Mýtan um trúarbrögð í loftslagsvísindum

Það hefur stundum borið á því að fólk afneitar vísindum og kalli þau trúarbrögð. Þetta á t.d. við þegar fólk er á þeirri skoðun að vísindamenn viti ekki sínu viti. Þetta á stundum við þegar talað er um loftslagsbreytingar, þá kemur stundum klausan “þetta eru bara trúarbrögð”. Þarna virðist vera sem fólk sem að öðru leiti er skynsamt, ákveði að vísindin geti á einhvern hátt verið beintengd trúarbrögðum, eða það að taka mark á vísindamönnum hafi eitthvað með trúarbrögð að gera. Lítum nánar á örfáar skilgreiningar á þessum hugtökum.

Trúarbrögð:trú á tiltekinn guð (tiltekna guði eða goðmögn), guðsdýrkun samkvæmt ákveðnu hugmyndakerfi (tekið úr veforðabók, íslensk orðabók, snara.is); önnur skilgreining er trú á yfirnáttúrulegar verur, guði eða dýrlinga ásamt siðfræði, venjum og jafnvel stofnunum tengdum trúnni.” (tekið af Wikipedia, íslenska útgáfan, sjá hér).

Vísindi: athuganir, rannsóknir gerðar á kerfisbundinn, óhlutdrægan, raunsæjan hátt til að afla þekkingar” (tekið úr veforðabók, íslensk orðabók, snara.is)

Vísindaleg aðferð: “aðferðafræði ber að leggja mikla áherslu á að athuganir séu hlutlægar og að aðrir vísindamenn geti sannreynt niðurstöðurnar, og að rannsóknir skuli miðast við að sannreyna afleiðingar sem hægt er að leiða út af kenningum.” (sjá wikipedia)

Kenning: “er sett fram af þeim sem framkvæmdi tilraunina og fer hún eftir niðurstöðunum úr henni. Hverjar sem niðurstöðurnar verða, þá er hægt að setja fram kenningu um það sem prófað var. Þegar kenning er mynduð þarf að fylgja lýsing á öllu ferlinu ásamt þeim rannsóknargögnum sem leiddu til niðurstöðunnar svo að aðrir geti staðfest eða afsannað kenningu. Í heimi vísindanna er ekkert sem telst algerlega sannað og byggist allt á því sem að menn vita best á hverjum tíma.” (sjá wikipedia)

...

Þetta er hluti færslu af Loftslag.is, hægt er að lesa alla færsluna á Loftslag.is;


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eins og venjulega misskiljið þessa gagnrýni og það hlýtur að vera viljandi því ekki geta menn verið svona ótrúlega tregir. Ég ætla ekki að eyða tíma í að útskýra þetta fyrir ykkur einu sinni enn en ég get þó sagt ykkur það að þessi færsla er svo ótrúlega úti að aka sem svar við trúarbragðagagnrýninni.

Gulli (IP-tala skráð) 4.4.2010 kl. 16:44

2 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Mér þykir ekki ótrúlegt að þú teljir svo vera Gulli...

Sveinn Atli Gunnarsson, 4.4.2010 kl. 16:51

3 identicon

Sú aðferð að kalla vísindalega sátt (consensus) trúarbrögð er forvitnileg ef við setjum hana í annað samhengi. Það er t.d. hægt að finna ýmis konar vísindalega sátt meðal þeirra sérfræðinga sem stunda krabbameinslækningar eða rannsóknir á alnæmi, en líka má finna þá sem draga hana í efa og vilja leita annarra leiða (heilun, grasalækningar, mulin nashyrningshorn, o.s.frv.).

Og vissulega væri ýmislegt rétt í þeirri gagnrýni að margt í hinni vísindalegu sátt verður endurskoðað þegar krabbameinsvísindum og skilningi á alnæmi fleytir fram í framtíðinni. En þýðir það að menn eigi að afþakka meðferð í nafni efahyggju, eða í nafni þess að ráðandi kenningu vísindamanna megi leggja að jöfnu við trúarbrögð?

Vandinn er þessi. Hin vísindalega kenning byggist aðeins á því sem best er vitað á hverjum tíma, en ekki á einhverjum framtíðarforsendum, hversu nær sannleikanum sem þær kunna að vera. Við getum einfaldlega ekki vitað hverjar þær framtíðarforsendur verða, Vísindakenningin er einfaldlega skásta leiðin til þess að segja fyrir um eitthvað, og t.d. miklu betri en sú að leggjast á bæn og biðja um handleiðslu, fara til særingakarlsins, eða spá í bolla. Hún er meira að segja betri en sú að fella vísindin að hagfræðinni.

Guðni Elísson (IP-tala skráð) 4.4.2010 kl. 17:53

4 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Vissulega geta vísindi, rétt eins og hvert annað fyrirbæri, tekið á sig mynd trúarbragða. Slíkur consensus er gjarnan byggður á hagsmunagæslu af einhverri sort; getur verið fjárhagslegur eða pólitískur. Stundum spila þessir kraftar saman og þannig var um umræðuna um hlýnun af mannavöldum. Hún varð að fjármagns/pólitískum trúarbrögðum. Pólitíkusar og peningamenn lögðu málinu lið, fengu Sameinuðu þjóðirnar í lið með sér og BINGO. Ný trúarbrögð risu úr djúpinu.  

Vísindamenn gengu á lagið og nýttu sér bylgjuna sem menn eins og Al Gore settu af stað í pólitískum tilgangi. Peningar flæddu til þeirra sem studdu "réttan" málstað sem aftur leiddi til að sumir vísindamenn beittu brögðum á meðan aðrir slökktu á gagnrýnni hugsun og lögðu trúnað á vafasamar niðurstöður. Til að auðvelda þetta allt er svo hinn óræði grunnur sem vísindin byggja á. Ofan á þetta bættist að vísindatímarit studdu við svindlið með því að kveða niður raddir sem héldu fram "röngum" kenningum.

Eftir uppákomurnar síðastliðið haust er nú von til að jafnvægi komist á umræðuna. Vísindaiðkun komi í stað áróðurs og orðræðan verð gagnrýnin á ný.

Í slíku umhverfi þrífast vísindin best.

Ragnhildur Kolka, 5.4.2010 kl. 12:27

5 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Það er grundvallar munur á trúarbrögðum eins og þau eru skilgreind og svo vísindum og vísindalegum aðferðum. Vísindalegar aðferðir og mælingar benda t.d. til að hitastig  hafi hækkað og sé enn hækkandi, að CO2 hafi áhrif á hitastig og að styrkur þess fari vaxandi (vegna athafna mannsins). Sjá t.d. Mælingar staðfesta kenninguna

Annars er það merkilegt að þetta mál síðastliðið haust hefur verið sett fram af ákveðnum (hagsmuna)aðilum sem einhverskonar sönnun þess að vísindamenn hafi falsað niðurstöður þó fátt bendi til þess í tölvupóstunum, og alls ekki að um allsherjar samsæri um að fela eitthvað sé í gangi. Í fyrstu skoðun vísindanefndar breska þingsins voru sakir bornar af þeim sem helst varð fyrir aðdróttunum um falsanir og svindl, sjá Sakir bornar af Phil Jones. Það hefur samt ekki komið í veg fyrir frekari aðdróttanir um falsanir og svik...án þess að sett séu fram sannfærandi gögn um að svo sé.

Vísindin þurfa heilbrigða umræðu og heilbrigðar efasemdir, sem byggðar eru á rannsóknum og mælingum en ekki upphrópunum og rangfærslum.

Sveinn Atli Gunnarsson, 5.4.2010 kl. 13:07

6 identicon

Líklega er rétttrúnaðurinn mestur á þeim armi stjórnmála sem Ragnhildur tilheyrir.

Í viðtali sem Freyr Eyjólfsson tók við Hannes Hólmstein Gissurarson í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 mánudaginn 22. október 2007 spurði hann nánar út í þá fullyrðingu að vandi loftslagsumræðunnar tengist því hvernig hún hefði blandast umræðuhefð stjórnmálanna og bætti við: „Menn hafa skipst dálítið í pólitískar fylkingar. Af hverju eru það helst hægri menn og frjálshyggjumenn sem leggjast gegn þessari…?“ Hannes leyfði honum ekki að klára spurninguna, heldur svaraði strax og var mikið niðri fyrir: „Heyrðu, það blasir bara við. Það blasir við svarið. Og svarið er auðvitað það að margir hægri menn, þeir tortryggja ríkisvaldið, er það ekki rétt? Og það virðist eins og ríkisvaldið, að það eigi að leiða okkur út úr því sem þetta fólk trúir að séu ógöngur, en ég hef ennþá ekki komið auga á að sé nein vá.“ Hannes kemur ekki auga á neina vá. Getur verið að hann sé sleginn slíkri hugmyndafræðilegri blindu að jafnvel vistfræðin verði að lúta kenningum frjálshyggjunnar og niðurstöður í haf- og veðurfræði megi ekki ógna viðmiðskenningunni miklu?

Fyrir frjálshyggjumönnunum blandast andstaðan við ráðandi kenningu í loftslagsvísindum því þeim ótta að leitað verði ríkislausna í baráttunni við hugsanlega vá. Vitaskuld segja slíkar fullyrðingar ekkert um réttmæti sáttarinnar, til þess að fullyrða eitthvað um hana þarf að beita vísindalegum aðferðum. En þetta skýrir samt hvers vegna hægri mönnum er svona illa við umræðuna og hvers vegna þeir gera sitt besta til að þvæla hana, eins og var gert á ótrúlegan hátt í Sunnudags-Mogganum í gær.

Guðni Elísson (IP-tala skráð) 5.4.2010 kl. 13:50

7 Smámynd: Arnar Pálsson

Skemmtilegur pistill og góðar athugasemdir

Ég tók sérstaklega eftir orðum Guðna um Hannes Hólmstein:

Getur verið að hann sé sleginn slíkri hugmyndafræðilegri blindu að jafnvel vistfræðin verði að lúta kenningum frjálshyggjunnar og niðurstöður í haf- og veðurfræði megi ekki ógna viðmiðskenningunni miklu? 

Hannes væri örugglega ekki sá fyrsti til að láta hugmyndafræði trompa raunverulega þekkingu. Kapítalisminn mun aldrei sigra lögmál vistfræðinar, þótt að vissulega muni óheftur kapítalismi eins og hann boðar svo sannarlega eyða líffræðilegum fjölbreytileika (við munum tapa tegundum, afbrigðum og einstæðum vistkerfum).

Umhverfisumræðan hefur á síðustu árum snúist meira og meira um hnattræna hlýnun, á meðan áhrif mannsins á jörðina eru margfallt fjölbreyttari (flest neikvæð). Aðrir þættir hafa orðið undir, umhverfisvitundin virðist ekki vera að aukast mikið meðal þjóðarinnar.

Vonandi tekst ykkur á loftslag.is að auka hag umhverfisfræðinnar.

Arnar Pálsson, 5.4.2010 kl. 16:29

8 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Það sem mér finnst undarlegast í loftslagsumræðunni er þegar fólk heldur því fram að það sé út af einhverjum efnahagslegum hagsmunum vísindamanna sem að talið sé nauðsynlegt að draga þurfi úr útblæstri á CO2. Fólk virðist ekki skilja það að það er engin leið fyrir vísindamenn að skálda upp hlýnun jarðar - jöklar bráðna, lífverur færa sig um set, mælingar sýna hlýnun - og allt þetta stemmir við það sem vísindamenn hafa verið að segja síðustu áratugi að muni gerast - bara sú staðreynd ætti að nægja flestu skynsömu fólki að taka þá ákvörðun að hlusta á það sem þeir segja.

Ef þetta væri eitthvað efnahagslegt samsæri vísindamanna - þá væri það vægast sagt óheppileg tilviljun fyrir okkur mannkyn að jörðin skuli vera að hlýna akkúrat núna - af einhverjum orsökum sem engin veit hvað er (ath: sólin er búin að vera í niðursveiflu síðustu nokkra áratugi) og einstaklega óheppilegt að "efasemdamenn" um hlýnun jarðar af mannavöldum skuli ekki vera búnir að sjá hvað það eiginlega er sem að veldur þessari hlýnun og hvað það er sem að vísindamenn eru að gera til að gabba okkur.

Annars eru hagsmunir vísindamanna þeir sömu og okkar hinna - að gera sitt til að halda jörðinni lífvænlegri fyrir afkomendur okkar (og aðrar lífverur) og ég held að það sé það sem þeir flestir stefna leynt og ljóst að.

Höskuldur Búi Jónsson, 5.4.2010 kl. 18:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband