11.3.2010 | 11:22
Sjávarstöðubreytingar
Hækkun sjávarstöðu er ein af verri afleiðingum hækkandi hitastigs og því eitt af því sem margir vísindamenn eru að fylgjast með ítarlega. Við hækkun sjávarstöðu geta þéttbýl landsvæði farið undir sjó, sjávarflóð geta aukist og haft verri afleiðingar, með tilheyrandi mengun grunnvatnsstöðu og strandrofi. En hvað mun sjávarstaða hækka mikið það sem af er þessari öld?
Líkleg hækkun sjávaryfirborðs til loka aldarinnar er háð því hversu mikið hlýnar, en varmaþennsla veldur um 70% af hækkuninni. Stór óvissuþáttur í sjávaryfirborðshækkun felst í hugsanlegum breytingum á ísflæði í stóru íshvelunum á Grænlandi og Suðurskautslandinu. Þessi óvissuþáttur er ekki tekinn inn í útreikninga IPCC, en gæti aukið við sjávaryfirborðshækkunina. Hér að neðan verður því miðað efri mörk hækkunarinnar sem kemur fram hjá IPCC. Þetta er ófullkomin aðferð við að vega saman óþekkta óvissu vegna hugsanlegrar aukningar ísflæðis og þekktrar óvissu vegna annarra þátta, og mikilvægt er að hafa í huga að ekki er hægt að útiloka mun meiri sjávaryfirborðshækkun (Úr skýrslunni Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi gefin út af Umhverfisráðuneytinu árið 2008).
Með því að taka hæstu gildi IPCC skýrslunnar fást allt að 0,6 m hækkun sjávarstöðu til ársins 2100 (frá árinu 1990) miðað við 4°C hækkun hitastigs. Í skýrslunni sem ég vitna í hér fyrir ofan kemur einnig fram að frá 1904-2003 hafi sjávarborð hækkað um 1,74 mm á ári (eða um 17 sm á öld), en einnig kemur fram að frá 1997-2007 hafi sjávarborð hækkað um 3,4 mm á ári og því ljóst að hækkun yfirborðs sjávar hefur sótt í sig veðrið, þá vegna aukinnar hlýnunar sjávar og aukinnar bráðnunar jökla.
Það skal tekið fram að allar sjávarstöðubreytingar hér er um rætt, eru hnattrænar breytingar fengnar út með mælingum á sjávarföllum á síðustu öld og síðar með gervihnattamælingum. Þá er búið að leiðrétta fyrir landrisi og landsigi, en það flækir málið víða, t.d. hér á Íslandi. Sem dæmi þá er land að rísa á Suðausturlandi vegna minna jökulfargs og er það frá 10-15 mm á ári. Á móti kemur að landsig er víða annars staðar, t.d. er það um 3,4 mm á ári í Reykjavík og allt að 8 mm á ári yst á Reykjanesi. Hugsið það bara þannig að þegar talað er um hækkun sjávarstöðu í kringum aldamótin 2100, þá má bæta 0,34 m við sjávarstöðuhækkunina í Reykjavík og 0,8 m við hækkunina á Reykjanesi, en draga 1,0-1,5 m frá hækkuninni á Suðausturlandi.
Í skýrslu sem gefin var út sem niðurstaða ráðstefnu í Kaupmannahöfn í vor (mars 2009), kemur einnig fram að hækkun sjávarstöðu hafi sótt í sig veðrið undanfarin ár:
Sjávarstöðubreytingar meiri en búist var við?
Nýlegar rannsóknir um mögulega hækkun sjávarstöðu eru nokkuð hærri en áætlanir IPCC gerir ráð fyrir, t.d. gerir ein rannsókn ráð fyrir möguleikanum á 0,5-1,4 m hækkun sjávarstöðu til ársins 2100. Önnur rannsókn gerir ráð fyrir 0,8-2,0 m hækkun sjávarstöðu til ársins 2100.
-----------------------------------
Þetta er hluti færslu um sjávarstöðubreytingar af Loftslag.is, sjá nánar - Sjávarstöðubreytingar
Tengt efni af Loftslag.is:
- Mýta - Eru einhverjar sjávarstöðubreytingar í gangi?
- Ýmsar færslur sem fjalla um sjávarstöðubreytingar
Forseti Maldíveyja kemur til Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Blogg, Fréttir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.