Loftslagsumræða á Íslandi

Sjálfhverfni er hluti af mannlegu eðli, menn hugsa hlutina oftast nær út frá eigin hagsmunum.

Svona orðaði kunningi minn hlutina þegar við vorum að ræða Evrópumálin fyrir nokkrum vikum síðan. Þessi orð fengu mig til að hugsa um loftslagsumræðu á Íslandi.

Þessi sjálfhverfni gæti mögulega verið hluti af ástæðunni fyrir því af hverju margir Íslendingar taka umræðuna um hlýnun jarðar af mannavöldum vetlingatökum.

Getur það verið að meirihluti Íslendinga sé að hugsa þetta eingöngu út frá eigin hagsmunum?  

Oft heyrir maður að hlýnun jarðar sé bara nokkuð jákvæð fyrir okkur Íslendinga. Hér á landi sjá menn fyrir sér ýmsa kosti - skógrækt og akuryrkja virðist vera eitthvað sem menn horfa til, alþjóðleg uppskipunarhöfn vegna bráðnunar hafíss norðurskautanna, auk þess sem suma þyrstir í það að geta verið í stuttermabol úti í garði að grilla allt sumarið eða fara niður á sólarströnd og baða stæltan kroppinn.

Ef þetta er ástæðan fyrir hugsunarleysi manna hér á landi, hvað varðar hlýnun jarðar, þá er fólk ekki alveg með á nótunum. Því ef allt fer á versta veg þá er svo margt sem er búið að fara úrskeiðis í heiminum að það er eiginlega varla hægt að ímynda sér það né afleiðingarnar þess, meðal annars fyrir okkur Frónbúa.

Ég sé fyrir mér flóttamenn og stríðsátök víða um heim vegna hlýnunarinnar, uppskerubrest vegna þurrka og flóða, auk þess sem almenn eymd í heiminum getur orðið til þess að farsóttir breiðist út af meira offorsi en áður hefur þekkst, sem hafa munu áhrif um allan heim. Allt þetta kemur okkur við og mun hafa áhrif hér á landi.

Það er einnig talið víst að aukaafurð hlýnunarinnar, hin svokallaða súrnun sjávar, muni hafa mikil áhrif á lönd sem byggja mikinn hluta af tekjum sínum á fiskveiðum.

Það sagt, þá ættu jafnvel þeir sem vilja hag Íslands sem bestan að sjá það í hendi sér að við verðum að draga úr losun CO2 sem fyrst, því það er fyrirsjáanlegt að afkoma okkar Íslendinga verði ekkert betri þótt jörðin hlýni (og sjórinn súrni) - það er öðru nær.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Nokkuð vel orðað hjá kunningjanum þínum. Annars tek ég undir það sem þú ritar í þessari færslu, það þarf hugarfarsbreytingu hjá landanum varðandi þessi mál. Um leið og sú hugarfarsbreyting hefur átt sér stað verður auðveldara að fara að vinna í lausnunum.

Sveinn Atli Gunnarsson, 13.8.2009 kl. 21:53

2 Smámynd: Loftslag.is

Ég hugsa að þetta eigi við um jarðarbúa í heild.. maður heyrir allavega sömu rökin þegar maður les bandarísk blogg...

Loftslag.is, 13.8.2009 kl. 22:00

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Dettur þér aldrei í hug að þú og ýmsir aðrir geri of mikið úr afleiðingum af spáðri hlýnun sjávar? Og einu vil ég bæta við: Hér áður fyrr fögnuðu Íslendingar óvenjulegum hlýindum þegar þau gengu yfir landið en nú er það að hverfa. Nú er það allt séð sem útsláttur frá hlýnun jarðar og af hinu vonda. Öll veðurgleði er að hverfa.

Sigurður Þór Guðjónsson, 21.8.2009 kl. 14:00

4 Smámynd: Loftslag.is

Sigurður - því að taka sénsinn á því?

Loftslag.is, 29.8.2009 kl. 00:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband