Rafmagnsbílar

Á næstu árum munu, ef áform ganga eftir, rafmagnsbílar (og einnig bílar með aðra orkugjafa) hefja innreið sína á bílamarkaðinn. Það er þó ýmislegt sem þarf að huga að í því sambandi. Það má kannski komast þannig að orði, að það þurfi að verða breyting á hugarfari varðandi notkun og áfyllingu orku á bílana.

Við vitum flest hvernig þeir bílar sem er núna á markaðnum virka (í grófum dráttum). Við erum nánast fædd með upplýsingar um það hvernig bensínstöðvar virka og hvar þær eru staðsettar. Í gegnum árin hefur þróunin einnig verið á þann veg að við sjáum að miklu leiti um að dæla á bílinn sjálf og við lærum að það þarf þrennt til að bíllinn gangi, þ.e. súrefni, neisti og eldsneyti. En hv ernig ætli rafmagnsbílar virki…? Ja, ekki er beint hugmyndin að svara því hérna, en skoða aðeins hvaða áskoranir þarf að skoða við umbyltingu á bílaflota, eins og væntanleg innleiðing rafbíla getur orðið. Það virðist t.d. vera ákveðin hræðsla við að hleðslan klárist í miðjum bíltúrnum. Þannig að staðsetning orkustöðva og hversu langan tíma hleðsla tekur er mikilvæg svo og hversu langt bílarnir komast á hleðslu. Það mun væntanlega taka lengri tíma að hlaða bíla, en að fylla bensín á tankinn, þar af leiðandi er mikilvægt að finna neyslumynstrið, svo innleiðingin verði auðveldari.

Nissan Leaf

Í nýrri rannsókn sem gerð verður í Bandaríkjunum og byrjar núna í sumar, á að fylgjast með 4.700 notendum rafmagnsbíla í 11 borgum staðsettum í 5 ríkjum. Bílarnir eru allir af gerðinni Nissan Leaf. Notendur bílanna hafa samþykkt að gefa upplýsingar um notkun á bílunum, hvernig hleðslu á bílunum er háttað og hvar, svo og aðrar upplýsingar tengda notkun bílanna. Þáttakendum er skipt í hópa og fá mismunandi upplýsingar, sumir fá ýtarlegar leiðbeiningar um hvernig best sé að hlaða og á hvaða tímum, aðrir fá litlar upplýsingar. Svo er skoðað hver munurinn er á milli hópanna. Og reynt verður m.a. að fá svar við því, hvort það verði einhver marktækur munur á því hvernig hóparnir haga notkun sinni?

Það er t.d. munur á því hvort að bílarnir eru hlaðnir á nóttu eða degi. Ef flestir velja að hlaða bílana á daginn, þá þyrfti að koma til aukin fjárfesting og bygging fleiri raforkuvera, til að anna eftirspurninni, en ef flestir hlaða á nóttunni, þá eru meiri möguleikar á því að raforkunetið anni eftirspurninni án fleiri raforkuvera og þar með minni losun CO2 en ella. Þetta er eitt af því sem vonast er til að hægt verði að kortleggja í rannsókninni og einnig hvort hægt er að hvetja notendur til að nýta frekar næturnar t.d. með upplýsingagjöf og/eða mismunandi á verði. Það verður fróðlegt að fylgjast með þessari rannsókn og hvernig þróunin verður í framtíðinni, en gera má ráð fyrir því að þróunin verði í áttina að bílum og samgöngutækjum sem ganga fyrir öðrum orkugjöfum en jarðefnaeldsneyti í framtíðinni.

Heimildir:

Tengt efni á loftslag.is:


mbl.is Rafbílaleiga í HR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birnuson

Það er ástæða til að gera tvenns konar athugasemd við þetta:

1.  Þó að vissulega sé líklegt að rafbílar verði algengustu ökutækin í framtíðinni er þeirrar breytingar örugglega nokkuð langt að bíða. Ástæðan er sú að framleiðslugeta á rafgeymum í slíka bíla er mjög takmörkuð. Þá er auðvelt að reikna út að meira jarðefnaeldsneyti sparast með því að nota þá rafgeyma, sem þó er unnt að framleiða, í tvinnorkubíla á borð við Toyota Prius heldur en með því að nota þá í hreina rafbíla. Af þessum orsökum er það ekki brýnasta spurningin núna hvaðan raforka til að knýja þessa bíla á að koma.

2. Hvernig er hægt að treysta skrifum um bíla frá manni sem heldur að Nissan sé ritað „Nizzan“? Sá hlýtur að hafa etið of mikið af ómerkilegu súkkulaði.

Birnuson, 18.5.2010 kl. 21:27

2 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Ég tek á mig Nizzan villuna, sem búið er að lagfæra hér að ofan og er í raun ómerkileg stafsetningarvilla sem ekki þarf að hafa mörg orð um.

En nú þegar er byrjað að framleiða rafmagnsbíla, og það má líta á þessa færslu sem  hugleiðingu um þá innleiðingu. Annars væri fróðlegt að vita hvað þér finnst vera langur tími í þessum efni, hvenær að þínu mati má byrja að skoða þessi mál og skrifa um þau. Rannsóknin sem um er rætt, er að fara í gang í sumar, þannig að ekki er verið að tvínóna við hlutina á þeim bænum.

Sveinn Atli Gunnarsson, 18.5.2010 kl. 22:04

3 Smámynd: Birnuson

Kærar þakkir fyrir skjót svör. Nizzan-athugasemdin var kannski óþörf; ég bið forláts á hæðninni.

Hér ræðir um mikilvægt mál sem fyllilega tímabært er að fjalla um. Tilgangur minn var að benda á að í bloggi, sem fjallar um loftslagsbreytingar, hlýtur að þurfa að huga að helstu atriðum sem geta haft áhrif á loftslagið, og þau eru í þessu tilviki sem hér segir:

1.  Takmörkuð framleiðslugeta á rafgeymum í rafbíla veldur því að unnt er að ná fram margfalt meiri samdrætti í losun koltvísýrings með því að nota rafgeymana í tiltölulega marga tvinnbíla heldur en í tiltölulega fáa hreina rafbíla.

2.  Munurinn, sem vísað er til í 1. lið, verður enn meiri ef rafmagnið á rafbílana kemur frá orkuverum sem brenna jarðefnaeldsneyti.

Spurt er hvað mér þyki langur tími í þessum efnum. Svarið er að langur tími er of langur tími, með öðrum orðum tími sem er eytt illa. Við núverandi stöðu mála væri tímanum eytt illa ef öll áherslan væri lögð á hreina rafbíla á kostnað annarra lausna (sbr. ofangreint).

Þar með er ekki sagt að rannsókn af því tagi, sem rætt er um, geti ekki verið gagnleg. En hættan við ríkisstyrkt verkefni sem þessi er að menn fari að einblína á eina lausn umfram aðra. (Nærtækt dæmi um slíkt er sú geggjaða hugmynd að vetnisvæða Ísland.)

Birnuson, 18.5.2010 kl. 23:25

4 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Takk fyrir þessar vangaveltur Birnuson og að benda mér á villuna, það verður væntanlega fróðlegt að fylgjast með hvernig þróunin í þessum málum verður. Þessi færsla var svo sem ekki hugsuð sem hugmynd að "hinni einu lausn". Frekar sem hugleiðing um eina lausn, af mörgum. Í fyrstu setningunni er innan sviga (og einnig bílar með aðra orkugjafa), þó svo rafmagnsbílar hafi fengið plássið í þessari færslu, enda var ætlunin að fjalla um þá út frá rannsókninni sem um var rætt. Það má hugsanlega heimfæra þessar hugleiðingar á bíla með aðra orkugjafa einnig. Ég er sammála þér í því að við ættum að skoða fleiri möguleika í þessu og tel líklegt að það verði og sé gert. Kannski verða áherslurnar misjafnar á milli svæða í heiminum, þar sem misjafnar lausnir henta...

Mig langar að benda þér á að skoða myndbandið í eftirfarandi færslu, Endurnýjanleg orka – Lausn mánaðarins (myndband sem fjallar m.a. um notkun rafmagnsbíla), þar er fróðlegur vinkill á umræðuna, m.t.t. þess að orkuverin eru að brenna jarðefnaeldsneyti og rafmagnsbíla og rafgeyma.

Það er væntanlega rétt hjá þér að svona þróun þarf töluverðan tíma. En maður hefur svo sem heyrt um eitthvað sem mun taka svo og svo langan tíma, en svo hefur það á einhvern undarlegan hátt ræst fyrr en fyrst var talið - ætli þróunn tölvunnar sé ekki dæmi um slíkt  

Sveinn Atli Gunnarsson, 18.5.2010 kl. 23:53

5 identicon

Nissan Leaf er með 28 kwh rafhlöður en ég held að tvinnbíllinn Prius sé bara með ca 1 kwh. Tvinnbíllinn eyðir ca 40% minna en venjulegur bíll. Rafbíllinn 100% minna (en tekur rafmagn af netinu sem er framleitt með ýmsum hætti). Ef einungis eru til 100kwh af rafhlöðum er hægt að framleiða 100 Príusa eða 4 Leaf (ég rúnna af tölurnar). Sparnaðurinn er 40% með Príusum en 4% með Leaf, miðað við venjulega bíla!!! Þetta er einn punktur í því sem Birnuson segir og hann er allrar athygli verður.

Líklegt er að Nissan, Mitsubishi og aðrir rafbílaframleiðendur sjái fyrir sér að skortur á rafhlöðum verði ekki takmarkandi þáttur, eins og útreikningurinn að ofan byggir á.

Jón Erlingur Jónsson (IP-tala skráð) 20.5.2010 kl. 00:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband