30.1.2012 | 08:49
Taktur loftslagsbreytinga síðastliðin 20 þúsund ár, á norður- og suðurhveli jarðar
Ein af rökum "efasemdamanna" um þátt manna í hinni hnattrænu hlýnun er að loftslagsbreytingar hafi alltaf orðið - og að hitasveiflur eins og nú eru, séu tíðar þegar skoðuð eru gögn um fornloftslag.
Ný rannsókn sem loftslagsfræðingur í háskólanum í Lundi - Svante Björck - birti fyrir skömmu, bendir til þess að miklar hitasveiflur gerist yfirleitt ekki á sama tíma á norður- og suðurhveli jarðar. Þettta á við um síðastliðin 20 þúsund ár, en það er eins langt aftur og nægilega nákvæm loftslagsgögn beggja hvela jarðar ná aftur. Þessi greining Svante nær því um 14 þúsund árum lengur aftur í tíman en fyrri sambærilegar greiningar.
Margskonar gögn eru notuð sem vísar að fornloftslagi - t.d. kjarnar úr botnseti úthafa og stöðuvatna, úr jöklum og fleira. Í þeim gögnum má lesa hvernig breytingar verða í hitastigi, úrkomu og samsetningu lofthjúpsins.
Höfundur telur að sú hitaaukning sem nú er að gerast, sé harla óvenjuleg í jarðfræðilegu tilliti. Með því að grandskoða greinar og gögn um fornloftslag reyndi hann að finna atburði sem hefðu svipuð áhrif samtímis á norður- og suðurhveli jarðar - síðastliðin 20 þúsund ár. Ekkert slíkt kom í ljós í gögnunum. Þess í stað fann hann tilfelli þar sem hitastig rís á öðru hvelinu en lækkar eða stendur í stað á hinu.
Samkvæmt greiningu höfundar, þá gerast vissulega breytingar samtímis á báðum hvelum - líkt og breytingin yfir í hlýskeið ísaldar. Þær breytingar eru þá af völdum svokallaðra Milankovich sveifla (breytingar í möndulhalla, fjarlægð frá sólu og möndulsnúningssveiflu - sjá fyrri loftslagsbreytingar). Stuttar sveiflur sem eru sambærilegar á báðum hvelum eru síðan tengd sérstökum atburðum - t.d. loftsteinaárekstrum eða eldvirkni sem þá nær að dreifa ösku um allan hnöttin sem dæmi.
En annað kemur í ljós þegar skoðaðar eru stærri skammtímasveiflur eins og t.d. svokallaða Litla-ísöldin - sem stóð yfirf rá um 1600-1900 - en það var óvenjukalt tímabil í Evrópu. Mikill uppskerubrestur varð og efnahagskerfi Evrópu bar afhroð. Hér á landi stækkuðu jöklar og hafísár urðu tíðari. Þann kulda er hins vegar ekki að finna á suðurhveli jarðar á sama tíma.
Nú, aftur á móti, eru að verða hnattrænar breytingar, samkvæmt höfundi. Styrkur gróðurhúsalofttegunda er að aukast gríðarlega og á sama tíma er hnattrænn hiti að aukast - bæði á norður- og suðurhveli jarðar. Sambærileg tímabil hitabreytinga af óútskýrðum völdum finnast ekki síðastliðin 20 þúsund ár. Því verður að líta svo á að núverandi loftslagsbreytingar séu óvenjulegar og vegna breytinga í kolefnishringrás jarðar, sem er af mannavöldum.
Það má því segja - að sambærilegar loftslagsbreytingar og eru að verða nú, eru óþekktar síðastliðin 20 þúsund ár.
Heimildir og ítarefni
Unnið upp úr efni af heimasíðu Lund háskólans, sjá New study shows no simultaneous warming of northern and southern hemispheres as a result of climate change for 20.000 years
Greinin birtist í tímaritinu Climate Research, Svante Björck 2011: Current global warming appears anomalous in relation to the climate of the last 20 000 years
Tengt efni af loftslag.is
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Það virðist margvísleg gögn til.
Sum virðast stangast á - og önnur "passa"... þannig að áreiðanleg niðurstaða ykkar "efasemdarmanna" um að hlýnun kunni aðallega að vera náttúrulegt fyrirbrigði - aðallega áhrif sólar.
Náttúran lætur aldrei vita fyrirfram um einhverja "stökkbreytingu"...
Bara það að fylgjast með veðurfari nokkra daga...
Sýnir okkur hve þekking okkar nær stutt.
Varla hægt að gera áreiðanlega veðurspá í hálfan sólarhring - nema með svo og svo miklu fráviki - jafn vel þó öll veðurkerfi heimsins séu "on line" í gervihnöttum... í tölvum spámanna...
Förum ekki fram úr okkur í "ályktanaóðagoti"
Kristinn Pétursson, 30.1.2012 kl. 17:52
Kristinn Pétursson, 30.1.2012 kl. 17:52: Kolamolarnir Höski og Svatli eru sanntrúaðir koltvísýringsafneitarar. Þeim er ekki við bjargandi greyjunum. Það verður gaman að hafa upp á þeim 2015 þegar endanlega er ljóst að "fræðin" þeirra eru tómt rugl frá upphafi til enda.
Þá er tilvalið að byrja á því að krefja þá um endurgreiðslu á kolefnisskattinum.
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 30.1.2012 kl. 18:09
Takk fyrir athugasemdina Kristinn Pétursson
Merkilegt hvernig sumir eru viljugir til að afneita vísindum trekk í trekk. En tökum þetta punkt fyrir punkt hjá þér...
Fyrst og fremst þá virðast gögnin passa mjög vel saman...hvað sem líður einhverjum vangaveltum afneitunarsinna um annað. Aukin styrkur gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu af mannavöldum (sem er staðreynd) hefur áhrif á hitastig (það er vegna eðlisfræði lofttegundana sem er vel þekkt og staðfest með mælingum). Hitastig er að hækka sem afleiðing þess, þó svo það gerist ekki línulega, heldur eru eðlilegar sveiflur í hækkun hitastigs - m.a. vegna áhrifar sólar, sjávarstrauma o.s.frv. Það hefur t.d. verið skoðað mjög vel hvort að sólin gæti hafa valdið núverandi hlýnun og hún hefur verið sýknuð af því (þó vissulega hafi hún áhrif - en útskýrir þó ekki núverandi hækkun hitastigs)...en að fullyrða um annað er eins og að segja að vísindamenn séu viljandi að "fela" áhrif hennar...sem er bull sem afneitunarsinnar virðast halda á lofti. Við sjáum að hitastigið er að hækka á mörgum atriðum, m.a. minnkandi jöklum um allan heim, bráðnun hafíss á norðurslóðum, mælingum á hitastigi, hlýnun sjávar, aukin gróðurhúsaáhrif af mannavöldum o.s.frv. (mjög sannfærandi gögn) - Mæli með að þú skoðir t.d. eftirfarandi varðandi þetta, Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir
Það heldur því engin fram að náttúran láti vita um einhverjar "stökkbreytingar" - þetta er nú bara einhver kjána útúrsnúningur sem hafa ekkert með málið að gera...og er því ekki svara vert í sjálfu sér.
Veður og loftslag er ekki það sama. Veður er "kaótískt" kerfi sem getur breyst mikið á skömmum tíma (ég tel þó að veðurfræðingar séu nú nokkuð góðir í að spá í það - þó ekki sé það alltaf auðvelt). Loftslag breytist sem afleiðing af breytingum í kerfinu, t.d. sveiflu í orku sólar, sveiflum Milancovitch o.fl., sjá t.d. Orsakir fyrri loftslagsbreytinga - en líka vegna eðlisfræði gróðurhúsalofttegunda, sem hafa áhrif á hitastig. Þannig að við aukin gróðurhúsaáhrif (vegna aukningar gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu), þá mun hitastig hækka - hvort sem okkur líkar það betur eða verr, eða hvort að veðurspáin á morgun er rétt eður ei.
Þó þú teljir að þekking þín nái stutt (sem getur vel verið rétt), þá er ekki þar með sagt að það sé ekki töluverð þekking á þessum málum, enda vísindamenn nokkuð sammála um orsakir og hugsanlegar afleiðingar óheftrar losunar gróðurhúsalofttegunda...þó svo þú virðist vera rugla saman þekkingu í veðurfræðum (sem hefur með veðurspár að gera) og svo fræðum varðandi loftslag (sem hefur t.d. með gróðurhúsaáhrif að gera).
Það er að mínu mati (og reyndar líka vísindamanna almennt) lang best að skoða þessi fræði út frá vísindalegum nálgunum en ekki einhverjum ályktunum "efasemdamanna" sem virðast oft ekki skilja hvað er verið að tala um. Vísindin segja okkur ákveðna sögu og það væri kjánalegt að reyna að álykta á móti heilu vísindagreinunum, bara af því að þú (eða einhver annar) er persónulega á móti niðurstöðunni Kristinn Pétursson!
Sveinn Atli Gunnarsson, 30.1.2012 kl. 18:45
Það er engin niðurstaða til að "vera á móti".
Niðurstaðan er að náttúrufarið sé dularfullt fyrirbrigði sem vissara sé að gæta sín á - daglega - jafn vel oft á dag.
Við vitum t.d. ekkert um næsta Kötlugos sem dæmi. Stórt Kötlugos getur raskað öllu veðrahvolfi jarðkúlunnar - eins og þegar aska frá Íslandi barst til Japan!
Kötlugos getur þess vegna valdið kólnun á allri jörðinni... eins og dæmi virðast um...
Ég segi bara aftur... Förum ekki fram úr okkur í "ályktanaóðagoti"
Kristinn Pétursson, 30.1.2012 kl. 20:11
Einstök eldgos (veit svo sem ekki hvort að Kötlugos séu af þeim mælikvarða) geta haft áhirf á loftslag jarðar til skamms tíma (nokkur ár), en það er þó skammgóður vermir (eða kæling) - enda mun hlýnunin halda áfram svo lengi sem við höldum hugsunarlausri losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið áfram (eðlisfræðin verður söm við sig fyrir því). Síðasta stóra eldgos sem hafði einhver teljanleg áhrifa á loftslag var Mount Pinotubo árið 1991, sjá eitthvað um það hér Geta vísindamenn spáð fyrir um loftslag? - það olli kólnun til skamms tíma. Það er alveg öruggt að við munum upplifa svona gos við tækifæri, en eins og áður kom fram þá er það nú ekki nema til skemmri tíma og breytir ekki eðlisfræðinni fyrir því.
Hins vegar má geta þess að losun CO2 af völdum manna er yfir 100 föld það sem kemur frá eldgosum, sjá Menn losa margfalt meira CO2 en losnar við eldvirkni - þannig að okkar áhrif eru farin að yfirskyggja hin náttúrulegu áhrif margfalt. Það kemur þó ekki í veg fyrir að sumir afneiti staðreyndum með tómum rökleysum og óskhyggju...eða hvað það er sem þú ert að reyna að fara með þessu Kistinn Pétursson - eða er þetta bara einhver mótþrói í þér...
En þér er auðvitað velkomið að afneita vísindum ef þú vilt það Kristinn Pétursson, en vertu þó viðbúin að gögn og mælingar séu á öndverðu við þínar persónulegu skoðanir (sem ekki virðast byggjast á miklu)...svo ekki sé minnst á eðlisfræðina - Sumir virðast telja sjálfsagt að þeirra persónulegu skoðanir séu meira virði en eðlisfræði...enda afneita þeir vísindum með kjafti og klóm - þó ekki beri á röksemdum sem standast skoðun - ekkert nýtt í því hjá afneitunarsinnum...sjá t.d. mýtusafnið okkar á loftslag.is - þú ættir kannski að lesa þér aðeins til í því, það virðist ekki veita af því hjá þér Kristinn Pétursson...
Sveinn Atli Gunnarsson, 30.1.2012 kl. 21:35
Ég sem hélt að 97% af CO2 kæmi af náttúrulegum fyrirbrigðum - t.d. 20% frá jórturdýrum... en é las það einhvers staðar að aðeins 3% af CO2 kæmi frá frá Homo Shapiens...
Ég er ekki að afneita neinum vísindum þó ég dragi í efa suma útreikninga.
Málið er þannig vaxið - að það er búið að reikna sjávarbyggðir á Íslandi til andskotans - sem mannleg samfélög - með fáránlegum "útreikningi" um að skera niður þorskveiðar um 2/3 - að tilefnislausu að mér virðist.
Það er veigamikil ástæða fyrir því að ég trúi afskaplega lítið á einhverjar montfígúrur sem þykjast geta reiknað þetta og hitt um loftslagið - þegar það er ekki einu einni hægt að reikna almennilega veðurspá - næsta sólarhringinn
Hvernig verður veðrið eftir 7 daga? sunnanátt? - norðanátt? - rigning? - snjór?
Kenningin mín um veðrið og fiskana - stenst a.m.k. sæmilega... Það er bara eitt sem er víst:
Það veit enginn neitt - fyrir víst. KP
Kristinn Pétursson, 30.1.2012 kl. 23:52
Það vantar ekki að litli anginn hann Svatli telur sig hafa efni á að tala digurbarkarlega: "eða er þetta bara einhver mótþrói í þér..."(!)
Öll vísindaleg rök hníga í þá átt að litli anginn sé í fullorðinsleik sem hann kann ekki - enda bara wannabe-danskur skógfræðingur.
Félagi Höski er hins vegar óvenju hljóður þessa dagana. BS prófið hans í jarðfræði hefur e.t.v. ræktað upp í honum skilning á því að núna er betra að láta fara lítið fyrir sér.
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 31.1.2012 kl. 00:25
Kristinn Pétursson, það sem maðurinn losar af gróðurhúsalofttegundum er hrein viðbót við kolefnishringrásina og það er það sem veldur því að það er aukning gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu og í hafinu. Sú aukning er það mikil að síðan við iðnvæðingu er aukningin orðin tæplega 40%...sem er þó nokkuð og losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum hefur aldrei verið meiri en akkúrat í dag.
Kristinn, ef þú dregur bara suma útreikninga í efa, þá væri fróðlegt að vita hvað það er, t.d. án þess að draga efa öll fræðin vegna þinna persónulegu skoðana eins og þú hefur gert. Ef þér þykir vísindamenn vera "montfígurur" sem bara telji sig geta reiknað út í loftið án frekari gagna - þá afneitar þú hinni vísindalegu aðferð. Ég ætla ekki að þræta við þig um fiskveiðar, enda ekki til umræðu hér...
Hilmar Hafsteinsson, ætlar þú bara að eltast við okkur Höska með persónulegum aðdróttunum eða hvað. Ef þú getur ekki komið með málefnalegar athugasemdir, þá ættirðu kannski að halda þig frá því að ræða um þessi mál. Líttu á þetta sem viðvörun, við munum loka fyrir athugasemdir sem virðast bara snúast um persónulegar aðdróttanir á móti fólki...
Sveinn Atli Gunnarsson, 31.1.2012 kl. 08:54
Kristinn: Aukningin á styrk CO2 er af mannavöldum - heildarferlið er stærra, sjá mynd:
Þekking manna á losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum er sirka þessi (reyndar mynd frá árinu 2007 og gæti hafa breyst lítillega).
Smelltu til að stækka.
Ég reikna með þegar þú segir jórturdýr að þú sért að meina búfé manna (livestock) - en losun þeirra er um 5,1 af þeirri losun sem kemur frá mönnum samkvæmt þessari mynd.
Annars skil ég ekki þennan hugsunargang þinn. Þú ert ósammála því sem vísindamenn hafrannsóknarstofnunar halda fram =====> þú ert þar með ósammála því sem allt aðrir vísindamenn segja um loftslagsbreytingar.
Höskuldur Búi Jónsson, 31.1.2012 kl. 08:55
Sveinn Atli Gunnarsson, 31.1.2012 kl. 08:54: "Líttu á þetta sem viðvörun..."
Ég skelf á beinunum Svatli minn! Það er annars lýsandi fyrir málstaðinn ykkar að þið hótið að loka á þá sem segja sannleikann umbúðalaust. Eða hvar eru háskólagráðurnar þínar Svatli minn? Þú talar niður til manna úr háloftunum sem dirfast að vera á annarri skoðun en "rétttrúnaðurinn" ykkar leyfir - gjörsamlega innistæðulaust. Þú ert stórasti stúdent í heimi karlinn.
Hvað Höska varðar þá er hann litlu betri. Veifar aumu BS-prófi í jarðfræði og þykist hafa efni á að "skilja ekki hugsunargang" þeirra manna sem færa fram önnur (og haldbetri) rök en hann sjálfur.
Við skulum láta þetta gott heita EF þið samþykkið að draga ykkur í hlé til 2015 og láta náttúruna njóta vafans. Árið 2015 verður hægt að leggja óyggjandi hitamælingar til grundvallar um hvort jörðin sé að kólna.
Ef þið þverskallist við verður ykkur mætt af fullri hörku. Berrassaður besserwisserar eiga ekki skilið neina fræðilega linkind.
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 31.1.2012 kl. 16:55
Kæri Hilmar - ef þú getur haldið þér við málefnin (sem á t.d. ekki við í síðustu athugasemd) þá lokum við á þig. Það er ekkert persónulegt, við nennum bara ekki að standa í einhverjum umræðum við fólk sem ekki kann að ræða hlutina án þess að standa í persónulegar aðdróttanir... Þér er velkomið að ræða hlutina á málefnalegum nótum hér, eins og allir aðrir. En einhverjar persónulegar aðdróttanir verða ekki liðnar, hvort sem þér líkar það betur eða verr.
Fræðileg og málefnaleg umræða Hilmar - ekki persónulegar aðdróttanir - það er málið... líttu á þetta sem loka viðvörun Hilmar.
Sveinn Atli Gunnarsson, 31.1.2012 kl. 19:50
Svona svo Hilmar misskilji ekki, þá átti fyrsta setningin í síðustus athugasemd minni að vera svona (virðist hafa skolast eitthvað til hjá mér):
Kæri Hilmar - ef þú getur ekki haldið þér við málefnin þá lokum við á þig.
Sveinn Atli Gunnarsson, 31.1.2012 kl. 20:02
Hilmar Hafsteinsson - þú fékkst viðvaranir, en nú er búið að loka á þig. Hafðu það gott í framtíðinni og þeim umræðum sem þú velur að nýta tíma þinn í, en mundu að persónulegar aðdróttanir eru ekki passandi í umræðum við fólk.
Loftslag.is, 31.1.2012 kl. 21:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.