Er að kólna?

Það heyrast alltaf annað slagið þau rök að það sé ekki lengur að hlýna, heldur sé að kólna og til að styðja það benda menn á að nú sé kaldara en árið 1998.

Skoðum "klassískt" línurit:

uah_lt_since_1979_810359
Graf frá Dr. Roy Spencer gerði, ég gerði lítillega grín að því - sjá Endajaxlakenninguna.

Þar sést meðal annars toppur sem tengist El Nino hlýnun (hlýi partur suðurhafssveiflunnar í Kyrrahafi). Einnig er hluti af niðursveiflunni 2007-2008 talið tengjast La Nina (kaldi partur suðurhafssveiflunnar í Kyrrahafi).

það er mögulega rangt af mér að nota þetta línurit, en samskonar línurit eru oft notuð til að sýna fram á að það sé að kólna og oft sagt að það hafi hafi ekki hlýnað síðan 1998, heldur sé búin að vera ákveðin kólnun frá þessu ári.

Það er margt rangt við slíka framsetningu. Í fyrsta lagi er það alls ekki vísindalegt að nota hámark sem þetta sem viðmiðun, í öðru lagi þá segja 10 ár lítið til um loftslagsbreytingar (of stuttur tími) og þar af leiðandi er verið að álykta margt út frá allt of litlum gögnum og ónýtum viðmiðunum.

Búin hafa verið til línurit sem taka mið af þessum tímabundnu fyrirbærum og þá líta línuritin nokkuð öðruvísi út:

enso_corr

Hér eru sýndir hitastigsferlar frá tveimur mismunandi rannsóknum og þykku línurnar sýna leiðréttingu fyrir suðurhafssveiflunni (frá realclimate.org).

Þegar þessir ferlar eru skoðaðir þá er ekki hægt að sjá að það hafi kólnað síðastliðin tíu ár.

Auk þess hefur verið bent á að það sé nánast alltaf hægt að finna nokkur ár í röð í svona sveiflukenndu ferli sem sýnir afturhvarf frá ráðandi ferli. Lítum á ráðandi feril sem sýnir greinilega hlýnun frá árinu 1970-2008:

1970-2008
Ferill sem sýnir hlýnun frá 1970-2008 (mynd frá chriscolose.wordpress.com)

Hér er svo önnur mynd sem sýnir feril úr sömu gögnum frá árinu 1977-1986:

1977-1986
Ekki er hægt að sjá fylgni í þessum gögnum frá 1977-1986 (mynd frá chriscolose.wordpress.com).

Eins og sést þá er hægt að klippa út úr gögnum sem sýna nokkuð greinilega hlýnun, brot úr gögnunum sem sýnir enga hlýnun. Það þykir víst heppilegt að miða við árið 1998, fyrir þá sem vilja halda því fram að engin hlýnun sé nú.

Hvað ef hlýnunin í framtíðinni verður eins og næsta graf sýnir? Verða þá háværar raddir árið 2030 um að það sé ekki að hlýna heldur að kólna?

non-monotonic
Hugsanlegar sveiflur í hlýnun jarðar í framtíðinni, mér skilst að þetta sé bara spurning með grafíska framsetningu, ekki sé eiginleg spá þarna á bakvið (Mynd tekin af heimasíðunni scienceblogs.com/islandofdoubt)

Það þarf að kólna töluvert og í 2-3 áratugi áður en hægt sé að halda því fram að það sé að kólna. Þeir sem halda öðru fram eru annað hvort með óskhyggju á háu stigi eða þá að þeir eru vísvitandi að reyna að afvegaleiða þá sem ekki eru vísindalega þenkjandi.

Gleðilega páska Wink


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Þú nefnir 2-3 áratugi sem lágmark til að halda því fram að um kólnun sé að ræða.

Það hlýtur þá að gilda á hinn veginn líka. Allir sem töldu hlýnun frá árinu 1975 vera marktæka til merkis um hlýnun af mannavöldum höfðu þá rangt fyrir sér, ef þeir héldu þessu fram fyrir árið 2000.

Það er býsna stór hópur vísindamanna sem þú hefur dæmt mjög harkalega með þessari röksemdafærslu.

Finnur Hrafn Jónsson, 13.4.2009 kl. 15:06

2 Smámynd: Loftslag.is

Þetta er mögulega rétt hjá þér, ég get ekki sagt þér hvað ég hefði hugsað í lok síðustu aldar, þar sem ég var ekki byrjaður að pæla af viti í þessum málum þá...

En er það rétt hjá þér að vísindamenn hafi almennt séð verið komnir á þá skoðun að hlýnun væri marktæk í lok síðustu aldar, spyr sá sem ekki veit?  

Hitt er þó annað að það er ekki í spilunum að það sé að kólna núna, nema miðað sé við árið 1998... hvað segir þinn vísindalegi hugsunargangur, finnst þér í alvöru að það sé að kólna ef þú rýnir í línurit sem sýna hnattrænt hitastig?

Loftslag.is, 13.4.2009 kl. 16:27

3 Smámynd: Loftslag.is

P.S. það skal tekið fram að ég hef það á tilfinningunni að það muni draga úr hlýnuninni næsta 1-2 ár (meðalhitinn lækki jafnvel), þá aðallega út af því að virkni sólar er í miklu lágmarki þessi misserin... kólnunin er þó minni en maður hefði gert ráð fyrir miðað við hversu lítið virk sólin er, sem styrkir ennfremur kenninguna um hlýnandi jörð af mannavöldum.

Það má segja sem svo að ef lækkað er á ofninum þá er líklegt að það kólni í herberginu, þrátt fyrir góða einangrun...

Loftslag.is, 13.4.2009 kl. 23:25

4 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

James Hansen gaf vitnisburð fyrir bandarískri þingnefnd 1988. Hansen þessi er almennt talinn sá sem kom manngerðri hlýnun á kortið.

Sjá:  http://www.worldwatch.org/node/5786

 IPCC nefnd Sameinuðu þjóðanna var einnig stofnuð sama ár. Þar má segja að sé drifkrafturinn bak við hlýnunarkenninguna. Sjá: http://www.ipcc.ch/

Allan 10. áratug síðustu aldar var unnið mikið starf í loftslagsrannsóknum þar sem hlýnun af mannavöldum var viðtekin skoðun, sérstaklega þegar leið á áratuginn.

Síðustu árin finnst mér raddir efasemdarmanna hafa orðið meira áberandi. En það kann að vera rangt hjá mér. Kannski hef ég bara veitt þeim meiri athygli en áður. Nefna má þó nýlegan lista yfir 700 vísindamenn með efasemdir sem var tekin saman fyrir bandarísku öldungadeildina, sjá hér:

http://epw.senate.gov/public/index.cfm?FuseAction=Minority.Blogs&ContentRecord_id=2674E64F-802A-23AD-490B-BD9FAF4DCDB7

Einhverjir hafa gagnrýnt þennan lista fyrir að það séu ekki allt loftslagssérfræðingar sem séu á honum. Þá má nefna að uppistaðan af 2500 IPCC vísindamönnunum eru heldur ekki loftslagsfræðingar.

Í raun er hluti af því sem deilt er um, hvaða vísindagreinar skipti mestu máli í þessu sambandi. Ýmsir stjarneðlisfræðingar hafa haldið á lofti kenningum um hlýnun sem stangast á við kenningar margra loftslagsfræðinga.

Mikilvægur hluti starfs IPCC eru spádómar um hlýnun næstu 100 ár. Einhversstaðar las ég grein eftir sérfræðing í spádómum (Forecasting) sem sagði að margar helstu reglur spádómsfræða hefðu verið brotnar af IPCC. Nei, ég er ekki að tala um stjörnuspekinga heldur virta fræðimenn sem starfa við marga af helstu viðskiptaháskólum heims. Sjá t.d.

Grein um hlýnunarspádóma
http://www.forecastingprinciples.com/index.php?option=com_content&task=view&id=78&Itemid=130

Aðildarlista í alþjóðlegri stofnun um efnið - meðal annars ýmsir háskólar:
http://forecasters.org/board.html

Þessir menn eru ekki loftslagssérfræðingar. En ef þeir sjá aðfinnsluverð vinnubrögð í spádómum loftslagsfræðinga um hlýnun í framtíðinni hef ég tilhneigingu til að taka frekar mark á þeim.

Varðandi þróun undanfarið. Það eina sem ég get lesið út úr línuritunum er að síðustu 10 ár eða svo hefur meðalhitinn breyst lítið. Mælingar á hita úthafana hafa þó sýnt ákveðnari merki um kólnun síðustu 3-4 ár en hvort það er byrjun á einhverju stærra veit ég ekki.

Hvert ár sem bætist við án ákveðinni merkja um hlýnun meðan losun CO2 heldur áfram að aukast hlýtur þó að vekja vaxandi efasemdir um að CO2 sé eins ráðandi þáttur í hlýnun og af er látið. 

Finnur Hrafn Jónsson, 14.4.2009 kl. 00:01

5 Smámynd: Loftslag.is

Takk Finnur, skoða þetta við tækifæri. 

Ég ætla svo að setja inn tengil hér til að minna sjálfan mig (og aðra) á að lesa það sem þar stendur: http://moregrumbinescience.blogspot.com/2009/01/results-on-deciding-trends.html 

Er ekki búinn að lesa það enda nokkuð langt (og var að rekast á það rétt fyrir svefninn), en þar er held ég útskýrt af hverju skoða þurfi gögn til 20-30 ára til að geta dregið ályktun varðandi loftslagsbreytingar.

Loftslag.is, 14.4.2009 kl. 00:35

6 Smámynd: Loftslag.is

Finnur þú nefnir að efasemdaraddir séu að auka við sér fylgi, má vera að svo sé á bloggsíðum sérstaklega erlendis, en þessi upptalning hér er ansi sannfærandi og sýnir að vísindasamfélagið í heild er á annarri skoðun.

Varðandi að það hefur lítið hlýnað undanfarin ár, þá held ég að það sé enginn sem gerir lítið úr áhrifum sólarinnar, hún hefur gríðarleg áhrif og miðað við þá lægð sem hún er í núna, þá er ósköp eðlilegt að það hlýni lítið á meðan - það hefur þó verið sýnt fram á að hlýnunin undanfarna áratugi má að mestu leiti skrifa á CO2 - sveiflur í ferlinum er svo út af öðrum áhrifum, t.d. sveiflum í sólu, El Nino (og La Nina) og eldgosa.

Varðandi tengilinn sem ég setti inn í færslunni hér fyrir ofan, þá mæli ég með honum og sérstaklega þessari mynd:

[fig5.png]

Hún sýnir að frá því á seinni part sjöunda áratugarins, þá hefur trendið verið í átt til hlýnunar - hvað trendið fyrir árið í ár verður kemur ekki í ljós fyrr en eftir nokkur ár.

Svo ég svari aftur fullyrðingu þinni hér fyrir ofan eftir að hafa lesið þennan tengil, fullyrðingin:

Allir sem töldu hlýnun frá árinu 1975 vera marktæka til merkis um hlýnun af mannavöldum höfðu þá rangt fyrir sér, ef þeir héldu þessu fram fyrir árið 2000.

Samkvæmt tenglinum, þá ættu menn með þessum aðferðum að hafa vitað í kringum 1985 að hlýnunin væri marktæk árið 1975 - allavega ef þeir hefðu haft sambærileg gögn og þeir hafa í dag.

Loftslag.is, 15.4.2009 kl. 22:02

7 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Jafnvel þó að menn sannfæri sig og aðra um að ákveðin "trend" sé í gangi í þróun hita stendur eftir sá vandi að greina á milli náttúrulegra orsaka og mannlegra.

Síðustu ár gefa að minnsta kosti ástæðu til að leyfa sér að efast um að hitafar jarðar ráðist af aukinni losun CO2.

Ef horft er lengra aftur í tímann áður en menn fóru að losa CO2 að ráði, gerir meðalhiti jarðar nánast ekkert annað en sveiflast upp og niður. Engin ástæða er til að ætla að þeir náttúrulegu kraftar sem valda því, hverjir sem þeir eru, séu hættir störfum.

Íslenskar borkjarnarannsóknir á Grænlandsjökli hafa m.a. sýnt fram á snöggar hitabreytingar á nokkrum áratugum löngu fyrir tíma losunar manna á CO2.

Finnur Hrafn Jónsson, 17.4.2009 kl. 20:59

8 Smámynd: Loftslag.is

Skoðaðu myndirnar neðarlega á þessari síðu: http://vedur.is/loftslag/loftslagsbreytingar/breytast

Samkvæmt þeim þá væri hiti jarðar nú töluvert lægri ef CO2-útblástur væri ekki.  

Ég veit að þetta er bara líkanagerð, en ansi sannfærandi, en þær sýna hvernig hitastig stjórnast að mestu af útblæstri CO2, sérstaklega undanfarna sirka fjóra áratugi. Þar fyrir utan eru náttúruleg ferli sem hafa vissulega áhrif, sérstaklega varðandi tímabundnar sveiflur. Það eiginlega kemur ekki á óvart að hlýnun jarðar hefur hægt á sér nú - miðað við að sólin er í mikilli lægð.

Loftslag.is, 17.4.2009 kl. 21:27

9 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Greining sem þú vísar í er dæmigerð fyrir röksemdafærsluna sem er í gangi fyrir manngerðri hlýnun.

Í lokakafla greinarinnar stendur eftirfarandi:
"Af ofanskráðu má vera ljóst að líklegast er að þessa hlýnun megi rekja til losunar gróðurhúsalofttegunda"

Ég byrjaði að lesa greinina aftur frá upphafi til að leita að því sem ég hefði misst af.

Leitin bar ekki árangur. Þónokkru máli var eytt í að lýsa hlýnun og afleiðingum hennar en eina setningin sem fullyrðingin í lokakaflanum gat vísað til var eftirfarandi:
"Ef magn CO2 og annarra gróðurhúsalofttegunda eykst má búast við auknum gróðurhúsaáhrifum og hnattrænni hlýnun" án frekari útskýringa eða rökstuðnings.

Á dæmigerðan hátt er hlýnun í tengslum við aukna losun CO2 stillt upp sem vísindalegri staðreynd sem ekki þurfi að útskýra nánar.

Eins og kemur síðan fram í lokakaflanum og þú bendir réttilega á, byggist röksemdafærslan á niðurstöðum tölvulíkana sem geta aldrei orðið marktækari en forsendurnar sem þau byggjast á.

Forsendurnar hljóta meðal annars að byggjast á ófullkominni þekkingu á orsökum náttúrulegra sveiflna í veðurfari. Síðan er niðurstaðan sú að það sem upp á vantar til að skýra hlýnunina hljóti að vera afleiðing aukinnar losunar. Það finnst mér veik kenningasmíð og langt frá því að vera einhver sönnun.

Eðlisfræðingar við virta háskóla hafa skrifað greinar þar sem fullyrt er að áhrif CO2 til að tempra útgeislun frá jörðinni séu nú þegar nálægt mettunarmörkum þannig að frekari losun skipti engu máli til eða frá.

Danskir loftslagsfræðingar hafa sett fram kenningar um óbein áhrif sólargeislunar sem geti haft mun meiri áhrif á hita jarðar en beinu áhrifin.

Áðurnefnd atriði og margt fleira fær mig til að efast um þessa hefðbundnu hlýnunarkenningu sem nú er svo vinsæl.


Höski: þú átt þakkir skilið fyrir framlag þitt. Ég og fleiri efasemdarmenn hafa átt í basli með það þeir fylgjendur hlýnunarkenningarinnar sem hafa verið mest áberandi á blogginu hafa ýmist fullyrt að efasemdarmenn væru ekki til, á mála hjá olíufélögunum eða einhverjir ruglukollar. Þá undanskil ég Einar Sveinbjörnsson veðurfræðing sem er málefnalegur en hefur reyndar ekki mikið blandað sér í þessar umræður.

Þú færir þó málefnalega rök fyrir málstað þínum sem hægt er að ræða um.

Finnur Hrafn Jónsson, 18.4.2009 kl. 14:47

10 Smámynd: Loftslag.is

Takk fyrir það Finnur... ég hef gaman af því að spá í þessa hluti og er rétt að byrja... Það er með þetta eins og margt annað að því meira sem maður les, því meira verður það ljóst hvað maður veit lítið...

Loftslag.is, 20.4.2009 kl. 23:55

11 Smámynd: Loftslag.is

Annars rakst ég á ágætis bloggfærslu sem útskýrir þetta nokkuð vel:

http://www.skepticalscience.com/Is-the-climate-warming-or-cooling.html

Loftslag.is, 21.4.2009 kl. 13:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband