11.8.2009 | 17:48
Raunverulegt vandamál
Þeir sem eru orðnir vissir í sinni sök um að ástæður hlýnunar jarðar séu af mannavöldum verða oft hissa á viðbrögðum þeirra sem eru í afneitun eða efast um málið.
Umræðan gegn kenningunni um hlýnun jarðar af mannavöldum er nefnilega á því stigi að allir, jafnvel fólk með lítinn vísindalegan bakgrunn, ættu að geta orðið sammála um að hlýnun jarðar af mannavöldum er raunveruleg (sönnunargögnin eru yfirgnæfandi).
Niðurstaðan er ljós:
- Aukningin í CO2 er vegna brennslu jarðefnaeldsneytis, þetta vitum við út frá kolefnissamsætum í andrúmslofti (hlutfall C-14, C13 og C12 sjá t.d. útskýringu á Real Climate). Auk þess sem það er augljóst ef skoðuð eru gröf sem sýna aukninguna sem orðið hefur frá upphafi iðnbyltingarinnar - ekki hafið, ekki eldgos, ekkert annað útskýrir aukninguna.
- Eðlisfræði CO2, metans og annarra gróðurhúsalofttegunda segir okkur að þau geisla frá sér hita, nokkuð sem hefur verið vitað í rúmlega öld.
- Hitastig hefur aukist gríðarlega síðan fyrir iðnbyltingu, ekki nóg með það þá hefur það aukist meira undanfarna nokkra áratugi en þekkt er í nánustu fortíð hvort heldur með beinum mælingum eða óbeinum mælingum. Tengslin við aukningu CO2 vegna bruna eru augljós, þrátt fyrir sveiflur í hitastigi sem verða vegna náttúrulegra orsaka, t.d. breytinga í virkni sólar, El Nino eða eldfjalla. Þessar náttúrulegu sveiflur og aðrar útskýra á engan hátt þessa miklu uppsveiflu sem orðið hefur í hitastigi undanfarna áratugi.
Ef fólk vill fræðast meira um loftslagsbreytingar, þá rakst ég á ágætis heimasíðu þar sem fjallað er um Loftslagslæsi (e. Climate Literacy), en þar er ætlunin að útskýra fyrir fólki hvað loftslag og loftslagsbreytingar eru (ekki er krafist mikillar þekkingar í vísindum). Þar eru eftirfarandi kaflar með nokkrum undirstöðuatriðum þessarar þekkingu (hér eru íslensk kaflaheiti en textinn er á ensku): - Loftslagi er stjórnað af flóknum víxlverkunum í kerfum jarðar
- Líf á jörðinni veltur á, er mótað af og hefur áhrif á loftslag
- Loftslag breytist í tíma og rúmi vegna náttúrulegra ferla og af mannavöldum
- Þekking okkar á loftslagskerfum jarðar hefur aukist með athugunum, tilgátum og líkönum
- Athafnir manna eru að hafa áhrif á loftslagskerfi jarðar
- Loftslagsbreytingar munu hafa áhrif á kerfi jarðar og líf manna
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Pólitík | Breytt s.d. kl. 17:51 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.