Afneitunargeitin jarmar lágt

Sveinn Atli skrifaði góða færslu um afneitunargeitina í gær (sjá Afneitunargeitin [Denial-gate]).  Í tilefni þess að skortur er á umfjöllun fréttamiðla hér á landi um þetta mál og algjöra þögn “efasemdamanna” þá vil ég bæta við eftirfarandi:

Rök venjulegra “efasemdamanna” gegn hinni hnattrænu hlýnun af mannavöldum eru þessi og þeir fara niður listann eftir því hvernig staðan er í umræðunni hvert skipti og reyna við hvert tækifæri að færa sig ofar í listann:

1. Það er engin hlýnun.
2. Það er hlýnun en hún er náttúruleg
3. Hlýnunin er af mannavöldum, en hlýnunin er góð.
4. Hlýnunin hefur hætt.
5. Það er of dýrt að gera nokkuð í þessu.
6. það væri í lagi að reyni að gera eitthvað… (síðan er ekkert gert).

Til að finna röksemdir sem styðja við þennan lista, þá leita “efasemdamenn” nær undantekningalaust í smiðju þeirra sem hafa verið dyggilega studdir með gríðarlegum fjárhæðum af Heartland stofnuninni, eins og kemur fram í færslunni hans Sveins Atla.

Þeir sem fylgjast með umræðunni af einhverju viti ættu að  kannast við þær heimasíður og nöfn sem komu fram í færslu Sveins:

Meðal þess sem hefur komið fram eru gögn um fjármögnun margra “efasemdamanna”, m.a. hafa þeir Anthony Watts á WUWT, Craig Idso á CO2Science, Bob Carter og Fred Singer þáð umtalsverðar upphæðir, svo einhverjir fáir séu nefndir til sögunnar. Við höfum m.a. fjallað um þess “kappa” hér á síðum loftslags.is, sjá m.a. Miðaldaverkefnið (Craig Idso), Mótsagnarkennt eðli röksemda “efasemdamanna” um hnattræna hlýnun (Fred Singer o.fl.), Tengsl El Nino og langtíma hlýnunar hrakin (Bob Carter) og Staðnir að óvönduðum vinnubrögðum (Anthony Watts). Þeir félagar hafa hver um sig þegið umtalsverðar upphæðir, jafnframt því að vera framarlega í heimi loftslags afneitunarinnar.

Hægt væri að nefna fleiri sem hafa fengið styrki til að strá efasemdasykurhúð yfir vísindin (meðal annars má nefna skýrsluna NIPCC en hún hefur meira að segja ratað inn í heimildalista BS-ritgerðar frá HÍ sem er hneyksli út af fyrir sig).

Þessi efasemdasykurhúð er þunn og undir henni eru bitur og sönn vísindi – vísindi sem sýna fram á að yfirgnæfandi líkur séu á að hlýnunin sé af mannavöldum, að hlýnunin eigi eftir að ágerast með áframhaldandi losun gróðurhúsalofttegunda (sérstaklega CO2) og að afleiðingar þessara loftslagsbreytinga geti orðið alvarlegar fyrir fjölmörg vistkerfi jarðar og manninn þar með (sjá bæklinginn Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir).

Það sem þessir “kappar” eru því að gera, er ekki að styrkja þekkingaröflun á loftslagi jarðar. Þeir fá borgað fyrir að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að sýna fram á að, það sem kemur fram í listanum, sé rangt  (sjá 1-6 hér ofar og þá sérstaklega 1-4). Til þessa verks fá þeir nánast ótakmörkuð fjárráð.

Tilgangurinn:  Að viðhalda skammtímagróða þeirra sem dæla peningum í Heartland stofnunina.

Heimildir og ítarefni

Til að sjá byrjunina, kíkið á heimildir við færslu Sveins, neðst á síðunni (sjá Afneitunargeitin [Denial-gate])

Ágætar umfjallanir hafa einnig komið t.d. hér:

Skeptical Science:  DenialGate Highlights Heartland’s Selective NIPCC Science

NewScientist:  Leaked files expose Heartland Institute’s secrets

Tengt efni á loftslag.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Ég er ekki frá því að ég heyri í þögn "efasemdamanna" enda er hún mjög áberandi...en ætli þeir láti ekki í sér heyra þegar þeir hafa safnað styrk í eitthvað plat samsærið sem þeir finna upp á næst, sjá t.d. Climategate tilbúninginn sem "efasemdamenn" bjuggu til á sínum tíma...

Sveinn Atli Gunnarsson, 18.2.2012 kl. 00:29

2 Smámynd: Kristinn Pétursson

Þið eruð bestu efasemdarmennirnir - þið eruð  t.d. sífellt með endurteknar efasemdir um að það hafi verið miklu hlýrra við landnám... og engum að kenna þá - var það nokkuð?

Mér finnst það fagnaðarefni ef það hlýnar aðeins..     Sjáið makrílinn og síldina - þessir fiskar eru að koma aftur eftir nokkurra áratuga kólnun - =  kólnunin að ganga til baka.... ekkert meira - hvað sem verður....

Vonandi bráðar meiri ís -  svo Norð-Austurleiðin opnist almennilega og kornrækt gangi aftur betur hérlendis..  Víkingarnir meira að segja ræktuðu korn á Grænlandi í Den.. og brugguðu öl úr korninu...  það var svo fjandi hlýtt þar - hverjum var það að kenna?

Kristinn Pétursson, 18.2.2012 kl. 03:54

3 identicon

Íslenski geitastofninn er talinn vera minnsti geitastofn í heimi. Þetta gamla víkingakyn er harðgert og sérlundað, en vannýtt í íslenskum landbúnaði.

Helsta áhyggjuefni íslenskra geitfjárræktenda hefur verið að stofninn væri í mikilli útrýmingarhættu vegna lítillar stofnstærðar, mikillar einangrunar hópa innan stofnsins og þar af leiðandi mikillar skyldleikaræktar.

Áhugamönnum um geitur skal bent á vefsíðuna  http://www.geit.is/ þar sem mikill fróðleikur er um þetta skemmtilega húsdýr sem fylgt hefur okkur allar götur frá landnámi, og mikilvægt er að varðveita með öllum ráðum.

Til er bók sem nefnist "Geitfjárrækt" og má nálgast hana ókeypis sem rafbók á vefnum með því að fara á þessa vefslóð hjá Landbúnaðarháskólanum: http://k-sql.lbhi.is/Kennsla/Geitur/index.html
Þetta merka rit um geitur er eftir Birnu Kristínu Baldursdóttur. Bók þessi er einkar  vel skrifuð og prýdd fjölda mynda.

Geitaostur er í flestum löndum álitinn mesta lostæti og í hávegum hafður. Spánverjar, Frakkar og Ítalir státa af langri og farsælli geitaostagerð og fjölbreytnin er mikil. Á Íslandi hefur því miður ekki enn  skapast hefð fyrir þessum ljúffenga osti. Það er mikil synd, því geitaostur er með ljúffengari ostum.

Ég vil því beina því til þín lesandi góður að festa kaup á geitaosti næst þegar þú sérð hann í kaupfélaginu, og þá auðvitað hinn ljúffenga íslenska geitaost.


Með góðri kveðju úr dreifbýlinu  til landsmanna með frómri ósk um að árið verði milt og gefandi, og megi landbúnaður blómstra.

Stöndum vörð um hið íslenska geitakyn!

Bóndi (IP-tala skráð) 18.2.2012 kl. 07:58

4 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Kristinn:

Við höfum svarað öllum þínum persónulegu vangaveltum áður, en það væri kannski gott að benda á eftirfarandi til frekari upplýsingar:

Orsakir fyrri loftslagsbreytinga
- Áhrifaþættir hinnar hnattrænu hlýnunar
Grunnatriði kenningarinnar
- Mælingar staðfesta kenninguna

Gangi þér vel með lesturinn Kristinn... Varúð: þú gætir lært eitthvað um þessi mál...

Bóndi (aka. Gustur, presturinn, The Pope o.fl. - kannski þú ættir að fara að ákveða undir hvaða nafni þú gengur)...skemmtilegir útúrsnúningar, sem að sjálfsögðu hafa ekkert með málið að gera, frekar en oft áður hjá þér. En þú ættir kannski að kryfja orðið afneitun (í sambandi við afneitun vísinda) til mergjar... Gangi þér vel, það gæti verið fróðlegt líka :)

Sveinn Atli Gunnarsson, 18.2.2012 kl. 23:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband