Hálfrétt hálffrétt

Það er gott og vel að Morgunblaðið flytji fréttir af loftslagsmálum og hvað sé að gerast í þeim heimi öfgafrétta, þar sem einn spáir heimsendi vegna hlýnunar loftslags og aðrir halda því fram að það sé að kólna.

En það er þó hægt að setja spurningamerki við þessa frétt - þá ekki vegna þess að hún sé ekki fréttnæm, heldur hvernig Morgunblaðið kýs að strá efasemdarfræjum um skýrslu IPCC frá 2007 í heild - meðan villurnar sem um er rætt eru í einum hluta hennar - þ.e. skýrslu vinnuhóps tvö.

Til að gera langa sögu stutta, þá skiptist IPCC upp í þrjá vinnuhópa - eða eins og segir á vef veðurstofunnar:

Úttektir nefndarinnar eru unnar af þremur mismunandi vinnuhópum. Vinnuhópur eitt (WG1) fjallar um vísindalega þekkingu á veðurfari og loftslagsbreytingum. Vinnuhópur tvö (WG2) leggur mat á tjónnæmi (e. vulnerability) félags-, efnahags- og náttúrulegra kerfa, neikvæðar og jákvæðar afleiðingar loftslagsbreytinga og möguleika á aðlögun. Vinnuhópur þrjú (WG3) leggur mat á leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og á aðrar leiðir til að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar (af www.vedur.is).

Allt sem verið er að gagnrýna kemur úr vinnuhóp tvö (WG2) en þar inn hafa ratað heimildir sem ekki eru allar ritrýndar – oft skýrslur sem unnar eru upp úr ritrýndum greinum, en þar hefur greinilega slæðst inn villa m.a. varðandi jökla Himalaya. Skýrsla vinnuhóps eitt (WG1) sem fjallar um vísindalega þekkingu á veðurfari og loftslagsbreytingum, hefur sýnt sig að er byggð á góðum grunni . Helst má gagnrýna þá skýrslu fyrir vanmat á áhrifum loftslagsbreytinga frekar en hitt. T.d. má benda á að jökulbreiður Grænlands og Suðurskautsins eru að bráðna hraðar en búist var við í skýrslunni (og samfara því er vanmat á hækkun sjávarstöðu) – einnig hefur bráðnun hafíss verið hraðari en búist var við af IPCC og fleira má nefna.

Það má því setja stórt spurningamerki við fyrstu málsgrein fréttarinnar sem vísað er í, í þessari færslu - en þar segir:

Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna (IPCC) sætir vaxandi gagnrýni vegna frétta um að fundist hafi fleiri villur í skýrslu hennar frá árinu 2007 um loftslagsbreytingar af mannavöldum þar sem hún spáir m.a. 1,8-4° hlýnun á öldinni og hækkun sjávarborðs (af www.mbl.is).

Þetta er villandi, því villurnar eru ekki í skýrslu vinnuhóps eitt sem vann meðal annars að spálíkönum um hlýnun og hækkun sjávarborðs. Þarna er gefið í skyn að fundist hafi villur í spálíkönum um hita og hækkun sjávarborðs, þar sem það eina sem hægt er að gagnrýna IPCC varðandi þessa tvo þætti er vanmat.

Morgunblaðið virðist því falla í þá gryfju að þar sem villur hafa fundist í skýrslu vinnuhóps tvö, þá sé hægt að draga í efa skýrslu vinnuhóps eitt.

Á Loftslag.is fjölluðum við um þetta málefni meðal annars hér: Heit málefni

Ef einhver fær efasemdir um að jörðin sé að hlýna eftir þennan fréttaflutning, þá mælum við með að skoðuð séu sönnunargögn fyrir hlýnun jarðar á loftslag.is: Helstu sönnunargögn


mbl.is Fleiri villur í skýrslunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"...að regnvatn minnki um 50%"

Þessa fullyrðingu er maður oft að sjá. Hver eru rökin fyrir þessu? Ég hefði haldið að með hækkandi hitastigi, ykist uppgufun o.þ.a.l. úrkoma. En þá talið þið um ofsaflóð og öfga.... en annarsstaðar þurrkar.

Frekar ótrúverðugt að mínu mati

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.2.2010 kl. 17:03

2 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Í júlí 2008 kom út skýrsla fyrir Umhverfisráðuneytið um Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi, sem er byggð á skýrslum vinnuhóps 1 og 2. Þar segir:

Náttúrulegur breytileiki úrkomu, svæðisbundinn jafnt sem tímaháður, er mjög mikill. Víða er því erfitt að greina marktæka hneigð í úrkomubreytingum. Athuganir sýna þó breytingar á tíðni úrkomu, magni og úrkomutegund. Mynd 1.5 sýnir að á tímabilinu 1900 til 2005 má sumstaðar merkja verulegar langtíma breytingar á magni úrkomu, hún hefur aukist um austanverða Norður- og Suður-Ameríku, í Norður-Evrópu og Norður- og Mið-Asíu. Úrkoma hefur minnkað í suðurhluta Afríku, á Sahel svæðinu, umhverfis Miðjarðarhafið og í sunnanverðri Asíu. Myndin sýnir einnig að þegar skoðuð eru styttri tímabil má víða merkja breytingar sem
ganga í öfuga átt við aldarhneigðina, en marktækni breytinga er minni á styttra tímabilinu. Á norðlægum svæðum fellur meiri úrkoma en fyrr sem rigning, en minni sem snjór. Mjög víða hefur helliregn aukist, jafnvel á svæðum þar sem dregið hefur úr heildarúrkomu. Tíðni flóða og þurrka hefur einnig aukist á sumum svæðum. Merkja má samband milli úrkomubreytinga og hitabreytinga. Á meginlöndum er fylgnin víða neikvæð á sumrin, þ.e. hlý sumur og þurrkar fylgjast að, sem og köld sumur og vætutíð. Þegar nær dregur heimskautasvæðum er annað orsakarsamhengi að vetri til, norðan 40°N og sunnan 40°S er sterk jákvæð fylgni milli aukinnar vetrarúrkomu og hlýnunar, meiri úrkomu verður vart á hlýjum vetrum og minni á köldum.

Svo er sérkafli um Ísland - mæli með þessari skýrslu.

Höskuldur Búi Jónsson, 8.2.2010 kl. 19:14

3 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Já og af því að mig grunar að þú hafir verið að spá í framtíðina, þá segir einnig í skýrslunni:

Samfara aukningu á hringrás vatns í lofthjúpnum er líklegt að úrkoma aukist milli 20° S og 20° N og mjög líklegt er að úrkoma aukist norðan og sunnan 50° breiddargráðu (á svæðum þar sem ríkir kaldtemprað eða heimskautaloftslag). Líklegt er að úrkoma minnki víða á miðlægum breiddargráðum og á jaðri hitabeltisins, þ.e. milli 20° og 40° N og S (á svæðum þar sem ríkir s.n. heittemprað loftslag). Vísbendingar eru um að tíðni steypiregns geti aukist, jafnvel á svæðum þar sem dregur úr úrkomu. 

Höskuldur Búi Jónsson, 8.2.2010 kl. 19:22

4 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Vandamálið er að afleiðingar eru misjafnar eftir landsvæðum (alls ekki hægt að segja að með hækkandi hitastigi muni úrkoma aukast alls staðar) og þeir í vinnuhóp 2 virðast hafa gengið langt í að gera ákveðnar spár, sem í sumum tilfellum eru ekki í samræmi við það sem kemur fram hjá vinnuhóp 1. Reyndar kemur fram í fréttinni að Chris Field telji ekki að hægt sé að finna neitt í skýrslunni sem styður þessa fullyrðingu með regnvatnið (eins og ég get lesið út úr þessari frétt Mbl).

Ég hef spurt þig áður Gunnar og sakna svara, hvað er það efnislega sem þér þykir grunnforsenda þess að þú telur að þessi vísindi séu ekki marktæk? Mér þykir það ótrúverðugt að dúkka upp með óefnislegar athugasemdir eða athugasemdir sem eingöngu virðast til þess fallnar að gera lítið úr þessum fræðum á einhvern hátt, án þess að nefna í það minnsta að einhverju leiti hvað það er sem veldur þessari skoðun þinni.

Sveinn Atli Gunnarsson, 8.2.2010 kl. 19:30

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég er ekki vísindamaður á þessu svið en ég les um þessi mál mér til skemmtunnar, bæði rök með og á móti heimsendaspánum. Ég hef meira gaman af því að spyrja spurninga um þessi mál en svara þeim.

Varðandi aukningu og minnkun á úrkomu á tilteknum svæðum, hver er samanburðurinn? Varla er hægt með neinni nákvæmni að sjá hversu mikið rigndi á öldum áður, er það?

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.2.2010 kl. 20:06

6 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Gunnar: þegar þú ert búinn að lesa skýrslu umhverfisstofnunar, þá mæli ég með skýrslu sem kom út síðastliðið haust, en henni var ætlað að brúa bilið frá IPCC 2007 og fram að ráðstefnunni í Kaupmannahöfn fyrir jól - sjá www.copenhagendiagnosis.com.

Til er íslensk umfjöllun um þá skýrslu bæði á loftslag.is (sjá Skýrsla – Kaupmannahafnargreiningin) og á heimasíðu veðurstofunnar (sjá COP-15 og Kaupmannahafnargreiningin)

Þar segir meðal annars:

Post IPCC AR4 research has also found that rains become
more intense in already-rainy areas as atmospheric water vapor
content increases (Pall et al. 2007; Wentz et al. 2007; Allan
and Soden 2008). These conclusions strengthen those of earlier
studies and are expected from considerations of atmospheric
thermodynamics. However, recent changes have occurred faster
than predicted by some climate models, raising the possibility
that future changes will be more severe than predicted.

An example of recent increases in heavy precipitation is found
in the United States, where the area with a much greater than
normal proportion of days with extreme rainfall amounts has
increased markedly (see Figure 6). While these changes in
precipitation extremes are consistent with the warming of the
climate system, it has not been possible to attribute them to
anthropogenic climate change with high confidence due to the
very large variability of precipitation extremes (CCSP 2008a;
Meehl et al. 2007b; Alexander and Arblaster 2009).

Höskuldur Búi Jónsson, 8.2.2010 kl. 20:13

7 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Gunnar: Það sem að hlýtur að skipta máli fyrir samfélag manna í dag og næstu áratugi er hvernig þetta er að breytast miðað við þau gildi sem núverandi samfélag byggir á - er það ekki? Því hlýtur að verða að miðast við síðustu öld. Óbeinar mælingar á úrkomubreytingum eru þó til aftur í tíman, en eru ekki mjög nákvæmar.

Höskuldur Búi Jónsson, 8.2.2010 kl. 20:19

8 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Alveg merkileg leið til að reyna að gera lítið úr loftslagsvísindunum er að segja eins og Gunnar "rök með og á móti heimsendaspánum". Þetta tal um heimsendaspár er ein af þeim rökleysum sem stundum kemur fram í umræðunni.

En Gunnar, þú segir einnig að þú hafir meira gaman að því að spyrja spurninga en að svara þeim... Ég ráðlegg þér að reyna að svara þessum spurningum þínum og ná áttum, annars er hætt við að þú verðir hálf ringlaður í umræðunni. Það er mikið til af efni um þessi mál og það er því engin afsökun fyrir því að reyna ekki að leita svara við þeim spurningum sem brenna á manni.

Sveinn Atli Gunnarsson, 8.2.2010 kl. 20:41

9 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ekki reyna að tala niður til mín, Svatli, það klæðir þig illa

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.2.2010 kl. 21:42

10 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Gunnar: Óefnisleg rökleysa klæðir engan vel, það hlýtur að mega benda á það. M.a. vegna þess að þú af einhverjum ástæðum telur þig tilneyddan til að nýta hvert tækifæri til að hnýta í heila vísindagrein sem þúsundir stunda á málefnalegum og vísindalegum grundvelli, með óefnislegum rökleysum og útúrsnúningum. 

Sveinn Atli Gunnarsson, 8.2.2010 kl. 22:20

11 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Mér finnst Gunnar fá heldur ómaklegar móttökur hér á síðunni. Eiginlega ekki sæmandi. Vonandi eru þetta mistök sem umráðamenn síðunnar munu biðjast afsökunar á.

Ágúst H Bjarnason, 9.2.2010 kl. 07:06

12 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Þegar menn telja að réttlætanlegt sé að hnýta í heila vísindagrein og okkur sem sjáum um þessa síðu, með orðum eins og "heimsendaspár", "dómsdagsspámenn", "alarmistar" og fleira í þeim dúr, þá tel ég það ekki málefnalegt (athugið að það er ekki bara þessi færsla og þessar athugasemdir hér að ofan sem um er rætt). Og ef það móðgar einhvern að það sé sagt, þá biðst ég forláts á því, en vonandi verður það viðkomandi til umhugsunar að þessi nálgun sem hann telur sig þurfa til að nálgast þessi fræði (og okkur) sé lögð á borðið.

PS. Mér finnst þessi athugasemd þín merkileg Ágúst. Sérstaklega í ljósi þess að þú hefur ekki gert athugasemdir við það á þinni síðu þó þar séu athugasemdir frá lesendum þínum sem eru á stundum ómálefnalegar og órökstuddar í okkar garð.

Sveinn Atli Gunnarsson, 9.2.2010 kl. 08:51

13 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þetta eru því miður algeng viðbrögð sem menn fá frá "alarmistunum", ef þeir voga sér að spyrja gagnrýnna spurninga um þessi mál.

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.2.2010 kl. 10:01

14 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Ég vil taka undir það sem Sveinn segir hér fyrir ofan - athugasemdir Gunnars eru út úr kú oft á tíðum (pardon my french). Oft kemur hann hingað með einhverjar yfirlýsingar og upphrópanir um heimsendaspámenn og alarmista (líkt og í síðustu athugasemd). Þegar hann kemur með eitthvað sem líkist málefnalegri spurningu þá svörum við honum á málefnalegan hátt og spyrjum hann spurninga á móti, en þá lætur hann sig hverfa. Á mörgum vefsíðum er þessi hegðun flokkuð sem að viðkomandi sé nettröll (troll).

Það væri t.d. gaman að fá að vita hvort hann líti á okkur sem alarmista eða heimsendaspámenn og hvað það sé sérstaklega sem að fær hann til að líta svo á? Er það af því að víð vísum venjulega í vísindalegar rannsóknir máli okkar til stuðnings, en erum ekki að kalla eitthvað út í loftið?

Ágúst: Ef við myndum haga okkur eins og Gunnar gerir hér, þá værir þú líklega pirraður yfir því - það finnst mér allavega líklegt  

Fyrst þú ert svona mikill prinsipp maður, þá þætti mér vænt um að þú myndir sýna það betur á þinni bloggsíðu. Svo virðist vera að hver sem er megi koma með gífuryrði um að gróðurhúsaáhrifin séu rugl á þinni síðu. Samt sem áður, þá er það þannig að þegar við svörum rökleysum í þeirra málflutningi, þá fáum við skammir fyrir- líkt og það séum við sem erum að koma deilunni af stað.

Höskuldur Búi Jónsson, 9.2.2010 kl. 10:37

15 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Jæja Gunnar...þú lætur þér ekki segjast sé ég, heldur áfram að setja fram fullyrðingar um okkur á ómálefnalegum nótum (Ágúst nú væri lag að gera athugasemd við þennan málflutning hans).

PS. Gunnar ef þú hefur ekki tekið eftir því, þá höfum við leitast við að svara spurningum þínum í athugasemdum, bæði í þessari færslu sem og öðrum, en það hefur í sjálfu sér ekki breytt viðmóti þínu til þessara mála eða okkar persónulega.

Sveinn Atli Gunnarsson, 9.2.2010 kl. 12:08

16 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég nenni ekki umræðu á þessum nótum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.2.2010 kl. 13:16

17 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Þá erum við sammála Gunnar.

Sveinn Atli Gunnarsson, 9.2.2010 kl. 19:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband