Geimgeislar Svensmarks og hlýnun jarðar

Hvað eru geimgeislar?

Geimgeislar eru í raun ekki geislar, heldur há-orkueindir, mest róteindir, en einnig rafeindir og kjarni frumeindarinnar helíum, sem streyma um geiminn frá sólinni og öðrum stjörnum og meðal annars inn í lofthjúp jarðar.

Magn geimgeisla sem ná jörðinni sveiflast upp og niður í öfugu hlutfalli við virkni sólar (sólbletta), 11 ára sveifla – en þegar sólin er virk þá heldur segulsvið hennar geimgeislum frá jörðinni.

Kenningin um áhrif geimgeisla á loftslag

Henrik Svensmark

Henrik Svensmark

Sumar rannsóknir hafa sýnt fylgni í ákveðnum heimshlutum á milli geimgeisla og aukningar í myndun lágskýja. Út frá þessari fylgni hafa menn dregið þær ályktanir að geimgeislar séu megin orsök aukinnar skýjamyndana, sem myndi hafa kælandi áhrif vegna aukins endurskins sólargeisla aftur út í geim.

Kenningin gengur sem sagt út á það að áhrif sólvirkni hafi verið vanmetin, þar sem virkari sól myndi valda því að minna af geimgeislum kæmu inn í lofthjúpinn og að skýjamyndun yrði fyrir vikið minni og þar af leiðandi yrði meiri hlýnun.

Henrik Svensmark hefur verið leiðandi í umræðunni um áhrif geimgeisla á loftslag (Svensmark o.fl 1998) og heldur þeirri kenningu enn fram að þeir hafi ráðandi áhrif á loftslag jarðar (Svensmark o.fl. 2009), þrátt fyrir fjölmörg bakslög og gögn sem sýna fram á annað.

Farið er yfir kenningu Svensmark á heimasíðunni loftslag.is en það er ýmislegt sem gengur ekki upp við þá kenningu, sjá Geimgeislar Svensmarks og hlýnun jarðar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held að það sé sitthvað til í þessu, en hafa verður í huga þegar hann talar um að kólnun sé byrjuð þá þarf hún í byrjun að yfirvinna þá hlýnun sem hefur orðið í sjónum og mér skilst að sjórinn hér fyrir norðan okkur sé 2-3°C heitari en meðalhitastig síðustu alda.

allidan (IP-tala skráð) 31.10.2009 kl. 22:09

2 Smámynd: Loftslag.is

allidan: Mæli með því að þú lesir um kenninguna á loftslag.is, en eins og sýnt er fram á þar, þá er ýmislegt sem gengur ekki upp í sambandi við kenningar Svensmark.

Bætti við smá textabút í færsluna hér fyrir ofan (skáletrað).

Loftslag.is, 1.11.2009 kl. 01:00

3 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Menn eru auðvitað mjög forvitnir að kanna hvort eitthvað vit sé í kenningu Henriks Svensmark. Þess vegna er í gangi mjög viðamikil tilraun hjá rannsóknarstöðinni CERN í Sviss.

Á vefsíðu CERN er að finna mjög áhugavert videó sem útskýrir kenninguna og tilraunina. Hægt er að skoða það annað hvort sem Windows media eða Flash. Mér reyndist Flash betur.

Myndbandið er að finna hér á vefsíðu CERN sem Flash:
http://cdsweb.cern.ch/record/1181073/

Vefsíða CLOUD Nine tilraunarinnar:
http://cdsweb.cern.ch/record/1180849

Glærurnar sem notaðar eru í fyrirlestrinum má sjá hér.

Ágúst H Bjarnason, 1.11.2009 kl. 08:43

4 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Ágúst takk fyrir að lesa loftslag.is - þér er alveg óhætt að koma með athugasemdir við færsluna þar, ef þú sérð eitthvað athugavert við hana.

Ég held að það sé frekar augljóst að það er ekki mikið vit í kenningunni ef eitthvað er að marka þá vísindamenn sem hafa sýnt fram á annað - en tilraunin hjá CERN er samt áhugaverð.

Höskuldur Búi Jónsson, 1.11.2009 kl. 09:22

5 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Höski Búi.  Ég mæli eindregið með fyrirlestrinum hjá CERN. Hann var haldinn síðastliðið sumar (4.6.2009) og lýsir mjög vel, og að mínu mati, á hlutlausan hátt stöðu mála þá. Þar kemur nokkuð vel fram það sem menn telja sig vita og ekki vita.

Fjallað er meðal annars um kenninguna, náttúrulegar sveiflur, minnkandi virkni sólar um þessar mundir, hugsanlega skýringu, fyrri tilraunina sem gerð var 2006 í Danmörku og þá sem nú stendur yfir hjá CERN og mun standa a.m.k. til 2013 eins og fram kemur í fyrirlestrinum. Mörgum spurningum er ósvarað og er greinilegt af fyrirlestrinum að menn vanda sig vel.

Hvort sem tilraunin verður jákvæð eða neikvæð fyrir Svensmark, þá er víst að menn munu læra mikið af þessari dýru tilraun CLOUD-09 sem 19 vísindastofnanir í Evrópu, Rússlandi og Bandaríkjunum standa að.

 http://cdsweb.cern.ch/record/1181073/

Ágúst H Bjarnason, 1.11.2009 kl. 09:49

6 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Ég lofa því að skoða þennan fyrirlestur fljótlega

Höskuldur Búi Jónsson, 1.11.2009 kl. 15:59

7 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Þetta er mikið lengra en ég hélt - gaf mér tíma í sirka tuttugu mínútur og þetta hef ég að segja um það:

Eitt sem stakk strax í augun - það var að nefnd voru kælandi áhrif skýja, en ekki sagt um leið að þau hafa líka hitandi áhrif. Það kom reyndar síðar - en í öðru samhengi og ekki lögð áhersla á það (sjá t.d. kaflann flækjur í bók Halldórs Björnssonar).

Við umfjöllun um "miðaldahámarkið" og litlu ísöldina finnst mér vanta í þetta myndband umfjöllun um nokkuð sem loftslagssérfræðingar líta helst til núna sem útskýringu á tefnu hitastigs síðustu árþúsundin - þ.e. breytingar í sporbaug jarðar - sem skýra stefnuna sem hitastig jarðar tók fram að iðnbyltingunni. Þess í stað leggur fyrirlesarinn ofuráherslu á sitt viðfangsefni, sem eru sólblettasveiflur. Auðvitað hafa sólblettir haft áhrif (aukið á kólnunina sem var hvort sem er í gangi), en talið er að mikill hluti þeirrar niðursveiflu sem varð á hitastigi frá hámarki hitastigs núverandi hlýskeiðs og fram að iðnbyltingu hafi verið vegna sporbaugabreytinga (sjá t.d. Recent Warming Reverses Long-Term Arctic Cooling). Hann nefnir einnig að jörðin hafi verið að koma út úr litlu ísöldinni til að skýra út hluta af hækkandi hitastigi síðustu rúma öld eða svo - sem er einnig í andstöðu við skilning manna á sporbaug jarðar.

Hann nefnir nýlega grein sem sýnir fram á samsvörun milli sólbletta og loftslags í Síberíu. Í ágripi greinarinnar stendur:

Biogenic emissions were found to be closely related to changes in temperature following variations in solar activity. In addition, anthropogenic emissions have caused a strong increase of the ammonium concentrations and a drop of the formate concentrations in the last 60 years.

Auðvitað er hann ekki skyldugur til þess að fjalla um það að núverandi hlýnun sé vegna losunar manna á gróðurhúsalofttegundum - en þetta kallast að velja út það sem hentar málstaðnum best.

Síðan fer hann að fjalla um tengsl geimgeisla og setlög með svarfi  tengdum fljótandi ísjökum (ice rafted debris) í Norður Atlantshafi (og þar með tengsl við hitastig). Þetta er gríðarleg einföldun, þar sem set tengt ísjökum þarf ekki endilega að vera nátengt kaldara loftslagi.  T.d. hefur ísjakadreif í Norður Atlantshafi verið með mesta móti í ár, þrátt fyrir hátt hitastig (sjá National Ice Services Advise of Continuing Navigation Hazards)

Hingað til hefur hann ekki nefnt þær fjölmörgu greinar sem sýna litla sem enga samsvörun - hvorki milli geimgeisla og skýjahulu, né geimgeisla og loftslags síðastliðna öld. (sjá á loftslag.is Geimgeislar Svensmarks og hlýnun jarðar).

Það sem er áberandi við þennan fyrirlestur (hingað til), er að þarna eru ýmsar niðurstöður dregnar upp úr farteskinu til að sannfæra áhorfendur um tengsl milli geimgeisla og loftslags, en ég er allavega ekki sannfærður...

Höskuldur Búi Jónsson, 1.11.2009 kl. 23:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband