20.8.2009 | 21:59
Atlantshafsfellibylir í tíma og rúmi
Menn hafa beðið eftir að fellibyljatíminn myndi hefjast á Atlantshafi, en einhverjar tafir höfðu verið á því (sjá færslur Einars Sveinbjörnssonar: Reikningurinn opnaður ! og Fellibylurinn Bill).
Það er víst ekki óvenjulegt að fellibylir fari hægt af stað, en tímabilið er frá 1. júní til 30. nóvember. Aðaltímabilið er þó frá 1.ágúst og fram í miðjan september. Hægt er að vera á fellibyljavaktinni hér.
Eitt af því sem haldið hefur verið fram í sambandi við afleiðingar hlýnunar jarðar er sá möguleiki að tíðni fellibylja hafi aukist og muni aukast en um það hafa menn deilt.
Það sem hefur hvað mesta áhrif á fellibyli er vatnsgufa í lofthjúpnum, hitastig sjávar og háloftavindar. Ef hin tvö fyrrnefndu eru há, þá er talið líklegra að þeir geti myndast. Aftur á móti þýða sterkir háloftavindar að minni líkur séu á að þeir geti myndast.
Vatnsgufa
Nýleg rannsókn bendir til að loftslagslíkön séu að spá rétt fyrir að vatnsgufa sé að aukast í lofthjúpnum vegna hlýnunar (sjá fréttatilkynningu). Eitt er því talið víst og það er að fellibylir framtíðar verða blautari í framtíðinni, með tilheyrandi flóð.
Þar sem vatnsgufa er gróðurhúsalofttegund, þá er hætt við að enn ein magnandi svörunin (e. positive feedback) sé að koma fram (við hlýnun aukist vatnsgufa í andrúmsloftinu, sem veldur svo aftur meiri hlýnun og svo koll af kolli). Á móti mun snjósöfnun á kaldari og hálendari svæðum heims aukast (t.d. Suðurskautinu)
Sjávarhiti
Sjávarhiti er stór þáttur í myndun fellibylja en sjávarhiti í júlí síðastliðnum var sá hæsti frá upphafi mælinga í júlí (sjá frétt NOAA). Ef sjávarhiti er lægri en 27°C þá er ólíklegt að fellibylir geti myndast og því þýðir aukinn sjávarhiti aukna tíðni í fellibyljum.
Háloftavindar
El Nino er talin hafa haft töluverð áhrif á þessa seinkun, en í júlí var tilkynnt að hann væri byrjaður:
Sjávarhiti í kyrrahafinu 1. júlí 2009 við miðbaug, er að minnsta kosti einni gráðu hærri en að meðaltali - sem er vísbending um El Nino (appelsínugula svæðið við miðbaug noaanews.noaa.gov).
Af völdum El Nino þá eykst vindstyrkur í háloftunum yfir Atlantshafi, sem fækkar myndun fellibylja á því svæði. Líklegt er að vindstyrkur aukist við hlýnun jarðar og því er spurning hvort það nái að vinna á móti aukinni vatnsgufu og auknum sjávarhita.
Því er allt eins líklegt að tíðni fellibylja verði eins í framtíðinni eins og hún hefur verið undanfarið (en mun blautari vegna aukinnar vatnsgufu í andrúmsloftinu).
Nýlega birtist grein í Nature um tíðni fellibylja fortíðar. Hægt að skoða greinina hér en hún er eftir Micheal Mann og fleiri (Mann er t.d. aðalhöfundurinn að Hokkístafnum umdeilda).
Greinarhöfundar notuðu jarðvegs og setlagakjarna á fjölmörgum stöðum til að áætla fyrri fellibyli:
Fellibyljatíðni síðastliðin 1500 ár samkvæmt Mann o.fl.
Eins og sést þá hefur tíðni fellibylja sveiflast nokkuð og talið er að það sveiflist mikið í tengslum við sjávarhita - einnig má sjá áhrif La Nina en talið er að það veðurfyrirbæri hafi verið frekar virkt í Kyrrahafinu í kringum árið 1000 (fyrirbæri sem er með öfugt formerki á við El Nino).
Horft fram á veginn
Hvort hlýnun jarðar af mannavöldum muni auka fellibyli í framtíðinni er ennþá umdeilanlegt, en útlit er fyrir að svo verði raunin samkvæmt greininni hér fyrir ofan (Mann o.fl).
Þótt fellibyljum fjölgi ekki, þá er ljóst að eyðingarafl þeirra verður meira, þar sem þeir verða blautari á sama tíma og sjávarstaða hækkar.
____________________
P.S. Sá sem þetta skrifar er áhugamaður um loftslag og veðurfræði og vill endilega fá leiðréttingar ef ekki er rétt farið með staðreyndir.
Bill stefnir upp með austurströnd Ameríku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Afleiðingar | Breytt s.d. kl. 22:05 | Facebook
Athugasemdir
Einhversstaðar las ég að sjávarhiti væri AÐAL fóður fellibylja.
Og varðandi vatnsgufuna, sem einnig er AÐAL fróðurhúsaáhrifavaldurinn, þá er í henni einmitt "negative feedback", þ.e. að minna sólarljós kemst í gegn = minni hiti
Gunnar Th. Gunnarsson, 24.8.2009 kl. 13:57
Jú það er vissulega rétt, sjávarhiti skiptir eiginlega langmestu máli hef ég lesið líka - það kemur eflaust ekki nógu skýrt fram í færslunni.
Vatnsgufan sjálf er talin að mestu vera positive feedback (magnandi svörun)
Svo er aftur spurning eftir að skýjamyndun hefur orðið hvort um sé að ræða positive eða negative feedback. Um það ríkir ekki eining meðal vísindamanna.
Loftslag.is, 24.8.2009 kl. 14:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.