9.3.2009 | 21:44
Að hugsa fram í tímann
Að hugsa fram í tímann er eiginleiki sem gott er að hafa. Mennirnir hafa lengi getað hugsað fram í tímann, mislangt að vísu. Hluti af þeim eiginleika til að hugsa fram í tímann er að draga lærdóm af fortíðinni, finna út hvernig hlutirnir virka í nútímanum og spá þannig fyrir um það sem getur gerst í framtíðinni.
Eitt af því sem menn segjast geta sagt til um í framtíðinni eru loftslagsbreytingar, með mikilli óvissu þó. Ástæðan fyrir þessari óvissu er misgóð þekking á loftslagi fortíðar, misgóð þekking á þeim ferlum sem stjórna loftslagi í dag og því er óvissan um framtíðina nokkur.
Það sem meirihluti vísindamanna heimsins eru sammála um og margvíslegar rannsóknir styðja, en menn deila vissulega á, er að jörðin er að hlýna og allt bendir til þess að það sé af mannavöldum.
Í þessu bloggi mínu ætla ég að skrifa um ýmislegt tengt loftslagsmálum, þá sérstaklega um hlýnun jarðar af mannavöldum og fer ég örugglega eitthvað út fyrir efnið eftir því sem áhugi minn leitar. Eflaust verða einhverjir ósammála mér, þ.e. ef einhver villist hér inn og byrjar að lesa, enda viðbúið þegar umfjöllunarefnið er jafn heitt og loftstlagsmál.
Ég var haldinn þeim ranghugmyndum að það væri komin sátt um þá kenningu að jörðin væri að hlýna af mannavöldum. Þegar ég skoðaði síðan hvað ýmsir bloggarar hafa um málið að segja (aðallega í athugasemdum hjá agbjarn.blog.is) þá hef ég komist að því að sú er ekki raunin, allavega ekki hér á landi. Það er ein meginástæðan fyrir því að ég ákvað að blogga um loftslagsmál, hlýnun jarðar af mannavöldum og annað því tengdu.
Ef ég þekki moggabloggara rétt, þá eiga einhverjir eftir að væna mig um að vera öfgaumhverfissinna og vinstri grænan (jafnvel grænfriðung ). Ég hef ekki öfgaskoðanir á umhverfismálum, þó þetta tiltekna mál (hlýnun jarðar af mannavöldum) sé mér hugleikið. Ég er alveg óháður í pólitík og hef aldrei kosið VG (hef reyndar ekki kosið fjórflokkana síðan í fyrstu kosningunum mínum, þá 18 ára gamall og vitlaus).
En vonandi hafið þið gaman af þessari síðu, ætlunin er að hún verði meira á léttum nótum en þungum, þó vissulega sé ekki verið að fjalla um neitt léttmeti.
Simpansar hugsa fram í tímann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Um Loftslagsbloggið | Breytt 10.3.2009 kl. 21:01 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.