Tíu mótrök gegn kenningunni um hlýnun jarðar af mannavöldum

Nokkur rök manna gegn þessari kenningu eru vissulega skiljanleg, en hafa öll verið hrakin eftir því sem ég best veit, ég tek sem dæmi nokkrar vinsælar fullyrðingar:

1: Sveiflur í sólinni valda hitnun jarðar.

Svar: það er rétt að sólin sem hitagjafi hefur gríðarleg áhrif  (enda hitagjafinn fyrir þetta kerfi) og fyrr á öldum tengdist hitaferill jarðar og útgeislun sólarinnar órjúfandi böndum (að mestu leiti). En sú hækkun hitastigs sem hefur orðið síðustu áratugi er ekki í neinu samræmi við útgeislun sólarinnar eins og sést á meðfylgjandi mynd. Uppúr 1975 þá tók hitastig að þróast óháð sveiflum sólarinnar, þ.e. útgeislun sólar lækkaði eða stóð í stað en á meðan hélt hitastig áfram að hækka.

tsi_vs_temp

 

2: Það var heitara á miðöldum en það er í dag.

Svar: Þessi rök eru vinsæl hér á landi og vísað í landnámu og önnur gögn sem benda til heitara loftslags hér á landi í kringum landnámsöld. Það er samt ekkert sem bendir til þess að jörðin sem heild hafi verið heitari á miðöldum en hún er í dag. Vissulega er sumt sem bendir til þess að t.d. í Evrópu (og þar með talið hér á Íslandi) hafi verið heitara en nú í dag, en hnattrænt séð þá hafa menn ekki getað staðfest það. Eftirfarandi mynd sýnir ýmsa hitaferla sem fengnir hafa með ýmsum afleiddum gögnum. Þessir ferlar eru ýmiskonar en sýna þó að núverandi hiti er þegar (árið 2004)orðinn hærri en gögn sem sýna mikinn hita á miðöldum.

2000_Year_Temperature_Comparison

 

3: Það hefur ekki orðið hitastigshækkun síðan 1998.

Svar: Þetta er reyndar bara að hluta rétt, það hefur orðið lítilsháttar hækkun í hita síðan 1998 (ef trendið er skoðað), en það ár var samt  óvenjulega hátt hitastig á jörðinni, tengt veðurfyrirbærinu El Nino. Að miða við það hitastig er í besta falli órökrétt og í versta falli fölsun á gögnum. En jafnvel þótt við miðum við árið 1998, þá sýnir trendið hækkun í hita þessi ár, eins og sést á þessu línuriti hér fyrir neðan:

fawcett_linear 

Ef miðað er við eitthvað annað ár en þetta tímabundna heita ár, þá er augljós hækkun í hitastigi.

4: Þetta er hluti af náttúrulegum sveiflum.

Svar: Engar náttúrulegar sveiflur síðustu áratuga útskýra hitaferilinn á þeim tíma. Ekki sólin, eins og bent hefur verið á hér fyrr. Ekki Milankovitch sveiflan, sem virðist stýra jökul og hitaskeiðum ísalda (en nú ætti að vera kólnun samkvæmt þeirri sveiflu). Engin eldfjöll skýra þessa hækkun, enda gera þau að verkum að það verður kólnun (samanber litlu ísöldina, en þá hafði t.d. eldgosið í lakagígum töluverð áhrif til lækkunar hitastigs). Áhrif eldgosa vara í nokkur ár eða áratugi til lækkunar vegna agna sem verða til þess að sólargeislar ná ekki inn í lofthjúpinn. Skortur á eldgosum á fyrri hluta 20. aldar eru taldar hafa haft áhrif til hækkunar hitastigs á þeim tíma, en síðan þá hafa eldgosin ekki átt að taka þátt í hlýnun loftslags á jörðinni, frekar hefði átt að halla í hina áttina varðandi eldgosin.

volcano_20th_century

Þessir þrír stóru þættir í náttúrulegum sveiflum (sólin, Milankovitch og eldgos) útskýra ekki hækkun hitastigs síðustu áratuga, þessir þrír þættir hefðu frekar átt að sýna lækkun í hitastigi undanfarna áratugi. Þetta þýðir meðal annars að ef þessa þætti nyti ekki við, þá hefði hækkun hitastigs orðið mun meiri, gæti maður áætlað, sem þýðir þá að hækkun hitastigs hefur verið vanmetið ef eitthvað er af völdum gróðurhúsalofttegunda.

5: Vísindamenn eru ekki sammála um að hitastig sé að hækka á jörðinni af mannavöldum og já þeir eru bara að kreista út pening til frekari rannsókna.

Svar: Alltaf eru einhverjir ósammála, það er bara gott mál. En allar stærstu stofnanir heims í loftslagsgeiranum eru þó sammála um að hlýnunin sé af mannavöldum, einnig meirihluti vísindamanna. En að ætla það að vísindamenn séu almennt séð það óheiðarlegir að þeir falsi gögn til að fá meiri pening er virkilega lúalegt og eiginlega að mínu mati frekar miklir sleggjudómar út í heilu starfstéttirnar. Eru þá allir sem eru ósammála kenningunni um hlýnun af mannavöldum einu vísindamennirnir sem eru strangheiðarlegir?

 

6: Þeir sem eru í hópnum IPCC* eru ekki vísindamenn, heldur hinir og þessir sem hafa ekkert vit á loftslagsfræðum.

*Á vegum Sameinuðu þjóðanna starfar vísindanefnd sem fjallar um loftslagsbreytingar. Á ensku heitir nefndin Intergovernmental Panel on Climate Change sem er skammstafað IPCC, en á íslensku er nefndin kölluð milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.  Nefndin hefur það hlutverk að taka saman vísindalegar, tæknilegar, félags- og efnahagslegar upplýsingar um grundvöll þekkingar á loftslagsbreytingum af mannavöldum. Úttektirnar fjalla um vísindalega þekkingu á loftslagsbreytingum af mannavöldum, um afleiðingar þessara breytinga og um aðlögun og viðbrögð til að sporna við þessum breytingum. (Af heimasíðu Veðurstofu Íslands).

Svar: Það er rétt að margir af þeim sem eru í IPCC eru alls ekki sérfræðingar í loftslagsfræðum, heldur má flokka þá sem bjúrókrata. En þessir bjúrókratar notfæra sér samt þekkingu vísindamanna og þó menntun þeirra sé oft ótengd loftslagsrannsóknum, þá hafa þeir sett sig vel inn í þau málefni, þeir eru jú fulltrúar sinna þjóða í þessum málaflokki. Það má reyndar segja að ef þeir væru ekki margir hverjir bjúrókratar þá hefðu þeir eflaust gengið lengra fram í að draga fram alvarleika málsins. Bjúrókratar frá t.d. Bandaríkjunum urðu til þess að reynt var að tóna yfirlýsingar niður um hnattræna hlýnun af mannavöldum, m.a. vegna hagsmuna þeirra yfirmanna (áhrif frá Bush stjórninni en til eru samsæriskenningar um að Bush hafi ákveðin tengsl við olíufyrirtækið Exxon). Menn buðu málamiðlanir svo hægt væri að skrifa undir sameiginlega yfirlýsingu, þó flestir hefðu viljað kveða sterkara að orði.

En ef menn eru á því að IPCC hafi ekkert vit á þessu, þá er hér listi yfir nokkrar aðrar stofnanir sem menn almennt séð treysta. Þessar stofnanir taka undir sjónarmið um að hnattræna hlýnunin nú sé af mannavöldum.

National Oceanic and Atmospheric Administration
Environmental Protection Agency
NASA's Goddard Institute of Space Studies
American Geophysical Union
American Institute of Physics
National Center for Atmospheric Research
American Meteorological Society
State of the Canadian Cryosphere
The Royal Society of the UK
Canadian Meteorological and Oceanographic Society
Academia Brasiliera de Ciencias (Brasilíu)
Royal Society of Canada
Chinese Academy of Sciences
Academie des Sciences (Frakkland)
Deutsche Akademie der Naturforscher Leopoldina (Þýskaland)
Indian National Science Academy
Accademia dei Lincei (Ítalía)
Science Council of Japan
Russian Academy of Sciences
Royal Society (Bretland)
National Academy of Sciences (Bandaríkin)
Australian Academy of Sciences
Royal Flemish Academy of Belgium for Sciences and the Arts
Caribbean Academy of Sciences
Indonesian Academy of Sciences
Royal Irish Academy
Academy of Sciences Malaysia
Academy Council of the Royal Society of New Zealand
Royal Swedish Academy of Sciences

Svo einhver séu nefnd.

7: Menn hafa nefnt til sögunnar Urban heating (gæti útlagst sem þéttbýlishitaaukning). Þar er því haldið fram að skekkja sé í mælingum vegna staðsetningu mæla innan þéttbýlis (staðbundin áhrif hafi áhrif á mælana og því sýni þeir hærri hita) og að það sem vísindamenn telji að sé hnattræn hækkun hitastigs sé til komið vegna þessarar skekkju.

Svar:   Það er ekki hægt að neita því að mælar innan þéttbýlis sýna sumir hverjir hærra hitastig en í dreifbýli. En þeir vísindamenn sem taka saman hnattræn gögn, eyða mikilli vinnu við að afmá þessi staðbundnu áhrif með því bera gögn frá þeim mælum saman við langtímagögn utan þéttbýlis. Í flestum tilfellum eru áhrifin lítil sem engin og falla innan skekkjumarka. Þess má þó geta að í 42% tilfella þá sýna mælarnir kólnun miðað við þá mæla sem eru utan við þéttbýli. Þeir mælar sem þó sýna hærra hitastig í þéttbýli fylgja sama trendi og mælar utan þéttbýlis, sem dæmi má nefna gögn frá London og nágrenni (brúni og dökkblái innan þéttbýlis, hinir utan þéttbýlis).

jones_london 

Það er því hægt að áætla, í fyrsta lagi að áhrif af Urban heating eru lítil og innan skekkjumarka og í öðru lagi þá sýna þeir mælar sem sýna hærra hitastig, sama trend og aðrir og styðja í raun að hitastig sé að hækka.

8: Breytingarnar eru litlar og ekki mark á þeim takandi þar sem skekkjumörkin eru of mikil. Þá er meðal annars vísað í mynd sem sýnir þessi skekkjumörk (sjá hér fyrir neðan).

glob_jan-dec-error-bar_pg


Svar:   Það skal í fyrsta lagi tekið fram að við erum að ræða um hnattræna hlýnun og það sem virðist vera lítil hækkun í hita yfir árið, getur haft mikil staðbundin áhrif í stuttan tíma (Ath: þetta er meðaltalshækkun yfir allan hnöttinn fyrir hvert ár).  

Það er hægt að hugsa sér þetta þannig, án ábyrgðar, að ef við búum í landi þar sem meðalhiti yfir árið er 20 gráður á selsíus og að hitinn hækki upp í 21 gráðu á selsíus, hvar kemur þessi hitaauking fram? Segjum að það gerist yfir sumartíman í þessu landi, þar sem hitinn er venjulega hvað um 30 gráður í nokkra daga. Það þarf ekki mikinn sérfræðing að sjá það að þessa nokkra daga sem hitinn hækkar upp úr öllu valdi, t.d. upp í 40-50 gráður að það hljóti að hafa neikvæð áhrif á það land.

Varðandi það að ekki sé mark takandi á þessum hitaferli vegna skekkjumarka, þá ætti að nægja að benda á bláu línuna sem dregin er í gegnum línuritið, en hún sýnir meðaltal óháð skekkju (skekkjan er að sjálfsögðu í báðar áttir, getur sýnt hærri hita og lægri hita). Þá skal á það bent að textinn undir þessari mynd er eftirfarandi:

Annual Average Global Surface Temperature Anomalies 1880-2006. Courtesy NOAA (Surface temperature records such as the one shown here have been quality controlled to remove the effects of urbanization at observing stations in and around cities.

Það er áhugavert að lesa þennan texta í samhengi við rök 7 hér ofar.

9: Magn CO2 af mannavöldum er sáralítill hluti af heildarmagni CO2 í lofthjúpnum. Að auki er CO2 það lítill hluti af gróðurhúsalofttegundunum að þau geta ekki haft áhrif, öfugt við t.d. vatnsgufu.

Svar:  Það er rétt að magn CO2 af mannavöldum er lítill hluti af heildarmagni CO2 . Hitt er þó annað að CO2 sem er ekki af mannavöldum er (eða var) í náttúrulegu jafnvægi. Allt aukreitis CO2 sem er af mannavöldum er því að setja hið náttúrulega kerfi úr balans. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá hvaða ferli stjórna CO2 magni í lofthjúp jarðar. Grænu örvarnar sýna kerfið eins og það var í jafnvægi fyrir iðnbyltinguna, en rauðu örvarnar sýna nýlegar breytingar = kerfi í ójafnvægi, því eykst koldíoxíð í lofthjúpnum hröðum skrefum og hitinn í kjölfarið.

26041103

Það að CO2 sé lítill hluti af gróðurhúsalofttegundum í lofthjúpnum miðað við aðrar gróðurhúsalofttegundir eins og vatnsgufu er líka rétt. Ólíkt utanaðkomandi öflum (eins og CO2) sem hægt er að bæta við lofthjúpinn, þá er vatnsgufa í lofthjúpnum fall af hitastigi. Vatn gufar upp í hlutfalli við hitastig við yfirborð jarðar og úthafa. Ef auka vatnsgufa bætist við lofthjúpinn, þá þéttist hún og fellur niður sem úrkoma á stuttum tíma (1-2 vikum).

Þar sem magn vatnsgufu er beintengt við hitastig  þá hefur það svokallaða jákvæða afturverkun (positive feedback) og er meginástæða þess hvers vegna hitastig er svo viðkvæmt gagnvart breytingum í CO2. Þegar hiti eykst (við útblástur CO2), þá eykst uppgufun vatns og vatnsgufa safnast saman í lofthjúpnum. Sem gróðurhúsalofttegund, þá dregur vatnsgufan í sig hita og hitar loftið meir og eykur því á uppgufun. Vatnsgufa sem gróðurhúsalofttegund eykur því á vandann sem útblástur á CO2 veldur.

 10: Aðrar plánetur og tungl í sólkerfinu eru að hitna, hvaðan kemur CO2 útblásturinn þar? Júpiter, Neptúnus, tunglið Tríton, Plútó og Mars eru öll að hitna, það hlýtur að vera sólin.

 Svar: Þetta tengist reyndar nokkuð lið númer 1, en samkvæmt þessum rökum er það sólin sem er að hita upp jörðina og aðrar plánetur í sólkerfinu. Rannsóknir á jörðinni, eina staðnum sem áreiðanlegar mælingar eru til, sýna að sólin er ekki að valda hlýnun á jörðinni. Útgeislun sólar er að minnka, en jörðin heldur áfram að hitna (þótt síðasta ár hafi verið það kaldasta þennan áratug, þá var það tíunda heitasta ár frá upphafi mælinga). Ekki hefur verið sýnt fram á að aðrar plánetur séu að hlýna af völdum sólar heldur.

Júpiter: Hitabreytingar á Júpiter eru taldar vera vegna breytinga í hitakerfi Júpiters sjálfs. Júpiter býr til  tvöfallt meira af orku en það fær frá sólinni.

Neptúnus: gögnin sem notuð eru til að tengja á milli virkni sólar og hita á Neptúnus eru röng, þ.e. virkni sólar heldur ekki í hendur við hita á neptúnus:

Svart þýðir gögnin sem miðað var við í greininni sem oftast er vísað til, rautt þýðir leiðrétt og uppfærð gögn.  Þegar rétt gögn eru skoðuð þá er ljóst að ekki er mikil fylgni þarna á milli.

Trítón: skilst mér að sé að hitna vegna þess að tunglið er að nálgast suðurskautssumar, sem gerist á nokkur hundrað ára fresti.

Plútó: Á Plútó er um tvær mælingar að ræða, með fjórtán ára millibili, sem mælir þykkt lofthjúpsins og gæti gefið í skyn hlýnun? Árið á plútó er held ég 248 jarðarár. Er ekki bara að koma vor á Plútó Wink Svo má geta þess að Plútó er 30 sinnum fjær sólinni en jörðin, ætti þá ekki að vera búið að kvikna í jörðinni fyrst sólin hefur þessi áhrif á plútó?

Mars: Það er óljóst með Mars þ.e. hvort það er að hlýna eða ekki. Fátt bendir til þess og þá er helst talað um að sandstormar geti haft áhrif til hlýnunar (þ.e. dökkur sandur dreyfir sig yfir ljósara svæði og dregur í sig meiri hita). En þótt ekki sé víst hvort Mars er að hlýna eða ekki, þá stendur eftir að það er nóg til af gögnum um sólvirkni og nóg til af gögnum um loftslag á jörðinni og niðurstaðan er sú að tengsl milli sólar og loftslagsbreytinga á jörðinni lauk á áttunda áratugnum. Auðvitað heldur sólin áfram að hita jörðina, en nú er það CO2 sem sér um að auka hitann á meðan áhrif sólar minnkar.

Rökin eru reyndar mun fleiri þar sem menn segjast hafa sannanir fyrir hinu gagnstæða, en þau eru flest hrekjanleg, enn um sinn.

Niðurstaða: Ég held að það geti enginn efast um að hlýnunin nú sé af mannavöldum, allavega ekki þeir sem skoða þau gögn sem eru til staðar og rök á bakvið þau. Ég er vissulega leikmaður í þessum fræðum, en ég er sannfærður á meðan engin betri rök koma fram sem sýna fram á hið gagnstæða.

Svo er það önnur rökræða, hvort t.d. efnahagur jarðarbúa þoli minnkun á útblástri, hvort Ísland hafi einhver áhrif, hvort þetta hafi góð eða slæm áhrif á Íslandi og annað slíkt. Mörg af þeim rökum eru frekar egósentrísk og snúast um það hvað er gott fyrir þá sjálfa í augnablikinu án þess að tekið sé tillit til stöðu jarðarbúa í heild eftir nokkra áratugi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Ég nenni ekki einu sinni að byrja á að hrekja þessa steypu, en vil benda höfundi á ráðstefnu efasemdarmanna, sem nú stendur yfir í Bandaríkjunum, undir verndarvæng "Heartland Institute"- stofnunarinnar. Ég bókstaflega ærist, þegar gróðurhúsamenn" byrja að messa um þessa skrýtnu trú sína. Kynntu þér málið!

Vilhjálmur Eyþórsson, 9.3.2009 kl. 22:19

2 Smámynd: Loftslag.is

Það er ekki ætlun mín að æra óstöðuga, ef þú ærist yfir þessu þá er það þitt mál en ekki mitt.

Loftslag.is, 9.3.2009 kl. 22:27

3 Smámynd: Loftslag.is

P.S. þú mátt samt endilega ræða málin hér á síðunni, við skulum þó reyna að hafa þetta á siðsamlegum nótum og skemmtilegast væri fyrir alla aðila ef einhver rök fylgja þegar menn segja sína skoðun á loftslagsmálum, það eru þúsundir rannsókna sem hægt er að vísa í, með og á móti.

Loftslag.is, 9.3.2009 kl. 22:39

4 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Á vefsíðu minni, vey.blog.is er að finna þrjár greinar um þetta efni, "Gróðurhúsaáhrif væru góð", "Jökullinn kemur" og "Úðabrúsar Eldlendinga". Raunar gæti ég sagt miklu meira en þar kemur fram, en eins og ég sagði áðan er einfalt að fara inn á vefsíðu Heartland Institute, þar sem stendur yfir ráðstefna fjölmargra virtra vísindamanna sem ekki taka mark á þessari steypu. Ég kanni ekki almennilega að setja inn link en adressan er þessi: file://localhost/Users/Villi/Desktop/Climate%20Alarm-%20What%20We%20Are%20Up%20Against,%20and%20What%20to%20Do%20-%20by%20Richard%20Lindzen,%20Ph.D.%20-%20News%20Releases.mht

Vilhjálmur Eyþórsson, 9.3.2009 kl. 22:51

5 Smámynd: Loftslag.is

Ég skal skoða þessar greinar þínar við tækifæri. Takk fyrir innlitið.

Loftslag.is, 9.3.2009 kl. 23:43

6 identicon

Flott grein og vonandi lesa hana sem flestir.

Sérstaklega finnst mér rökin hlægileg að vísindamenn séu að falsa eða mistúlka niðurstöður þar sem þeir fái svo mikla peninga fyrir að rannsaka GW. Sérstaklega þar sem olíufyrirtækin, stóriðjur sem og önnur stórfyrirtæki, sem hafa öll mikla hagsmuni af því að engar hömlur verði settar á losun gróðurhúsalofttegunda, styrkja öll rannsóknarmenn við loftlagsrannsóknir.

En staðreyndin er sú að flestir Íslandingar sem "trúa" ekki á GW gera það af einfaldri ástæðu. GW = hömlur á losun gróðurhúsalofttegunda = færri álver á Íslandi.

Karma (IP-tala skráð) 13.3.2009 kl. 12:03

7 Smámynd: Loftslag.is

Ég held að hluti af þeirri ástæðu að íslendingar eru vantrúaðir á hlýnun jarðar (að því er virðist vera, ef maður skoðar t.d. bloggin), sé vegna þess hvaðan umræðan er sem sterkust... umhverfisverndarsinnar eru hvað sterkasti hópurinn í því að breiða út boðskap vísindamanna og meirihluti Íslendinga þola ekki umhverfisvernasinna.. ástæðan fyrir því held ég að liggi í baráttuaðferðum Greenpeace hér fyrr á árum og að umhverfisvernd hefur ekki verið upp á pallborðið hjá Íslendingum síðan þá, þrátt fyrir að Íslendingar séu almennt séð vel menntaðir og vel að sér í málefnum heimsins...

Loftslag.is, 13.3.2009 kl. 12:25

8 identicon

Góð samantekt hér á gróðurhúsaáhrifunum og hlýnun jarðar. Ég efas þó um að þeir sem lesa áróðurinn frá Hartland Intitute komi til með að skylja þetta. Þessi stofnun er styrkt af Olíuiðnaðinum og getur ekkert sem þaðan kemur talist hlutlaust í þessari umræðu. Sumir af þeim vísindamönnum sem eru við þessa "virtu stofnun" eru einnig í afneitun um þróun.

Hartland stofnunin er hluti af Afneitunarvélinni.

Davíð Gíslason (IP-tala skráð) 13.3.2009 kl. 14:03

9 identicon

Nokkuð góð samantekt, þakka kærlega fyrir.

Hafþór Örn (IP-tala skráð) 13.3.2009 kl. 23:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband