Hví að blogga um loftslagsmál?

Ég tók það upp hjá sjálfum mér að blogga um loftslagsmál fyrir nokkrum vikum síðan, því mér fannst sem sumir bloggarar og lesendur þeirra væru í mörgum tilfellum að fara með rangt mál, en margir hverjir hafa ansi skrítnar upplýsingar í höndunum um það hvað er að gerast á þessari jörð - sumir halda að ekki sé að hlýna, aðrir segja að ekki sé að hlýna af mannavöldum og sumir halda því jafnvel fram að það sé bara gott ef það er að hlýna. Áður hafði ég skautað í gegnum hitt og þetta og komist að þeirri niðurstöðu að líklega væri jörðin að hlýna og að allt benti til þess að það væri af mannavöldum, en ég var alls ekki viss en hafði gaman af því að rökræða þessi mál og finna upplýsingar með og á móti. Skemmtilegt áhugamál jafnvel.

Fyrst eftir að ég byrjaði að blogga um þetta, þá tók ég það því upp á mitt einsdæmi að skoða þær upplýsingar sem eru til á netinu, en netið er endalaus uppspretta upplýsinga um hin ýmsustu álitamál.  Ég hef eytt ótal kvöldstundum síðustu vikur við að skoða hitt og þetta um þessi mál, en á netinu má finna hafsjó af upplýsingum um hlýnun jarðar af mannavöldum og einnig fullt af síðum um menn sem fullyrða að kenningin sé röng.

Ég las bókina Gróðurhúsaáhrif og Loftslagsbreytingar eftir Halldór Björnsson, auk þess sem ég hef blaðað í gegnum skýrslu sem gefin var út í fyrra um áhrif hnattrænna loftslagsbreytinga á Íslandi (pdf 10 mb). Þessi rit eru á vel skiljanlegu máli og enginn heimsendastíll í þeim, en rauði þráðurinn er þó sá að hlýnun jarðar af mannavöldum er raunveruleg og áhrifa þeirra gætir nú þegar og að allt bendir til þess að þetta eigi eftir að versna.

Þetta var í ákveðinni mótsögn við margt af því sem maður hefur verið að lesa á erlendum netsíðum, en þar eru ákveðnar síður sem endurspegla þær skoðanir sem margir netverjar íslenskir halda fram um hlýnun jarðar, að búið sé að afsanna kenningar um hlýnun jarðar af mannavöldum, talað um samsæri vísindamanna og annað í svipuðum stíl.

Svo rak á fjörur mínar Ritið: 1/2007 og Ritið 2/2008 (takk Guðni). Það síðarnefnda verð að segja að ætti að vera skyldulesning fyrir áhugafólk um loftslagsbreytingar - þá á ég að sjálfsögðu við greinarnar sem fjalla um hlýnun jarðar (en fjölbreyttar greinar um önnur mál eru í þessu tímariti).

Ég ætla að fjalla lítillega um Ritið 2/2008, en mæli einnig með grein Guðna í Ritinu 1/2007 sem fjallar um gróðurhúsaáhrifin og íslenska umræðuhefð.

1012690    1015085

Þar er grein eftir Þorstein Vilhjálmsson sem heitir Viðhorf og vistkreppa, sem er eiginlega sögulegt yfirlit um hugmyndir að vistkreppu, auðlindaþurrð og hlýnun jarðar. Einn punktur vakti helst athygli mína en það er að spár um framtíðina (t.d. hlýnun jarðar), eru ekki í raun forsagnir um það sem koma skal, heldur aðvaranir um það sem getur gerst ef ekki verður brugðist við, því falla þessar spár um sjálft sig ef brugðist er við vandanum (eins og gert var með ósonlagið). Þetta eru því ekki í raun heimsendaspámenn, heldur eru þetta aðvaranaorð frá mönnum sem hafa vit í sínu fagi. Lokaorðin voru líka viðeigandi:

Að lokum er rétt að tilfæra hér frægt spakmæli frá Kenía sem lýsir kjarna málsins. Í rauninni ættu allar ritsmíðar um umhverfismál að enda á því:

Við höfum ekki fengið jörðina til eignar frá foreldrum okkur; við höfum hana að láni frá börnunum okkar.

Grein Halldórs Björnssonar og Tómasar Jóhannessonar er skyldulesning, þar er fjallað um á einföldu máli hvað er lagt til grundvallar kenningunni um gróðurhúsaáhrifin og hlýnun jarðar og afleiðingar þeirra. Einnig er farið yfir nokkur rök efasemdamanna um hlýnun jarðar af mannavöldum og þau hrakin.

Þarna var einnig grein eftir Snorra Baldursson um áhrif hlýnunar á lífríki jarðar og Íslands, svolítið yfirborðskennt enda um víðfeðmt efni að ræða og erfitt að kafa djúpt í slíkt í lítilli grein í tímariti - þetta efni á erindi í bók og mæli ég með að einhver kýli á að skrifa þá bók. Fínt yfirlit samt.

Þá er merkileg grein eftir Guðna Elísson um efahyggju og afneitun. Fjallar hann um pólitíkina í kringum þetta viðfangsefni og umfjöllun manna hér á landi um hlýnun jarðar. Mjög uppljóstrandi og lýsir hann ótta frjálshyggjumanna við þessar kenningar og hvernig þær geti grafið undan þeirra hugmyndum um frelsi (þetta er mín túlkun). Hann vitnar í Hannes Hólmstein hér:

"Hvers vegna ættum við að afsala okkar þægilegu lífi venjulegs Vesturlandamanns fyrir orð þeirra ein? Kapitalisminn hefur fært okkur stórkostleg lífsgæði. Ég ætla ekki í björgunarbátana, fyrr en ég er viss um, að skipið sé að sökkva," sagði Hannes Hólmsteinn Gissurarsson í einni af mörgum greinum sínum um umhverfismál um þá sem varað hafa við hættunni af alvarlegum loftslagsbreytingum. Skipið sem Hannes vísar til er jörðin sjálf, en Hannes fer ekki nánar út í hvert hann ætlar að fara.

Það sem vakti þó einna helst athygli mína var þýdd grein í Ritinu og er eftir George Monbiot, en sú grein fjallar um afneitunariðnaðinn. Eftir lestur þeirrar greinar áttar maður sig á þeim sterku öflum sem hvíla þungt á baki margra af þeim röddum sem eru hvað háværastar um það að hlýnun jarðar af mannavöldum sé bull. Búið er að sá efasemdafræjum víða (og hér á landi virðast þau vaxa vel).

Margir geta vottað það að ég hef verið duglegur síðustu vikur að blogga um þetta málefni og jafnvel svarað færslum annarra um þessi mál og reynt að rökstyðja mál þeirra sem halda því fram að hlýnun jarðar af mannavöldum sé veruleiki. En alltaf koma upp aftur og aftur sömu rökin, sem hafa verið hrakin og því fer þetta að verða leiðingjarnt til lengdar. Því er ég mikið að íhuga að hætta þessu bara, leyfa efasemdaröddunum að eiga sig, enda virðist pólitíska landslagið loks vera að lagast út í hinum stóra heim (Obama virðist ætla að gera góða hluti og loks er kominn forseti sem er ekki í eigu afnetunarsinnanna). Þá er sá flokkur hér á landi sem er hvað harðastur á því að hlýnun jarðar af mannavöldum sé ekki staðreynd, kominn í stjórnarandstöðu og vonandi tekur við ríkisstjórn sem tekur á þessum málum af festu.

Því er það eingöngu vandræðalegt að hér á landi skuli vera svona sterkar raddir á móti kenningunni um hlýnun jarðar, en ég held að það muni ekki hafa nein úrslitaáhrif á þróunina hnattrænt séð - þótt vissulega séu Íslendingar hálfgerðir umhverfissóðar hvað varðar útblástur CO2  - og þótt eingöngu væri fyrir stolt okkar sem upplýsta þjóð, þá ættum við að standa okkur betur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ekki hætta!

Sigurður Þór Guðjónsson, 27.4.2009 kl. 11:49

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er einmitt mikil þörf á svona síðu, þó ekki væri nema sem mótvægi við Ágúst H. Bjarnason þar sem því miður safnast saman ýmsir mestu bullukollar landsins. Ég les síðuna þína reglulega og finnst að hún mætti fremur færast í aukana en hitt.

Sigurður Þór Guðjónsson, 27.4.2009 kl. 11:55

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég sammála Sigurði þó ég vilji ekki kalla menn bullukolla. Kenningin um hlýnum jarðar af mannavöldum er þess eðlis að hún verður alltaf umdeild sama hversu vel hún er rökstudd enda krefst hún þess að gripa þarf til aðgerða sem ekki allir geta sætt sig við og þar kemur pólitíkin inn í. Reyndar finnst mér ýmislegt til í sumu sem efasemdaarmenn segja en gallinn við flestar síður á netinu sem fjalla um þessi mál áróðurskeimurinn sem skín alltaf í gegn hvort sem menn eru að verja gróðurhúsáhrifin eða gagnrýna.

Emil Hannes Valgeirsson, 27.4.2009 kl. 12:51

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Æ, má maður ekkert segja!

Sigurður Þór Guðjónsson, 27.4.2009 kl. 16:57

5 Smámynd: Loftslag.is

Jú jú... bullukollar eru þetta, en það er ég líka

Ég hugsa að ég haldi nú áfram þegar og ef ég sé eitthvað skemmtilegt eða fræðandi til að fjalla um, aldrei að vita.

Eða eins og margir myndu segja (þ.e. þeir sem halda því fram að hlýnun jarðar af mannavöldum er bull):

"Trúboðið heldur áfram"

Loftslag.is, 27.4.2009 kl. 21:31

6 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Mér vitanlega eru ekki stundaðar miklar rannsóknir á þyngdarlögmáli Newtons þessa dagana. Væntanlega vegna þess að ef hlutur er ekki nálægt ljóshraða hafa ekki verið birtar neinar mæliniðurstöður sem benda til þess að þyngdarlögmál Newtons sér rangt. Segja má því að þyngdarlögmál Newtons sé viðtekin vísindaleg staðreynd.

Segjum sem svo að hættuleg hlýnun af mannavöldum væri vísindaleg staðreynd sem ekki þyrfti að ræða frekar. Það sé einfaldlega rétt að nú sé tími aðgerða.

Hvers vegna er þá ekki búið að leggja niður IPCC nefnd Sameinuðu þjóðanna? Hvers vegna er það að næstum því hver einasta skýrsla um loftslagsrannsóknir endar á því að benda á að það sé nú hitt og þetta sem þurfi að rannsaka betur?

Er ekki einhver mótsögn í þessu?


Enn eitt, finnst engum skrýtið að Hugvísindastofnun Háskóla Íslands skuli  standa að útgáfu efnis um loftslagsmál? Stæði það ekki nær Raunvísindastofnun? Eða er þetta enn ein sönnun þess hversu pólitískt þetta mál er.

Finnur Hrafn Jónsson, 28.4.2009 kl. 22:12

7 Smámynd: Loftslag.is

Þú spyrð hvers vegna ekki er búið að leggja niður IPCC -
Ég spyr á móti eru ekki yfirvöld í Bandaríkjunum fyrst núna að viðurkenna staðreyndina um hlýnun jarðar? 
Er ekki eitt af hlutverkum IPCC að safna saman upplýsingum um hvað sé að gerast, hvaða áhrif það hefur á samfélög manna og hvernig hægt sé að bregðast við því?
Heldurðu að það hætti þótt vísindamenn séu almennt sammála um það?
Það að menn telji að eitthvað sé 95% öruggt að sé að gerast, gerir það ekki að verkum að menn hætti að fylgjast með þróuninni.

Finnur: Ertu búinn að lesa Ritið?  Það er mjög upplýsandi - mæli svo sannarlega með því að þú lesir það.

Raunvísindamenn skrifuðu flestar greinarnar um hlýnun jarðar í Ritið - ef Raunvísindamenn eru hlutlausari en hinir, þá sérðu að þetta hlýtur að vera frekar hlutlaust :)

Loftslag.is, 28.4.2009 kl. 22:56

8 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Bush fyrrverandi Bandaríkjaforseti lét undan loksins í fyrra eða hitteðfyrra. Sem mér finnst enn ein staðfestingin á því hve lélegur forseti hann var. CIA gaf nýlega út skýrslu þar sem miklum áhyggjum er lýst af áhrifum manngerðar hlýnunar. Allir vita nú að hvorki Bush eða CIA eru líkleg til hafa rangt fyrir sér

Mér finnst að þegar vísindamenn eru komnir að einhverri niðurstöðu sé hlutverki þeirra lokið í því máli. Það er síðan mál almennings og stjórnmálamanna að taka ákvarðanir byggðar á þeim niðurstöðum. Það er ekki hlutverk vísindamanna að fela sig á bak við rannsóknir þegar þeir eru í raun að reyna að vinna einhverjum málstað fylgis.

Þór Jakobsson veðurfræðingur er alveg með þetta á hreinu. Hann lýsti því yfir að hann teldi að 10% af hlýnun stafaði af mannavöldum (sem mér finnst sennilegt). Einnig lýsti hann þeirri skoðun sinni að það væri alvarlegt og kallaði á aðgerðir (sem ég er ósammála). Hann gerði skýran greinarmun á niðurstöðu sinni sem vísindamaður og sinni pólitísku skoðun.

Nei ég hef ekki séð Ritið, fæst það í bókabúðum?

Það ætti að vera auðveldara fyrir raunvísindamenn að vera hlutlausir en hugvísindamenn en mér sýnist að mörgum þeirra takist það illa.

Finnur Hrafn Jónsson, 28.4.2009 kl. 23:14

9 Smámynd: Loftslag.is

Ritið ætti að fást í bóksölu stúdenta - ef ekki þar þá á Hugvísindastofnun http://www.hugvis.hi.is/page/hugvis_Ritid_Hlynun_jardar - þar hlýtur allavega að vera til nóg af eintökum.

Annars var ég á jarðfræðiráðstefnu í dag og þar voru tveir fyrirlestrar um afleiðingar hlýnunar - mjög áhugavert... mun væntanlega fjalla um það hér á síðunni við tækifæri.

Loftslag.is, 28.4.2009 kl. 23:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband