Fornhitastig sjávar við Íslandsstrendur

Hér er áður birt færsla af loftslag.is um sömu rannsókn og mbl.is fjallar um. 
Nýlega birtist í tímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences (PNAS) fróðleg grein sem áhugasamir um fornhitastig sjávar við Íslandstrendur og tengsl við atburði úr íslensku fornannálunum, ættu ekki að láta framhjá sér fara. 

Í greininni er sagt frá rannsóknum á skeljum úr sjávarseti við Íslandsstrendur, en með mælingum á samsætuhlutfalli súrefnis 18 í skeljunum er hægt að búa til sjávarhitaferil fyrir þann tíma sem skeljarnar lifðu, sem er á milli 2-9 ár.

Staðsetningu borkjarnanna sem notaðir voru við rannsóknina má sjá á þessari mynd (Patterson o.fl. - PNAS). Vekjum sérstaka athygli á kjarnanum MD99-2266, út af Ísafjarðardjúpi sem mest var notaður við þessa rannsókn.

 

Hver skel gefur ákveðna skyndimynd af því hvernig sjávarhiti var á því svæði, á þeim tíma þegar skeljarnar lifðu og sýna auk þess árstíðabundnar breytingar í sjávarhita - nokkuð sem ekki hefur verið áður hægt á jafn nákvæman hátt við rannsóknir á fornhitastigi. Hitastig sjávar gefur nokkuð góðar vísbendingar um það hvernig hitastig var almennt á landinu á sama tíma, sérstaklega út við ströndina.

Með skoðun á rituðum heimildum fornannálanna þá kom í ljós að það sem var skrifað um veðurfar frá tímum landafundanna og fram að sautjándu öld (hungursneyðar og hafís t.d.), sýndi nokkuð góða samsvörun við sjávarhita út frá skeljunum.  Því er ein af niðurstöðum greinarinnar að þessar tvær aðferðir við að meta hitastig styðji hvora aðra.

Mynd sem sýnir sjávarhita frá sirka 360 fyrir krist og fram til 1660. Fylltu táknin sýna hæsta hita hvers árs og ófylltu táknin lægsta hita hvers árs. Línurnar sýna hvar tengd eru saman gögn úr borkjarnanum MD99-2266 (Patterson o.fl. - PNAS) Hægt er að stækka myndina með því að smella á hana.

 

Það má ljóst vera að hér er komin fram aðferð sem á örugglega eftir að gefa góða raun við að meta fornan sjávarhita og líklegt að ef hægt er að endurtaka þessa rannsókn fyrir fleiri staði, þannig að úr fáist hnattræn dreifing - þá verði hægt að meta loftslagsbreytingar langt aftur í tímann með meiri nákvæmni en áður. Upplausnin á þessum gögnum er meiri en í öðrum gögnum, sem sýnt hafa frekar árlegan breytileika en ekki breytileika innan hvers árs eins og þessi sýnir (hægt er að fá sjávarhita á vikufresti, jafnvel daglega fyrir stærri skeljar).  Meðalárshiti eru vissulega góðar upplýsingar, en fyrir gróður og dýr - hvað þá menn, þá skiptir mestu máli hvernig hitastig breytist á árstíðarfresti - sérstaklega er nauðsynlegt fyrir okkur á norðlægum breiddargráðum að fá hlýtt sumar.

Það skal þó tekið fram að rannsaka þarf töluverðan fjölda af skeljum til viðbóart til að fá samfellda mynd af breytingunum - eins og áður segir, þá sýnir hver skel einungis breytingu í hitastigi fyrir 2-9 ár og hingað til er einungis búið að mæla 26 skeljar.

Talið er líklegt að auðveldara verði að kortleggja staðbundnar veðurfarssveiflur, t.d. sveiflur í Norðuratlantshafssveiflunni (NAO) með þessari aðferð, en þær sveiflur hafa t.d. mikil áhrif á veðurfar hér við Íslandsstrendur og víðar í Norður Evrópu. Höfundar segjast ætla að halda áfram með þessa rannsókn og stefna að því að ná fram upplýsingum um hitastig við Íslandsstrendur allt aftur til loka síðasta jökulskeiðs fyrir um 10-11 þúsund árum.

Heimildir og ítarefni

Greinina sjálfa má lesa á heimasíðu PNAS: Two millennia of North Atlantic seasonality and implications for Norse colonies

Fréttasíða tímaritsins Nature - Nature News hefur fjallað um málið: Shellfish could supplant tree-ring climate data

Áhugavert yfirlit yfir veðurfarssögu út frá Fornannálum, eftir Sigurð Þór Guðjónsson má finna á heimasíðu Veðurstofunnar: Veðurannálar - Uppskrift Sigurðar Þórs Guðjónssonar

Á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar Íslands má nálgast upplýsingar um mældan sjávarhita síðustu áratugi: Sjávarhitamælingar við strendur Íslands


mbl.is Fornritin góð heimild um veður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er líka hægt að lesa annálana hér þar sem þeir birtust fyrst á netinu.

Sigurður Þór Guðjónsson, 10.3.2010 kl. 09:34

2 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Já - ég ætlaði að vísa í það líka, gleymdi því. Takk fyrir ábendinguna og takk fyrir annálinn

Höskuldur Búi Jónsson, 10.3.2010 kl. 11:03

3 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sælir félagar.

Í dag er fjallað um málið á hinni ágætu vefsíðu góðvinar okkar Antony Watts veðurfræðings: What is UP With That .

Smella hér: 
http://wattsupwiththat.com/2010/03/10/paleo-clamatology/#more-17233

Þegar þetta er ritað hafa 108 skrifað athugasemdir.

Ágúst H Bjarnason, 11.3.2010 kl. 07:07

4 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Takk fyrir þessa ábendingu Ágúst.

Mig langar að benda þér á eina umfjöllun um vinnubrögð Watts og félaga, sjá http://tamino.wordpress.com/2008/03/30/how-not-to-analyze-data-part-deux/

Sveinn Atli Gunnarsson, 11.3.2010 kl. 18:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband