig) og setkjarnar. Allt ber þetta að sama punkti - ris sjávarstöðunnar hefur verið vel mælanleg undanfarna öld og er að auka hraðann.

Höskuldur Búi Jónsson, 24.2.2010 kl. 00:04

6 identicon

Það er alltaf eitthvað eitt sem er í tísku á hverjum tíma. Nú er það hlýnun jarðar.

Versta við það að þeir sem græða á þessari umræðu eru einmitt þeir sem eiga fyrirtæki sem tengjast þessari umræðu. Al Gore er einn þeirra sem græðir á tá og fingri af fyrirlestrum og fyrirtækjarekstri sem er á þessum markaði.

Það er samt eitt sem ég skil ekki í þessari umræðu. Ef jöklarnir hverfa þá fer vatnið eitthvert. Ef það hlýnar í veðri gufar þá ekki meira vatn upp? Ættum við þá ekki að fara að sjá meiri úrkomu á svæðum þar sem hefur ekki ringt í áratugi ef ekki hundruðir ára sem einhverju nemi?

Mín skoðun á þessu er að þetta fyrirbæri er of flókið að það sé hægt að skella því á manninn og hans gjörðir. Menn reyna að útskýra það sem er í gangi, eða þeir halda því fram að sé í gangi, en breyturnar eru bara svo margar og þekking okkar á veðrabrigðum of lítil að við getum með sanni sagt hvað veldur.

zaxi69 (IP-tala skráð) 24.2.2010 kl. 10:18

7 identicon

Ég er ekki góður að reikna, enda áhuginn lítill, en nú þegar yfirborð sjávar er talið um 70% af yfirborði jarðar og ummál jarðar er um 42000 km. . Hvað þarf mikill ís að bráðna (sem liggur á fastalandi en t.d. ekki á norðurpólnum því þar er haf) til þess að yfirborð sjávar hækki um t.d. 80 sm.? Það verður að taka inn í dæmið að hafið breiðir sig yfir ógríni af þurlendi við þessa hækkun og þekur þá gott betur en 70% og þá þarf enn meiri bráðnun til að ná 80 sm. Gaman væri að fá að vita hvort  ísinn á norðurpólnum dugi til ( þessi á þurlendinu)!

Síðan vil ég benda á að hækkun og lækkun sjáfarborðs hefur alltaf verið til staðar og kemur okkur mönnum ekkert við og þar kemur landrek inn í að sjálfsögðu. Þegar ég var í Svíþjóð, þá bjó ég á svæði sem var á sjávarbotni fyrir 4000 árum og þar hefur fundist mannabyggð frá þeim tíma og kjarnar úr ávöxtum sýna að þar óxu pálmar og annar suðrænn gróður á þeim tíma. Við megum ekki láta mikilmennsku villa okkur sýn, þegar náttúran er annarsvegar. Ef við höfum áhrif á loftslag jarðar, þá er það brotabrotabrot af því sem er að gerast, því þetta er einfaldlega náttúrufenomen og hefur oft hent áður.

V. Jóhannsson (IP-tala skráð) 24.2.2010 kl. 10:32

8 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Zaxi69: Þetta er nú ekki spurning um tískufyrirbrigði. En ein af afleiðingum hækkandi hitastigs er að jöklarnir hopa og vatnið skilar sér til sjávar, af því leiðir þá hækkandi sjávarborð (hugsanlega einnig breyting á úrkomu á einhverjum svæðum). Nú um stundir hækkar sjávarborð um 3 mm á ári hverju (30 cm á 100 árum), sjá nýja færslu um efnið á Loftslag.is, "Eru einhverjar sjávarstöðubreytingar í gangi?".

Þar fyrir utan finnst mér það frekar þunn rök fyrir aðgerðarleysi að halda því fram að við vitum ekki nóg um málið eða það sé of flókið. Það fara fram miklar rannsóknir um þessi mál og þær benda til þess að aukning gróðurhúsalofttegunda (af mannavöldum) hafi bein áhrif á hitastig. Út frá núverandi þekkingu á þessum málum, þá ættum við að reyna að minnka losun gróðurhúsalofttegunda á einhvern hátt.

Sveinn Atli Gunnarsson, 24.2.2010 kl. 10:33

9 identicon

Zaxi69: Úrkoman eykst og er ekki bara rigning - það snjóar á pólunum og jöklarnir stækka - eða hvað? .

Svatli: Vísindamenn skiptast í tvo hópa um gróðurhúsaáhrifin. Þeir sem fá vel borgað t.d. frá Al Gore og þessháttar hirðfíflum og aðrir sem hafa ábyrgðartilfynningu og taka starfið alvarlega en slefa ekki af fégræðgi.

V. Jóhannsson (IP-tala skráð) 24.2.2010 kl. 10:45

10 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

V. Jóhannsson, hvaðan færð þú þínar heimildir? Ef þetta væri svo einfalt að það snjóaði bara meira þar sem hentar og allt í góðu, þá væri einfalt að lifa hér í heiminum...

Vísindamenn eru langflestir sammála um að gróðurhúsalofttegundir hafi áhrif á hitastig jarðar og að núverandi hlýnun sé best skýrð með þeirri aukningu. Al Gore er ekki vísindamaður. Flestir vísindamenn eru nú bara ósköp venjulegt fólk sem stundar rannsóknir og þiggur ósköp venjulega laun fyrir.

Annars væri nú fróðlegt að vita hvað það er efnislega sem þú V. Jóhannsson telur vera rangt varðandi loftslagsvísindinn í stað þess að fá bara upphrópanir um og uppnefni á stórum hóp vísindamanna.

Sveinn Atli Gunnarsson, 24.2.2010 kl. 11:09

11 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

V. Jóhanns: Það hefur verið útreiknað að EF Grænlandsjökull myndi allur bráðna - þá yrði hækkun sjávarborðs af eingöngu hans völdum um 7 metrar (það gerist þó varla á þessari né næstu öld - enginn vísindamaður spáir því). Um 70 %sjávarstöðuhækkunarinnar á síðustu öld, skilst mér að sé vegna varmaþennslu - en sífellt stærri hluti sjávarstöðubreytinganna er að verða og verður vegna bráðnunar jökla.

Zaxi: Úrkomubreytingar er eitt af því sem erfiðast er að spá fyrir um, en nú þegar hafa orðið mælanlegar úrkomubreytingar. Búist er við eftirfarandi:

Samfara aukningu á hringrás vatns í lofthjúpnum er líklegt að úrkoma aukist milli 20° S og 20° N og mjög líklegt er að úrkoma aukist norðan og sunnan 50° breiddargráðu (á svæðum þar sem ríkir kaldtemprað eða heimskautaloftslag). Líklegt er að úrkoma minnki víða á miðlægum breiddargráðum og á jaðri hitabeltisins, þ.e. milli 20° og 40° N og S (á svæðum þar sem ríkir s.n. heittemprað loftslag). Vísbendingar eru um að tíðni steypiregns geti aukist, jafnvel á svæðum þar sem dregur úr úrkomu (Úr skýrslunni Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi – gefin út af Umhverfisráðuneytinu árið 2008)

Höskuldur Búi Jónsson, 24.2.2010 kl. 11:21

12 identicon

Sænskir havfræðingar hafa stundað mælingar á Maldives eyjaklassanum í Indlandshavi í mörg ár. Á síðasta ári kom í ljós að hafsyfirborðið þar hefur lækkað um 20 sm. frá því í fyrra og höfðu þeir að sjálfsögðu engar skýringar á þessu fyrirbryggði.

Ég læt ekki mata mig og tek allar upplýsingar með varúð. Kveðja.

V. Jóhannsson (IP-tala skráð) 24.2.2010 kl. 11:39

13 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Hvaða sænsku haffræðingar eru það V. Jóhannesson? Alltaf gott að geta heimilda, sérstaklega þegar um svona fullyrðingu er að ræða (20 cm. á einu ári). Ágætt ef þú nefndir nöfn eða tengdir á greinina.

Sveinn Atli Gunnarsson, 24.2.2010 kl. 12:10

14 identicon

Höski Búi - 7 m. er mikið - tvær íbúðahæðir - Ekki yrði ég hissa að yfirborð sjávar myndi þekja 80 % af yfirborði jarðar. Grænland er ekki ein stór eyja , heldur margar með haf á milli undir ísnum. Trúir þú virkilega þeim útreikningi að Grænlandjökull muni hækka yfirborð sjáfar, sem þekur 80% af yfirborði jarðar um 7 m. Ég er ekki góður í reikningi, en hvað eru þetta margir rúmmetrar? Það þarf að sneiða jökulinn í rúmlega 7 m. þykkar sneiðar og leggja á hafsyfirborðið! Þarf ekki að taka eitthvað af suðurpólnum með, sem alltaf gleymist í umræðunni? Bara spyr?

V. Jóhannsson (IP-tala skráð) 24.2.2010 kl. 12:25

15 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

V. Jóhannsson; Höski svarar þessu nú nánar, en þangað til má kannski bjóða upp á smá fróðleik um Grænlandsjökul, þarna segir m.a.

If the entire 2.85 million km³ of ice were to melt, it would lead to a global sea level rise of 7.2 m (23.6 ft).

En ég bíð enn spenntur eftir heimildum þínum um staðbundnari lækkun sjávar um 20 cm. og hugsanlega þýðingu þess á vísindastörf loftslagsvísindamanna.

Sveinn Atli Gunnarsson, 24.2.2010 kl. 12:44

16 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

V. Jó: Kíktu endilega á nýjustu færsluna á loftslag.is (sjá Eru einhverjar sjávarstöðubreytingar í gangi?)  - þar er vísað í heimildir um mælingar á sjávarstöðubreytinga (sjá tenglana í texta , það efni er reyndar allt á ensku).

Líklega er síðan aðgengilegasta efnið á íslensku t.d. bók Halldórs Björnssonar -Gróðurhúsaáhrif og loftslagsbreytingar - hún fæst núna á 1990 kr í bókamarkaðinum í Perlunni. Einnig eru ítarlegar upplýsingar í skýrslunni Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi.

Annars verð ég að hvetja þig til að leyfa okkur að heyra hvar þú fréttir þetta með Maldives eyjur - sérstaklega þætti mér áhugavert að vita hvort leiðrétt hefði verið fyrir loftþrýstingi og hvort einhverjar hafstrauma- eða loftstraumabreytingar hafa orðið á því svæði - Þær breytingar geta nefnilega haft mjög staðbundin áhrif. Ég vona að þú hafir ekki látið mata þig með einhverjum óáreiðanlegum upplýsingum - þú hlýtur að hafa tekið þær upplýsingar með varúð - er það ekki?

Höskuldur Búi Jónsson, 24.2.2010 kl. 13:57

17 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Höski Búi - 7 m. er mikið - tvær íbúðahæðir - Ekki yrði ég hissa að yfirborð sjávar myndi þekja 80 % af yfirborði jarðar. Grænland er ekki ein stór eyja , heldur margar með haf á milli undir ísnum.

Yfirborð sjávar hylur um 71% af yfirborði hnattarins.

Vissulega ýtir jökullinn Grænlandi niður fyrir sjávarborð - en ísinn er samt landfastur og því mun allur sá ís sem bráðnar og er nú hærra en sjávarborð og ekki fljótandi - valda hækkun sjávarstöðu. Ris sjávarstöðu af völdum Grænlandsjökuls er þó hingað til aðeins brot af þeirri sjávarstöðuhækkun sem að orðið hefur - einnig vil ég ítreka það sem ég sagði fyrr - það er ekki talið líklegt að allur ís Grænlandsjökuls bráðni á næstunni - það mun taka aldir.

Trúir þú virkilega þeim útreikningi að Grænlandjökull muni hækka yfirborð sjáfar, sem þekur 80% af yfirborði jarðar um 7 m. Ég er ekki góður í reikningi, en hvað eru þetta margir rúmmetrar? Það þarf að sneiða jökulinn í rúmlega 7 m. þykkar sneiðar og leggja á hafsyfirborðið!

Ég er ekki heldur góður í reikningi en leyf mér að prófa - athugaðu mjög einfaldað dæmi, er bara að athuga hvort þetta verði eitthvað nærri lagi.

Grænlandsjökull er yfirleitt þykkari en 2000 m og sumstaðar þykkari en 3000 m. Segjum að meðalþykkt hans sé 2000 m - hann nær yfir 300 m dýpi niður fyrir núverandi sjávarstöðu víðast hvar og því má reikna með að um 1700 m þykkur jökull = 1,7 km þykkur. Jökull þekur um 1.700.000 ferkílómetra af landi Grænlands. Við margföldum það og fáum þá út 2.890.000 rúmkílómetra. Fyrir hvern 1 m af ís, þá fáum við um 0,9 m af vatni og því verða þetta um 2.600.000 rúmkílómetrar.

Sjórinn er um 361.000.000 ferkílómetrar.  Ef við dreifum útreiknuðu vatni frá Grænlandsjökli yfir allan hnöttinn þá fáum við 0,007 km, sem samsvarar sirka 7,2 metrum.

Ef við reiknum með að við áflæðið aukist flatarmál sjávar um 30.000.000 ferkílómetra (fer úr 71 % upp í 76% - sem er gríðarleg breyting og örugglega ofáætlað). Þá þýðir það að Grænlandsjökull lætur í té um 6,7 m, dreift jafnt yfir allan sjó.

Mínir lauslegu útreikningar benda því til að við séum að tala um 6,7-7,2 m - bara frá Grænlandsjökli.

Þarf ekki að taka eitthvað af suðurpólnum með, sem alltaf gleymist í umræðunni? Bara spyr?

Við fjöllum nokkuð jafnt um grænlandsjökul og Suðurskautið - sjá t.d. á loftslag.is: Suðurskautið Archive

Höskuldur Búi Jónsson, 24.2.2010 kl. 14:41

18 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Þar sem ég segi: "Ef við dreifum útreiknuðu vatni frá Grænlandsjökli yfir allan hnöttinn þá fáum við 0,007 km, sem samsvarar sirka 7,2 metrum." Þá er ég að meina dreift yfir núverandi haf flöt.

Höskuldur Búi Jónsson, 24.2.2010 kl. 14:44

19 identicon

Höski Búi - Ég þakka útreikninginn og viðurkenni að ég hefði ekki getað þetta vegna þess að ég vissi ekki hvað Grænlandjökull er stór, enda ekki mitt sérsvið.

Þegar ég tala um 80% af yfirboði jarðar, þá á ég að sjálfsögðu við að bráðnun hafi átt sér stað og var ágiskun.

Þetta með Maldives var frétt í sænsku dagblaði fyrir all nokkru og ekki man ég hvaða blað það var. Hitt er annað mál að það má taka með "nipa salt" sem stendur í sænskum daðblöðum og eru það sjaldnast nokkur vísindi, nema síður sé, en ég mátti til með að benda á það , af því að ég mundi eftir fréttinni. Engin nöfn voru nefnd.

Aðal málið snýst um það hve mikinn þátt maðurinn á í gróðurhúsaáhrifunum og ég er sannfærður um að mikill áróður af hálfu vissra vísindamanna hefur nánast snúist upp í trúarbrögð. Mælingar sýna hlýnun, þótt það sé kannski ekki á jöðinni akkúrat núna, en þetta er ,eins og margir benda á, eðlilegt ástand og myndi ske tótt maðurinn væri ekki til staðar. Og síðan kemur ísöld, eða hvað?  Kveðja.

V. Jóhannsson (IP-tala skráð) 24.2.2010 kl. 18:01

20 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Aðalmálið að mínu mati er að maðurinn er að losa gróðurhúsalofttegundir, sem eru fleiri en aðeins CO2. Styrkur CO2 í andrúmsloftinu hefur aukis um ca. 38% frá iðnbyltingunni.

Gróðurhúsalofttegundir halda jörðinni heitri, það er nokkuð þekkt fyrirbæri. Vísindamenn eru lang flestir á þeirri skoðun að þessi aukning okkar mannanna hafi áhrif á hitastig, þannig að það hækki, þ.e. hafi hækkað. Það hefur reynst vísindamönnum erfitt að finna aðrar skýringar en þá að þessi aukning gróðurhúsalofttegunda hafi haft áhrif á hitastigið á síðustu árum og áratugum. Síðasta ár var til fróðleiks það 5. heitasta samkvæmt NOAA, sjá hér undir (það næst heitasta samkvæmt NASA, það er lítill munur á þeim árum sem eru hlýjust). Öll árin eftir 2000 eru á topp 10 yfir heitustu ár frá því mælingar hófust og áratugurinn var sá heitasti í heild frá því mælingar hófust. Ég myndi því taka því með varhug, þegar fullyrt er af "mörgum" að hlýnun hafi ekki átt sér stað að undanförnu.

Ítarefni:

Sveinn Atli Gunnarsson, 24.2.2010 kl. 18:20

21 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Fyrsta setningin hér að ofan er illa orðuð hjá mér, ætti að vera:

Aðalmálið að mínu mati er að maðurinn er að losa CO2 og aðrar gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið sem talið er að hafi áhrif á hitastig jarðar.

Sveinn Atli Gunnarsson, 24.2.2010 kl. 18:22

22 identicon

Ok, en aðeins í lokin. Það er oft talað um að hér á norðurhveli jarðar hafi veri hlýrra á landnámsöld, enda engin heilvita maður numið hér land, ef veðurfar hefði verið eins og nú er.

Er þetta allt saman tómt kjaftæði, eða hverju trúir þú?

Og hvers vegna var hlýrra þá? Getur verið  að CO2 hafi verið meira í andrúmsloftinu þá? Afhverju ekki? Sá spyr sem ekki veit. Þeir sem taka sýni úr Grænlandsjökli hljóta að hafa svar.

V. Jóhannsson (IP-tala skráð) 24.2.2010 kl. 19:33

23 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Það var örugglega hlýtt á landnámsöld hér og í Norður Evrópu. Mér skilst þó að það sé allavega svipað hlýtt ef ekki hlýrra nú en þá. Annars er talið að það hafi verið staðbundið og í heildina sé jörðin hlýrri nú en þá. Þú getur lesið um það á heimasíðunni loftslag.is: Mýta:  Það var hlýrra á miðöldum.

CO2 í andrúmsloftinu nú er meira en það hefur verið í allavega 800 þúsund ár (þ.e. eins langt og ískjarnar ná aftur).

Að öðru: Það er ekki eins og menn hafi verið að uppgötva þetta núna á síðustu árum. Það eru yfir 100 ár síðan að menn fóru að áætla hvað myndi gerast ef CO2 í andrúmsloftinu myndi tvöfaldast.

Á áttunda áratug síðustu aldar voru menn farnir að sjá í hvað stefndi og í lok níunda áratugsins voru menn orðnir það vissir að menn voru ákveðnir í að grípa til aðgerða. Meira að segja Bush eldri skrifaði undir viljayfirlýsingu hvað það varðar. 

Um það leiti fór af stað maskína sem að hafði það eitt að markmiði að tefja og helst að koma í veg fyrir aðgerðir - sú saga er vel skráð í bókinni Climate Cover-Up sem kom út í fyrra (og fleiri bókum). Það reyndist bara nokkuð vel fyrir maskínuna að undirstrika "efann" um að það væri að hlýna, um að hlýnunin væri af mannavöldum og um að hlýnunin væri slæm. Maskínan er gríðarlega vel styrkt af olíu, kola og iðnfyrirtækjum - sérstaklega vestan hafs. Maður sér bergmál af þeirri umræðu sem þeir hafa komið af stað hér á Íslandi líka.

Það sem gerir það að verkum að þessi efi virkar - er að það er í eðli vísindanna að gefa upp óvissu - það er aldrei 100 % öruggt að þetta eða þetta sé svona og verði svona. Þann efa hefur maskínan notfært sér í gegnum tíðina og nú er það svo að þrátt fyrir heitasta áratug frá upphafi mælinga, þá virðist staðan vera sú að tæplega helmingur bandaríkjamanna og nú síðast breta telur að það þurfi að gera eitthvað varðandi hlýnun jarðar af mannavöldum. Það er ekki útlit fyrir það á þessari stundu að nokkuð verði gert - fyrr en það verður orðið nánast ómögulegt að gera eitthvað í hlutunum.

Sem sagt - menn vissu nóg á níunda áratugnum til að vilja gera eitthvað í málunum. Nú rúmlega tuttugu árum síðar - þegar sífellt verður heitara og heitara á jörðinni - þá er komin upp sú staða að mönnum finnst ásættanlegt að gera lítið sem ekkert í málunum af því að það er ekki 100% öruggt að allt fari á versta veg. Skrítið.

Höskuldur Búi Jónsson, 24.2.2010 kl. 21:27

24 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Mig langar að bæta við einnig að loftslagsbreytingar í sjálfu sér eru ekki neitt nýtt fyrirbæri, hafa gerst mörgum sinnum áður, án hjálpar okkar mannanna, sjá "Orsakir fyrri loftslagsbreytinga".

Annars vil ég taka undir það sem Höski segir.

Sveinn Atli Gunnarsson, 24.2.2010 kl. 21:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband