Loftslagsbreytingar með augum bænda

Undanfarna áratugi hafa bændur, í skógivöxnum hlíðum Darjeelings í Himalajafjöllum ,tekið eftir ýmsu undarlegu. Ár og lækir eru að þorna, uppskera minnkar og tré blómstra nokkru áður en vorar. Reynsla þeirra samræmist gervihnattagögnum samkvæmt nýrri grein eftir Chaudhary og Bawa (2011) sem bendir til þess að staðbundin þekking geti í raun hjálpað vísindamönnum að fylgjast með afleiðingum loftslagsbreytinga.

Höfundar tóku viðtöl við heimilisfólk 250 heimila í 18 þorpum í Himalajafjöllum sem öll eru staðsett í 2000-3ooo metra hæð. Til að skekkja ekki niðurstöðurnar þá var ekki spurt beint út um breytingar í veðrakerfum, heldur kannað hvort einhverjar breytingar hefðu orðið í lífsgæðum síðastliðin 20 ár og þaðan fylgt eftir með spurningum um t.d. þurrka og hitastig.

Sem dæmi þá sagði hópur kvenna frá þeirri reynslu sinni að þær þyrftu nú að þvo áhöld til geymslu matar oftar en fyrr, vegna þess að maturinn skemmdist fyrr sökum hærra hitastigs. Annað dæmi eru þorpsbúar sem bjuggu hæst, töluðu um óvenjuheit sumur og að það vori fyrr. Neðar í hlíðunum var síðan kvartað yfir auknum ágangi moskítóflugna og algengar plöntur finnast hærra í fjöllunum en áður á sama tíma og aðrar plöntur hafa horfið.

Breytileiki í landbúnaði er ekki eitthvað sem er óþekkt, en í viðtölunum kom fram að erfitt væri orðið að stunda ræktun vegna þess hversu ófyrirsjáanlegt veðrið er að verða.

Heimildir og ítarefni

Greinin sem til umfjöllunar er, má lesa í Biology letters og er eftir  Chaudhary og Bawa 2011 (ágrip): Local perceptions of climate change validated by scientific evidence in the Himalayas

Umfjöllun um greinina má lesa á heimasíðu Science: Watching Climate Change Through a Farmer’s Eyes.

Tengt efni á loftslag.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sú hækkun hitastigs hér á landi sem varð á síðustu áratugunum fyrir aldamót varð íslenskum landbúnaði til mikils góðs. Það var kærkominn viðsnúningur frá kalárunum svonefndu, sem komu eftir hlýindin um miðja síðustu öld, en þá var veðurfar ámóta og undanfarin ár.

Á síðustu áratugum hefur veðrið verið svo milt að jafnvel hefur verið hægt að rækta korn á Íslandi, eins og einnig var mögulegt á árunum fyrir kaláratímabilið eða hafísáratímabilið sem margir muna eftir. Þar áður var einhver kornrækt stunduð á Íslandi skömmu eftir að land byggðist, en síðan fór að kólna á fjórtándu öld og hélst kalt þar til á síðustu öld.

Hér á landi munar mikið um svona góðæristímabil. Aðeins smávægileg kólnun leiðir til kals í túnum og uppskerubrests eins og sagan hefur kennt okkur. Við getum því ekki annað en vonað að þessi hlýnun haldi eitthvað áfram, en ekki er sopið kálið fyrr en í ausuna er komið og óvíst hvað framtíðin ber í skauti sér.

Með kveðju úr sveitinni.

Manni (IP-tala skráð) 29.6.2011 kl. 20:20

2 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Sæll Manni úr sveitinni. 

Ég skil vel að menn vilji líta á jákvæðu hliðarnar - sérstaklega þegar hinar neikvæðu herja ekki á þá sjálfa og margt bendi til að blómlegt verði í þeirra heimahéraði.

Það má samt ekki horfa fram hjá því að neikvæðu hliðarnar við hinni hnattrænu hlýnun eru langtum alvarlegri en svo að maður geti með góðri samvisku vonast eftir að hún haldi áfram óhindruð - þótt hún gæti orðið góð fyrir fáa útvalda.

Sjá t.d. Er hlýnun jarðar slæm?

Höskuldur Búi Jónsson, 29.6.2011 kl. 21:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband