31.3.2012 | 21:50
Hafís Norðurskautsins síðastliðin 1450 ár
Nákvæm gögn eru söfnuð um útbreiðslu hafíss síðastliðin rúm 30 ár byggð á gervihnattagögnum, en auk þess eru nothæfar upplýsingar til um útbreiðslu hafíss síðustu öld, byggt á upplýsingum frá skipum og flugvélum. Gögnin sýna greinilega að bráðnunin undanfarna áratugi er mun meiri en öldina þar á undan. Nýleg greining á þeirri þekkingu sem til er um hafís Norðurskautsins (Polyak o.fl. 2010), bendir til þess að bráðnun hafíss nú sé meiri en verið hefur síðastliðin nokkur þúsund ár og ekki hægt að útskýra með náttúrulegum breytileika.
Nú nýlega kom síðan út grein um ástand hafíssins á Norðurskautinu. Þar er ítarleg greining á þeim vísum (e. proxys) sem til eru um útbreiðslu hafíss síðastliðin 1450 ár (sjá Kinnard o.fl. 2011).
Kinnard og félagar söfnuðu saman 69 gagnasettum sem vísa í útbreiðslu hafíss á Norðurskautinu, ýmist beint eða óbeint. Mest voru notaðir borkjarnar í jökulís, en einnig trjáhringjarannsóknir, vatnaset og söguleg gögn þar sem minnst var á hafís. Mikið af vísunum geyma vísbendingar eða merki sem eru önnur en frá útbreiðslu hafíss - þá sérstaklega hitastig - en tölfræðilega greiningin sem notuð er veitir höfundum möguleika á að einangra frá breytileika í gögnunum sem þá er frábrugðinn hitamerkinu.
Sú tölfræðilega greining sýndi góða fylgni við hafísútbreiðslu síðsumars (ágúst), bæði fyrir allt Norðurskautið sem og fyrir gögn sem tengdust sérstaklega hafisútbreiðslu við Rússland. Samkvæmt greiningunni þá voru gögnin nægilega nákvæm til að áætla um útbreiðslu hafíss síðastliðin 1450 ár.
Áhugavert er að skoða útlit línuritsins, en glöggir lesendur loftslag.is kannast kannski við útlitið - en það minnir mjög á hokkíkylfur sem orðnar eru fjölmargar (sjá Hokkíkylfa eða hokkídeild?).
Meiri óvissa er eftir því sem farið er lengra aftur í tíman - þá aðallega vegna þess að þau gögn sem nothæf eru fækkar. Engu að síður er augljóst að í lok tuttugustu aldar er niðursveiflan fordæmalaus - allavega síðastliðin 1450 ár - bæði hvað varðar magn og lengd tímabils.
Heimildir og ítarefni
Byggt á umfjöllun Tamino í Open Mind: 1400+Years of Arctic Ice
Greinin birtist í Nature, Kinnard o.fl. 2011 (ágrip): Reconstructed changes in Arctic sea ice over the past 1,450 years
Yfirlitsgreinin um sögu hafíss birtist í Quaternary Science Review, Polyak o.fl. 2010: History of sea ice in the Arctic
Tengt efni á loftslag.is
- Er hafís Norðurskautsins að jafna sig?
- Hokkíkylfa eða hokkídeild?
- Frekari sönnunargögn um að hlýnun jarðar sé raunveruleg
- Myndband um hafíslágmarkið 2011
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Það er alveg lágmark að fá 7000 ár ef þettta á að teljast vísindi.
Stoppaði bokjarnarannsóknin á 1450 árum - eða hentar ekki fara með samanburðinn sftur um 7000 ár
Kristinn Pétursson, 1.4.2012 kl. 04:09
Kristinn: Hvenær þurfti að skoða náttúrufarsgögn 7000 ár aftur í tíman til að hægt væri að álykta um vísindi þeirra gagna?
En þér til upplýsinga, fyrst þú hafðir ekki þolinmæði í að lesa greinarnar, þá er ekki eingöngu verið að notast við borkjarnagögn - 1450 ár voru eins langt aftur og hægt var að fara miðað við þau gögn og aðferðir sem notuð voru, þ.e. í grein Kinnards o.fl.2011. Þá var einnig minnst á grein eftir Polyak o.fl. en í henni stendur m.a.:
Undanfarnir áratugir eru óvenjulegir, það er bara þannig - og sú hlýnun sem er að valda þessari bráðnun er af mannavöldum.
Höskuldur Búi Jónsson, 1.4.2012 kl. 13:23
Mér finnst stórfyndið að menn séu að áætla magn fljótandi íss tæp 1500 ár aftur í tímann byggt á borkjörnum úr ís á landi og trjáhringjamælingum. Hvernig getur slíkt orðið nokkuð annað en í besta falli algjörlega blind ágiskun?
Gulli (IP-tala skráð) 1.4.2012 kl. 14:58
Vísindin geta komist að ýmsu enda eru þau til þess og bara mjög gott mál ef hægt er að áætla ísmagn fortíðar út frá trjáhringjum.
En ef farið er langt aftur í tímann eins og Kristinn vill gera þá hlýtur að vera nokkuð ljóst að hafísinn hafi verið mun minni fyrir 8 þúsund árum þegar núverandi hlýskeið var í hámarki og Vatnajökull varla til.
Á bloggsíðu Trausta Jónssonar kom t.d. þetta fram nýlega:
„ ... svokallað bestaskeið nútíma - (holocene thermal maximum) en tilgátur eru uppi um það að hámarkshita á norðurslóðum hafi verið náð fyrir um átta þúsund árum. Þá hafi verið um tveimur stigum hlýrra heldur en nú á norðurslóðum en e.t.v einu stigi hlýrra í heiminum í heild. ...
Gert er ráð fyrir því að á bestaskeiði hafi hann [hafísinn] flökt við það að hreinsast á sumrin - en ekki alltaf.“
Hin snögga hlýnun síðustu áratuga er samt mjög óvenjuleg enda er hún væntanlega af öðrum orsökum en hlýskeiðið fyrir 8 þúsund árum. Sumum hættir reyndar til að gera lítið úr núverandi hlýnun af því að það var líka hlýtt í fortíðinni.
Emil Hannes Valgeirsson, 1.4.2012 kl. 16:54
Það er frekar grunsamlegt þegar menn eru að "velja" sér hvað hægt sé að "bora langt" - eru ekki til gögn úr Grænlandsjökli 400 þúsund ár afturábak?
Eins og fram kemur hjá Emil - eru einhverjar vísbendingar til um að nánast enginn í hafi verið fyrir um 8000 árum...
Allt kann þetta því að vera bara venjuleg náttúrsveifla - með auðvitað þeim "ýkjum" sem beitt er í dag með því að "velja sér hagstæða byrjun" - þegar kalt er - ein og margsinnis er búið að gera með því að "skoða hlýnun" frá 1970...
1952 voru túnfiskar allt sumarið in Vopnafirði og voru tveir skutlaðir - þá var hlýrra í sjóinn en nú er...
Ég er bara að ítreka það - að svona gögn eru ekki boðleg.
Það er algert lágmark að sýna síðustu 10.000 ár - og svo nýta síðistu 150 ár með mælistöðum þar sem ekki hafa orðið á umhverfisbreytingar - eins og ég er oft að benda á.
Það er marklaust að nota gögn frá hitamæli - þar sem búið er að breyta forsendum kring um hitamælinn - með skógi - mannvirkjum - borgarbyggingum - o.s. frv.
Umhverfið þar sem mælt er - verður að vera "standard" umhverfi - annars er mælistaðurinn ekki nothæfur - nema menn séu bara að svindla með svona mælingar til að fá "pantaða niðurstöðu um hnattræna hlýnun"
Kristinn Pétursson, 1.4.2012 kl. 18:06
Þótt það passi kannski ekki hérna. Einn Merkilegasti vísindamaðurinn dag 90ára james lovelock
http://www.youtube.com/watch?v=bm6v-U3K2OI
http://www.youtube.com/watch?v=SutzH2Lrtqc
Albert (IP-tala skráð) 1.4.2012 kl. 20:56
Það er rétt að hamra á þeirri staðreynd að niðurstaða flestra vísindamanna sem skoða loftslag á nútíma, er á þá leið að það hafi verið þokkalega hlýtt fyrir hvað 6-8 þúsund árum - um það er lítill efi.
Ástæða þeirrar hlýnunar er nokkuð ljós að auki, en breytingar í fjarlægð frá sólinni auk sveifla í möndulhalla varð til þess að hleypa jörðinni út úr kuldaskeiði ísaldar og yfir á núverandi hlýskeið (samanber milankovich sveifluna) Sjá t.d. tenglana hér fyrir neðan
Orsakir fyrri loftslagsbreytinga
Áhrifaþættir hinnar hnattrænu hlýnunar
Eins og kemur í ljós í ofangreindum tenglum, þá er núverandi uppsveifla í hitastigi (sérstaklega síðastliðin 50-60 ár) óvenjuleg og langt umfram það sem getur talist eðlilegt miðað við náttúrulega ferla - enda vita menn ástæðuna - það eru menn sem eru að auka hitastig jarðar með losun gróðurhúsalofttegunda: Sjá einnig:
Áhrif CO2 uppgötvað
Mælingar staðfesta kenninguna
Að lokum er rétt að benda þeim sem telja sig hafa efasemdir um hlýnun - á eftirfarandi: Efasemdir um hnattræna hlýnun – Leiðarvísir
Höskuldur Búi Jónsson, 1.4.2012 kl. 22:07
Ég er viss um að þó gögnin væru 7001 ár, þá myndi Kristinn biðja um 7002 ár, þannig að það skiptir í raun ekki máli hversu góð gögnin eru, þvi í hans huga eru þau ómarktæk, þar sem hann er hvort sem er búinn að ákveða að afneita loftslagsvísindum almennt (það hefur svo sem ekkert með vísindi eða vísindaleg gögn að gera hjá honum). Við sjáum svona rökleysur, eins og Kristinn heldur á lofti, oft og margsinnis frá hinum sjálfskipuðu "efasemdamönnum"....ekkert nýtt undir sólinni í þeim efnum.
Hitt er svo annað mál að það þarf ansi einbeittan vilja til að sjá ekki að hin manngerða hlýnun í dag er óvenjuleg á flest alla mælikvarða.
PS. Ég mæli líka með leiðarvísinum sem Höski tengir á, ansi fróðlegur, Efasemdir um hnattræna hlýnun – Leiðarvísir
Sveinn Atli Gunnarsson, 1.4.2012 kl. 23:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.