31.3.2010 | 21:10
Nýtt jarðsögutímabil
Jarðfræðingar frá háskólanum í Leicester (og fleiri) hafa komið með þá tillögu að nýtt jarðsögutímabil sé hafið á Jörðinni, en pistill eftir þá birtist í tímaritinu Environmental Science & Technology.
Þeir bæta því við að við upphaf þessa tímabils sé hægt að tengja við sjötta umfangsmesta útdauða í jarðsögunni.
Samkvæmt vísindamönnunum þá hafa mennirnir, á aðeins tveimur öldum, orðið valdir að þvílíkum breytingum að nýtt jarðsögutímabil sé hafið og að áhrif þess muni vara í milljónir ára. Áhrif manna, þar með talin hin mikla fólksfjölgun, þétt byggð ofurborga og gríðarlegur bruni jarðefnaeldsneytis segja þeir að hafi breytt Jörðinni það mikið að þetta tímabil ætti að kalla Anthropocene skeiðið eða skeið hins nýja manns (tillögur að íslensku heiti er vel þegið).
Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem þessi tillaga kemur upp, en einn höfunda pistilsins kom með þessa hugmynd fyrir yfir áratug síðar og hefur hún verið umdeild síðan. Undanfarið hafa fyrirsjáanlegar afleiðingar athafna manna, líkt og loftslagsbreytingar og mikil aukning útdauða plantna og dýra. Fylgni við þessa tillögu hefur því aukist. Samfélag jarðfræðinga eru nú að formlega að fara yfir tillögur um það hvort skilgreina eigi þetta sem nýtt tímabil í jarðsögunni.
Heimildir og ítarefni
Pistillinn sem birtist í tímaritinu Environmental Science & Technology má lesa hér: The New World of the Anthropocene
Hægt er að lesa um Anthropocene víðar, t.d. á Encyclopedia of Earth, Wikipedia og Oceanworld
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Ætli þetta verði ekki stysta tímabil jarðsögunnar - kannski mannöld?
Emil Hannes Valgeirsson, 31.3.2010 kl. 22:53
Ef ég skil hugtakið rétt er ekki beinlínis verið að meina allan þann tíma sem mannkynið hefur gengið um jörðina, heldur fyrst og fremst það tímabil sem hófst með iðnbyltingunni á seinni hluta 18. aldar. Síðan þá hefur mannkynið tvímælalaust sett mark sitt á jörðina með áður óþekktum hætti í jarðsögunni svo um munar. Helsti drifkraturinn þessara miklu og öru breytinga er sampil tækniframfara sem geta svo af sér framfarir á öðrum sviðum og hraða þannig breytingunum með veldisvexti eins og Ray Kurzweil fjallar um í frægri grein sinni The Law of Accelerating Returns.
Það vill svo til að við eigum á íslensku til hugtakið tækniöld sem mér þykir ágætlega lýsandi fyrir þetta tímabil í mannkynssögunni. Hinsvegar er í jarðsögunni frekar talað um tímaskeið sem ná yfir margar aldir eða árþúsundir og því legg ég til eftirfarandi nýyrði sem er samsett úr orðstofnunum tækni- og -skeið þ.e.a.s.:
Tækniskeið
Guðmundur Ásgeirsson, 31.3.2010 kl. 23:16
„Gervihnattaöld“ hefur líka fest sig í sessi á Íslandi.
Emil Hannes Valgeirsson, 31.3.2010 kl. 23:27
"Öld vísindamanna sem vantar vinnu og athygli".
Gunnar Th. Gunnarsson, 1.4.2010 kl. 00:09
Þar sem tækni og gervihnettir yrðu vart til nema vegna athafna okkar manna, þá tel ég persónulega að þetta ætti að vera eitthvað í áttina að öld mannsins. Það er einnig hægt að færa rök fyrir því tímabilið sé það tímatil sem maðurinn er "miðpunktur" tilverunnar, ef svo má að orði komast. Í kjölfarið á þessum vangaveltum langar mig að koma með eina hugmynd, hið mannhverfa skeið.
Sveinn Atli Gunnarsson, 1.4.2010 kl. 09:30
Gjör iðrun, því sjá, dagur dómsins er í nánd!
Sigurður Þór Guðjónsson, 1.4.2010 kl. 18:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.