Færsluflokkur: Lausnir

Sól sól skín á mig...

Hvort þetta er raunhæft er erfitt að segja til um. Mér skilst að það sé vafi hvort ský valdi kólnun eða hlýnun (og þá hvort þetta hafi einhver áhrif - jákvæð eða neikvæð). Að auki hefur þetta engin áhrif sem mótvægi við súrnun sjávar (sjá CO2 - vágestur úthafanna) því ekki er verið að vinna á frumorsökinni (þ.e. magni koldíoxíðs í andrúmsloftinu).

Annars var ég að enda við að skrifa færslu um þetta (sjá: Að breyta loftslagi), þar sem ég fer yfir nokkur ferli sem gætu orðið mótvægi við hlýnun jarðar af mannavöldum.


mbl.is Tilbúin ský gegn hlýnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að breyta loftslagi

Það er vitað mál núorðið að mennirnir eru að breyta loftslagi jarðar (Hlýnun jarðar - gróðurhúsaáhrif og CO2. Kenningin). En þótt mennirnir geti breytt loftslagi jarðar, þá munu þeir seint geta stjórnað loftslagi. En þeir geta reynt að hafa áhrif á loftslag með einhverjum róttækum aðgerðum. T.d. er talið að með því að draga mikið úr losun gróðurhúsalofttegunda, þá sé hægt að koma í veg fyrir að meðalhitastig jarðar fari yfir ákveðin mörk (sjá t.d. Tveggja gráðu markið.)

Undanfarin misseri hafa margir talað um aðrar lausnir við vandamálinu hlýnun jarðar af mannavöldum, þ.e. með Geoengineering (ég hef enga íslenska þýðingu á því hugtaki - uppástungur velkomnar):

The modern concept of geoengineering is usually taken to mean proposals to deliberately manipulate the Earth's climate to counteract the effects of global warming from greenhouse gas emissions (af Wikipedia).

Lauslega þýtt myndi þetta útleggjast "Nútíma hugtakið fyrir geoengineering er venjulega notað um þá tillögu að breyta loftslagi jarðar viljandi sem mótvægi við áhrif hlýnunar jarðar vegna losunar gróðurhúsalofttegunda."

Ég ætla ekki að ræða það í þessari færslu hvort þessar lausnir eru raunhæfar kostnaðarlega séð, né  hvort þær muni skila tilætluðum árangri, en ég vil þó skipta þessum lausnum niður í tvennt (ég ræði þessa möguleika nánar síðar, en hér er þó allavega stutt yfirlit):

  1. Lausnir sem lúta að því að beita aðferðum til að kæla niður jörðina án þess að minnka það CO2 sem er í andrúmsloftinu.
  2. Lausnir sem lúta að því að vinna CO2 úr andrúmsloftinu og minnka það þannig.

Lausn 1 snýst oftast um það að draga á einhvern hátt úr áhrifum inngeislunar sólar á lofthjúp jarðar (sjá Solar radiation management). T.d. er ein aðferðin sú að dreifa örðum (e. aerosols) út í andrúmsloftið til að varna því að sólarljós nái að hita upp lofthjúpinn (með tilheyrandi mengun). Aðrar aðferðir eru t.d. að búa til ský (sem ég hef efasemdir um þar sem ekki er fullkomlega ljóst hvort ský valdi hlýnun eða kólnun) eða að nota eitthvað sem endurspeglar sólarljós annað hvort þannig að það komist ekki inn í lofthjúpinn eða það sólarljós sem kemur inn endurkastist aftur út úr lofthjúpnum.

Kostir og gallar lausna 1 eru margir og mismunandi eftir aðferð. En aðalkostur lausna í lið 1 er hversu hratt margar af þeim aðgerðum myndu virka (ef aðgerðirnar væru nógu stórtækar), þ.e. áhrifin kæmu því fljótt fram og myndu mögulega koma í veg fyrir að farið yrði yfir einhver mörk í hitastigi (e. tipping point) sem leitt geti til alvarlegri afleiðinga, vegna magnandi svarana (e. positive effect). Aðal gallinn er þó sá að ekki er tekið á öðrum vandamálum svo sem súrnun sjávar en til að það vandamál verði leyst þá þarf að draga úr losun CO2 út í andrúmsloftið.

Skylt lausnum 1 er að draga úr bráðnun hafíss (Arctic geoengineering) og að dæla köldum djúpsjó upp að yfirborði sjávar með tilheyrandi kælingu.

Lausn 2 snýst um að vinna CO2 úr andrúmsloftinu. Nærtæk dæmi er t.d. aukin skógrækt og framleiðsla á eldsneyti úr CO2. Einnig hefur verið rætt að framleiða lífkol (e. biochar) sem hægt væri síðan að geyma (grafa í jörðu t.d.). Á íslandi hefur verið unnið að verkefni þar sem CO2 er dælt niður í jörðina um borholur, þar sem það binst síðan við basalt.

Kostir og gallar lausna 2 eru einnig mjög mismunandi eftir aðferðum, en helsti gallinn við flestar aðferðirnar eru að áhrifa þeirra er lengi að gæta, með tilheyrandi hættu á að farið yrði yfir fyrrnefnd mörk í hitastigi (e. tipping point). Kosturinn er óneytanlega sá að verið er að vinna á rót vandans, þ.e. CO2 og þar með yrði einnig komið í veg fyrir frekari súrnun sjávar.

 -

Það er spurning hvaða lausnir eru bestar, mögulega er hægt að blanda einhverjar af þeim saman, auk þess að draga mjög úr losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Líklegt er t.d. talið að það sé ekki nóg að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eitt og sér til að koma í veg fyrir frekari hlýnun, því nú þegar sé komið það mikið af CO2 út í andrúmsloftið til að hætta sé á að farið verði yfir fyrrnefnd mörk (e. tipping point). Enn eiga eftir að koma fram heildarlausnir til varnar þeim breytingum sem eru að verða á loftslagi, með tilheyrandi útdauða lífvera og breytingum á lífsafkomu manna.


Mögulegt = nauðsynlegt.

Best að benda á að nánari umfjöllun um málið má sjá á heimasíðu umhverfisráðuneytisins og hægt er að nálgast skýrsluna sjálfa hér (pdf-skjal 5,3 Mb - rúmlega 200 blaðsíður).

Ég er ekki búinn að lesa skýrsluna, en vil benda á að allar þjóðir heims verða að taka höndum saman um að minnka losun CO2, þar á meðal Íslendingar - og reyndar bendir margt til þess að losun CO2 verði að vera orðin nánast hverfandi árið 2050 til að það takist að halda hlýnuninni fyrir neðan tveggja gráðu markið sem þjóðir heims stefna nú að. Sjá t.d. færsluna Hitastig og CO2 og Tveggja gráðu markið.

Það leiðir hugan að því hvort það sé ekki siðferðisleg skylda okkar, þrátt fyrir smæð þjóðarinnar að við stöndum okkur í stykkinu - því þrátt fyrir smæð þá losum við hlutfallslega mikið, miðað við hina frægu höfðatölu. Ef við, ásamt öðrum minni löndum sýnum að okkur sé virkilega alvara í því að láta þessar loftslagsbreytingar ekki ná einhverjum öfgum, þá er aldrei að vita nema að það náist heimssátt í samdrætti CO2-losunar og að stóru þjóðirnar fari að taka sig almennilega á.

Þegar menn horfa til framtíðar og sjá ekkert nema stórlosanir CO2 til bjargar Íslandi, t.d. álver, olíuhreinsunarstöðvar og jafnvel að reyna sjálfir að nálgast olíu eins og á Drekasvæðinu - þá verður fólk að átta sig á því að þannig áform stefna framtíð Íslands í óefni.

Álver - Ég sé enga framtíð í því, álverð mun hríðfalla næstu áratugina, ekki spurning miðað við þá heimsmynd sem við eigum eftir að upplifa ef ekki verður dregið almennilega úr losun CO2 - fyrir utan að við þurfum á orkunni að halda við önnur verkefni framtíðar. Við erum reyndar í hálfgerðum bobba varðandi álverin, þökk sé stefnu fyrri ríkisstjórna.

Olíuhreinsunarstöðvar og olíuframleiðsla - á næstu áratugum munu þjóðir heims neyðast til að hætta smám saman að nota olíu til brennslu - því er líklegt að það verði offramboð af olíu - olíuverð mun þá væntanlega hríðfalla til framleiðanda (þó það haldist örugglega hátt til neytenda í formi skatta). Það er þó alltaf möguleiki á að eftirspurn verði einhver vegna annarra nota á olíunni, en það kemur í sama stað niður, offramboð.

Áður en maður blaðrar meira um þessa skýrslu þá er líklega rétt að lesa hana, ætli maður prenti hana ekki og taki með sér í sumarfríið - svona ef það skyldi verða rigningatíð Cool


mbl.is Samdráttur um 52% mögulegur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tveggja gráðu markið.

Eitt af því sem mikið er rætt þessa dagana er áætlun evrópusambandsríkja (og annarra ríkja) að reyna að miða við að það hlýni ekki meir en um 2°C, ef miðað er við árið 1990. Þetta er hægara sagt en gert segja sumir - meðan aðrir segja að þetta sé hálfgerð uppgjöf.

Til þess að þetta sé hægt, þarf að draga töluvert úr losun á CO2 eða um sirka 80% fyrir árið 2050.

090502092019-large
Efri myndin sýnir útblástur CO2 með takmörkunum á útblæstri (blátt) og án takmarkana (rautt). Þar neðan við er líkan sem sýnir hvaða áhrif þessar tvær sviðsmyndir myndu mögulega hafa á hitastig jarðar (mynd af ScienceDayly.com).

Það er talið að nú þegar sé farið að styttast í að útblástur manna verði kominn að því marki að hlýnunin verði 2°C, hvort sem þróuninni verði snúið við eður ei. Eftir því sem við drögum það meir að draga úr útblæstri, því erfiðara verður að fara ekki yfir tveggja gráðu markið.

Það verður þó að taka fram að þótt það sé góðra gjalda vert að miða við tveggja gráðu markið, þá er líklegt að sá hiti muni hafa mjög neikvæð áhrif á mannkynið. Tíðari þurrkar, hitabylgjur, flóð og einhver hækkun sjávarmáls - ásamt fylgikvillum sem fylgja þessum atburðum (fólksflótti og stríð). Tveggja gráðu hlýnun myndi þýða að jörðin yrði heitari en hún hefur verið í milljónir ára. En það er þó allavega skárra en fjögurra gráða hlýnun, hvað þá sex gráða hlýnun.

Aðrir hafa fjallað um þetta, meðal annars Einar Sveinbjörnsson og RealClimate.

Smá útúrdúr: Miðað við þessar áætlanir, þá er það skrítið að Íslendingar séu að spá í olíuleit - en jú, það má nota olíu í annað en að brenna - t.d. að framleiða plast - er það ekki? Hver ætli losunin sé við það?


Jákvæð frétt

Mér þótti rétt að benda á þessa frétt, það er spurning hvort við ættum að sækja um, afturvirkt Wink
mbl.is Japanir beita grænum aðgerðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orkusetur

Heimasíða Orkuseturs er nokkuð góð. Þar eru reiknivélar sem reikna út eyðslu mismunandi tegunda bíla og nú er komin reiknivél sem sýnir munin á glóperum og sparperum (auk annarra reiknivéla). Sjá reiknivélarnar hér.

Við Íslendingar erum fámenn þjóð, dælum reyndar slatta af CO2 út í loftið miðað við höfðatölu (11,5 tonn á ári sem er meira en hin norðurlöndin), en notum þó að mestu "endurnýtanlegar" orkuauðlindir til framleiðslu á raforku (endurnýtanlegar eru innan gæsalappa, því líftími virkjana er mismunandi).

Nú þegar bensín og olía eru jafn dýr og hefur verið síðastliðin misseri og við erum í miðri kreppu, þá er um að gera fyrir hvern og einn að vanda valið á bifreiðum, því það er mikill munur á því hvað þær eyða á hundraðið að meðaltali (að auki minnkar þú útblástur ef vel er valið sem er óneitanlega mikill  kostur). Ef þú þarft að skipta um bíl, skoðaðu þá vel reiknivélina sem ber saman eyðslu mismunandi bifreiða: Samanburður á bifreiðum.  

Einnig er um að gera að reyna að spara raforku:  Perureiknir


Ráðstefnan.

Þeir sem ekki vita, þá byrjaði þessi ráðstefna á þriðjudaginn og endaði í dag. Nú þegar hefur ýmislegt áhugavert komið fram, eins og ég hef minnst á áður (t.d. ný gögn um súrnun úthafana

Fyrir þá sem vilja lesa um ráðstefnuna, þá er heimasíða hennar hér. Þar má meðal annars komast í ágrip erinda með því að fara inn á þessa síðu og velja eitthvert session (eftir því hvað hentar hverjum), t.d. session 4 (Vulnerability in Carbon Sinks-fjallað um kerfi sem gleypa CO2 t.d. hafið og hitabeltisfrumskógarnir).

Vísindamenn sendu frá sér fréttatilkynningu með 6 atriðum í lok ráðstefnunarinnar:

Concress key findings - final press release

Hér eru skilaboðin (lauslega þýdd og nokkuð stytt): 

Lykilskilaboð 1: Loftslagsbreytingar

Nýjar ransóknir benda til að svartsýnustu spár IPCC séu að rætast. T.d. Hnattrænn meðalhiti yfirborðs jarðar, hækkun yfirborðs sjávar, breytingar í hafís, súrnun úthafana og öfgar í veðri. Margt bendir til að breytingarnar verði hraðari sem leitt geti til að skyndilegra og óbreytanlegra loftslagsbreytinga.

Lykilskilaboð 2:  Samfélagsleg upplausn

Rannsóknir sýna að samfélög eru gríðarlega viðkvæm fyrir smávegilegum loftslagsbreytingum, fátæk ríki eru í sérstakri hættu. Það yrði erfitt fyrir okkur nútímamenn að ráða við, ef hækkun í lofthita færi yfir 2 gráður á selsíus.

Lykilskilaboð 3: Langtímamarkmið 

Fljótvirk, samfelld og áhrifarík vöktun, með hnattrænni og svæðsibundinni samvinnu er nauðsynleg til að forða okkur frá hættulegum loftslagsbreytingum. Ef farið er hægar í rannsóknirnar er hætt við að ekki verði aftur snúið. Því seinna sem brugðist er við, því erfiðara verður að snúa þróuninni við.

Lykilskilaboð 4: Sanngirni 

Loftslagsbreytingar hafa og munu hafa mismunandi áhrif á fólk eftir löndum og landshlutum, hafa mismunandi áhrif á þessa kynslóð og næstu, og á samfélag manna og lífríki jarðar. Öryggisnet þarf að setja upp fyrir þá sem eiga í mestum erfiðleikum með að ráða við áhrif loftslagsbreytinga.

Lykilskilaboð 5: Aðgerðarleysi er óafsakanlegt 

Það eru engar afsakanir fyrir aðgerðarleysi. Við höfum nú þegar mörg tól og nálganir til að glíma við loftslagsbreytingar. Þau þarf að nota til að draga úr kolefnisnotkun hagkerfisins. 

Lykilskilaboð 6: Standast áskorunina

Til að breyta samfélaginu svo það standist loftslagsbreytinga-áskoruninni, verðum við að velta þungu hlassi og grípa gæsina þegar hún gefst [Nú var ég að komast í þýðingagírinn en komst ekki lengra í bili]


mbl.is Jörðin hlýnar hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband