26.10.2010 | 19:28
Er lítil ísöld eða kuldaskeið að skella á?
Það virðast rúmast vel innan marka rökfræðilistarinnar hjá þeim sem efast um hlýnun jarðar af mannavöldum að halda tvennu fram: Annars vegar að vísindamenn hafi spáð ísöld á áttunda áratugnum og því hafi þeir rangt fyrir sér nú og hins vegar að halda því fram að það muni ekki hlýna heldur kólna og að jafnvel sé yfirvofandi önnur Litla Ísöld eða jafnvel nýtt kuldaskeið Ísaldar.
Þessi viðvörun er merkileg í ljósi þess að þeir sem vara við afleiðingum hlýnunar jarðar af mannavöldum, eru oft á tíðum kallaðir Alarmistar í samhengi við það að margir efasemdamenn vara við yfirvofandi kólnun og meðfylgjandi erfiðu tíðarfari. En við skulum líta aðeins á hvað er til í því að kuldatímabil eða kuldaskeið sé í vændum.
Litla Ísöldin og núverandi hlýnun
Það er ekki langt síðan jörðin gekk í gegnum kuldatímabil sem kallað er Litla Ísöldin (sveiflur eru miklar frá mismunandi stöðum á jörðinni, en almennt er talið að hún hafi staðið frá sautjándu öld og fram til miðja nítjándu öld sumir vilja meina að hún hafi byrjað mun fyrr jafnvel á þrettándu-fjórtándu öld). Við skulum láta það liggja á milli hluta hvort þá hafi verið töluverð hnattræn kólnun eða lítilsháttar og að einhverju leiti staðbundin kólnun um það eru menn ekki sammála.
Það er þó ljóst að hitastig hafði farið hægt lækkandi allavega síðustu 2000 ár, sérstaklega á svæðinu umhverfis Norðurskautið (Kaufman o.fl 2009).
Samkvæmt Kaufman o.fl (2009) þá útskýra breytingar í sporbaug jarðar að mestu leiti þessa hægfara niðursveiflu í hitastigi (sjá umfjallanir Einars Sveinbjörnssonar um hjámiðjusveifluna og um grein Kaufmans o.fl).
Þessi breyting á sporbaug jarðar er einn anginn í svokallaðri Milankovitch sveiflu. Hluti af niðursveiflunni sem varð rétt fyrir iðnbyltinguna má þó hugsanlega einnig rekja til virkni sólar, mikillar eldvirkni og eflaust líka í tímabundnum breytingum í hafstraumum sérstaklega þá í Evrópu (sjá t.d. Orsakir fyrri loftslagsbreytinga til nánari útskýringa á hlut þessara þátta).
Eins og komið er inn á hér rétt fyrir ofan, þá hefur virkni sólar örugglega átt sinn þátt í hluta af kólnuninni á Litlu Ísöld. Að sama skapi má skýra hluta af hlýnuninni frá miðri nítjándu öld og fram að miðri tuttugustu öld með breytingum í sólvirkni en inn í það spilar einnig vaxandi magn CO2 í andrúmsloftinu, sem loks yfirkeyrir áhrif sveifla í sólinni upp úr miðri síðustu öld - tengslin rofna.
[...]
Þeir sem enn eru í einhverjum vafa um að kuldaskeið sé í vændum, ættu að skoða hvort einhver sönnunargögn bendi til þess að kuldaskeið sé í vændum. Jöklar um allan heim eru að hopa hratt, sífreri á norðurslóðum fer minnkandi, hafís norðurskautsins er að minnka og allt þetta er að gerast á vaxandi hraða. Samkvæmt bestu vitneskju vísindamanna, þá eru þetta ekki beint aðstæður sem benda til þess að kuldaskeið sé væntanlegt.
Heimildir og ítarefni
Tengt efni af loftslag.is:- Er hlýnun jarðar slæm?
- Mýta - Það er að kólna en ekki hlýna
- Mýta - Það er kalt á Klonke Dinke og því er engin hnattræn hlýnun
- Mýta - Ískjarnar sýna að CO2 eykst eftir að hiti byrjar að rísa á hlýskeiðum ísaldar
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:29 | Facebook
Athugasemdir
Eitt, og aðeins eitt má fullyrða með vissu um þessi mál. Nýtt jökulskeið kemur fyrr eða síðar. Núverandi hlýskeið hefur staðið í um 11.500 ár, sem er í lengra lagi fyrir hlýskeið á núverandi ísöld (öðru nafni kvartertíma). Ekkert, bara alls ekki neitt bendir til að þessu tímaskeiði jarðsögunnar, kvartertímanum sé að ljúka og því munu allt að þriggja kílómetra þykkir jöklar leggjast yfir norður- og norðvestanverða Evrasíu og mest alla Norður- Ameríku fyrr eða síðar. Brölt mannanna skiptir hér litlu og trúlega alls engu máli. Hvenær jöklarnir koma er hins vegar alveg ómögulegt að segja, en ef svo ólíklega vill til að útblástur af mannavöldum geti seinkað þessari þróun ber að auka koldíoxíðútblásturinn af alefli.
Vilhjálmur Eyþórsson, 26.10.2010 kl. 20:10
Vilhjálmur: Lestu færsluna sem vísað er í, í toppi færslunnar eða smelltu bara á þennan tengil: Er lítil ísöld eða kuldaskeið að skella á?
Loftslag.is, 26.10.2010 kl. 20:59
Er það ekki rétt munað að síðastliðin 2 milljón ár hafa verið um 17 "ísaldir". Kannski svosem 90% tímans. Það má því næstum halda því fram að slíkt kuldaskeið sé eðlilegt ástand, en hlýskeið eins og við erum svo lánsöm að njóta núna en nánast afbrigðilegt.
Hvenær er von á næsta mikla kuldaskeiði sem færir land okkar undir þykka íshellu? Auðvitað getur enginn svarað því.
En hvað segir þessi mynd okkur? Sýnir hún okkur ekki að það hefur verið frekar hlýrra en undanfarnar aldir megnið af tímanum síðastliðin 10.000 ár? Hefur verið að kólna síðastliðin 2 - 3000 ár eða svo? Að minnsta kosti á þessum stað sem rannsóknin fór fram. Virðist langtíma tilhneigingin sýna frakar lækkandi hitastig? Hmmm...
Svo vekja gríðarlegar hitasveiflur athygli. Ætli tími þeirra sé liðinn?
Eiginlega verður manni hrollkalt af því að horfa á þennan feril. Kannski koldíoxíið okkar seinki þessari þróun? Hver veit...
Er líklegt að náttúran bregði út af vana sínum og hafi að eilífu paradís á jörð, 100% tímans? Ekki bara svo sem 10% eins og undanfrnar mílljónir ára, þ.e. á öllu því meginkuldaskeiði sem við lifum á? Ekki finnst mér það líklegt.
Ágúst H Bjarnason, 26.10.2010 kl. 21:06
Ágúst: Mörgum af spurningunum sem þú spyrð er svarað í færslunni sem vísað er í hér fyrir ofan.
Myndin aftur á móti sýnir mér að þú virðist halda að staðbundinn hiti á litlu svæði heims segi okkur eitthvað um hitastig hnattrænt. Þú allavega túlkar myndina þannig. Lesa má greinina sem ferillinn er úr, sem er frá árinu 2000 hér: The Younger Dryas cold interval as viewed from central Greenland
Geturðu bent mér á aðrar óbeinar mælingar sem sýna svipaða niðurstöðu?
Hér eru teknir saman hitaferlar ýmissa óbeinna mælinga, GISP2 ískjarninn frá grænlandi má sjá sem ljósbláa línu með gríðarlegum sveiflum:
Höskuldur Búi Jónsson, 26.10.2010 kl. 21:42
Ef ég man rétt er yfirleitt miðað við að tertíertíma hafi lokið og kvarter hafist fyrir um þrem milljónum ára, eftir að loftslag hafði farið hægt kólnandi í nokkrar ármilljónir þar á undan. Jöklarnir miklu virðast þó ekki hafa lagst yfir fyrr en fyrir ca. tveimur til tveimur og hálfri milljón ára. Fjöldi hlýskeiða og jökulskeiða virðist nokkuð á reiki, að mér hefur sýnst. Sumir tala um 16-17 hlýskeið milli jökulskeiða, en aðrir segja að þau hafi verið yfir 20 talsins. Eins og ég hef bent á, m.a. í Þjóðmálagreininni „Að flýta ísöldinni“ fer loftslag hægt kólnandi og hefur svo verið í a.m.k. sex- sjö þúsund ár, eins og raunar kemur fram í grafinu hér að ofan. Hvenar næsta jökulskeið hefst er aðeins spurning um tíma.
Það merkilega er að gróðurhúsa- gengið, þar á meðal IPCC- liðið virðist alls ekki vita þetta, sem ég og aðrir lærðum þó fyrir mörgum áratugum og stendur óhaggað enn.
Vilhjálmur Eyþórsson, 26.10.2010 kl. 22:24
Vilhjálmur, það getur nú hafa bæst í þekkinguna miðað við það sem þú lærðir í grunnskóla fyrir mörgum áratugum og sumt sem þótti rétt þá er ekki endilega talið hin besta þekking á málum í dag. Það er þó alveg hárrétt að það hafa komið fjöldi hlý- og kuldaskeiða áður, en það er þó ekki þar með sagt að núverandi hlýskeið vegna aukningar gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum geti ekki verið staðreynd, eins og rannsóknir og mælingar vísindamanna benda til.
En hitt er annað mál að þeir sem stunda nafnaköll, eins og Vilhjálmur, eru að mínu mati ekki ýkja málefnalegir.
Ágúst, ertu enn að draga myndir og gröf af http://icecap.us? En eins og ég nefndi áður þá er það ekki ýkja góð heimild um loftslagsfræðin. Spurning fyrir þig að fara að finna nýjar heimildir. Eins og Höski bendir réttilega á, þá er hitastig á Grænlandsjökli ekki mælikvarði fyrir hnattrænt hitastig.
Sveinn Atli Gunnarsson, 27.10.2010 kl. 00:01
Þetta er góð mynd sem þú birtir Höskuldur "Holocene Temperature Variation". Betri en sú sem ég birti.
Lögun svarta ferilsins er sú sem ég var að fjalla um í athugasemd minni, en þessi mynd er bara skýrari þar sem um er að ræða meðaltal margra rannsókna.
Ég skrifaði:
"En hvað segir þessi mynd okkur? Sýnir hún okkur ekki að það hefur verið frekar hlýrra en undanfarnar aldir megnið af tímanum síðastliðin 10.000 ár? Hefur verið að kólna síðastliðin 2 - 3000 ár eða svo? Að minnsta kosti á þessum stað sem rannsóknin fór fram. Virðist langtíma tilhneigingin sýna frekar lækkandi hitastig?"
Takk fyrir að styðja mál mitt Höskuldur. Megininntakið var jú að benda á þá staðreynd að segja má að hlýskeið eins og undanfarin ca 10.000 ár hefur verið undantekning undanfarin milljón ár og gott betur, en um 90% tímans hefur verið það sem við í daglegu tali köllum "ísöld". Einnig benti ég á að loftslagið hefur farið kólnandi undanfarin árþúsund. Það sést vel á svarta ferlinum. Það er því spurning hvenær næsta "ísöld" skellur á. Ætli það sé af stærðargráðunni 1000 ár eða 5000 ár?
Reyndar var spurt í fyrirsögn pistilsins hvort "lítil ísöld eða kuldaskeið" sé að skella á. Það er auðvitað allt annað og á athugasemd mín alls ekki við það. Ég hef stundum vel þessu fyrir mér eins og margir aðrir. Auðvitað er ekki hægt að fullyrða neitt, en óneitanlega gaman að velta því fyrir sér.
Ágúst H Bjarnason, 27.10.2010 kl. 07:27
Ágúst: Stóri munurinn á myndunum okkar er að þín sýnir gríðarlega miklar sveiflur staðbundið - en mín sínir hægfara niðursveiflu hnattrænt. Að auki sýnir myndin sem ég setti inn, að hnattrænt séð, þá er hitastig að öllum líkindum nú orðið hæst á nútíma. Það segir okkur að það er búið að rjúfa þessa hægfara kólnun. Helsti gallinn við myndina frá mér er að hlýnunin undanfarn rúma öld sést lítið sem ekki - hlýnunin er of hröð (þess vegna er bent á hitastigið 2004 með ör).
Annars er rætt um þetta allt saman í færslunni fyrrnefndu. Þar er því einnig velt upp hvenær næsta kuldaskeið kemur og við erum ekki að tala um 1000-5000 ár samkvæmt helstu heimildum. Talið er að án losunar manna á gróðurhúsalofttegundum þá hefði mátt búast við kuldaskeiði eftir um 15-50 þúsund ár - samanber Milankovich sveifluna. Ef losun CO2 fer ekki að minnka, þá erum við að tala um kuldaskeið eftir 130 þúsund ár og ef meirihluti jarðefnaeldsneytis verður brennt, þá má búast við kuldaskeiði eftir um hálfa milljón ára.
Samkvæmt þessu, þá er algjör óþarfi að óttast að kuldaskeið ísaldar skelli á hvað úr hverju- það sem menn þurfa að hafa áhyggjur af er hlýnun Jarðar og loftslagsbreytingum henni samfara. Hversu mikil verður hún, hversu hratt og hvaða afleiðingar mun það hafa í för með sér fyrir samfélög manna og vistkerfi?
Höskuldur Búi Jónsson, 27.10.2010 kl. 08:14
Sæll Höskuldur
Ég var að velta fyrir mér tímarammanum 1000 til 5000 ár að næstu "ísöld" eins og við köllum það í daglegu tali, eða kuldaskeiði ísaldar, þ.e. þegar Ísland fer undir jökul næst.
Hvað telur þú að langt sé í það?
Sjálfur hef ég ekki hugmynd, en tók mjög lauslega mið af fyrri hlýskeiðum þegar ég skrifaði þessar tölur.
.
Ágúst H Bjarnason, 27.10.2010 kl. 09:51
Akkúrat Ágúst - við getum fabúlerað um hvenær næsta kuldaskeið ísaldar gæti hafist - og reiknað með að maðurinn hafi ekki losað allar þær gróðurhúsalofttegundir sem nú þegar eru komnar út í lofthjúpinn og eiga eftir að losna. Vissulega tilgangslítið að velta því fyrir sér - en samt:
Ef miðað er við síðasta hlýskeið, þá væri frekar stutt í næsta kuldaskeið ísaldar, þ.e. aldir-árþúsundir.
Ef miðað er við síðasta hlýskeið sem að Milankovitch sveiflan var sambærileg og nú, þá væri á bilinu 15-50 þúsund ár í næsta kuldaskeið ísaldar (sjá heimildir í færslunni).
Ef bætt er við hin auknu gróðurhúsaáhrif af völdum manna - þá lengist það enn frekar eins og ég benti á (og stendur einnig í færslunni) og fer að verða á bilinu 100-500 þúsund ár í næsta kuldaskeið ísaldar.
Ef það væri ekki þessi fræðilegi áhugi á næsta kuldaskeiði ísaldar - þá væri engin ástæða til að íhuga það, tímaskalinn er það gríðarlega stór.
Höskuldur Búi Jónsson, 27.10.2010 kl. 10:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.