Hvað með kólnunina eftir miðja síðustu öld?

Ein af klassísku rökunum gegn hlýnun jarðar af mannavöldum og maður heyrir stundum er svona:

Mótrök: Fyrst það var kólnun eftir miðja síðustu öld, þrátt fyrir vaxandi útblástur manna á koldíoxíði, þá er greinilegt að hitastig stjórnast ekki af koldíoxíði.

Best að byrja á að sýna mynd sem sýnir þessa kólnun nokkuð vel og hlýnunina þar á undan.

dn11639-2_808
Það er greinilegt að það hitnar töluvert frá byrjun tuttugustu aldar og að stríðsárunum, eftir það kólnar hratt og hlýnunin er hæg til loka áttunda áratugsins.

Til að gera langa sögu stutta, þá er ljóst að þeir vísindamenn sem aðhyllast kenninguna um hlýnun jarðar af mannavöldum, halda því ekki fram að koldíoxíð sé eini áhrifaþátturinn hvað varðar hnattrænan hita. Sveiflur í sólinni og eldgos hafa gríðarleg áhrif á  hitastig, eins og áður hefur verið minnst á hér. En eins og þessi mynd hér fyrir neðan sýnir, þá skýra manngerð gróðurhúsaáhrif ásamt þessum náttúrulegu þáttum, hækkunina síðastliðna áratugi.

HB_ErVedurfarAdBreytast_mynd2 

Hitafrávik við yfirborð jarðar á síðustu öld. Svarta breiða línan sýnir athuganir, fíndregnu línurnar sýna niðurstöður margra loftslagslíkana þar sem geislunarálgið þróaðist í samræmi við aukningu gróðurhúsalofttegunda og náttúrulegra þátta (s.s. breytinga á sólgeislun og loftarða vegna eldgosa). Breiða rauða línan sýnir meðaltal líkananna. Stærstu eldgos á 20. öldinni eru einnig merkt inn á myndina. b) Eins og í a) - nema í loftslagslíkönunum var ekki tekið tillit til áhrifa gróðurhúsalofttegunda (mynd og texti fengin af heimasíðu Veðurstofunnar).

Það eru því helst náttúrulegir þættir sem áttu þátt í kólnuninni eftir miðja síðustu öld (sveiflur í sólinni og eldgos), en auk þess virðist hafa verið óvenju hlýtt í kringum seinni heimstyrjöldina (miðað við mælda uppsveiflu þá). Einnig hefur verið bent á að mikill iðnaður var eftir seinni heimstyrjöldina, án reglugerða um mengun (sót og ryk sem hindraði óhefta geislun sólar gegnum lofthjúpinn á ensku aerosols). Það var ekki fyrr en að reglugerðir voru hertar sem dró úr þeirri mengun.

Myndin sýnir samt bara samanburð á líkani og mælingum, óvissuþættir eru margir og sveiflur í hita miklar (mögulega einnig tengdar El Nino og fleiri breytingum sem hafa áhrif á hita hnattrænt). Þrátt fyrir allt þá virðist líkanið standa nokkuð traustum fótum, þótt sveiflurnar séu miklar.

Niðurstaða: Það er ýmislegt annað en gróðurhúsalofttegundir sem hafa haft áhrif á hitastig jarðarinnar í gegnum tíðina. Þær eru þó meginþátturinn í þeirri hlýnun sem menn hafa orðið vitni að undanfarna áratugi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband