Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Aukin flóðahætta af völdum hnattrænnar hlýnunar

Tewkesbury_1997_Enstone06 Eins og áhugafólk um loftslagsbreytingar veit, þá fær fólk  oftast nær staðlað svar þegar vísindamenn eru spurðir hvort einhver ákveðinn atburður (t.d. mikil úrkoma eða hitabylgja) er vegna hnattrænnar hlýnunnar af mannavöldum. Svarið er yfirleitt á þann veg að “…ekki er hægt að tengja ákveðinn atburð beint við hnattræna hlýnun, en hlýnunin eykur vissulega líkurnar á þeim.”

Það hefur verið ljóst nokkuð lengi að loftslag væri að breytast en erfitt er að tengja það við staðbundnar breytingar í veðri – engin loftslagslíkön geta tengt svo öruggt sé ákveðinn snjóbyl eða flóð við hnattræna hlýnun – en ef notuð eru saman loftslagslíkön, mælingar á veðri og blandað saman með líkindareikningi þá geta vísindamenn ákvarðað  hversu mikið hin hnattræna hlýnun breytir líkunum.

Nú nýlega komu út tvær greinar þar sem skoðuð eru tengsl mikillar úrkomu og hnattrænnar hlýnunar. Þessar greinar eru skrifaðar áður en flóðin miklu urðu í Pakistan, Ástralíu, Brasilíu og Filipseyjum og því fjalla þær ekki um þá atburði, þótt stórir séu.

Rannsóknirnar tvær eru ólíkar (Min o.fl. 2011 og Pall o.fl. 2011) en niðurstaðan er skyld – þ.e. að nú þegar sé öfgaveður, vegna hnattrænnar hlýnunar, farið að hafa alvarleg áhrif á milljónir manna víða um heim. Önnur rannsóknin bendir til þess að aukin úrkoma (regn og snjór) á norðurhveli Jarðar sé vegna hnattrænnar hlýnunar og hin rannsóknin bendir til þess að aukin flóðahætta á Bretlandseyjum sé af sömu völdum.

Min o.fl. báru saman gögn frá veðurstöðvum á norðurhveli Jarðar, við niðurstöðu úrkomuhermunar frá 8 ólíkum loftslagslíkönum. Samkvæmt niðurstöðu þeirra þá má með því sjá með nokkurri vissu aukna úrkomu í seinni hluta tuttugustu aldarinnar sem ekki verður útskýrt öðruvísi en með breytinga af völdum hnattrænnar hlýnunar.

Pall o.fl. skoðuðu ákveðinn atburð: hin miklu flóð sem urðu í Englandi og Wales árið 2000. Með því að keyra þúsundir spár með hárri upplausn með og án áhrifa frá hinum auknu gróðurhúsalofttegundum þá kom í ljós að hin hnattræna loftslagsbreyting af mannavöldum hefur næstum tvöfaldað líkurnar á öfgaúrkomu sem geti valdið flóðum.

Talið er að atburðir sem líklegir hafi verið einu sinni á hundrað ára fresti geti orðið á fimmtíu ára fresti eða oftar.

Rætt er um að aukinn þungi verði að fara í aðlögun að breyttum aðstæðum, jafnhliða því að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda – en talið er víst að tryggingafyrirtæki heims fylgist vel með gangi mála, þar sem kostnaður af völdum loftslagsbreytinga muni halda áfram að aukast – erfitt mun þó verða áfram að tengja beint og örugglega saman öfgaveður og hina hnattrænu hlýnun.

Heimildir og ítarefni

Grein Min o.fl. 2011 má lesa hér (ágrip): Human contribution to more-intense precipitation extremes

Grein Pall o.fl. 2011 má lesa hér (ágrip): Anthropogenic greenhouse gas contribution to flood risk in England and Wales in autumn 2000

Þessi umfjöllun byggir mikið til á umfjöllun Nature News: Increased flood risk linked to global warming

Aðrar umfjallanir um greinarnar (báðar eða aðra) má finna á eftirfarandi heimasíðum:

Tengt efni á loftslag.is


Fingrafar mannkynsins á hnattrænu hlýnunina

Í vísindum er aðeins eitt sem er betra en bein mæling, gerð í hinum raunverulega heimi, en það eru margar sjálfstæðar beinar mælingar sem allar vísa á sömu niðurstöðu. Það eru til mörg bein sönnunargögn sem öll benda til að fingraför mannkyns hafi áhrif á hnattræna hlýnun.

[...]

Það má lesa nánar um þessi fingraför, ásamt ýmsum fleiri bakgrunnsupplýsingum á loftslag.is, Fingrafar mannkynsins á hnattrænu hlýnunina

Tengt efni á loftslag.is:


Þeir breyttu úr hnattrænni hlýnun yfir í loftslagsbreytingar

Röksemdir efasemdamanna…

Þeir breyttu úr hnattrænni hlýnun yfir í loftslagsbreytingar

Það sem vísindin segja…

Því hefur lengi verið haldið fram  að einhverjir óskilgreindir “þeir” hafi breytt heiti fyrirbærisins  “hnattrænni hlýnun” yfir í “loftslagsbreytingar”. Í raun lýsa þessi tvö heiti tveimur mismunandi fyrirbærum og hafa þessi heiti verið notuð jafnhliða í áratugi. Einu aðilarnir sem hafa gert það að markmiði sínu að skipta yfir í heitið loftslagsbreytingar – eru “efasemdamenn” um hnattræna hlýnun.

Hnattræn hlýnun (e. global warming) eða loftslagsbreytingar (e. climate change)

Bæði heitin eru mikið notuð í vísindagreinum, vegna þess að þau vísa í tvö mismunandi eðlisfræðileg fyrirbæri. Eins og við má búast, þá þýðir hnattræn hlýnun að langtíma leitni hitastigs sé að rísa hnattrænt. Loftslagsbreytingar eru einnig lýsandi heiti og vísar í hnattrænar breytingar í loftslagi sem afleiðing af hækkandi hitastigi Jarðar. Sem dæmi þá eru breytingar í úrkomumunstri, breytingar í tíðni og lengd hitabylgja og þurrka og annarra öfgaveðuratburða.

[...]

Skiptir þetta einhverju máli? Hverjir breyttu þessu og/eða var þessu breytt? Hvers vegna er þetta eiginlega í umræðunni? Lesa má nánar um þetta og skoða gröf og útskýringar á loftslag.is - Þeir breyttu úr hnattrænni hlýnun yfir í loftslagsbreytingar.

Heimildir og ítarefni

Þessi færsla er þýðing á færslu af Skeptical Science, sjá einnig hér.

Tengt efni á loftslag.is

 


Jöklar almennt að hopa um allan heim

Röksemdir efasemdamanna…

Stundum heyrist að jöklar séu að stækka (í framrás) víða um heim. Sums staðar í Himalaja fjöllunum séu jöklar að stækka og svipaða sögu megi segja af nokkrum jöklum í Alaska og Noregi.

Það sem vísindin segja…

Þótt einstök tilfelli heyrist af stækkandi jöklum þá er leitnin yfirgnæfandi í átt til hops (minnkunar) jökla, hnattrænt séð. Í raun þá eykst hraði bráðnunar sífellt og hefur gert það frá miðjum áttunda áratugarins.

Jöklar bregðast beint og nokkuð fljótt við breytingum í loftslagi. Þegar hitastig eykst, þá eykst sumarbráðnun. Hins vegar þá eykst að sama skapi nýmyndun íss yfir vetrartíman vegna meiri úrkomu (í formi snjókomu). Hitastig hefur þó ráðandi rullu enda er sterk fylgni milli lofthita og massajafnvægis jökla (Greene 2005). Oftast er það svo að þegar hiti eykst þá hörfa jöklar.

Vegna þess hversu viðkvæmir jöklar eru fyrir breytingum í hitastigi þá veita þeir góðar vísbendingar um áhrif hnattrænnar hlýnunar. Massajafnvægi jökla er mælt með mismunandi aðferðum. Beinar jöklafræðilegar aðferðir eru t.d. stikur, snjógryfjur og snjókannar. Þau gögn eru gerð af ýmsum jöklafræðistofnunum og safnað saman af  World Glacier Monitoring Service (WGMS).

[...]

Sjá nánar á loftslag.is - Eru jöklar að hopa eða stækka?

Tengt efni á loftslag.is

 


mbl.is Jöklar í Mexíkó bráðna hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mýtur Moncktons

Þeir sem fylgst hafa eitthvað með umræðum um loftslagsbreytingar kannast eflaust við Monckton “Lávarð“, en við höfum minnst á hann hérna áður. Ósjaldan vísa “efasemdamenn” um hnattræna hlýnun í myndbönd eða greinar þar sem Monckton kemur við sögu – en útúrsnúningar og bjaganir á vísindarannsóknum virðast vera hans sérgrein. Allavega hefur hann engar loftslagsrannsóknir sem styðja gífuryrði sín. Þrátt fyrir það er hann fenginn til að halda fyrirlestra og til ráðgjafar um loftslagsmál víða um heim. Það er ráðgáta hvers vegna.

Nú hafa snillingarnir á Skeptical Science tekið saman gagnagrunn þar sem farið er yfir algengustu rök Moncktons og þau brotin niður til mergjar og leiðrétt. Smellið á myndinni hér fyrir neðan til að skoða mýtur Moncktons og rök gegn þeim:

Að auki er rétt að minnast  á að nú nýverið var á BBC heimildamynd um “efasemdamenn” um hnattræna hlýnun, þar sem skyggnst var á bak við tjöldin. Svo skemmtilega vill til að Monckton kemur eitthvað við sögu í þessari heimildamynd og reyndi hann að fá heimildamyndina bannaða – en svo virðist sem efasemdamenn um hnattræna hlýnun séu frekar hrifnir af ritskoðun, eins og fjölmörg dæmi sanna. Heimildamyndin heitir samkvæmt áreiðanlegum heimildum Meet the Climate Skeptics, en erfitt hefur reynst að komast að eintaki sem hægt er að horfa á hér á Íslandi*. Hér fyrir neðan má þó allavega nálgast sýnishorn úr heimildarmyndinni, smelltu á myndina til að skoða sýnishornið:

*Ef einhver kemst að tengli þar sem hægt er að horfa á téð myndband, þá endilega látið vita – annað hvort í athugasemdum eða á loftslag@loftslag.is

Tengt efni á loftslag.is


Á tilboði: Sérvalin kirsuber

Myndband frá góðkunningja okkar Greenman3610 (Peter Sinclair) þar sem hann skoðar hvernig Dr. Harrison Schmitt, sem er hægrisinnaður aðgerðarsinni, hefur afbakað gögn um hafísútbreiðsluna. Dr. Schmitt sem er fyrrverandi Apollo geimfari (með Apollo 12 og var hann einnig næst síðasti maðurinn sem gekk á tunglinu, hingað til), hefur reynst sterkt vopn og ötull málsfari í heimi þeirra sem afneita loftslagsvísindum.

En skoðum nú nýlega fullyrðingu Dr. Schmitt um hafísinn og hvernig honum tókst að sérvelja gögnin (e. cherry picking – cherry = kirsuber) til að þyrla ryki í augu áheyrenda sinna.

[...]

Myndbandið má sjá á loftslag.is, Á tilboði: Sérvalin kirsuber.

Tengt efni á loftslag.is – Greenman3610 myndbönd:

 


Massabreytingar Grænlandsjökuls

Hér fyrir neðan er stutt myndband sem sýnir breytingar í massa Grænlandsdjökuls (Greenlands Ice Sheet - GIS). Þessar massabreytingar eru reiknaðar út frá þyngdarbreytingum sem gervihnötturinn GRACE mældi á tímabilinu 5. apríl 2003 til 25 júlí 2009. Í þessu myndbandi sést massabreyting á 10 daga fresti og með 200 km upplausn. 

 

Hér fyrir neðan má síðan sjá framhaldið, en hin aukna massabreyting Grænlandsjökuls hélt áfram, samkvæmt úrvinnslu á gögnum frá GRACE:

 Massafrávik Grænlandsjökuls út frá úrvinnslu gagna frá GRACE (skeptical science).

Tengt efni á loftslag.is


Svar: Hjarðhugsun Ágústar

Eflaust hafa einhverjir tekið eftir færslu Ágústar Bjarnasonar um Hjarðhugsun, en þar hafa  nokkrir komið með athugasemdir, meðal annars um loftslagsvísindamenn, mannfræðinga, vistfræðinga og skógræktarfrömuði. Því er það undarlegt að eftirfarandi athugasemd skuli ekki hafa fengið birtingu, en skýring Ágústar er þessi: 

Höskuldur Búi Jónsson:

Þú verður að fyrirgefa. Þessi pistill fjallar ekki um loftslagsmál. Hin langa ritgerð þín um þau mál verður því ekki birt.

Með kveðju.

 Það er því með ánægju sem við á loftslag.is birtum athugasemdina hér í heild: 

 

Eins og margir hafa bent á þá er margt gott í þessari færslu Ágústar og stendur hún ágætlega undir nafni - ein og sér. Hitt er annað að þeir sem þekkja til vita að hér er Ágúst að skjóta á loftslagsvísindin og þá staðreynd að 97% loftslagsvísindamanna eru sammála fullyrðingunni að Jörðin sé að hlýna og af völdum losunar manna á gróðurhúsalofttegundum - þetta er hjarðhegðun að hans mati.

Þessi færsla Ágústar er í raun skrifuð í kjölfarið á því að við ritstjórar á loftslag.is gagnrýndum hann fyrir að vilja nota hitamæligögn frá Stykkishólmi til að efast um hnattræna hlýnun af völdum gróðurhúsalofttegunda í athugasemdum annars staðar (sjá athugasemdir hér). Til að skilja hugsunagang Ágústar, þá skulum við hugsa okkur skógrækt – þegar vöxtur tjráa í ákveðnum reit er skoðuð í heild, þá eru trén að vaxa um 25 sentimetra að meðaltali á ári. Um það eru flestir sammála sem skoða nægilega stórt gagnasafn og dreift yfir allan reitinn. Svo kemur maður fram sem segist ekki vilja elta hjörðina – því hann skoði gögnin í einu horni reitsins, sem er ekki í skjóli fyrir kaldri norðanáttinni. Þar er vöxtur lítill - sum tré að drepast, önnur tré standa í stað og sum vaxa um 2-3 sentimetra á ári - þar af leiðandi telur viðkomandi ekki að trjávöxtur í reitnum sé marktækur. Hann eltir ekki hjörðina.

En aftur að þessari færslu, en með henni er Ágúst að gefa í skyn að hinn yfirgnæfandi meirihluta loftslagsvísindamanna sé einhverra hluta vegna að sýna af sér hjarðhegðun – á móti eru þá þeir sem eru á sömu skoðun og Ágúst, lausir við hjarðhegðun eða hvað? Auðvitað er hægt að benda á hið gagnstæða, því þrátt fyrir ósamræmi í gögnum "efasemdarmanna" - þá eru þeir sammála um að öll gögn sem eru í ósamræmi við þeirra eigin skoðanir séu röng á einhvern hátt - er það ekki ágætt dæmi um hjarðhegðun?

Það að vísindamenn innan ákveðins geira eru komnir að ákveðnum kjarna sem flestir geta verið sammála um innan greinarinnar, virðist vera orðið merki um hjarðhegðun - allavega innan viss kjarna "efasemdamanna" hér á landi með Ágúst fremstan í flokki fylkingar. Það að loftslagsvísindamenn segja að yfirgnæfandi líkur séu á að kenningin um hnattræna hlýnun af völdum losunar manna á gróðurhúsalofttegundum sé rétt og að ekki hafa komið fram kenningar eða mæligögn sem hrekja það– þ.e. kenninguna um hin auknu gróðurhúsaáhrif.

Yfirleitt þykir það ekki neikvætt þegar vísindamenn eru búnir að sanka að sér nógu miklum gögnum og mælingum til að sýna fram á hvernig eitthvað í náttúrunni virkar (í þessu tilfelli fjölmargar mismunandi rannsóknir, mælingar á hnattrænu hitastigi með yfiborðsmælum og gervihnöttum – mælingar á hafísútbreiðslu, jöklabráðnun, breytingu á útbreiðslu lífvera og svo framvegis) – ath. hér er ekki verið að halda því fram að niðurstaða sé komin varðandi endanlegar afleiðingar losunar manna á gróðurhúsalofttegundum - aðeins er því haldið fram að Jörðin sé að hlýna, það séu að verða loftslagsbreytingar og að þær séu að mesta leiti af völdum losunar manna á gróðurhúsalofttegundu og þær loftslagsbreytingar muni halda áfram.

Um þetta ber loftslagsvísindamönnum saman um og að mínu mati er þar ekki um hjarðhegðun að ræða - heldur bein afleiðing þess hvað gögn og mælingar segja okkur.

 


Efasemdir eða afneitun

Endurbirting færslu frá síðastliðnu vori.

Tölublað New Scientist, frá 15. maí, er sérstaklega helgað umræðu um tímaskeið afneitunar (e. Age of Denial). Í blaðinu er rætt um ýmiskonar afneitun á vísindum, þar með talið afneitun á loftslagsvísindum. Það virðast vera svipaðar aðferðir notaðar við afneitun vísinda í sambandi við tengsl krabbameins tóbaksnotkunnar og afneitun á loftslagsvísindum.

Mig langar að benda á grein úr þessu tölublaði, sem nefnist, Lifað í afneitun: Þegar efasemdarmaður er ekki efasemdarmaður (e. Living in denial: When a sceptic isn’t a sceptic). Í þessari grein er munurinn á efasemdarmönnum og afneitunarsinnum skoðaður. Greinin er skrifuð af Michael Shermer þar stendur meðal annars, í lauslegri þýðingu:

Hver er munurinn á efasemdarmanni og afneitunarsinna? Þegar ég kalla sjálfan mig efasemdarmann, þá á ég við að ég noti vísindalega nálgun til að leggja mat á rökin. T.d. mun efasemdamaður um loftslagsmál, skoða hverja staðhæfingu fyrir sig og varfærnislega skoða rökin og er tilbúinn að fylgja staðreyndunum þangað sem þær leiða hann.

Sá sem afneitar loftslagsvísindunum, er með fyrirfram ákveðnar skoðanir og fer í gegnum gögnin með notkun “hlutdrægrar staðfestingar” – sem er hneigðin til að leita að og finna gögn sem staðfesta fyrirfram ákveðnar skoðanir og vísa öðru á bug.

Í greininni er rætt um efasemdar í sambandi við vísindalegar aðferðir, þar sem nota þarf gagnrýna hugsun til að skoða gögn og mælingar. Það má segja að til að vera vísindamaður, þá þurfi að koma til nokkuð mikið af hugsun byggða á efasemdum og gagnrýnni hugsun.

[...]

Nánar um þetta á loftslag.is, Efasemdir eða afneitun 

Tengt efni af loftslag.is:

 


Mótsagnarkennt eðli röksemda "efasemdarmanna" um hnattræna hlýnun

Eldri færsla af loftslag.is sem á kannski ágætlega við í dag.
 
Það er eftirtektarvert að fylgjast með því hvernig rökfærslur þeirra sem kenna sjálfa sig við “efasemdir”, varðandi hlýnun jarðar af mannavöldum, breyta endalaust andmælunum og rökfærslum sínum.Ein afleiðing þess, er að þeir komast oft í mótsögn við sjálfa sig. Einn daginn er röksemdarfærslan sú, að núverandi hlýnun sé vegna sólarinnar, næst að hlýnun sé vegna “náttúrulegra sveiflna”, þar næst að plánetan sé að kólna og daginn eftir koma svo kannski rök um að það sé svo mikil óvissa í hitastigsmælingum að við vitum hvort sem er ekki, hvert hnattrænt hitastig er. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því mikla magni af mýtum sem hægt er að finna t.d. á loftslag.is.
 
Það ætti að vera nokkuð augljóst að rökfærslur “efasemdarmanna” eins og þær koma fram hér að ofan eru í mótsögn hvorar við aðrar, en samt eru þau oft sett fram af sömu aðilum. Sem dæmi má nefna alþekktan “efasemdarmann” að nafni Fred Singer sem færði fyrir því rök árið 2003 að plánetan væri ekki að hlýna, en það kom þó ekki í veg fyrir að hann færði rök fyrir því, í bók sem hann gaf út árið 2007, að plánetan væri að hlýna vegna náttúrulegrar sveiflu sem tekur 1.500 ár. Það er ekki hægt að hafa þetta á báða vegu!
 

Það virðist vera merki um styrk kenningarinnar, um hækkun hitastigs af völdum losunar manna á CO2, að “efasemdarmennirnir” geta ekki komið sér saman (ekki einu sinni innra með sjálfum sér persónulega) hver andmælin eiga að vera. Ef það væri raunverulegur veikleiki í kenningunni, þá ættu “efasemdarmenn” að geta bent á þann veikleika og komið með mótsagnarlaus rök. Þeir virðast frekar ætla að notast við núverandi aðferðafræði sína, sem er að fleygja öllu mögulegu fram sem rökum, í óljósri von um að eitthvað af þeim haldi vatni. Það myndi auðvelda verulega allar umræður við “efasemdarmenn” ef þeir myndu ákveða hver andmæli sín varðandi kenninguna væru, í stað núverandi ástands þar sem rökfærsla dagsins virðist ráða för, alveg óháð því hver rök gærdagsins voru og hugsanlegra mótsagna í rökfærslunum. 

[...] 

Að lokum má svo skoða orðið sem ég hef sett innan gæsalappa í færslunni, en hvers vegna ætli það sé nú? Það má vel færa rök fyrir því að efasemdarmenn nái ekki nógu vel að skilgreina þá sem hafa þá nálgun við vísindin sem eru útskýrð hér að ofan, þar sem nýjar röksemdir og mótsagnir virðast ráð ferðinni eftir því hvernig vindar blása þann daginn. Afneitunarsinnar er hugsanlega betri skilgreining á sumum þeirra sem þetta stunda, enda nota þeir vel þekktar aðferðir við nálgun sína. Nokkrar helstu aðferðir afneitunar eru:

  1. Samsæriskenningar
  2. Sérvalin gögn (e. cherry-picking)
  3. Fals sérfræðingar
  4. Ómögulegar eftirvæntingar (einnig þekkt sem færanleg markmið)
  5. Almennar rökleysur
Sumir vilja einnig bæta við 6. liðnum, sem er endurtekning á rökum sem þegar er búið að hrekja og eftir þessar pælingar hér að ofan, þá líka 7. liðnum sem eru mótsagnirnar...

 

Alla færsluna má lesa á loftslag.is, Mótsagnarkennt eðli röksemda “efasemdarmanna” um hnattræna hlýnun 

Tengt efni á loftslag.is:

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband