Að breyta loftslagi

Það er vitað mál núorðið að mennirnir eru að breyta loftslagi jarðar (Hlýnun jarðar - gróðurhúsaáhrif og CO2. Kenningin). En þótt mennirnir geti breytt loftslagi jarðar, þá munu þeir seint geta stjórnað loftslagi. En þeir geta reynt að hafa áhrif á loftslag með einhverjum róttækum aðgerðum. T.d. er talið að með því að draga mikið úr losun gróðurhúsalofttegunda, þá sé hægt að koma í veg fyrir að meðalhitastig jarðar fari yfir ákveðin mörk (sjá t.d. Tveggja gráðu markið.)

Undanfarin misseri hafa margir talað um aðrar lausnir við vandamálinu hlýnun jarðar af mannavöldum, þ.e. með Geoengineering (ég hef enga íslenska þýðingu á því hugtaki - uppástungur velkomnar):

The modern concept of geoengineering is usually taken to mean proposals to deliberately manipulate the Earth's climate to counteract the effects of global warming from greenhouse gas emissions (af Wikipedia).

Lauslega þýtt myndi þetta útleggjast "Nútíma hugtakið fyrir geoengineering er venjulega notað um þá tillögu að breyta loftslagi jarðar viljandi sem mótvægi við áhrif hlýnunar jarðar vegna losunar gróðurhúsalofttegunda."

Ég ætla ekki að ræða það í þessari færslu hvort þessar lausnir eru raunhæfar kostnaðarlega séð, né  hvort þær muni skila tilætluðum árangri, en ég vil þó skipta þessum lausnum niður í tvennt (ég ræði þessa möguleika nánar síðar, en hér er þó allavega stutt yfirlit):

  1. Lausnir sem lúta að því að beita aðferðum til að kæla niður jörðina án þess að minnka það CO2 sem er í andrúmsloftinu.
  2. Lausnir sem lúta að því að vinna CO2 úr andrúmsloftinu og minnka það þannig.

Lausn 1 snýst oftast um það að draga á einhvern hátt úr áhrifum inngeislunar sólar á lofthjúp jarðar (sjá Solar radiation management). T.d. er ein aðferðin sú að dreifa örðum (e. aerosols) út í andrúmsloftið til að varna því að sólarljós nái að hita upp lofthjúpinn (með tilheyrandi mengun). Aðrar aðferðir eru t.d. að búa til ský (sem ég hef efasemdir um þar sem ekki er fullkomlega ljóst hvort ský valdi hlýnun eða kólnun) eða að nota eitthvað sem endurspeglar sólarljós annað hvort þannig að það komist ekki inn í lofthjúpinn eða það sólarljós sem kemur inn endurkastist aftur út úr lofthjúpnum.

Kostir og gallar lausna 1 eru margir og mismunandi eftir aðferð. En aðalkostur lausna í lið 1 er hversu hratt margar af þeim aðgerðum myndu virka (ef aðgerðirnar væru nógu stórtækar), þ.e. áhrifin kæmu því fljótt fram og myndu mögulega koma í veg fyrir að farið yrði yfir einhver mörk í hitastigi (e. tipping point) sem leitt geti til alvarlegri afleiðinga, vegna magnandi svarana (e. positive effect). Aðal gallinn er þó sá að ekki er tekið á öðrum vandamálum svo sem súrnun sjávar en til að það vandamál verði leyst þá þarf að draga úr losun CO2 út í andrúmsloftið.

Skylt lausnum 1 er að draga úr bráðnun hafíss (Arctic geoengineering) og að dæla köldum djúpsjó upp að yfirborði sjávar með tilheyrandi kælingu.

Lausn 2 snýst um að vinna CO2 úr andrúmsloftinu. Nærtæk dæmi er t.d. aukin skógrækt og framleiðsla á eldsneyti úr CO2. Einnig hefur verið rætt að framleiða lífkol (e. biochar) sem hægt væri síðan að geyma (grafa í jörðu t.d.). Á íslandi hefur verið unnið að verkefni þar sem CO2 er dælt niður í jörðina um borholur, þar sem það binst síðan við basalt.

Kostir og gallar lausna 2 eru einnig mjög mismunandi eftir aðferðum, en helsti gallinn við flestar aðferðirnar eru að áhrifa þeirra er lengi að gæta, með tilheyrandi hættu á að farið yrði yfir fyrrnefnd mörk í hitastigi (e. tipping point). Kosturinn er óneytanlega sá að verið er að vinna á rót vandans, þ.e. CO2 og þar með yrði einnig komið í veg fyrir frekari súrnun sjávar.

 -

Það er spurning hvaða lausnir eru bestar, mögulega er hægt að blanda einhverjar af þeim saman, auk þess að draga mjög úr losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Líklegt er t.d. talið að það sé ekki nóg að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eitt og sér til að koma í veg fyrir frekari hlýnun, því nú þegar sé komið það mikið af CO2 út í andrúmsloftið til að hætta sé á að farið verði yfir fyrrnefnd mörk (e. tipping point). Enn eiga eftir að koma fram heildarlausnir til varnar þeim breytingum sem eru að verða á loftslagi, með tilheyrandi útdauða lífvera og breytingum á lífsafkomu manna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Það má kannski segja að við höfum nú þegar hafið geoengineering (loftslagsverkfræði ?) tilraunir á plánetunni, með því að auka styrk koldíoxíðs í andrúmsloftinu með tilheyrandi hækkun hitastigs. Það er mörgum spurningum ósvarað við margar af þessum leiðum sem verið er að skoða með loftslagsverkfræðinni. Mér sýnist að sumar leiðirnar gætu hugsanlega nýst að nokkru leiti, ef ekki fylgja þeim önnur ófyrirsjáanleg vandamál. Að mínu mati, þá tel ég að þrátt fyrir allar þær góðu hugmyndir sem upp koma til að sporna við hækkun hitastigs, þá munum við einnig þurfa að minnka losun koldíoxíðs. Þannig að þetta mun væntanlega verða, eins og þú segir, einhverskonar blanda af ýmsum leiðum sem mannkynið mun notast við í baráttunni við hækkun hitastigs jarðar.

Sveinn Atli Gunnarsson, 8.8.2009 kl. 20:10

2 Smámynd: Loftslag.is

Rétt Sveinn.

Til að taka af allan vafa, þá er ég á þeirri skoðun að við þurfum fyrst og fremst að huga að því að draga úr losun CO2 í bland við að fullkomna aðferðir við að draga CO2 úr andrúmsloftinu.

Til vara verði þó haldið áfram að þróa leiðir til að draga úr útgeislun sólar (þ.e. lausnir 1). Ef það kemur síðan í ljós að einhverskonar tipping point er að nálgast, þá verði hægt að grípa þar inn í, en þá algjörlega í neyð og þá bestu lausnir sem til eru (með lágmarks mengun og hættu á alvarlegum afleiðingum).

Loftslag.is, 10.8.2009 kl. 11:08

3 Smámynd: Loftslag.is

Umfjöllun RealClimate um málið -Hér-

Loftslag.is, 11.8.2009 kl. 23:29

4 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Af því að það er rætt svolítið um Lomborg kallinn þarna, þá á ég til að setja inn einn tengil hér með síðu sem er gerð honum til höfuðs http://www.lomborg-errors.dk/

Sveinn Atli Gunnarsson, 12.8.2009 kl. 00:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband