Loftslagsbreytingar og hörmungar fyrri tíma

Ný grein bendir til þess að margar meiriháttar mannlegar hörmungar – stríð og plágur – megi rekja til loftslagsbreytinga. Þetta eru svo sem ekki ný sannindi – en beinar rannsóknir á orsakasamhengi hafa reynst erfiðar.

Framfarir í fornloftslagsfræðum hafa nú auðveldað fræðmönnum að horfa lengra aftur til baka en áður. Einn þessara fræðimanna, David Zhang í háskólanum í Hong Kong skoðaði nýlega hvernig heit og köld tímabil hafa áhrif á samfélög manna. Zhang (o.fl. 2011) tóku saman mikið magn tölfræðigagna og notuðu öflug tölfræðitól við að greina gögnin. Notaðir voru 14 mismunandi þættir, líkt og hæð manna, gullverð, trjáhringaþykkt og hitastig frá Evrópu milli áranna 1500 og 1800, auk annarra þátta.   Rannsakað var hvort orsakasamhengi væri á milli þessara þátta. Síðan skiptu þeir tímabilinu niður í styttri tímabil, 40-150 ár hvert, til að sjá hvort stór atburður á þessum tímabilum var í raun vegna hitasmismunar á tímabilinu – en sýndi ekki bara leitni við hitastig.

[...]

Nánar má lesa um þetta á loftslag.is, Loftslagsbreytingar og hörmungar fyrri tíma

Tengt efni á loftslag.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bók Brian Fagan The Great Warming: Climate Change and the Rise and Fall of Civilizations er afskaplega forvitnileg í þessu ljósi, sérstaklega vegna þess hversu tíðrætt mönnum hefur verið um hlýindaskeiðið í Evrópu á miðöldum. Það hafði miklu víðtækari áhrif á heimsvísu og orsakaði gríðarlegar þrengingar annars staðar á hnettinum.

http://www.amazon.com/Great-Warming-Climate-Change-Civilizations/dp/1596913924

Guðni Elísson (IP-tala skráð) 18.10.2011 kl. 21:20

2 identicon

Eða réttara sagt: Hlýindaskeiðið í Evrópu verður að skoða í ljósi þess hvað var að gerast annars staðar á hnettinum á sama tíma.

Guðni Elísson (IP-tala skráð) 18.10.2011 kl. 21:26

3 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Hérna kemur enn einu sinni fram, að menn einblína á síðustu eitt- tvö þúsund árin og virðast alls ekki vita, að þrátt fyrir sveiflur hefur jörðin verið að kólna og þorna í ca. sjö þúsund ár. Það er í rauninni ofboðslegt og yfirgengilegt að menn sem hefja upp raust sína um þessi mál vita þetta greinilega alls ekki, þótt það hafi verið vitað og rækilega fullsannað í meira en hundrað ár. Ömurlegt er til þess að vita að menn sem titla sig „vísindamenn“ skuli ekki vita að sé t.d. farið aftur á tíma Forn- Egypta var Ísland nánast jöklalaust, en stórir hlutar Sahara og annarra eyðimarka grónir, t.d. það svæði sem nú heitir Írak, en þá nefndist Mestópótamía. Þar eins og í Sahara og miklu víðar eru miklar mannvistarleifar hvarvetna í sandinum, sem staðfestir stöðuga þornun jarðarinnar. Besta úttektin á þessu er eftir þá Blytt og Sernander frá því um 1900 og hefur aldrei verið hrakin, enda auðvelt að staðfesta hana, ekki síst með því að athuga gróður í mýrum víðs vegar. En þessir kjánar sem þið takið mark á virðast ekki þekkja undirstöðuatriðin í þróun loftslags undanfarnar árþúsundir. Hvers vegna það er svo er mér hulin ráðgáta.

Vilhjálmur Eyþórsson, 18.10.2011 kl. 22:28

4 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Guðni: Takk fyrir ábendinguna.

Vilhjálmur: Vísindamenn þekkja fyrri loftslagsbreytingar og við  höfum margoft farið yfir þetta áður hér á þessari síðu. Hinar hnattrænu breytingar sem nú eru að gerast  eru meiri og hraðari en á fyrrgreindum tímabilum nútíma. Þess utan bendir allt til þess að þær breytingar eigi eftir að auka hraðann á næstu áratugum og öldum.

Höskuldur Búi Jónsson, 18.10.2011 kl. 23:29

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég held að a.m.k. sumir þessara svokölluðu kjána þekki ágætlega þróun loftslags undanfarin árþúsund. Sahara hefur sennilega verið gróin fyrir um 8000 þús árum og þar hafa jafnvel verið stöðuvötn en eftir að smám saman þornaði hópaðist fólk saman í byggðir við ströndina og ekki síst við bakka Nílar þar sem menn lærðu loks að rækta jörðina með því að nýta sér fljótið. Þannig hófst hámenning við bakka Nílar og einnig milli fljótanna í Mesópótamíu. Hámenningin fluttist síðan til ræktanlegri svæða Evrópu eftir því sem syðri svæðin þornuðu. Gríska hámenningin átti svo eftir að flytjast til Rómar en eftir myrku miðaldirnar reis Norður-Evrópa upp sem vænlegasta svæðið samhliða þurrari tíð syðra.

Svo má líka líta á Íslandssöguna sem dæmi um áhrif loftslags og velgengi. Síðustu 10 árin eru þó kannski athyglisverð þar sem velmegunin fór úr böndunum í öllum hlýindunum.

Emil Hannes Valgeirsson, 18.10.2011 kl. 23:39

6 identicon

Einn punktur í tengslum við orð Emils. James Hansen dregur fram forvitnilegan vinkil í Storms of My Grandchildren: The Truth About the Coming Climate Catastrophe and Our Last Chance to Save Humanity (enginn smátitill þar á ferðinni) þar sem hann veltir því fyrir sér hvort stöðuleiki sjávaryfirborðs síðustu tíu þúsund árin hafi haft úrslitaáhrif á þróun menningarinnar. Vilhjálmur Eyþórsson veit svo ekki um hvað hann er að tala. Vísindamenn einblína ekki á síðustu eitt til tvö þúsund árin í umræðunni (hann gerir það þó hvenær sem honum hentar, t.d. þegar á að sýna fram á að hér hafi verið jafn heitt fyrir þúsund árum og er núna) og bók Fagan er aðeins ætlað að rekja hvaða djúpstæðu áhrif loftslagsbreytingar frá 800 til 1100 höfðu á búsetu manna um heim allan. Hann skoðar hnattkringluna alla: Asíu, suðurhluta Bandaríkjanna, Mið- og Suður-Ameríku, Kyrrahafseyjarnar og ýmis landsvæði í norðurhluta Afríku.

Guðni Elísson (IP-tala skráð) 19.10.2011 kl. 05:46

7 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Guðni minn sæll. Þú tekur greinilega mark á stjarneðlisfræðingnum James Hansen, sem er ofvirkur ofstækismaður sem hikar ekki við að falsa eða hagræða staðreyndum, t.d. um bráðnun Suðurskautslandsins. Ég hef annars lítið talað um, að loftslag var svipað fyrir þúsund árum og nú, betra er að fara lengra aftur. Þú ættir nauðsynlega að lesa Þjóðmálagrein mína „Að flýta ísöldinni“ http://vey.blog.is/blog/vey/entry/988129/ en þar fer ég nánar í öll þessi mál. Það er örstutt síðan loftslag var heitara en gróðurhúsa- gengið gerir ráð fyrir í svörtustu spám sínum, en þá var jörðin sem einn aldingarður.

Vilhjálmur Eyþórsson, 19.10.2011 kl. 11:48

8 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Nafni, hér erum við greinilega að tala um trúarbrögð alhæfara úr röðum raunvísindamanna, sem telja að þeir geti valið og hafnað heimildum að hentugleika og að staðbundin rannsókn eigi við hvar sem er og alls staðar. Það er nú lítið að gera við slíkri heimsku, annað að en að reka rökin og mótrök niður í kok á mönnum, þegar í ljós kemur að stríð hafa ekki aðeins verið háð vegna veðurs.

Tilgangurinn helgar líka meðalið hjá fólki sem hugsar í kór!

Velmegun er annars ekki það sama og þróunarstig, Emil Hannes Valgeirsson.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 19.10.2011 kl. 12:00

9 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Vilhjálmur hinn seinni: Af viðbrögðum þínum má sjá að þú hefur ekki lesið færsluna sem vísað er í. Þar er einmitt farið yfir gagnrýni á fyrrnefnda rannsókn en hvergi talið að rannsóknin sé heilög né alhæft um hana.

Fullyrðingar þínar um heimsku lýsa síðan eflaust betur þínum brestum en einhverju öðru.

Höskuldur Búi Jónsson, 19.10.2011 kl. 12:13

10 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson:
Þú segir:
telja að þeir geti valið og hafnað heimildum að hentugleika og að staðbundin rannsókn eigi við hvar sem er og alls staðar
Þetta er alröng alhæfing hjá þér...en þeir sem afneita loftslagsvísindum, virðast þó vera nokkuð mikið í því að alhæfa út frá sérvöldum heimildum (sjá t.d. athugasemd Vilhjálms Eyþórssonar).
lítið að gera við slíkri heimsku, annað að en að reka rökin og mótrök niður í kok á mönnum
Hvernig hafðirðu hugsað þér að reka rökin "niður í kok á mönnum"...með röksemdafærslum eða uppnefningum? (get ekki séð annað en mikla vöntun á rökfærslu, sem er kannski í samræmi við orðaval þitt um heimsku annarra). Annars tek ég bara undir með Höskuldi - fullyrðingar þínar um heimsku annarra lýsa væntanlega þínum brestum betur en annað.

Sveinn Atli Gunnarsson, 19.10.2011 kl. 13:12

11 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Vilhjálmur Eyþórsson:

Vísindamenn skoða mikið meira af gögnum en þú vilt vera láta, eins og við höfum marg oft komið fram með. Það er ekki eins og einhver ein heimild sé undirstaða loftslagsvísinda! Rannsóknir á fornloftslagi, nútíma loftslagi, eðlisfræði gróðurhúsalofttegunda, bráðnun jökla, hitastig í nútíma og fyrr ásamt mörgum öðrum þáttum sem eru með í dæminu. Einhver rannsókn frá um 1900 (Blytt og Sernander - http://en.wikipedia.org/wiki/Blytt-Sernander) er nú ekki "sönnun" þess að nútíma rannsóknir séu bull - en segir okkur þó að rannsóknir á loftslagi hafa farið fram um langan tíma og þeim rannsóknum fleygir fram. Það er óhæft hjá þér að hundsa nútíma rannsóknir á þeim forsendum að einhver ein rannsókn hafi sýnt eitthvað árið nítjánhundruð og súrkál...það er, í mínum huga, kallað að afneita samhengi nútíma vísinda... En alla vega takk fyrir að vísa í heimild - það er þó framför Vilhjálmur Eyþórsson.

Fróðlegt væri að fá heimild þína fyrir því að Hansen hafi "falsað og hagrætt staðreyndum" - þú leitar hana kannski uppi fyrir mig - mér finnst vanta þá heimild, man ekki eftir að hafa séð það - eða er þetta kannski enn ein innihaldslaus fullyrðing þín..?

Sveinn Atli Gunnarsson, 19.10.2011 kl. 13:15

12 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Vilhjálmur Örn. Velmegun er vissulega ekki sama og þróunarstig. Það er allir með það hreinu.

Emil Hannes Valgeirsson, 19.10.2011 kl. 13:18

13 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Án þess að ég nenni að rífast enn einu sinni við ykkur vil ég þó vitna í eina setningu úr Wikipedia- greininni, sem þið vísið til: „Today the Blytt-Sernander sequence has been substantiated by a wide variety of scientific dating methods, mainly radiocarbon dates obtained from peat“. Það stendur óhaggað að loftslag fyrir aðeins örfáum árþúsundum var heitara og rakara en „svörtustu“ spár heimsendaspámanna gera ráð fyrir. Líka má benda á rannsóknir á íslenskum jöklum, sem sýna ótvírætt að þeir voru nánast engir á þessum tíma og lengi síðan. Jöklar á Íslandi hafa aldrei verið stærri síðan á jökulskeiði (ísöld), en þeir voru um aldamótin 1900. Þótt síðan hafi ríkti smávægileg uppsveifla í hitastigi, ein af mörgum, bendir ekkert til annars að smám saman haldi áfram að kólna þar til kílómetraþykkir jöklar leggjast enn einu sinni yfir vestanverða Evrasíu og meginhluga Norður- Ameríku. Það er bara svona.

Vilhjálmur Eyþórsson, 19.10.2011 kl. 13:33

14 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Vilhjálmur Eyþórsson:

Hver er að rífast? Hver er að tala um heimsendaspár?

Annars eru rannsóknir á loftslagi nú nokkuð áreiðanlegar og ég get nú ekki betur séð en að rannsóknir Blytt og Sernander séu nú bara einn hluti pússlsins og afsanni í engu loftslagsvísindi eins og þú vilt vera láta. Við vitum vel að það hafa komið loftslagsbreytingar áður...ekkert nýtt í því...en það sannar í engu að núverandi loftslagsbreytingar geti ekki verið af völdum aukina gróðurhúsaáhrifa af mannavöldum.

Það er ekki rétt hjá þér að loftslag hafi verið heitara og rakara fyrir fáum þúsudnum ára, en spár gera ráð fyrir varðandi framtíðina..? Hvar eru heimildir þínar varðandi það Vilhjálmur? Þetta er fullyrðing sem á sér ekki stoðir í raunveruleikanum...

Hér undir má sjá þróun hitastigs frá síðustu Ísöld, sjá nánar http://en.wikipedia.org/wiki/Temperature_record

Sveinn Atli Gunnarsson, 19.10.2011 kl. 13:47

15 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Vilhjálmur E: Ég vil bæta því við að myndin sem Sveinn vísar í,  sýnir mun betur breytileika á loftslagi á nútíma heldur en þau fáu staðbundnu gögn sem þú nefnir iðulega.

Höskuldur Búi Jónsson, 19.10.2011 kl. 13:59

16 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Þetta graf staðfestir einungis það, sem ég hef verið að segja. Það gleymist líka hjá ykkur að nefna að með hærra hitastigi eykst uppgufun úr höfunum, jafnframt því að hlýtt loft tekur til sín miklu meiri raka. Því mun úrkoma aftur stóraukast með hækkandi hitastigi og eyðimerkur gróa aftur upp, en þetta, sem virðst svo einfalt, sýnist ofvaxið skilnigi gróðurhúsamanna. Jökulskeiðin eru afar þurr og jafnframt því að hitastig hefur þrátt fyrir upp- og niðursveiflur, verið að lækka síðan á bóreölskum tíma hefur jörðin þornað og eyðimerkur skrælnað. Ef svo ólíklega vildi til að áhrif mannanna leiddu til hækkandi hitastigs mundi það vera öllum fyrir bestu, mönnum, dýrum, fuglum fiskum jurtum og öllu öðru sem þrífst á jörðinni.

Vilhjálmur Eyþórsson, 19.10.2011 kl. 14:07

17 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Vilhjálmur E:

Samkvæmt grafinu er hitastigið nú (sjá ör sem bendir á 2004) meira en það hefur verið áður

Einnig máttu ekki gleyma því að aukin uppgufun verður ekki eingöngu úr hafi heldur einnig af landi - því þornar land meira, utan við þau tímabil sem ofsaúrkoma ríður yfir. Við erum því að horfa á að í framtíðinni (og nú þegar) verði meira um þurrka og flóð. Það eru ekki góð skilyrði til landbúnaðar sem dæmi. 

Höskuldur Búi Jónsson, 19.10.2011 kl. 14:23

18 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Vilhjálmur E:

Samkvæmt grafinu er hitastigið nú (sjá ör sem bendir á 2004) meira en það hefur verið áður "á nútíma".

 

Höskuldur Búi Jónsson, 19.10.2011 kl. 14:31

19 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Þetta tal um uppgufun af landi er undarlegt og stangast gjörsamlega á við þá bláköldu staðreynd að jörðin var öll miklu grænni og grónari fyrir fáeinum árþúsundum þegar loftslag var hlýrra. Um þetta eru geysimiklar ritaðar samtímaheimildir auk þess að sem fyrr sagði, finnast mannvistarleifar hvarvetna í eyðimörkum. Skilyrði til landbúnaðar hlytu að stórbatna, ef aftur hlýnaði, þ.e. ef lögmál náttúrunnar gilda enn, en þið breytið þeim að því að mér sýnist, eftir því sem hentar málstaðnum.

Vilhjálmur Eyþórsson, 19.10.2011 kl. 14:34

20 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Vilhjálmur E:

Kannski stangast þessar "bláköldu staðreyndir" (þ.e. að hitastig þá hafi verið meira  en nú), á við mæliniðurstöður,  vegna þess að þeta eru ekki "blákaldar staðreyndir" hjá þér, heldur rangar forsendur - samanber aftur myndina sem Sveinn vísar í hér fyrir ofan.

Öll þín rök um betri tíð með blóm í haga standast því einfaldlega ekki vegna þess að forsendur þínar eru rangar. Nú er heitara en hefur verið á nútíma og við erum á leið inn í ókortlagða veröld og miðað við þær aðstæður sem nú þegar hafa skapast þá lítur það ekki vel út með t.d. landbúnað.

Hitt er annað mál að í sjálfu sér þá afsanna fyrri loftslagsbreytingar ekki að þær núverandi geti verið af mannavöldum - en í þessu tilfelli er þó um að ræða meiri loftslagsbreytingar en áður í sögu nútímamannsins.

Höskuldur Búi Jónsson, 19.10.2011 kl. 15:07

21 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það er kannski rétt að vísa í þessa frétt sem fjallar um hina grænu Sahara. Þar kemur fram að samkvæmt rannsóknum þá hafi Sahara verið græn og gróin stuttu eftir síðasta jökulskeið. Það sem virðist ráða úrslitum er breytileikinn í öxulhalla jarðar en þegar hallinn er mestur þá eykst úrkoma í Norður-Afríku. Síðan þá hefur jörðin verið að rétta úr sér og mun gera næstu ca. 12 þúsund ár. Eins og ég skil þetta þá virðist úrkoma í Sahara tengjast seltu- og hitajafnvægi Norður-Atlantshafsins þannig að aukið streymi hlýsjávar til norðurs eykur úrkomu í Norður-Afríku. Talað er um græn tímabil í Sahara fyrir 8-10 þúsund árum, 45-50 þúsund árum og 110-120 þúsund árum og hafa þessi tímabil haft mikið að segja fyrir viðgang mannsins.
Hvernig hlýnun jarðar mun svo spila inn í er eitthvað sem má velta fyrir sér. Aukin úrkoma á tilteknum svæðum þarf ekki endilega að tengjast hlýnun þótt svona almennt séð sé loftslag jarðar rakara í auknum hita. Þarna spila nefnilega inn fleiri þættir eins og nýtt jafnvægi og uppröðum veðurkerfa.
Greening of Sahara Desert Triggered Early Human Migrations out of Africa:
http://www.sciencedaily.com/releases/2009/11/091111115843.htm

Emil Hannes Valgeirsson, 19.10.2011 kl. 15:07

22 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Allt þetta tal um möndulhalla er undarleg steypa, sem ég hef stundum séð. En hvers vegna var þá t.d. Mið- Asía algróin á þessum tíma, eins og miklar mannvistarleifar í Góbí og Taklamakan vitna um? Sömuleiðis voru stórir hlutar Arabíuskagans grónir og þar, eins og í Austur Íran og víðar eru nafnlausar yfirgefnar borgir og þorp grafnar í sandinn. Sama gildir um Norður- Ameríku. Þar sem nú eru suðvesturríki Bandaríkjanna eru nú eyðimerkur, en líka þar hafa fundist miklar leifar um mannvist og landbúnað.

Vilhjálmur Eyþórsson, 19.10.2011 kl. 15:20

23 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Möndulhallinn ásamt öðrum afstöðubreytingum jarðar er oftast talin verið rótin að öllum þessum breytingum sem og jökulskeiðum og hlýskeiðum. En ferlið getur verið flókið.

Emil Hannes Valgeirsson, 19.10.2011 kl. 15:31

25 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Gamli - þér er velkomið að koma með athugasemdir hér, en værir þú til í að skrifa eitthvað frá eigin brjósti en ekki eitthvað sem við fyrstu sýn lítur út fyrir að vera svokallað SPAM (ruslpóstur). Kopí peist af erlendum netsíðum er einmitt eitthvað sem net-tröll stunda. 

Höskuldur Búi Jónsson, 20.10.2011 kl. 18:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband