Ef Norður-Atlantshafsstraumurinn stöðvast.

Hérna er áhugaverð frétt af visir.is

Vísir, 17. mar. 2009 08:11

Hætta á flóðum eykst við austurströnd Bandaríkjanna

mynd
Sjórinn við Manhattan í New York.

Atli Steinn Guðmundsson skrifar:

Hlýnunin er talin munu valda því að hafstraumar í Atlantshafinu breytist á þann veg að mun meiri sjór berist að austurströnd Bandaríkjanna en áður hefur gerst og muni þessi breyting hækka yfirborð sjávar um allt að 51 sentimetra fyrir eða um árið 2100.

Frá þessu greinir rannsókn sem birtist í tímaritinu Nature Geoscience í dag en hana framkvæmdu vísindamenn við ríkisháskólann í Flórída. Talsmaður rannsakendanna segir að þetta geti haft töluverða þýðingu fyrir borgir á borð við New York, Boston og Washington þegar fram líða stundir og eru borgaryfirvöld í New York þegar tekin að ræða hvernig bregðast megi við hækkun sjávarborðsins í framtíðinni.

Vísindamennirnir segja áhrif hnattrænnar hlýnunar mun hraðvirkari en áður var talið, til dæmis hafi ýmis reikningsdæmi og spár sem lögð voru fram á stórri loftslagsráðstefnu árið 2007 gjörbreyst nú þegar, innan við tveimur árum síðar.

Mér skilst eftir að hafa lesið sambærilegar greinar um málið á erlendum vefmiðlum að það sé ekki beint meiri sjór sem að muni berast að austurtrönd Bandaríkjanna, heldur muni Norður-Atlanshafsstraumurinn hægja á sér það mikið að sjórinn mun hitna við austurströnd Bandaríkjanna. Við það muni sjórinn í fyrsta lagi þenjast út og sjávarborð rísa (vatn þenst út við hita), auk þess sem hitamismunur á milli hafs og lands eykst og þar með aukast fellibylir og krappar lægðir á þessu svæði - en við krappar lægðir þá rís sjávarborð enn meir (vegna lágs loftþrýstings og vegna þess að vindur ýtir sjóinn upp að landinu).

Það skal tekið fram að greinin birtist í Nature Geoscience og voru niðurstöðurnar fengnar með því að skoða þau loftslagslíkön sem IPCC notaði í sinni samantekt á hlýnun jarðar.

Sjá frétt af Science Daily :Sea Level Rise Due To Global Warming Poses Threat To New York City og af National Geographics news: New York Seas to Rise Twice as Much as Rest of U.S.

¨¨¨¨¨¨¨¨¨¨¨¨¨¨¨¨ 

Undirliggjandi í þessari frétt er nokkuð sem ég hef tæpt á áður hér á Loftslagsblogginu, þ.e. breytingar úthafsstrauma.  Mitt helsta áhyggjuefni hvað þetta varðar er möguleikinn á því að kaldur næringarríkur sjór úr norðri hætti að blandast heitum næringaríkum sjó úr suðri - sem myndi hafa geigvænleg áhrif á sjávarlífverur við Íslands strendur. 

Iceland%26Greenland_area_ocean_currents
Hafstraumar við Ísland

Næring átunnar er uppruninn við þessa blöndun og átan er fæða annarra lífvera (t.d. síli, loðnu og síld) sem aftur er undirstaða lífvera hærra í fæðukeðjunni (t.d. þorsks og ýsu). Sem sagt slæmt mál ef þessi blöndun hættir við Íslandsstrendur. [Hér er grein sem er nokkuð löng, en mér sýnist hún fjalla um þetta að einhverju leiti, á eftir að skoða hana - en set hana hér til minnis - Fisheries and aquaculture in the Central North Atlantic (Iceland ...]

Það er þó ekkert að óttast í bili (einhverjir áratugir geta verið í þetta ef spár ganga eftir), því þótt það hafi hægt eitthvað á þessari blöndun þegar ein af pumpunum stöðvaðist (í áratug), þá kom hún sterk aftur til baka árið 2007-2008. Þessi pumpa er keyrð áfram við það kalt þungt vatn í Norður-Atlantshafi sekkur á veturna. Við það þá dregur hann heitan yfirborðssjór úr hitabeltinu norður eftir Atlantshafi. Samkvæmt vísindamönnunum þá hægði á pumpunni vegna hlýnunar jarðar, en ástæða þess að hann fór aftur af stað er talin vera að hluta til vegna þess að veturinn var óvenju kaldur á Norður-Atlantshafi. Sem dæmi þá segir á heimasíðu Veðurstofu Íslands:

Meðalhiti vetrarins var rétt yfir meðallagi í Reykjavík en svo hlýtt hefur verið undanfarin ár að hann var sá kaldasti frá 2002. Á Akureyri var vetrarhitinn -0,6 stig og er það 1 stigi ofan meðallags þó veturinn sé sá kaldasti frá 2002 eins og í Reykjavík.

ice 

Mikill hafís var í Labrador sundinu sumarið áður sem síðan fraus um veturinn, þannig að hafís náði lengra frá landi en venja er. Við það náði kalt loft frá Norður-Ameríku að ferðast lengra yfir ís áður en það fór yfir hlýjan sjóinn. Hitastigsmunurinn setti svo af stað pumpuna. Svo er hér punktur frá vísindamönnunum:

“that the increased liquid and frozen freshwater flux into the Labrador Sea was probably tied to the large export of sea ice from the Arctic Ocean that contributed to the record minimum in sea-ice extent observed in the summer of 2007. Ironically, this disappearance of Arctic sea ice, which has been linked to global warming, may have helped trigger the return of deep wintertime [water sinking] to the North Atlantic.”

Það er sem sagt talið að hér hafi hlýnun jarðar slökkt á pumpunni, en að sama skapi hafi hún sett hana af stað aftur með því að bræða hafís á Norðurskautinu.

Þessi mikli útúrdúr sem þessi færsla hefur farið segir í raun að þó jörðin hlýni, þá er ekki víst að það slokkni á úthafsstraumum endanlega, þó margt bendi til þess að það geti gerst. Ef það aftur á móti gerist, þá yrðu afleiðingarnar nokkuð skelfilegar eins og rannsóknin sem vísað er í, í upphafi færslunar gerir ráð fyrir.  Margt annað má sjá fyrir sér, t.d. geta  afleiðingarnar orðið þær, ef hinn hlýi Norður-Atlantshafsstraumur hægir á sér eða stoppar, að hér geti kólnað umtalsvert, sjá t.d. Could Global Warming Cause a Mini Ice Age?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Já þetta er merkilega samtengt alltsaman. Ég var búinn að sjá þessa frétt þar sem talað er um allan hafísinn sem slapp út úr Norður-Íshafi sumarið 2007 og átti þátt í methafíslágmarkinu það sumar. Þessi heimskautaís og kælingin sem hann olli við Labradorsund endurræsti pumpu sem á að hafa verið óvirk árum saman án þess að það hafi vakið nokkra athygli.

Það hefur annars verið lítið gert úr þeirri hættu undanfarið að Norður-Atlantshafstraumurinn (NA-Golfstraumurinn) stöðvist eða geti hægt alvarlega mikið á sér, allavega miðað við það sem óttast var áður. Án þessa hlýja straums væri allt Atlantshafið milli Noregs og Grænlands væntanlega ísilagt á veturna og hafið í kringum Ísland þar með talið.

Emil Hannes Valgeirsson, 18.3.2009 kl. 00:04

2 Smámynd: Loftslag.is

Jamm, aðalástæðan fyrir því að umræðan hjá mér fór yfir í mögulega stöðvun eða hægingu Norður-Atlantshafsstraumsins var að þarna er rannsókn þar sem reiknað er út að slíkt myndi gerast (nema ég hafi misskilið fréttina mikið) og því býst ég við að í kjölfarið fari menn að velta þessu aftur fyrir sér, þ.e. hvað gerist í Norður-Atlantshafi (og þá við Íslands strendur t.d.).

Loftslag.is, 18.3.2009 kl. 11:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband