Færsluflokkur: Kenningar

Eldgos - áhrif á loftslagsbreytingar?

Nú eru tvö eldgos í gangi, eitt sunnanvert í Kyrrahafi - neðansjávareldfjallið Tonga og annað í Alaska - Redoubt

Hér er tengill á brjálaðan bloggara sem fylgist nokkuð vel með þessum gosum og þá sérstaklega gosið í Redoubt.

Eins og ég hef minnst á áður, þá geta stór eldgos haft áhrif til kólnunar loftslags, í nokkra mánuði og jafnvel 1-2 ár ef eldgosið er kröftugt.

Á heimasíðu Veðurstofunnar er minnst á áhrif eldgosa lítillega hvað varðar loftslagsbreytingar:

Mjög stór eldgos geta haft umtalsverð áhrif á veðurlag en eru hins vegar flókin og verða ekki rakin hér. Í flestum tilvikum standa áhrifin aðeins í nokkra mánuði og upp í um tvö ár. Að meðaltali valda eldgos kælingu, tímabil þegar stór gos eru tíð eru því heldur kaldari en tímabil þar sem þau eru sjaldgæf. Unnið er að úttektum á eldgosum aftur í tímann. Er þá einkum stuðst við afurðir þeirra í ískjörnum.

Mögnuðustu eldgosin spúa ösku og brennisteinsríkum lofttegundum (SO2) í miklu magni út í andrúmsloftið, sem dreifir sig um veðrahvolfið (troposphere) og heiðhvolfið (stratosphere) en mörkin eru í um 10-12 km hæð. Þar dreifa þau sig sem ský um lofthjúp jarðar á nokkrum vikum. Við það dregur úr inngeislun sólar sem nær yfirborði jarðar og meðalhiti jarðar lækkar.

Gott dæmi um þetta er eldgosið í Pinatubo 1991 í Filippseyjum.

Mynd af gosmekkinum í Pinatubo eldfjallinu, júní 1991
Eldfjallið gaus 12. júní 1991 og gosmökkurinn náði í allt að 20 km hæð. Það framleiddi um 5 rúmkílómetra af dasíti (ísúr-súr gosefni) og 20 milljón tonn af lofttegundinni SO2 (brennisteinsdíoxíði) mesta magn sem mælst hefur. Lofttegundin fór upp í heiðhvolfið og var búin að umlykja hnöttinn á þremur vikum.

Brennisteinsdíoxíð og fíngerð aska dreifði sig um allan hnöttin. 

Við það minnkaði inngeislun sólar um heil 10% á Hawaii:

pinatubo 

Þaö er talið að hitastig jarðar hafi lækkað hnattrænt séð um 0,5 gráður á sesíus í 2-4 ár vegna eldgossins í Pinatubo.

Short_Instrumental_Temperature_Record
Mynd sem sýnir greinilega kónunina tengda eldgosinu í Pinatubo.

Nú er það spurning, geta eldgosin í Alaska eða Tonga haft þessi áhrif?

gvp_09-03-11
Á þessu korti má sjá Tonga sem rauðan þríhyrning austur af Ástralíu (norðaustur af Nýja Sjálandi) og Redoubt sem er í Alaska (Norður Ameríku) sést einnig sem rauður þríhyrningu.

Tonga: 

Við skulum byrja á Tonga, sem er neðansjávargos sem hefur náð yfirborði sjávar og minnir því um margt á eldgosið í Surtsey (enda er það kalla "Surtseyan eruption").

xin_29203061920419373195325
Mynd af eldgosinu í Tonga.

Tonga er í Suður Kyrrahafi, norðaustur af Nýja Sjálandi.

NZ1
Hér má sjá tektónískt kort af svæðinu en þar er úthafskorpa kyrrahafsplötunnar að skríða undir úthafskorpu Ástralíuplötunnar. Við það myndast eyjabogar.

hafsbotnsskorpa_2_030103

Við þess háttar eldgos myndast oft öflug eldgos, oft ísúr að efnasamsetningu (andesít).

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef, þá byrjaði gosið þann 16. mars síðastliðinn og náði gosmökkurinn upp í um 10 km hæð. Svo virtist sem gosið væri í rénum þann 20. mars og því er hægt að áætla enn sem komið er að það verði ekki eins öflugt og eldgosið í Pinatubo - það verður þó fróðlegt að skoða framhaldið því það er ekki útilokað að það haldi áfram og auki styrk sinn og jafnvel að það geti lækkað hnattrænan hita um einhver brot úr gráðu í einhverja mánuði.

Redoubt:

Búist hefur verið við gosi í eldfjallinu Redoubt síðan í lok janúar, en það var ekki fyrr en í gær (23. mars að morgni dags hér en rétt fyrir miðnætti 22. mars að staðartíma) sem eldgosið byrjaði af alvöru.

redoubt_2009-03-23_avo05
Mynd frá því í gær (23. febrúar) af Redoubt eldfjallinu.

Það er hægt að segja svipaða sögu af eldfjallinu Redoubt og Tonga, nema hvað að þar er kyrrahafsflekinn að reka undir norðurhluta norðurameríkuflekans sem er meginlandsfleki og því eru gosefnin ísúr og súr (eins og Tonga og Pinatobu).

13

Stutt er liðið frá því að eldgosið hófst, en nú þegar hefur gosmökkurinn náð upp í um 18 km hæð og því nálgast það að vera jafn öflugt og eldgosið í Pinatubo.  En mun það hafa áhrif á loftslag?

Í stuttu máli sagt, það er ólíklegt af nokkrum ástæðum:

  1. Staðsetning. Eldgos á svona norðlægum slóðum hefur takmörkuð áhrif á loftslag, þar sem askan og brennisteinsdíoxíðið nær ekki að dreifast nema um takmarkað svæði umhverfis norðurpólinn (myndar þó magnað sólarlag meðan áhrifin endast). Við miðbauginn þá dreifast um mun stærra svæði vegna háloftavinda til suðurs og norðurs.
  2. Framleiðsla brennisteinsdíoxíðs: Reynslan sýnir okkur að Redoubt eldfjallið framleiðir mun minna af SO2 en Pinatubo (tæplega 1% í síðasta eldgosi 1989-1990)
  3. Þar sem stutt er frá síðasta gosi, þá er ólíklegt að mikil kvika hafi safnast saman í kvikuhólfi Redoubt og því ekki líklegt að það haldi dampi lengi.
  4. Öskumagn bendir til þess að þetta verði ekki mjög öflugt eldgos.

Í leit minni að heimildum, þá rakst ég á stutta en skemmtilega grein um nokkur eldgos sem hafa haft nokkur áhrif á menn og mannkynssöguna, sjá hér.

En já, enn sem komið er er ólíklegt að eldgosin í Tonga og Redoubt eigi eftir að hafa einhver áhrif á loftslag jarðarinnar - en það kemur í ljós.... við vitum jú að loftslag kemur ekki fram á línuritum fyrr en eftir nokkur misseri.


mbl.is Eldgos í Alaska
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef Norður-Atlantshafsstraumurinn stöðvast.

Hérna er áhugaverð frétt af visir.is

Vísir, 17. mar. 2009 08:11

Hætta á flóðum eykst við austurströnd Bandaríkjanna

mynd
Sjórinn við Manhattan í New York.

Atli Steinn Guðmundsson skrifar:

Hlýnunin er talin munu valda því að hafstraumar í Atlantshafinu breytist á þann veg að mun meiri sjór berist að austurströnd Bandaríkjanna en áður hefur gerst og muni þessi breyting hækka yfirborð sjávar um allt að 51 sentimetra fyrir eða um árið 2100.

Frá þessu greinir rannsókn sem birtist í tímaritinu Nature Geoscience í dag en hana framkvæmdu vísindamenn við ríkisháskólann í Flórída. Talsmaður rannsakendanna segir að þetta geti haft töluverða þýðingu fyrir borgir á borð við New York, Boston og Washington þegar fram líða stundir og eru borgaryfirvöld í New York þegar tekin að ræða hvernig bregðast megi við hækkun sjávarborðsins í framtíðinni.

Vísindamennirnir segja áhrif hnattrænnar hlýnunar mun hraðvirkari en áður var talið, til dæmis hafi ýmis reikningsdæmi og spár sem lögð voru fram á stórri loftslagsráðstefnu árið 2007 gjörbreyst nú þegar, innan við tveimur árum síðar.

Mér skilst eftir að hafa lesið sambærilegar greinar um málið á erlendum vefmiðlum að það sé ekki beint meiri sjór sem að muni berast að austurtrönd Bandaríkjanna, heldur muni Norður-Atlanshafsstraumurinn hægja á sér það mikið að sjórinn mun hitna við austurströnd Bandaríkjanna. Við það muni sjórinn í fyrsta lagi þenjast út og sjávarborð rísa (vatn þenst út við hita), auk þess sem hitamismunur á milli hafs og lands eykst og þar með aukast fellibylir og krappar lægðir á þessu svæði - en við krappar lægðir þá rís sjávarborð enn meir (vegna lágs loftþrýstings og vegna þess að vindur ýtir sjóinn upp að landinu).

Það skal tekið fram að greinin birtist í Nature Geoscience og voru niðurstöðurnar fengnar með því að skoða þau loftslagslíkön sem IPCC notaði í sinni samantekt á hlýnun jarðar.

Sjá frétt af Science Daily :Sea Level Rise Due To Global Warming Poses Threat To New York City og af National Geographics news: New York Seas to Rise Twice as Much as Rest of U.S.

¨¨¨¨¨¨¨¨¨¨¨¨¨¨¨¨ 

Undirliggjandi í þessari frétt er nokkuð sem ég hef tæpt á áður hér á Loftslagsblogginu, þ.e. breytingar úthafsstrauma.  Mitt helsta áhyggjuefni hvað þetta varðar er möguleikinn á því að kaldur næringarríkur sjór úr norðri hætti að blandast heitum næringaríkum sjó úr suðri - sem myndi hafa geigvænleg áhrif á sjávarlífverur við Íslands strendur. 

Iceland%26Greenland_area_ocean_currents
Hafstraumar við Ísland

Næring átunnar er uppruninn við þessa blöndun og átan er fæða annarra lífvera (t.d. síli, loðnu og síld) sem aftur er undirstaða lífvera hærra í fæðukeðjunni (t.d. þorsks og ýsu). Sem sagt slæmt mál ef þessi blöndun hættir við Íslandsstrendur. [Hér er grein sem er nokkuð löng, en mér sýnist hún fjalla um þetta að einhverju leiti, á eftir að skoða hana - en set hana hér til minnis - Fisheries and aquaculture in the Central North Atlantic (Iceland ...]

Það er þó ekkert að óttast í bili (einhverjir áratugir geta verið í þetta ef spár ganga eftir), því þótt það hafi hægt eitthvað á þessari blöndun þegar ein af pumpunum stöðvaðist (í áratug), þá kom hún sterk aftur til baka árið 2007-2008. Þessi pumpa er keyrð áfram við það kalt þungt vatn í Norður-Atlantshafi sekkur á veturna. Við það þá dregur hann heitan yfirborðssjór úr hitabeltinu norður eftir Atlantshafi. Samkvæmt vísindamönnunum þá hægði á pumpunni vegna hlýnunar jarðar, en ástæða þess að hann fór aftur af stað er talin vera að hluta til vegna þess að veturinn var óvenju kaldur á Norður-Atlantshafi. Sem dæmi þá segir á heimasíðu Veðurstofu Íslands:

Meðalhiti vetrarins var rétt yfir meðallagi í Reykjavík en svo hlýtt hefur verið undanfarin ár að hann var sá kaldasti frá 2002. Á Akureyri var vetrarhitinn -0,6 stig og er það 1 stigi ofan meðallags þó veturinn sé sá kaldasti frá 2002 eins og í Reykjavík.

ice 

Mikill hafís var í Labrador sundinu sumarið áður sem síðan fraus um veturinn, þannig að hafís náði lengra frá landi en venja er. Við það náði kalt loft frá Norður-Ameríku að ferðast lengra yfir ís áður en það fór yfir hlýjan sjóinn. Hitastigsmunurinn setti svo af stað pumpuna. Svo er hér punktur frá vísindamönnunum:

“that the increased liquid and frozen freshwater flux into the Labrador Sea was probably tied to the large export of sea ice from the Arctic Ocean that contributed to the record minimum in sea-ice extent observed in the summer of 2007. Ironically, this disappearance of Arctic sea ice, which has been linked to global warming, may have helped trigger the return of deep wintertime [water sinking] to the North Atlantic.”

Það er sem sagt talið að hér hafi hlýnun jarðar slökkt á pumpunni, en að sama skapi hafi hún sett hana af stað aftur með því að bræða hafís á Norðurskautinu.

Þessi mikli útúrdúr sem þessi færsla hefur farið segir í raun að þó jörðin hlýni, þá er ekki víst að það slokkni á úthafsstraumum endanlega, þó margt bendi til þess að það geti gerst. Ef það aftur á móti gerist, þá yrðu afleiðingarnar nokkuð skelfilegar eins og rannsóknin sem vísað er í, í upphafi færslunar gerir ráð fyrir.  Margt annað má sjá fyrir sér, t.d. geta  afleiðingarnar orðið þær, ef hinn hlýi Norður-Atlantshafsstraumur hægir á sér eða stoppar, að hér geti kólnað umtalsvert, sjá t.d. Could Global Warming Cause a Mini Ice Age?


ACRIM eða PMOD - deilur um útgeislun sólar

Fólk hváir sjálfsagt yfir titlinum á þessari færslu, leyfið mér að útskýra:

Ég var að skoða enn sem áður fyrr bloggsíðu Ágúst H Bjarnasonar,, en hann er hafsjór fróðleiks um loftslagsmál. Hann hallast örlítið í efasemdarátt um að hlýnun jarðar sé af mannavöldum (vona að honum sé sama þótt ég túlki skoðanir hans svona, en oftar en hitt þá kemur hann með hlið efasemdarmanna).

Hann setti inn á bloggsíðu sína nýja grein sem segir að útreikningar á útgeislun sólar útfrá gervihnattamælingum bendi til þess að það sé mögulega sólin sem sé að valda hlýnun á jörðinni.

Málið snýst um að túlka gögn sem líta svona út og fá þau til að fitta saman svo það verði samfeldur ferill samanber eyðuna sem kölluð er ACRIM GAP á myndinni (þannig skil ég það allavega eftir að hafa reynt að lesa mig til á netinu):

earth_obs_fig1
Daglegt meðaltal útgeislunar sólar frá nokkrum mismunandi gervihnöttum frá nóvember 1978 (mynd frá acrim.com - smella á tvisvar til að fá stærri útgáfu).

Tveir hópar hafa túlkað gögn frá þessum gervihnöttum á mismunandi hátt

earth_obs_fig27
Túlkun PMOD (mynd frá acrim.com - smella á tvisvar til að fá stærri útgáfu).

PMOD túlkar gögnin á þann hátt að sólin hafi minnkað lítillega útgeislun sína á þessu tímabili (nánast staðið í stað fyrir utan reglulegar sveiflur).
Niðurstaða: Hlýnun undanfarna áratugi tengjast ekki virkni sólar og því er hlýnunin af mannavöldum.

 

earth_obs_fig26
Túlkun ACRIM (mynd frá acrim.com - smella á tvisvar til að fá stærri útgáfu).


ACRIM túlkar gögnin á þann hátt að sólin hafi aukið lítillega útgeislun sína á þessu tímabili.
Niðurstaða: Hlýnun undanfarna áratugi tengjast mögulega aukinni virkni í sólinni og því er hlýnunin ekki af mannavöldum

Það kemur kannski ekki á óvart en báðir aðilar segja hinn hafa túlkað gögnin vitlaust, sjálfsagt verður um það deilt áfram á næstunni eftir þessa nýju grein, en auðvitað er nauðsynlegt að hafa gögnin rétt.

Svo er það aftur spurning hvort þessi munur skipti miklu máli, það má segja að annar höfunda greinarinnar sem vísað er í sé búinn að breyta skoðun sinni örlítið, en árið 2006 var niðurstaða Scafetta þessi:

since 1975 global warming has occurred much faster than could be reasonably expected from the sun alone.

Lauslega þýtt: "Frá 1975 hefur hlýnun jarðar átt sér stað mun hraðar heldur en raunhæft er að ætla frá sólinni einni." En nú er komið annað hljóð í strokkinn (úr greininni 2009):

Increasing TSI between 1980 and 2000 could have contributed significantly to global warming during the last three decades

Ekki beint afdrifarík niðurstaða, en lauslega þýtt þá segir: "Aukning á útgeislun sólar milli 1980 og 2000 gæti hafa stuðlað marktækt að hlýnun jarðar síðustu þrjá áratugi". 

Það verður fróðlegt að fylgjast með þessu, en þar sem þetta er frekar ný grein þá hefur ekki orðið mikil umræða um hana á netinu. Ég hugsa að það sé rétt að fylgjast vel með þessari umræðu, en jafnframt passa sig á því að þarna er um lítinn mun á breytingum á útgeislun sólar (á milli þessara túlkana), það lítil breyting að ekki verður hægt að skýra út hlýnun jarðar út frá sólinni einni, jafnvel þó maður taki niðurstöðu ACRIM sem þá einu réttu (þannig skil ég allavega þær umræður sem ég hef lesið um þessar túlkanir).

p.s. ef ég fer með miklar fleipur í þessari færslu þá endilega leiðréttið mig, ég er enginn sérfræðingur í svona gögnum


Endajaxlakenningin

Mér var bent á línurit sem olli mér heilabrotum (sá það fyrst hér hjá Ágústi Bjarnasyni):uah_lt_since_1979_810359

Það er Dr. Roy Spencer (einn af andstæðingum kenninga um hnattræna hlýnun af mannavöldum) sem bjó þetta línurit til. Mér skilst að það eigi að sýna fram á að nú sé að kólna aftur, eftir hlýnun undanfarins áratugs, með því að skoða teiknaða trend línu (sem er útreiknuð fjórðu gráðu margliða). Gögn eru fengin frá gervitunglamælingum frá 1979 og til febrúar í ár. Sjá grunngögnin hér

Þetta er ansi sannfærandi línurit og já gott ef það sýnir okkur ekki að nú fari að kólna aftur.

Af því að ég hékk heima, því sonur minn er með flensu þá ákvað ég að skella gögnunum inn í Excel og búa til svona trendlínu. Það er ekkert mál, Excel gerir það nánast fyrir mann ef maður kann ögn á það forrit. Mér tókst að endurskapa þennan feril nokkurn vegin, ekki alveg eins en mjög svipaður:
Trendlína_takmorkud
Með því að smella á myndina og svo aftur, þá ætti að vera hægt að sjá hana stærri.

En ég var að sjálfsögðu allt of forvitinn og ákvað að sjá hvernig þetta trend rímar við fortíðina og hvernig það myndi þá spá fyrir um framtíðina og excel reiknaði:

Trendlína_framlengd
Með því að smella á myndina og svo aftur, þá ætti að vera hægt að sjá hana stærri.

Í ljós kemur að fimbulkuldi kuldaskeiða ísalda ríkti hér á jörðinni um miðja síðustu öld og ekki nóg með það, heldur er að renna upp nýtt kuldaskeið á næstu árum og áratugum. Það mætti kalla þetta endajaxlakenninguna.

Ætli það sé ekki rétt að setja inn ósköp venjulega beina trendlínu svona til samanburðar.

Trendlína_einföldu
Með því að smella á myndina og svo aftur, þá ætti að vera hægt að sjá hana stærri.

Jú, ætli það ekki bara - mér sýnist að það sé ennþá hlýnun í gangi.


CO2 - vágestur úthafanna

Ég er sjómannssonur, frændur mínir og vinir eru margir hverjir sjómenn. Ég eyddi 12-13 sumrum frá 12 ára aldri út á sjó, verðmæt reynsla. Mig langar í litla trillu þegar ég verð kominn á seinni hluta ævinnar, stunda handfæri og jafnvel leggja nokkur grásleppunet á vorin. Kenna sonum mínum handtökin og ef synir mínir myndu vilja verða sjómenn þá myndi ég ekki hika við að hvetja þá í því.

Því hef ég sérstakar áhyggjur af ástandi sjávar og hingað til mestar áhyggjur af afleiðingum hlýnunar á vistkerfi sjávar við Ísland. Ég hef ekki kynnt mér nýjustu kenningar um mögulegar breytingar á hafstraumum, en einhvern tíma las ég kenningar um það að við aukna bráðnun hafíss norðurskautsins þá gæti flæði kaldra hafstrauma úr norðri, með lítilli seltu, haft þau áhrif að Golfstraumurinn myndi þrjóta kraftur og að Norður-Atlantshafstraumurinn myndi ekki lengur ná til Íslands. Hafsvæðið í kringum Ísland er á mótum kaldra næringarríkra hafstrauma úr norðri og heitra næringarsnauðra hafstrauma úr suðri. Það er ein meginástæða þess hversu mikill fiskur hefur verið við Íslands strendur síðastliðna öld.


Hér sést hringrás Norður-Atlantshafsstraumsins (tekið af vísindavefurinn.is).

Ef eitthvað er að marka þessar kenningar um hafstraumabreytingar (en það hefur lítið farið fyrir fréttum af þeim síðustu ár), þá er rétt að fylgjast vel með breytingum á hafís norðurskautsins sem helst í hendur við hlýnun jarðar undanfarin ár, sjá t.d. nýja bloggfærslu um hafís norðurskautsins og frétt á mbl.is um leiðangur á norðurskautið. En þetta er bara útúrdúr, ég ætlaði ekki að tala um þessa gömlu kenningu.

¨¨¨¨¨¨

Nú koma fréttir af annarri vá sem bætist ofan á hlýnunina sem talin er fylgja útblæstri manna á CO2, eitthvað sem gæti ógnað lífríki sjávar allóhugnalega. Sjá frétt á vefsíðunni Guardian, Carbon emissions creating acidic oceans not seen since dinosaurs.  Ég rakst einnig á blogg þar sem nær eingöngu er fjallað um þessa súrnun úthafana, en þar er viðtal við einn af þeim sem eru með erindi á ráðstefnunni í Kaupmannahöfn sem ég minntist á í fyrri færslu, en erindi um súrnun úthafana var til umræðu þar í dag (hægt er að skoða ágrip erinda hér). Svo ég grípi niður í brot úr þessari færslu af fyrrgreindu bloggi (Deep reductions, or deep trouble for the oceans):

A researcher from California’s Carnegie Institution presents a stern warning. “If current trends in carbon dioxide emissions are not reversed soon, we will produce chemical changes in the oceans of a magnitude that has not been seen for many tens of millions of years,” says climate scientist Ken Caldeira. “A failure to cut carbon dioxide emissions deeply and soon risks widespread extinctions in the marine environment, with difficult-to-predict consequences for marine ecosystems generally.”

Lauslega þýtt þá segir þessi Ken Caldeira: "Ef núverandi þróun í útblæstri CO2 er ekki snúið við fljótlega, þá verða breytingar í efnafræði úthafanna af stærðargráðu sem við höfum ekki séð í tugi milljón ára." Svo segir hann: "Ef okkur mistekst að draga úr losun CO2 mikið og fljótt, þá er gríðarleg hætta á viðamiklum útdauða í úthöfunum, með afleiðingum sem erfitt er að sjá fyrir í vistkerfi sjávar." [Illa þýtt, en þið skiljið þetta hvort sem er]

Fleiri fréttir um þessi mál hafa rekist inn á erlendar síður undanfarnar vikur og mánuði, t.d.  PlanetEarth: Ocean acidification - the other CO2 problem og önnur af vefsíðu TimesOnline: The toxic sea og hér er svo ein af vefsíðunni ScienceDaily: Coral Reefs May Start Dissolving When Atmospheric Carbon Dioxide Doubles.

horpudiskur_310308
Hörpudiskur er ein af þeim sjávarlífverum sem verða hart úti ef spárnar ganga eftir (mynd af vísindavefnum)

Það er spurning hvort þetta er eitthvað rugl og að þeir séu í sínum spám að fara með einhverjar fleipur, en ef sá möguleiki er fyrir hendi að eitthvað sé til í þessu, þá er ljóst að jarðarbúar verða að taka sig saman í andlitinu og minnka útblástur CO2. Ég veit að við Íslendingar erum ekki stór biti af heildar-CO2-kökunni, en við hljótum að geta haft einhver áhrif, framtíð okkar sjávarútvegs gæti oltið á því að losun CO2 minnki.

Þetta var heimsendaspá dagsins í dag.


Hlýnun jarðar af mannavöldum.

[Endurbirt, en ég ákvað að færa alla umræðu um hlýnun jarðar af mannavöldum af blogginu hoskibui.blog.is og hingað yfir, fleiri greinar verða færðar hingað yfir] 

Fyrir þá sem vita ekki út á hvað hlýnun jarðar gengur, þá sýnist mér þetta vera svona (skematískt séð, eflaust einhverjar misfærslur en hvað um það):

Í stuttu máli snýst málið um það að það er hitagjafi (sólin) sem hitar jörðina (gróðurhúsið). Jörðin endurkastar hluta hitans aftur út í geiminn. Umhverfis jörðina er lofthjúpur og í honum er visst magn af gróðurhúsalofttegundum (koldíóxíð, methan og fleiri lofttegundir) sem hafa svipuð áhrif og gler í gróðurhúsi, þ.e. í einföldustu mynd, gróðurhúsalofttegundirnar sem sagt endurkasta hitann sem jörðin kastar frá sér aftur til jarðarinnar, einhver hiti sleppur þó í gegn (eins og um glugga gróðurhússins). Svona er þetta í einföldustu mynd.

greenhouse-effect

Mælingar á koldíoxíði í lofthjúpnum sýna að koldíoxíð (eitt af gróðurhúsalofttegundunum) eykst hratt í andrúmsloftinu (samfara athöfnum manna), athugið að þrátt fyrir að magn koldíoxíðs í andrúmsloftinu sé ekki mikið, þá hefur það hlutfallslega hækkað töluvert undanfarna áratugi:

Mauna_Loa_Carbon_Dioxide

Til að halda líkingunni áfram við gróðurhúsið, þá er töluvert mikið af opnum gluggum í þessu gróðurhúsi sem hleypa hitanum út, en við útblástur kolefnis af mannavöldum þá smám saman lokast þeir, því hitnar á jörðinni (í gróðurhúsinu).  

Instrumental_Temperature_Record

Til að gera líkinguna við gróðurhús flóknari, þá er meira sem spilar inn í, t.d. sveiflur í hitagjafanum (sólinni) og inn í þetta einfalda munstur koma svo tímabundin fyrirbæri eins og eldgos og veðurfyrirbæri eins og El Nino og annað slíkt sem opna og loka gluggunum tímabundið.  Þessar sveiflur má sjá sem frávik í hitaferlinum hér fyrir ofan, en ef þær eru teknar frá þá er hitinn samt að hækka á jörðinni, hnattrænt séð.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband