Færsluflokkur: Bækur og greinar

Keypti bók

Ég keypti í dag bókina Gróðurhúsaáhrif og loftslagsbreytingar eftir Halldór Björnsson, sem kom út í fyrra. Það verður því minna um blogg næstu daga, en hendi inn einhverju þegar við á.

Bendi mönnum á frétt um sólina sem Ágúst H. Bjarnason skrifaði færslu um. Það verður fróðlegt að skoða í framhaldinu hvað gerist. Ekki apríl gabb Cool


Súrnun sjávar

Ég vil benda á góða grein um súrnun úthafanna í fréttablaðinu í dag, en þar er viðtal við Jón Ólafsson hafefnafræðing. Þeir sem hafa ekki aðgang að fréttablaðinu geta nálgast blaðið hér.

Hér er þó ekki verið að ræða hlýnun. Þetta er í raun önnur afleiðing útblásturs CO2 út í andrúmsloftið og enn einn hvati fyrir mannkynið að taka til í sýnum útblástursmálum.

ocean_pH_change
Breyting á pH gildi sjávar frá 18. öld til lok 20. aldar (heimild earthtrends.wri.org).

----------------------- 

Hérna eru nokkrar heimasíður þar sem fjallað er um súrnun sjávar:

Heimasíða EPOCA (sem minnst er á í fréttinni). Tengillinn vísar beint á blaðsíðu á íslensku - en hún er annars á ensku.

Wikipedia (á ensku).

Blogg um súrnun sjávar (á ensku)

Ocean Acidification Network (heimasíða á ensku um þetta vandamál)

Ég hef eitthvað minnst á það áður á þessari síðu, t.d. hér (þar eru t.d. tenglar á meira lesefni).

-----------------------

Ég vil benda á tvennt í greininni sem Jón segir:

"Við sjáum vissulega að sýrustig er að falla hér við land," segir Jón. "Í samanburði við önnur hafsvæði er það að falla hraðar hér en annars staðar. Það er út af því að hér við land, sérstaklega norðan við landið, tekur hafið í sig mikið af koldíoxíði." Ástæðurnar fyrir því að þetta gerist hraðar í sjónum í kring um Ísland eru að mestu kunnar, að sögn Jóns. Þær tengist meðal annars straumakerfi Norður-Atlantshafsins.

og

Jón segir hins vegar áhrifin af auknu magni koltvísýrings í höfunum vera tvíþætt: "Annars vegar lækkar sýrustig sjávar og hins vegar lækkar kalkmettun."

Minni kalkmettun í höfunum hefur bein áhrif á kalkmettandi lífverur, en það eru lífverur sem mynda stoðvef eða skeljar úr kalki. Þetta eru til dæmis kóralar og skeldýr ýmis konar.

"Kóralar eru til dæmis farnir að líða fyrir þetta strax, og þetta er ein ástæðan fyrir því að kóralrifum er að hnigna. Þessar kalkmyndandi plöntur og dýr eru reyndar mjög mikilvægur þáttur í vistkerfum hafsins og skemmdir á þeim eða hreinlega eyðilegging þeirra mun hafa mikil áhrif á vistkerfið í heild."

Því fór ég að velta því fyrir mér hvort hrun hörpudiskstofnsins hér við land, sé í tengslum við þessa súrnun? 

Ég hef reyndar ekkert fyrir mér í því, þyrfti að lesa þessa skýrslu sem unnin var fyrir háskólastetur Snæfellsnes og Náttúrustofu Vesturlands í Nóvember 2007 af Jónasi Páli Jónassyni. Datt þetta bara í hug, en líklegast er þó að áhrifin séu ekki orðin það alvarleg ennþá, enda væru vísindamenn búnir að benda á það ef svo væri.


ACRIM eða PMOD - deilur um útgeislun sólar

Fólk hváir sjálfsagt yfir titlinum á þessari færslu, leyfið mér að útskýra:

Ég var að skoða enn sem áður fyrr bloggsíðu Ágúst H Bjarnasonar,, en hann er hafsjór fróðleiks um loftslagsmál. Hann hallast örlítið í efasemdarátt um að hlýnun jarðar sé af mannavöldum (vona að honum sé sama þótt ég túlki skoðanir hans svona, en oftar en hitt þá kemur hann með hlið efasemdarmanna).

Hann setti inn á bloggsíðu sína nýja grein sem segir að útreikningar á útgeislun sólar útfrá gervihnattamælingum bendi til þess að það sé mögulega sólin sem sé að valda hlýnun á jörðinni.

Málið snýst um að túlka gögn sem líta svona út og fá þau til að fitta saman svo það verði samfeldur ferill samanber eyðuna sem kölluð er ACRIM GAP á myndinni (þannig skil ég það allavega eftir að hafa reynt að lesa mig til á netinu):

earth_obs_fig1
Daglegt meðaltal útgeislunar sólar frá nokkrum mismunandi gervihnöttum frá nóvember 1978 (mynd frá acrim.com - smella á tvisvar til að fá stærri útgáfu).

Tveir hópar hafa túlkað gögn frá þessum gervihnöttum á mismunandi hátt

earth_obs_fig27
Túlkun PMOD (mynd frá acrim.com - smella á tvisvar til að fá stærri útgáfu).

PMOD túlkar gögnin á þann hátt að sólin hafi minnkað lítillega útgeislun sína á þessu tímabili (nánast staðið í stað fyrir utan reglulegar sveiflur).
Niðurstaða: Hlýnun undanfarna áratugi tengjast ekki virkni sólar og því er hlýnunin af mannavöldum.

 

earth_obs_fig26
Túlkun ACRIM (mynd frá acrim.com - smella á tvisvar til að fá stærri útgáfu).


ACRIM túlkar gögnin á þann hátt að sólin hafi aukið lítillega útgeislun sína á þessu tímabili.
Niðurstaða: Hlýnun undanfarna áratugi tengjast mögulega aukinni virkni í sólinni og því er hlýnunin ekki af mannavöldum

Það kemur kannski ekki á óvart en báðir aðilar segja hinn hafa túlkað gögnin vitlaust, sjálfsagt verður um það deilt áfram á næstunni eftir þessa nýju grein, en auðvitað er nauðsynlegt að hafa gögnin rétt.

Svo er það aftur spurning hvort þessi munur skipti miklu máli, það má segja að annar höfunda greinarinnar sem vísað er í sé búinn að breyta skoðun sinni örlítið, en árið 2006 var niðurstaða Scafetta þessi:

since 1975 global warming has occurred much faster than could be reasonably expected from the sun alone.

Lauslega þýtt: "Frá 1975 hefur hlýnun jarðar átt sér stað mun hraðar heldur en raunhæft er að ætla frá sólinni einni." En nú er komið annað hljóð í strokkinn (úr greininni 2009):

Increasing TSI between 1980 and 2000 could have contributed significantly to global warming during the last three decades

Ekki beint afdrifarík niðurstaða, en lauslega þýtt þá segir: "Aukning á útgeislun sólar milli 1980 og 2000 gæti hafa stuðlað marktækt að hlýnun jarðar síðustu þrjá áratugi". 

Það verður fróðlegt að fylgjast með þessu, en þar sem þetta er frekar ný grein þá hefur ekki orðið mikil umræða um hana á netinu. Ég hugsa að það sé rétt að fylgjast vel með þessari umræðu, en jafnframt passa sig á því að þarna er um lítinn mun á breytingum á útgeislun sólar (á milli þessara túlkana), það lítil breyting að ekki verður hægt að skýra út hlýnun jarðar út frá sólinni einni, jafnvel þó maður taki niðurstöðu ACRIM sem þá einu réttu (þannig skil ég allavega þær umræður sem ég hef lesið um þessar túlkanir).

p.s. ef ég fer með miklar fleipur í þessari færslu þá endilega leiðréttið mig, ég er enginn sérfræðingur í svona gögnum


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband