Svar við rangtúlkun

Þar sem lokað er á athugasemdir frá okkur ritsjórum á loftslag.is á "vísinda"bloggi Ágústar Bjarnasonar þá finnst okkur rétt að rita stutta athugasemd við nýjustu rangtúlkun hans á þróun sjávarstöðubreytinga. Ath, þetta er ekki í fyrsta skipti sem Ágúst rangtúlkar skammtímasveiflur sjávarstöðubreytinga í baráttu sinni gegn loftslagsvísindunum. 

Að þessu sinni hefur Ágúst rekist á skammtímaniðursveiflu í hækkun sjávarstöðu sem átti hámark sitt á árunum 2010-2011. Eins og Ágúst myndi vita ef hann hefði lesið fyrsta tengilinn sem hann vísar í (neðst á síðunni), þá tengist sú niðursveifla óvenjukröftugum La Nina atburði í Kyrrahafinu.

earth20110823-640

 

Óvenjulega mikil úrkoma hafði þá fallið á land umhverfis Kyrrahafið sem útskýrir þessa sveiflu. Þessi skammtímaniðursveifla hefur enn áhrif á meðaltal sjávarstöðubreytinga síðustu missera, eins og kemur fram á línuritunum sem hann birtir á sínu bloggi. Það er þó algjör rangtúlkun að ætla að þar með dragi úr hækkun sjávarstöðu - með slíkri túlkun er einfaldlega verið að sérvelja gögn (e. Cherry Picking). 

S%C3%A9rvalin-kirsuber

Með því að sérvelja kirsuberin á þessu tré, væri hægt að halda því fram að á því vaxi aðallega blá ber. 

Ef þess er gætt að skoða gögn lengra aftur í tíman, þá sést greinilega að hækkun sjávarstöðu hefur aukist ásmegin eftir því sem nær dregur nútímanum:

sea-level-tidal-satellite

 

Hvað sem líður skammtímasveiflum (sem alltaf verða), þá er ljóst að hækkun sjávarstöðu heldur áfram af miklum þrótti og ef miðað er við fréttir af mikilli bráðnun jökla víða um heim og hækkun hitastigs þá er ljóst að ekkert lát verður á þeirri hækkun sjávarstöðu sem við sjáum og búist er við á næstu áratugum og öldum.

 

 Sjá einnig á loftslag.is:

 Eru einhverjar sjávarstöðubreytingar í gangi?

 Spurt og svarað um sjávarstöðubreytingar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Geir Magnússon

Margir hérna í guðs eigin landi Ameríku eru svo heppnir að þurfa rkki að hugsa um mál eins og hitun jarðar og hæð sjávar. Þeir trúa á repúblikanaflokkinn, sem segir að allt tal um hitun jarðar sé slúður  og áróður æsingamanna. Þetta sparar fólki miklar hugsanir.

Geir Magnússon, 12.8.2012 kl. 20:26

2 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Satt. Mér skilst að republikanaflokkurinn í Norður Karólínu sé að reyna að koma því í lög að við framtíðarskipulag við sjávarsíðuna þá megi eingöngu taka tillit til sjávarstöðubreytinga eins og þær urðu á síðustu öld - ekki megi gera ráð fyrir að sjávarstöðubreytingar muni sækja í sig veðrið. Gáfulegt...

Höskuldur Búi Jónsson, 12.8.2012 kl. 21:45

3 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Merkilegt með þennan pistil hjá Ágústi, hann er búinn að loka alfarið fyrir athugasemdum þótt pistillinn sé bara 3 daga gamall.

Ég kíkti á NASA, http://climate.nasa.gov/keyIndicators/#seaLevel, og þar er línurit út frá gervihnattamælingum, sýnir allt annað en línuritin hjá Ágústi sem eru fengin frá einhverjum norskum prófessor sýnist mér? Hver er eiginlega munurinn á gögnum sem liggja að baki?

Brynjólfur Þorvarðsson, 13.8.2012 kl. 06:50

4 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Þess má geta að það er kannski ólíklegt að við munum sjá aukningu í hækkun sjávarborðs á tiltölulega skömmu tímabili, eins og Ágúst virðist álykta að sé hægt. Það tekur einfaldlega tíma að sjá aukningu sem gæti verið í pípunum, fyrir utan að skammtímasveiflur eru það miklar að erfitt er að greina aukningu nema með lengri tímabili - eins og kemur fram í pistlinum hér að ofan. En við munum væntanlega greina auknar sjávarstöðubreytingar innan 1-2 áratuga - miðað við þá hlýnun sem er orðin og mun koma til á næstu áratugum.

En þessi aðferðafræði "efasemdamanna" að sérvelja (cherry pick) gögn til að "sýna" fram á að ekkert sé að gerast eða að ekki sé hægt að svara því með afgerandi hætti að eitthvað sé í gangi er alþekkt aðferð. Þeirra aðferðafræði virðist m.a. byggjast á eftirfarandi punktum (sjá nánar t.d. hér):

1. Samsæriskenningar

2. Sérvalin gögn (e. cherry-picking)

3. Fals sérfræðingar

4. Ómögulegar eftirvæntingar (einnig þekkt sem færanleg markmið)

5. Almennar rökleysur

Sumir vilja einnig bæta við 6. liðnum, sem er endurtekning á rökum sem búið er að hrekja.

Ágúst virðist í pistil sínum hafa notast við 2, 3 og 6 - kannski líka 4 og 5.

Sveinn Atli Gunnarsson, 13.8.2012 kl. 08:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband