15.6.2009 | 23:13
Global Governance.
Ég lét til leiðast að horfa á fyrsta hluta myndbands sem Jón Aðalsteinn benti mér á að horfa á. Fyrsta hlutann má sjá hér með aðstoð youtube:
Hér er mitt álit á þessum 10-11 mínútum:
Það er greinilegt að í þessari mynd eru samankomnir helstu forkólfar á móti kenningunni um hlýnun jarðar af mannavöldum og þeir endurtaka sömu þvæluna og hefur verið marg hrakin.
Myndin byrjar á því að segja að margir vísindamenn efist um að Al Gore hafi rétt fyrir sér ókey, ég er líka á því að hann hafi ekki alltaf rétt fyrir sér. Ég er þó viss um að hnattræn hlýnun jarðar sé af mannavöldum við erum því sammála um margt þó hann hafi ekki alltaf rétt fyrir sér að mínu mati. (sjá t.d. færsluna Potholer: Gore vs. Durkin)
Næst kemur frétt um staðbundið veðurfyrirbæri í Bandaríkjunum óvenju kalt um páskaleitið. Þar sem við erum að ræða hnattræna hlýnun þá á þetta bara alls ekki við í þeirri umræðu. Þetta skapar vissulega stemmninguna sem þetta áróðursmyndband er að vonast eftir (sjá t.d. færsluna Annar kaldasti apríl á þessari öld!)
Næst koma efasemdir um að CO2 hafi áhrif á loftslag. Þessar efasemdir eru óþarfar (sjá t.d. færsluna CO2 og áhrif á loftslagsbreytingar. Nokkur mótrök.)
Þar næst er gert lítið úr IPCC og sú staðreynd að hún er að einhverju leiti stjórnmálalegs eðlis geri hana ótrúverðuga. Það gleymist að geta þess að af því að hún er stjórnmálalegs eðlis, þá hafa olíuríki t.d. Bandaríkin fengið í gegn breytingar á orðalagi sem hefur gert minna úr vandanum í gegnum tíðina, en vísindin eru þó eins traust og þau geta verið miðað við þá þekkingu þegar hver skýrsla kom út. Ef þeir sem hefðu þekkinguna myndu ráða orðalaginu og stjórnvöld myndu síðan taka fullkomið mark á innihaldi þeirra, þá stæðum við ekki andspænis þeim vanda sem allt stefnir í.
Síðan kemur jarðfræðingur að nafni Ian Clarke, sem hefði greinilega ekki átt að fá sitt prófskirteini á sínum tíma. Fyrst segir hann að sólin sé uppspretta þeirrar hlýnunar sem orðið hefur hvernig hann fær það út þegar öll gögn segja annað skil ég ekki (sjá t.d. færsluna Er það virkilega ekki sólin?) Hann nefnir línurit Gores sem sýnir hversu vel CO2 og hitastig jökul- og hlýskeiða falla saman. Gore fer ekki með ósannindi þar en á það hefur verið bent að Gore minnist ekki á frumástæðuna fyrir því að það hlýnar, þ.e. sveiflur í hreyfingum jarðar; möndulhalli og fjarlægð frá sólu sem dæmi. Þegar hlýnar fer af stað ferli sem losar CO2 og stigmagnar hlýnunina það er því töluverður tímamunur á ferlunum þ.e. CO2 og hlýnuninni. Reyndar er það 800 ára munur eins og efasemdamenn hafa réttilega bent á. Málið er að vísindamenn vita þetta og hafa vitað lengi hvort Gore vissi það er óljóst, en hann einfaldar málið töluvert, mögulega til að flækja ekki myndina sína of mikið veit ekki. Það skiptir ekki máli, því vísindamenn hafa aldrei leynt þeirri staðreynd að CO2 hækkaði 800 árum seinna en hitastig á síðustu hlýskeiðum, enda hafa þeir góðar útskýringar á þeirri hækkun (sjá aftur færsluna CO2 og áhrif á loftslagsbreytingar. Nokkur mótrök.). Þeir vitna í The Great Global Warming Swindle sem sýnt hefur sig vera sjálft heilmikið svindl (sjá færsluna Algjört svindl).
Næst kemur Dr Fred Singer sem rekur rannsóknastofu sem styrkt er af olíurisanum Exxon maður getur ekki tekið hann alvarlega. Það er eins og ef hagfræðingur á launaskrá Björgólfs kæmi í viðtal og segði okkur að IceSave sé í raun algjör snilld. Hann segir að það sé í raun hlýnunin sem valdi aukningu á CO2 hvaðan kemur það CO2 spyr ég. Sumir efasemdamenn halda því fram að hún komi úr hafinu en því miður þá er CO2 líka að aukast í hafinu meira að segja er CO2 í hafinu farið að nálgast gildi sem mældust síðast fyrir 55 milljónum árum því fylgdi mikil niðursveifla og útdauði margra sjávarlífvera (sjá aftur færsluna CO2 og áhrif á loftslagsbreytingar. Nokkur mótrök.).
Síðan er rætt hversu lítill hluti af heildarmagni CO2 sé af mannavöldum en þeir gleyma því að minnast á það að aukningin sem orðið hefur frá upphafi iðnbyltingunnar má nær algjörlega rekja til losunar CO2 af mannavöldum (brennsla jarðefnaeldsneytis og skógareyðing stærstur hluti þar). Þar næst minnast þeir á þá staðreynd að vatnsgufa er langstærsti hluti gróðurhúsagasa en gleyma að minnast á að vatnsgufan magnast upp við þann aukna hita sem CO2 veldur. Þá segja þeir að ský auki enn á gróðurhúsaáhrif vatnsgufu en þar er gríðarleg óvissa flestar rannsóknir benda til þess að ský hafi frekar áhrif til kólnunar en hitt (sjá aftur færsluna CO2 og áhrif á loftslagsbreytingar. Nokkur mótrök.)
Ég ákvað að vera ekki að eyða meiri tíma í þetta myndband - ef maður kaupir 80 jarðaber og fyrstu 10 valda magapínu, þá hættir maður að borða þau.
Athugasemdir
Ég entist í 8 mínútur, hef séð þetta áður... Þetta jaðrar við að vera afneitunariðnaður, þar sem oft dúkkar upp sama fólkið með sömu "rökin" í farteskinu. Stundum eru "rökin" í nýjum búningi, en þetta er orðið nokkuð vel kortlagt.
Það getur verið erfitt fyrir leikmann að sjá í gegnum þetta, þar sem margir punktar eru settir upp sem einhverskonar staðreyndir eða "vísindi" og mikið gert til að véfengja loftslagsvísindin á sem flesta vegu.
Sveinn Atli Gunnarsson, 16.6.2009 kl. 19:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.