Færsluflokkur: Rannsóknir

Hafís Norðurskautsins síðastliðin 1450 ár

Nákvæm gögn eru söfnuð um útbreiðslu hafíss síðastliðin rúm 30 ár byggð á gervihnattagögnum, en auk þess eru nothæfar upplýsingar til um útbreiðslu hafíss síðustu öld, byggt á upplýsingum frá skipum og flugvélum. Gögnin sýna greinilega að bráðnunin undanfarna áratugi er mun meiri en öldina þar á undan. Nýleg greining á þeirri þekkingu sem til er um hafís Norðurskautsins (Polyak o.fl. 2010), bendir til þess að bráðnun hafíss nú sé meiri en verið hefur síðastliðin nokkur þúsund ár og ekki hægt að útskýra með náttúrulegum breytileika.

[...]

Nánar er hægt að lesa um þetta á loftslag.is - Hafís Norðurskautsins síðastliðin 1450 ár

Tengt efni á loftslag.is


Tölfræðin segir að enn sé að hlýna

AP fréttastofan sendi hitagögn frá NOAA og NASA (bæði mælingar á jörðu og úr gervihnöttum) til fjögurra sjálfstæðra tölfræðinga sem fengu ekki að vita hvað fælist í gögnunum – en þeir fengu það hlutverk að gera á þeim venjubundin tölfræðileg próf og skoða leitni gagnanna (trend).

Samkvæmt fréttastofunni þá fundu tölfræðingarnir sem greindu hitagögnin, enga tölfræðilega niðursveiflu síðastliðinn áratug og í raun varð vart við mjög ákveðna leitni upp á við í tölunum á áratuga grunni. Að auki kom í ljós að sveiflur núna væru líkar því sem orðið hafa reglulega allt frá árinu 1880. Það má túlka sem svo að þær sveiflur séu náttúrulegar sveiflur ofan á undirliggjandi hlýnun. 

Þetta er hluti færsla af Loftslag.is, sjá "Tölfræðin segir að enn sé að hlýna".

Meira ítarefni:


mbl.is Líklega hlýjasti áratugurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bráðnun íss og hækkandi hitastig

loftslagUmfangsmikil rannsókn á jöklum Suðurskautsins og Grænlands sýnir að jökulþynning á Grænlandi er byrjuð á Norður-Grænlandi, sjá fréttina "Þynning jökla á Grænlandi og Suðurskautinu". Nýlega kom skýrsla um loftslag Suðurskautsins, þar sem farið er m.a. yfir meintan þátt gatsins í ósonlaginu í loftslaginu þar, ásamt ýmsu öðru því tengt. Einar Sveinbjörnsson ræðir m.a. einn hluta þess máls á blogginu sínu. Árið 2007 kom síðasta stóra matsskýrslan um loftslagsmál út hjá Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC). Sú skýrsla var fjórða í röðinni og von er á þeirri fimmtu árið 2014. En frá því skýrslan kom út 2007 hafa komið fram nýjar rannsóknir um ástand mála. Í raun þá þurfti efnið sem er í skýrslunni frá 2007 að vera tilbúið 2006 til að vera með í skýrslunni, enda um stórt verk að ræða sem ekki er haspað af á stuttum tíma. Í millitíðinni og í tilefni fundarins í Kaupmannahöfn, þá hefur ný skýrsla komið út, sem segir frá því sem komið hefur fram í ýmsum rannsóknum sem gerða hafa verið frá 2007.

Nýr gestapistill eftir Halldór Björnsson var birtur á Loftslag.is í dag og nefnist pistillinn "Að sannreyna staðhæfingar".


mbl.is Bráðnun dregur úr veiðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fiskistofnar fylgja sínu kjörhitastigi

Nýleg grein sem birtist í Marine Ecology Progress Series sýnir áhugaverðar breytingar sem eru að verða á landgrunninu við Norðausturströnd Bandaríkjanna. Síðastliðna fjóra áratugi hefur helmingur fiskistofna þeirra sem rannsóknin náði yfir, færst norður á bóginn. Þessi færsla er talin tengjast breytingum í sjávarhita.

Kort sem sýnir færslu nokkurra fiskistofan við Norðausturströnd Bandaríkjanna

Kort sem sýnir áætlaða færslu nokkurra fiskistofna við Norðausturströnd Bandaríkjanna við hlýnun sjávar.

[Hluti fréttar af Loftslag.is, vinsamlega klikkið hér til að lesa fréttina nánar]


Færri Bandaríkjamenn telja traustar sannanir fyrir hnattrænni hlýnun

loftslagNý könnun á vegum Pew Research Center for the People & the Press, gefur til kynna að nú telji 57% Bandaríkjamanna að traustar sannanir séu fyrir hnattrænni hlýnun, á móti 71% í apríl  2008.

Þrátt fyrir sífellt fleiri vísindaleg rök, þá eru færri Bandaríkjamenn sem telja að traustar sannanir séu fyrir hnattrænni hlýnun undanfarna áratugi.

Séu þessar tölur skoðaðar eftir stjórnmálaskoðunum, þá er einnig hægt að greina nánar hvernig breytingarnar hafa orðið allt frá 2006. Hægt er að greina að almenningur telur sig ekki hafa fullnægjandi skýringar og sannanir fyrir því að hnattræn hlýnun eigi sér stað. Einnig er hægt að sjá þar að mesta breytingin hefur orðið undanfarið ár. 

[Nánar er fjallað um þetta á Loftslag.is]


Frétt - Loftslag.is

Umfangsmikil rannsókn á jöklum Suðurskautsins og Grænlands sýnir að jökulþynning á Grænlandi er byrjuð á Norður-Grænlandi og hefur dreifst um allt Suðurskautið. Þynningin er að aukast inn á land á báðum jökulbreiðunum (e. Ice Sheet), samkvæmt nýrri grein í Nature. Í greininni kemur fram að þynningin hefur haldið áfram í áratugi eftir uppbrotnun íshellna/jökulþylja (e. Ice Shelf) og segir þar að ástæða þess sé hlýrri sumur, en þó ennfremur hlýrri hafstraumar.

Nánar má lesa um þetta á loftslag.is.

 


mbl.is Pólísinn þynnist hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Súrnun sjávar - Loftslag.is

Súrnun sjávar (e. ocean acidification) er aukaafurð losunar á CO2 út í andrúmsloftið og oft kallað "hitt CO2-vandamálið" (á eftir hlýnun jarðar). Vegna aukningar CO2 í andrúmsloftinu gleypir sjórinn aukið magn CO2 og við það verða efnaskipti sem breyta pH gildi sjávar og lækkar kalkmettun sjávar. Einnig er talin hætta á því að hlýnun sjávar geti valdið aukningu á því að metan losni úr sjávarsetlögum sem myndi efnasambönd við sjóinn með sömu áhrifum.
Breyting á pH gildi sjávar frá 18. öld til lok 20. aldar. Mynd fengin af earthtrends.wri.org.
Breyting á pH gildi sjávar frá 18. öld til lok 20. aldar. Mynd fengin af earthtrends.wri.org.

---

Til að lesa alla greinina, klikkið á Loftslag.is - einnig er boðið upp á spjallborð, sjá tengil á hliðarstikunni á Loftslag.is.

Loftslag.is opnar formlega þann 19. september, en hægt er að kíkja á ýmsar síður nú þegar.

loftslag


Nýr hokkístafur

Ég bara verð að fjalla smá um þessa frétt þótt Kjartan bloggvinur minn sé búinn að því.

Út er komin ný grein í Science sem mér sýnist að eigi eftir að setja allt á annan endan í loftslagsmálum. Nú þegar eru flestar fréttasíður á netinu og bloggsíður sem ég skoða byrjaðar að fjalla um greinina og nú þegar eru efasemdamenn um hlýnun jarðar búnir að dæma þessa grein sem ómerking. Ég hef ekki aðgang að Science og því verð ég að treysta því að umfjöllun um málið sé rétt. Einnig set ég töluvert af minni túlkun í þetta út frá þessari einu mynd.

Málið snýst að mestu um nýtt graf sem sýnir þróun í hitastigi Norðurskautsins síðastliðin 2000 ár:

Fig_final_11
Myndin sýnir langvarandi kólnun á Norðurskautinu, sem endaði snögglega við upphaf iðnbyltingarinnar og með mikilli hlýnun síðastliðin 50 ár. Bláa línan sýnir mat á hitastig út frá proxýgögnum úr vatnaseti, ískjörnum og trjáhringum. Græna beina línan sýnir að leitnin var í átt til kólnunar. Rauða línan sýnir bein mæligögn á hitastigi. Mynd úr Science, breytt af UCAR).
 

Athugið að hér er ekki verið að fjalla um hnattræna lýnun, en hér eru proxýmælingar fyrir norðurhvel jarðar -  Hokkístafurinn endurbætti:fig3
Hokkístafurinn (Mann og fleiri 2008)

Það má eiginlega segja að báðir þessir ferlar sýni nokkurn vegin það sama - hitastig var búið að falla eitthvað síðastliðin 1000 ár (2000 ár skv. ferlinum úr nýju greininni og meira áberandi þar). 

Hér er svo mynd sem sýnir áætlað hitastig núverandi hlýskeiðs í heild:

Holocene_Temperature_Variations
Áætlað hitastig núverandi hlýskeiðs. Nútíminn vinstra megin, hér má sjá hvernig hitastig hækkaði eftir kuldaskeið ísaldar og náði hæstu hæðum fyrir um 6-8 þúsund árum síðan (mynd wikipedia).

Á tölti í átt til til kuldaskeiðs ísaldar

Graphic-showing-reversal--006
Hlýnun jarðar af mannavöldum hefur strokað út þá kólnun sem orðið hefur undanfarin nokkur þúsund ár, sem orðið hafa vegna breytinga í sporbaug jarðar
(Mynd: National Science Foundation)

Það er niðurstaða greinarinnar að breytingar í sporbaug jarðar hafi verið frumororsökin í þessari hægu kólnun í átt til kuldaskeiðs ísaldar - eins og gerist alltaf á hlýskeiðum ísaldar (við erum stödd á einu slíku núna). Það þýðir að smám saman verður kaldara og kaldara og jöklar taka yfir á norðurhveli jarðar - kuldaskeið byrjar smám saman.

Þetta gerist smám saman á nokkrum þúsund þúsund árum. Fyrir rúmri öld, þá gerðist síðan nokkuð sem breytti þessum náttúrulegu sveiflum skyndilega -Iðnbyltingin olli hlýnun jarðar vegna losunar CO2 út í lofthjúpinn af mannavöldum.

Carbon_Dioxide_400kyr_Rev
Breytingar í CO2 nokkur hundrað þúsund ár aftur í tímann.

Þessar náttúrulegu breytingar í hlýskeið og kuldaskeið ísaldar eru að mestu stjórnað af svokölluðum Milankovitch sveiflum (sjá Loftslagsbreytingar fyrri tíma) og þegar hlýnar þá losnar CO2 út í andrúmsloftið vegna hlýnunar sjávar - sem magnar upp breytinguna með svokallaðri magnandi svörun (e. positive feedback).

Hér fyrir neðan má sjá þessar sveiflur - nema hvað að ég er búinn að bæta við einu lóðréttu striki til að sýna fram á að við vorum á hægfara leið í átt til ísaldar:

Nátturuleg
Sveiflur Milankovitch. Rauði ferillinn og svarti ferillinn sýna heildaráhrifin á tvo vegu. Svarti ferlillinn sýnir sólarinngeislun á sólstöðum á 65. breiddargráðu norðurs. Þegar inngeislunin er há, þá er hlýskeið og öfugt. Þetta fellur nokkuð vel að fyrri hlý og kuldaskeiðum ísaldar, til lengri tíma litið. Fyrir neðan eru svo tvö hitastigsproxý (götunga í sjávarsetlögum og ískjarna úr Vostock ískjarnanum) sem styðja þessa kenningu Milankovitch. Rauða lóðrétta strikið sýnir svipaða stöðu allavega myndrænt séð og við erum í núna - þ.e. náttúrulega ferlið segir okkur að hitastig ætti að fara smám saman lækkandi - en ekki hækkandi eins og það hefur gert undanfarna öld.  

Gott eða slæmt?

Það er nokkuð ljóst að margir sem þetta lesa eiga eftir að líta þetta jákvæðum augum, þarna kemur í ljós að útblástur CO2 hefur komið í veg fyrir hægfara kólnun í átt til kuldaskeiðs ísaldar - nokkuð sem við íslendingar fáum allavega hroll yfir þegar við hugsum um það. En hvað mun það kosta okkur og lífríkið í heild?  

Af tvennu illu þá er ljóst að hægfara náttúruleg kólnun í átt til kuldaskeiðs ísaldar (nokkur þúsund ár) hljómar mun betur hnattrænt séð heldur en snöggur ofsahiti af mannavöldum. Kuldinn hefði að vísu smám saman gert óbyggilegt hér í Norður Evrópu og Norður Ameríku, en annars hefði staðan sjálfsagt orðið þokkaleg fyrir meirihluta þeirra sem byggja þessa jörð.

Þess í stað stefnir allt í að við séum búin að koma af stað atburðarrás sem erfitt getur reynst að aðlagast - gríðarlega hraðar breytingar sem ekki hafa sést hér á jörðinni í tugmilljónir ára og þessi hlýnun Norðurskautsins á mögulega eftir að magna upp hlýnun jarðarinnar töluvert (sjá Metanstrókar). Ekki bara breytingar í loftslagi og tilheyrandi afleiðingum (sjá Hækkun sjávarstöðu), heldur einnig í vistkerfi sjávar (svokallaðri súrnun sjávar).

Langbest fyrir jarðarbúa væri að hætta losun CO2 sem fyrst og reyna að halda hinni óhjákvæmilegu hlýnun eitthvað í skefjum. Einnig er rétt að jarðarbúar fari að búa sig undir það versta og stilli saman strengi sína til að reyna að aðlagast þessum breytingum.

Ýmsar umfjallanir um nýju greinina: 

Sjá umfjallanir nokkurra netmiðla um málið:Guardian, BBC, CBC og Telegraph. 
mbl.is Norðurskautið kólnaði í 2.000 ár fyrir hlýnunina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Metanstrókar - hlýnun og súrnun sjávar

Ég hef áður lýst hér áhyggjum vísindamanna af því hvað gæti gerst ef metan færi að losna í miklu magni úr frosnum sjávarsetlögum á landgrunninu norður af Síberíu (sjá færsluna Sofandi risi?), en metangas er gríðarlega öflug gróðurhúsalofttegund (um 25 sinnum öflugri en koldíoxíð).

Nú hafa breskir og þýskir vísindamenn kortlagt metanstróka (mín þýðing, mætti einnig vera metanleki e. methan seeps) sem koma upp úr sjávarbotninum við Svalbarða (sjá grein).

Methanstrókar
Sjóarar kannast við myndir sem þessar (þetta eru þó ekki fiskitorfur), en með nákvæmum sónartækjum hafa menn fundið metanstróka koma úr landgrunninu við Svalbarða við bráðnun úr áður frosnum sjávarsetlögum (mynd úr grein vísindamannanna, smella á myndinni tvisvar til að stækka).

Þetta er talin vísbending um að spár varðandi magnandi svörun (e. positive feedback) séu að rætast hvað varðar metangas (við hlýnun losni metangas, sem veldur svo aftur meiri hlýnun og svo koll af kolli).  

Við hækkun sjávarhita þá bráðna frosnir metanmettaðir vatnskristallar úr setlögunum og metanið losnar (t.d. var sjávarhiti í júlí sá hæsti frá upphafi mælinga sjá frétt NOAA).

Vísindamennirnir fundu meira en 250 metanstróka á svæði sem þeir kortlögðu við Svalbarða. Þeir notuðu samskonar sónara (dýptarmæla) og notaðir eru um borð í fiskiskipum til að finna fiskitorfur (sjálfsagt eitthvað nákvæmari græjur þó). Tekin voru sýni til að staðfesta að um metan var að ræða. Þessir metanstrókar komu úr setlögum sem voru á 150-400 m dýpi.

Metanvatnskristallarnir (e. methane hydrate) eru stöðugir við mikinn þrýsting og lítið hitastig og eru þeir nú stöðugir á meira dýpi en 400 m við Svalbarða. Fyrir 30 árum voru þeir stöðugir á 360 m dýpi svo ljóst er að óstöðugleikinn nær dýpra nú - á sama tíma hefur hitastig sjávar á þessum slóðum hækkað um 1°C.  Þetta er í fyrsta skipti sem hægt er að tengja óyggjandi saman hlýnun sjávar og losnun metans, en norðurskautið hefur verið að hlýna óvenju hratt undanfarna áratugi (sjá grein frá því í mars - Hafís á norðurslóðum - Hver er staðan?).

 27011501
Eins og sést á neðri myndinni sem sýnir frávik frá meðalhita fyrir árið 2008, þá hlýnar norðurheimsskautið óvenju hratt. Efri myndin sýnir aukningu metans í lofthjúpnum (mynd af www.NewScientist.com).

Það merkilegasta við þessa rannsókn er að metangas er að losna af meira dýpi en áður hefur verið staðfest við norðurheimsskautið. Mikill hluti metangassins nær enn sem komið er ekki yfirborði og leysist upp í sjónum, en talið er að stærstu strókarnir nái upp á yfirborðið þegar þeir eru hvað virkastir.

Þótt mikill meirihluti strókanna nái ekki yfirborði sjávar þá er talið að þeir hjálpi til við að ýta undir annað vandamál, sem er súrnun sjávar (sjá nýlega færslu Súrnun sjávar - heimildarmyndir.).

Graham Westbrook einn höfunda segir ennfremur:

"If this process becomes widespread along Arctic continental margins, tens of megatonnes of methane a year - equivalent to 5-10% of the total amount released globally by natural sources, could be released into the ocean."

Lauslega þýtt: "Ef þetta ferli breiðist út á landgrunni Norðurheimskautsins, tugir megatonna af metani á ári - jafngildi 5-10% af hnattrænni náttúrulegri heildarlosun, mun losna út í sjóinn."

Þessu tengt þá sýnir ný rannsókn að sjórinn undan ströndum Alaska er að sýna aukið sýrustig (sjá frétt).


Jöklar hitabeltisins

Ég rakst á áhugavert myndband sem fjallar um rannsóknir vísindamanna á jöklum hitabeltisins og þá sérstaklega í Perú.  Aðal áhugi vísindamannanna er að skrásetja jöklasöguna og taka ískjarna sem meðal annars má nota til ýmiss konar túlkana, t.d. á loftslagi. Í Perú er t.d. stærsti jökull innan hitabeltisins, en hann heitir Quelccaya.

Barnett_Glacier_web
Breytingar á Qori Kalis skriðjöklinum sem skríður frá Quelccaya íshettunni í Perú. Efri myndin tekin árið 1978 og hin árið 2002. Jökullinn hopaði um 1100 metra á þeim tíma.

Árið 2002 rákust þeir á gróðurleifar við jökullónið framan við jökulinn á stað sem var nýkominn undan jökli. Gróðurleifarnar voru aldursgreindar og voru um 5200 ára gamlar. Sem sagt síðast þegar jökullinn var jafn lítill og hann er nú var fyrir 5200 árum.

Ég kann ekki að setja þetta myndband inn hér, en það má finna með því að smella Hér.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband