28.4.2010 | 21:15
Magnandi svörun að verki
Þetta er áhugaverð frétt hjá mbl.is - þeir fá rós í hnappagatið að fylgjast svona vel með, við sáum minnst á þessa grein fyrst í dag.
Til að byrja með viljum við tengja á greinina sjálfa, eftir þá Screen og Simmonds (2010), en hún heitir The central role of diminishing sea ice in recent Arctic temperature amplification. Þeir sem hafa ekki áskrift af Nature, verða að láta sér nægja ágripið, en þar segir í lauslegri þýðingu:
Hlýnun við yfirborð sjávar hefur verið næstum tvisvar sinnum meiri á Norðurskautinu en sem nemur hnattrænu meðaltali síðustu áratugi - nokkuð sem kallað er Norðurskautsmögnunin (Arctic amplification). Aukinn styrkur gróðurhúsalofttegunda hefur stjórnað hlýnun Norðurskautsins og Jarðarinnar í heild; hin undirliggjandi ástæða Norðurskautsmögnunarinnar hefur verið óljós hingað til. Hlutverk minnkunar í snjó og hafísútbreiðslu og breytingar í straumum loftshjúps og sjávar, skýjahula og vatnsgufa er enn ókljáð deiluefni. Betri skilningur á þeim ferlum sem hafa verið ráðandi í hinni magnandi hlýnun er nauðsynlegt til að dæma um líkur, og áhrif, á framtíðarhlýnun Norðurskautsins og hafíssbráðnunar.
Í þessari grein sýnum við að hlýnun Norðurskautsins er mest við yfirborðið flest árin og er að mestu leiti í samræmi við minnkun í hafísútbreiðslu. Breytingar í skýjahulu hafa, aftur á móti, ekki haft mikil áhrif á undanfarna hlýnun. Aukning í vatnsgufu lofthjúpsins, sem er að hluta afleiðing minnkandi útbreiðslu hafíss, gæti hafa aukið á hlýnun í neðri hluta lofthjúpsins yfir sumartímann og í fyrri hluta haustsins.
Niðurstaða okkar er sú að minnkandi hafís hefur haft afgerandi hlutverk í Norðurskautsmögnuninni. Sú niðurstaða styrkir tilgátur um að sterk magnandi svörun milli hafíss og hitastigs sé hafið á Norðurskautinu, sem eykur líkurnar á hraðari hlýnun og frekari bráðnun hafíss, sem mun líklega hafa áhrif á vistkerfi Pólsins, massabreytingar jökulbreiða og mannlegar athafnir á Norðurskautinu.
Þetta er nokkuð mikið að melta í einum bita. Útskýringu má finna á loftslag.is á því hvað magnandi svörun er, en þar segir meðal annars:
"Magnandi svörun (e. positive feedback) er hugtak sem er frekar mikið notað í loftslagsfræðum. Þar er átt við ferli þar sem afleiðingin magnar upp orsökina og veldur keðjuverkun með hugsanlega slæmum stigvaxandi áhrifum. Á hinn bóginn getur afleiðing myndað dempandi svörun (e. negative feedback) á móti orsökinni og dregið úr henni.
Magnandi svörun
Við hlýnun jarðar eru ýmis ferli sem valda magnandi svörun. Við hlýnun eykst t.d. raki eða vatnsgufa í andrúmsloftinu og þar sem vatnsgufa er gróðurhúsalofttegund þá magnar það hlýnunina upp.
Annað þekkt ferli er hið svokallaða Ice-Albeido effect þ.e. þegar hafís bráðnar vegna hlýnunar jarðar þá endurspeglast minna sólarljós út úr lofthjúpnum og sjórinn gleypir meiri hita og því hitnar meira og meiri hafís bráðnar."
Tengdar færslur á loftslag.is
- Hlýir sjávarstraumar hraða bráðnun Grænlandsjökuls Frétt um tvær greinar sem benda til að hlýir sjávarstraumar séu að auka hraða bráðnunar á Grænlandi..
- Er hafís Norðurskautsins að jafna sig? Bloggfærsla þýdd af Skeptical Science um það hvort hafís Norðurskautsins sé að jafna sig..
- Síðbúið vetrarhámark hafíssins á norðurhveli Gestapistill: Emil Hannes Valgeirsson fjallar um hafís hámarkið í marsmánuði
- Hvað er vitað um ísbirni? Bloggfærsla um það hvað vitað er um ísbirni, þ.e. er þeim að fjölga eða fækka..
Lesa meira um hafís á loftslag.is
Bráðnun íss veldur meiri hlýnun en hingað til hefur verið talið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Blogg, Fréttir | Breytt s.d. kl. 21:19 | Facebook
Athugasemdir
Góðan dag.
Benda má á óvenjulega hegðun hafíssins að undanförnu.
Á myndinni hér fyrir neðan má sjá á rauðu línunni sem trónir efst, að hafísinn er orðinn meiri en árin 2007, 2008 og 2009, og ekki nóg með það, heldur meiri en meðaltal áranna 1979 til 2006 sem er svarta línan..
Ekki er ólíklegt að á undanförnum árum hafi verið um tímabundna hlýnun að ræða sem gengin er til baka.
Ferillinn er frá 27. apríl s.l. Heimild: http://arctic-roos.org
Úrklippan sýnir þetta betur:
Svo má benda á fróðlegan pistil hjá Karli Jóhanni um Grænlandsjökul,
Ágúst H Bjarnason, 29.4.2010 kl. 05:50
Hér er faglegt inlegg sem er trúverðugt... http://karljg.blog.is/blog/karljg/entry/1048722/#comment2866179
Kristinn Pétursson, 29.4.2010 kl. 07:15
Já Ágúst, þetta lítur allt saman mjög vel út ef maður skoðar útbreiðsluna, en því miður þá er víst um að ræða þunnan ís - sem að öllum líkindum mun ekki lifa af sumarið, nema að litlu leiti (fer eftir hvernig sumarið verður).
Ef skoðuð er þróunin í rúmmáli hafíss, þá er útlitið ekki eins gott (sjá Er hafís Norðurskautsins að jafna sig):
Höskuldur Búi Jónsson, 29.4.2010 kl. 08:23
Skiptir engu máli, það er hvort sem er kuldaskeið að koma næstu 50 árin. Jörðin hefur áður gengið í gegnum meiri hamfarir en loftslags vísindamen segja sé að mannavöldum.
Jón Helgi, 29.4.2010 kl. 11:29
Jæja Jón, hvaða heimildir hefurðu fyrir því að það komi kuldaskeið næstu 50 árin?
Jörðin hefur gengið í gegnum miklar hamfarir áður, t.d. hafa loftsteinar rekist á jörðina svo eitthvað dæmi sé nefnti. En þau rök gefa okkur ekki neinn sérstakan rétt til að menga Jörðina hugsunarlaust.
Sveinn Atli Gunnarsson, 29.4.2010 kl. 12:09
Jón Helgi, ef þú ert að tala um hina mögulega tímabundna stöðnun í hitastigi sem búist er við í Norður Evrópu - ef sólvirkni heldur áfram að minnka næstu áratugi, þá ertu víðsfjarri lagi.
Sjá t.d. á loftslag.is:
Þá fjallaði Einar Sveinbjörns um þetta meinta 50 ára kuldaskeið: Spárnar um vetrarkuldann næstu 50 árin
Höskuldur Búi Jónsson, 29.4.2010 kl. 12:15
Einusinni var regnskógur á svalbarða. Það er ennþá að fina leifar af honum þar í klettum og við námugröft á kolum. Til að regnskógur gæti þrifist á svalbarða þyrfti hitinn á jörðinni að vera miklu meiri en loftslags vísindamenn hafa nokkurntíman spáð fyrir varðandi hitnun af mannavöldum.
Jón Helgi, 30.4.2010 kl. 04:56
Jón Helgi: Við höfum fjallað um þau tímabil þegar annað loftslag ríkti á jörðinni en nú (sjá t.d. færslur um fornloftslag á loftslag.is). Áður voru náttúrulegir þættir að verki, nú er losun manna á gróðurhúsalofttegundum sem er ráðandi.
Náttúrulegar loftslagsbreytingar fyrri tíma sýna fram á hversu viðkvæmt loftslag er fyrir breytingum í orkujafnvægi. Þegar Jörðin safnar í sig hita, hækkar hnattrænt hitastig. Sem stendur er CO2 að auka orkuójafnvægi vegna aukinna gróðurhúsáhrifa.
Fyrri loftslagsbreytingar afsanna ekki loftslagsbreytingar af manna völdum, heldur þvert á móti sýna þær fram á hversu viðkæmt loftslagið er fyrir þeim breytingum á CO2 sem menn eru að valda.
Höskuldur Búi Jónsson, 30.4.2010 kl. 08:28
Jón: Hiti á jörðinni hefur verið hærri en vísindamenn er t.d. að spá varðandi hækkun hitastigs á næstu öld, það er engin ný vitneskja í því. Það er þó viðsjárverð tilraun að hækka hitastig um þó ekki sé nema 1-2°C á 100 árum, það mun hafa áhrif á vistkerfin og ekki má gleyma hækkun sjávarstöðu, sem gæti orðið umtalsverð til lengri tíma litið (þó stutt miðað við jarðsöguna). Í þetta sinn er hækkun rakin til athafna mannsins, sem hafa aukið styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Jón þú gætir prófað að skoða hvað hefur valdið fyrri loftslagsbreytingum, sjá Orsakir fyrri loftslagsbreytinga, gjörðu svo vel.
Sveinn Atli Gunnarsson, 30.4.2010 kl. 08:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.