5.5.2009 | 19:04
Er yfirborð Grænlandsjökuls að hækka?
Ein af mótrökunum sem ég hef heyrt undanfarið, gegn kenningunni um hlýnun jarðar af mannavöldum er sú fullyrðing að yfirborð Grænlandsjökuls sé að hækka (eða að hann sé að stækka).
Ég er búinn að minnast lauslega á Grænlandsjökul í nýlegum færslum hér á loftslagsblogginu, en hér kemur nákvæmara svar.
Í fyrsta lagi er þetta rökleysa.
Þótt svo væri að yfirborð Grænlandsjökuls væri að hækka, þá værum við að tala um staðbundið fyrirbæri - jökul sem rís hærra yfir sjávarmáli en almenn bráðnun nær, þrátt fyrir þá hlýnun jarðar sem nú er staðreynd.
Í öðru lagi þá mætti nota þetta sem rök með hlýnun.
Ef yfirborð hans væri að hækka (sem hann virðist hafa gert á tímabili, þ.e. efst á jöklinum), þá væri allt eins hægt að benda á að úrkomumynstrið væri að breytast (meiri snjóalög að vetri), sem gæti allt eins verið vegna hlýnunar jarðar. Til eru hæðargögn frá árinu 1992-2003 sem sýna þetta, að ofan við 1500 m þá hækkaði yfirborð Grænlandsjökuls um rúman hálfan metra - vísindamennirnir sem framkvæmdu þessa rannsókn, sýndu einnig fram á að jökullinn væri að þynnast út við jaðra Grænlands neðan við 1500 m hæð. Meiri ákoma að vetri tengdu þeir breytingum í úrkomu (sem sagt meiri snjókomu að vetri).
Í þriðja lagi þá er of lítið vitað um Grænlandsjökul.
Til þess að hægt sé að tengja afkomutölur Grænlandsjökuls við loftslagsbreytingar, þá þyrfti að skoða gögn 20-30 ár aftur í tímann. Áður benti ég á hæðargögn frá 1992-2003, en við hafa bæst gögn frá gervihnöttum sem mæla nákvæmlega massabreytingar í Grænlandsjökli frá árinu 2003-2008 - eða í fimm ár. Það er þó eingöngu hægt að nota gögnin sem vísbendingu um breytingu, en ekki hægt að túlka þau sem gögn sem sanna eða afsanna hlýnun jarðar.
Í fjórða lagi er þetta alls ekki rétt fullyrðing, miðað við nýjustu gögn.
Þetta er eflaust mikilvægast, því ef menn vilja nota þau mótrök að yfirborð Grænlandsjökuls sé að hækka, þá þurfa gögnin að sýna það, en nýjustu gögnin sýna það bara alls ekki.
Hér er þróunin í massabreytingum frá 2003-2005 myndrænt (frétt á vefsíðu NASA 2006)
Hér fyrir neðan er svo mynd sem sýnir massabreytingar á Grænlandsjökli út frá þessum gervihnattagögnum frá árinu 2003-2008. Við viljum líta á neðri myndina fyrst því hún tengist fullyrðingunni beint, en hún sýnir massabreytingu ofan við 2000 m hæð.
Hér eru myndir sem sýna massabreytingar í Grænlandsjökli, fyrst neðan við 2000 m og síðan ofan við 2000 m (ég hef ekki aðgang að greininni, en mér skilst að þessar myndir séu héðan - mynd stolin af skepticalscience.com).
Eins og sést á neðri myndinni þá eru nánast engar massabreytingar ofan við 2000 m hæð. Kíkið svo á efri myndina hún tengist næsta punkti - þ.e. massabreytingar neðan við 2000 m hæð.
Í fimmta lagi þá þarf að skoða Grænlandsjökul í heild til að fullyrða eitthvað um hann.
Eins og myndin hér fyrir ofan sýndi þá hefur Grænlandsjökull rýrnað töluvert neðan við 2000 m en staðið í stað ofan við 2000 m markið. Myndin hér fyrir neðan sýnir svo samtölu massabreytinga í Grænlandsjökli.
Hér er mynd sem sýna samtals massabreytingar í Grænlandsjökli síðastliðin fimm ár (ég hef ekki aðgang að greininni, en mér skilst að þessar myndir séu héðan - mynd stolin af skepticalscience.com).
Þetta gera um 179 gígatonn á ári sem Grænlandsjökull er að rýrna, síðastliðin fimm ár. Það samsvarar sjávarborðshækkun um 0,5 mm á ári.
Þannig er nú það - Yfirborð Grænlandsjökuls er ekki að hækka ofan við 2000 m, heldur stendur í stað að meðaltali - en í heild er hann að rýrna töluvert.
---
Meira um Grænlandsjökul:
Skriðjöklar Grænlandsjökuls eru að auka hraða sinn - sem þýðir meiri bráðnun og meiri hækkun sjávar.
GPS mælingar sýna að Grænland er að rísa um fjóra sentimetra á ári - það er vegna minnkandi fargs jökla (ísóstatískar hreyfingar) - jöklar bráðna, minni þyngd, land rís - hann er því sannarlega að minnka og hraði bráðnunarinnar eykst (fyrir 2004 reis Grænland um 0,5-1,0 sentimerta á ári - nú um 4 sentimetra á ári).
---
Auk þess hef ég meira að segja heyrt menn segja að Grænlandsjökull hafi stækkað í vetur - það er versta rökleysan, því eins og allir vita þá snjóar á veturna og jöklarnir safna á sig snjóalögum - auðvitað eykst massi jökulsins við það, en það er ekki hægt að fullyrða neitt um massabreytingar fyrr en eftir leysingar sumarsins.
---
Að lokum bendi ég á ágæta mynd sem sýnir þróun í þykkt jökla í heild í heiminum undanfarna áratugi, þ.e. áætlað meðaltal - hér ná upplýsingarnar það langt aftur að hægt er að tala um að þær túlki loftslagsbreytingu:
Hnattræn breyting á þykkt jökla frá 1961-2005 (mynd frá NSIDC).
Athugasemdir
Takk fyrir þitt góða blogg.
Hörður Þórðarson, 5.5.2009 kl. 20:28
Takk fyrir góða kveðju.
Loftslag.is, 6.5.2009 kl. 00:18
Fyrir þá sem hafa gaman af jöklum og myndum af þeim, þá er hér nokkuð góð síða: http://www.extremeicesurvey.org/index.php
Loftslag.is, 6.5.2009 kl. 00:29
Það er ekki nokkur afi á því að þú hefur kafað vel ofan í loftslagsmál en þá þekkingu þína notarðu ekki vel. Þú ert greinilega búinn að gera vísindi að trúarbrögðum því það er sama hvað við þig er sagt; ef það fellur ekki að þinni "trú" þá er það tóm vitleysa, þetta eru sömu vinnubrögð og Al Gore og áhangendur IPCC hafa notað.
Þú segir t. d. hér að framan "þrátt fyrir þá hlýnun jarðar sem nú er staðreynd". Við vitum báðir að þetta er ekki rétt, meðalhiti jarðar hefur verið í jafnvægi frá 2002, engin hlýnun í gangi.
Það er nefnilega mjög fróðlegt að sjá ábyggilegar hitamælingar a) frá norðurhveli jarðar, b) frá miðbaug, c) frá suðurhveli jarðar. Þessar mælingar sýna að það er ekki það sama að gerast yfir allan hnöttinn.
Svo kemur þetta: þó það væri hnattræn hlýnun í gangi væri það ekki nokkur sönnun að hún væri af manna völdum. Ég tel að það sé hægt að færa rök fyrir því að maðurinn kunni að hafa örlítil áhrif til hækkunar en sú barátta sem "alarmistar" hafa barið í gegn með að verja óheyrilegum fjármunum til að berjast gegn kolefnisbruna mun : a) skila sáralitlum árangri til að lækka CO2 magn b) sóa óheyrilegum fjármunum sem gætu gert geysimikið til hjálpar þeim sem eru verst settir í heimi hér.
Þú svarar litlu um fölsun Michael Mann, Hokkýstafinn. Þess vegna spyr ég þig beint út; viltu viðurkenna það að þessi grundvöllur undir öllum kenningum "alarmista" sé fölsun. Þú segir að það sé húmor í því að ég komi með fréttina og myndina frá DMI. Ég get vel viðurkennt að ég er húmoristi það hefur oft hjálpað mér í gegnum lífið en tilvitnun þín í DMI um að þeir séu ekki búnir að missa trúna alfarið á að maðurinn sé valdur að hlýnun jarðar (sem er engin nú um stundir) breytir ekki þeirri staðreynd að þeir viðurkenna falsanir Michael Mann. Hokkýstafurinn er í mola brotinn sem betur fer, 9 atriði í filmu Al Gore hafa verið dæmt rangfærslur (falsanir) af dómstóli í Englandi en það er hægt að sýna fram á að 35 atriði í hans mynd eru ósönn og einungis sett fram til að slá ryki í augu fólks og fá það til að til að ganga í "trúarsöfnuð alarmista".
Ég verð víst að telja þig til þeirra því það er nákvæmlega sama hvað gögn eru lögð fyrir þig eins og t.d. um ísinn á Norðurpólnum, ef þau falla ekki að inni "trú" þá eru þær staðreyndir einfaldlega "rangar".
Mér finnst þú fara illa með þá miklu þekkingu sem þú býrð yfir, beitir henni alfarið í áróðri fyrir ákveðnum fyrir fram gefnum skoðunum.
Að lokum. Einn þekktasti vísindamaður Svíþjóðar í loftslagsmálum (hann er ekki "alarmisti" hann er "skeptikal" Dr. Fred Goldberg próf. við Tækniháskólann í Stokkhólmi kemur til Íslands 28. maí og tekur þátt í NORDIKA 2009, alþjóðlegu frímerkjasýningu í Hafnarfirði, leggur til deild sem nefnist "Arktic Mail", fer síðan til Hornafjarðar til að taka þátt í ráðastefnu þar um sænskan vísindamann sem fór leiðangur á Vatnajökul 1936. Hann hefur hug á að fá aðstöðu og íslenska aðila til að standa að því að hann flytji fyrirlestur um loftslagsmál. Viltu styðja að því, mundirðu koma á slíkan fyrirlestur ef haldinn yrði, eða hlustar þú ekki á mann sem er ekki innvígður í "söfnuðinn"?
Sigurður Grétar Guðmundsson, 6.5.2009 kl. 09:50
1) Loftslagsvísindamenn henda oft góðlátlegt gaman að rökfærslum efasemdarmanna og í bókinni The Rough Guide to Climate Change tekur Robert Henson rökflutning þeirra saman á eftirfarandi hátt:
„Hlýnun andrúmsloftsins fer ekki vaxandi og jafnvel þótt sú sé raunin er það vegna náttúrulegra sveiflna; og jafnvel þótt sveiflurnar séu ekki náttúrulegar er hitahækkunin svo lítil að hún skiptir ekki máli; og færi hún að skipta máli vega kostirnir þyngra en gallarnir; og jafnvel þótt þeir gerðu það ekki kæmi tæknin okkur til hjálpar; og jafnvel þótt það gerist ekki megum við ekki leggja efnahaginn í rúst með því að bregðast við vandamáli sem er byggt á jafn ótraustum vísindum.“
2) Það er til marks um sérstöðu loftslagsumræðunnar að hún fer ekki aðeins fram á vísindaráðstefnum, heldur einnig fyrir dómstólum. Þannig lýsti Hannes Hólmsteinn Gissurarson því yfir að dómari í breskum yfirrétti hafi komist að þeirri niðurstöðu að kvikmynd Gores, An Inconvenient Truth, „mætti sýna í skólum, en henni yrði að fylgja viðvörun, enda væru í henni ýmsar hæpnar eða jafnvel rangar fullyrðingar, og miðaði dómarinn þá við það, sem viðtekið væri í vísindaheiminum.“ Sigurður Grétar gengur lengra og segir: „9 atriði í filmu Al Gore hafa verið dæmt rangfærslur (falsanir) af dómstóli í Englandi“. Bæði Hannes og Sigurður Grétar láta hjá líða að nefna að „dómarinn taldi mynd Als Gores í höfuðatriðum í samræmi við staðreyndir máls („Al Gore’s presentation of the causes and likely effects of climate change in the film was broadly accurate“). Þar með hafnaði dómarinn kröfu stefnanda um að myndin yrði dæmd röng. Ennfremur hafnaði dómarinn kröfum stefnenda um að banna sýningu myndarinnar í breskum skólum.“ Af umfjöllun félaganna verður að ætla að þeir hafi ekki kynnt „sér frumheimildina – dómsorðið sjálft – áður en hann fjallaði um dóminn. Þannig er skýrt af dómsorðinu að dómarinn setur meintar „villur“ Als Gores í gæsalappir til að undirstrika að ekki er um eiginlegar villur að ræða heldur umdeild atriði“ eins og Árni Finnson komst að orði þegar hann lýsti málflutningi Hannesar.
3) Of ef við ætlum okkur að færa umræðuna inn í dómssalina má nefna að annar og þyngri dómur féll í apríl 2007. Þá kvað hæstiréttur Bandaríkjanna upp þann dóm að umhverfisstofnun Bandaríkjanna, EPA, hefði fulla heimild til þess að „hamla gegn losun koldíoxíðs og annarra gróðurhúsalofttegunda og [bæri] í reynd skylda til þess. Rétturinn segir í dómi sínum á mánudag að útblástur bíla falli undir loftmengun og því undir stofnunina, sem á m.a. að framfylgja lögum um hreint loft. EPA verði að sanna að lofttegundirnar valdi ekki skaða, ella hljóti stofnunin að beita sér fyrir því að dregið verði úr losun.“ Úrskurðurinn skipti miklu og leiddi til þess að harðlínumenn í hópi repúblíkana, með George W. Bush í broddi fylkingar, neyddust til að draga í land og setja fram málamiðlunartillögur. Sönnunarbyrðin hefur því færst yfir til afneitunarsinnanna. Það er ekki lengur nóg að segja nei.
4) Um Goldberg segir á einni síðu:
„While his educational background is in welding technology, Goldberg has been cited as an authority on polar history and exploration at the Royal Institute of Technology in Stockholm, Sweden.“
Samkvæmt öðrum heimildum starfar han þar ekki lengur (og mér sýnist hann titlaður aðjunkt, en ekki prófessor - þetta leiðréttist ef það er rangt).
5) Hér má svo sjá hvernig raunverulegir sérfræðingar í loftslagsmálum fjalla um „rangfærslurnar“ í kvikmynd Gores:
http://www.realclimate.org/index.php/archives/2007/10/convenient-untruths/
Endilega rekið ykkur í gegnum greiningu þeirra á RealClimate, hún er forvitnileg.
Þetta virðist með nokkuð öðrum hætti en Sigurður Grétar vill vera láta - enda sparar hann ekki stóru orðin (Höskuldur fer illa með þekkingu sína, stundar áróður, nálgast vísindaleg gögn með sama hætti og trú, og heldur uppi fölsunum).
Guðni Elísson (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 11:24
Sigurður svara þér í kvöld ef ég hef tíma - líttu við.
Loftslag.is, 6.5.2009 kl. 11:26
Takk Guðni, ég skoða þetta betur í kvöld.
Eitt skal tekið fram fyrir þá sem eru að koma hérna í fyrsta skipti. Ég hef enga gráðu í loftslagsvísindum, en ég reyni að nálgast viðfangsefnið vísindalega - enda vil ég kalla mig vísindamann (ég er jarðfræðingur) - ég skoða því rökin með og á móti eins vísindalega og ég get miðað við þau gögn sem ég hef aðgang að (mest af netinu). En ég hef aldrei haldið því fram að mér geti ekki skjátlast (það hefur bara ekki gerst hingað til - þetta var grín ).
Loftslag.is, 6.5.2009 kl. 11:38
1) Hér er svo færsla af Sceptical Science sem heitir „Al Gore got it wrong“. Hún er líka forvitnileg aflestrar.
http://www.skepticalscience.com/al-gore-inconvenient-truth-errors.htm
2) Sigurður Grétar segir Dr. Fred Goldberg vera einn þekktasta vísindamann „Svíþjóðar í loftslagsmálum“. Hvaðan hefur þú þá „staðreynd“?
Hjá Heartland-stofnuninni (sem er frjálshyggjuhugveita sem er tengd tóbaksiðnaðinum) er sagt um Goldberg að: „In 2006 he was appointed Secretary General for an International Climate Seminar at the Royal Institute of Technology in Stockholm.“
Hvað merkir að vera „Secretary General“ í þessu samhengi? Þetta sýnist mér vera afar villandi lýsing. Mér sýnist hann aðeins hafa haldið utan um tveggja daga málþing, 11. og 12. september 2006 um loftslagsvísindi, en þangað var boðið ýmsum helstu fulltrúum efasemdarmanna svo sem McIntyre, Carter, Soon, Singer og Baliunas.
http://gamma.physchem.kth.se/~climate/presentations.htm
Ef Goldberg er einn þekktasti vísindamaður Svíþjóðar í loftslagsmálum hlýtur Sigurður Grétar að geta talið upp fjölda vísindagreina eftir Goldberg í ritrýndum og viðurkenndum vísindatímaritum um loftslagsmál? Mér þætti vænt um að fá þann lista. (Ég er ekki að biðja um fyrirlestra sem fluttir eru á ráðstefnum kostaðar af frjálshyggjustofnunum, heldur vísindagreinar í ritrýndum tímaritum).
Guðni Elísson (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 12:11
Svar til Sigurðar Grétars:
Þú hefur ekki lesið mikið af því sem ég skrifa hérna fyrst þú heldur fram þessum sleggjudómum um mig - þetta eru engin trúarbrögð í mínum augum, þó ég treysti sannfærandi niðurstöðum rannsókna. Meðan gögnin benda til þess að það sé hlýnun og að hlýnunin sé af mannavöldum þá tek ég undir þá skoðun.
Mín reynsla er sú að þeir sem efast um kenninguna eru í sparðatíningi hér og þar til að reyna að staðfesta vantrú sína á kenningunni og kasta fullyrðingum fram sem standast ekki skoðun.- engin mótrök gegn kenningunni um hlýnun jarðar af mannavöldum hafa staðist skoðun hingað til að mínu mati.
Ég hef áður skrifað um fullyrðingar efasemdamanna um að það sé ekki að hlýna, sjá hér og ekki falla í þá gildru að benda á mismun á milli heimshluta - við erum að tala um hnattræna hlýnun sem eykst jafnt og þétt, en þó sveiflukennt.
Menn hafa ekki getað bent á neinar aðrar orsakir fyrir hlýnuninni en gróðurhúsaáhrifin - og CO2 þar í meirihluta. Engar þekktar náttúrulegar orsakir útskýra hlýnunina síðustu áratugi. Ísótópamælingar segja okkur að aukning á CO2 stafi af brennslu á jarðefnaeldsneyti - þ.e. meðan ekki finnst önnur meginorsök fyrir hlýnuninni þá er bendir allt til þess að hlýnunin sé að mestu bundin við aukningu CO2 og hún er af mannavöldum.
-------
"Fölsun" Micheal Mann - hokkístafurinn: Ég þyrfti eiginlega að semja heila færslu ef ég ætla að kafa almennilega í söguna um hokkístafinn. Ég get þó skrifað smá um það hér.
Þú bentir á grein eftir Bo hinn Danska (hér er ágrip af upprunalegu greininni), þetta er grein sem birtist í febrúar 2009 - en lokaútgáfan var gerð í júlí 2008.
Áður hafði Mann fengið sanngjarna gagnrýni vegna galla í tölfræði og það að nota of lítið af gögnum, sem gerðu línuritið minna sveiflukennt en það ætti eflaust að vera (þ.e. minni hitabreytingar). Meðal annars fékk hann gagnrýni frá vísindanefnd í USA (US National Academy of Science). Ég hef ekki heyrt að málsmetandi menn hafi sakað hann um falsanir (þótt efasemdabloggarar geri það)- spurning frekar hvort hann hafi beitt réttum aðferðum. Eða eins og einhver orðaði það: Röng aðferð + rétt niðurstaða = léleg vísindi.
Í september í fyrra (lokaútgáfa gerð í júni) kom út grein þar sem Mann (og fleiri) endurskoðuðu línuritið og notuðu til þess tvær nýjar tölfræðiaðferðir (aðrar en í upphafi) og bættu með viðbótar proxígögnum. Hann er nefnilega vísindamaður og ef hann fær sanngjarna gagnrýni þá bregst hann við henni. Þessi grein styðst því minna við árhringjarannsóknir en fyrri rannsóknir hans.
Micheal Mann og félagar endurgerðu semsagt línuritið og bættu um betur og lengdu það, svo nú sýnir það hitann síðust 2000 árin. Niðurstaðan er enn sú sama að það er heitara nú en síðastliðin þúsund ár að minnsta kosti. Að auki benda einstök gögn innan línuritsins (t.d. ískjarna- og sjávarsetrannsóknir) til þess að síðast hafi jörðin verið svona heit fyrir meira en 100 þúsund árum síðan og að það gæti jafnvel verið heitara nú en fyrir milljón árum síðan. - Aðal punkturinn er samt sá að þó það hafi verið heitara í fjarlægri fortíð, þá hefur nútímasamfélag manna þróast við loftslag og sjávarstöðu eins og það var í nálægri fortíð. Því er ljóst að þær breytingar munu skapa gríðarleg vandræði.
Mér sýnist Guðni vera búinn að svara afgangnum.
Hvað varðar Goldberg, miðað við þær upplýsingar sem Guðni hefur grafið um hann, þá gætirðu allt eins spurt þá í Svíþjóð hvort þeir vilji fá Hannes Hólmstein til að halda fyrirlestur um loftslagsmál þar. - Ég hugsa að menn afþakki það pent.
P.S.
Varðandi Hokkístafinn sem ég svara nokkuð ítarlega hér fyrir ofan, þá getur verið að ég skelli því svari inn í sér færslu (ítarlegri) - mér sýnist t.d. að greinin eftir þann Danska Bo sé skrifuð áður en nýja greinin sem Mann og félagar gerðu og ég veit ekki til að búið sé að hrekja nýju greinina. - leiðréttið mig ef ég fer með rangt mál.
Loftslag.is, 6.5.2009 kl. 20:27
Í síðustu málsgreininni meinti ég: áður en nýja greinin sem Mann og félagar gerðu, kom út.
Loftslag.is, 6.5.2009 kl. 20:38
Mikið finnst mér bölvanlegt hvað frjálshyggjumenn þessa heims eru ólmir í að stilla sér upp gagnvart vísindamönnum.
Ef menn vilja láta líta á sig sem hinn rökhugsandi arm pólitíkurinnar þá er svona kjaftæði einfaldlega bannað. Fyrir mér er þetta á svipuðu stigi og bólusetningarmótmælin hjá Jenny McCarthy, smáskammtalækningar og bænir til ósýnilegra vina.
Páll Jónsson, 6.5.2009 kl. 22:01
Ég fann bréf sem gagnrýnir nýju greinina, sjá: http://landshape.org/enm/wp-content/uploads/2009/04/pnas-2009-mcintyre-0812509106.pdf
Mann svarar bréfinu með bréfi: http://landshape.org/enm/wp-content/uploads/2009/04/pnas-2009-mann-0812936106.pdf
Það eru greinilega ekki öll kurl komin til grafar - en mér sýnist Mann hrekja gagnrýnina nokkuð vel - en ég er ekki vel að mér í proxy- og tölfræðum.
Loftslag.is, 6.5.2009 kl. 22:02
Ég skil ekki alveg afhverju menn eru að æsa sig út af Michael Mann. Maðurinn er ekki með menntun í loftslagsfræðum sem þýðir að ekkert mark er á honum takandi í þessum efnum.
Sjá nánar á CV linknum á heimasíðunni hans: http://www.meteo.psu.edu/~mann/Mann/
Finnur Hrafn Jónsson, 7.5.2009 kl. 00:29
Hann er sérfræðingur í fornloftslagsfræðum (paleoclimate) - svo það er um að gera að æsa sig smá ;)
Loftslag.is, 7.5.2009 kl. 06:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.