24.3.2009 | 00:04
Skriðuföll - áhrif hlýnunar.
Hér eru stuttar pælingar um skriðuföll og hvaða afleiðingar loftslagsbreytingar þær sem spáðar eru, geta haft á skriðuföll.
Hér er fyrst texti eftir Halldór G. Pétursson, fyrrum vinnufélaga minn og sérfræðing í skriðuföllum hjá Náttúrufræðistofnun Íslands:
Sem dæmi um mismunandi gerðir skriðufalla hérlendis má nefna grjóthrun, aurskriður úr giljum og urð utan á fjallahlíðum, ýmiss konar jarðföll eða jarðvegsskriður, aurblandin krapahlaup, berghlaup og jarðsig af ýmsum gerðum. Sem dæmi um helstu orsakir skriðufalla má nefna miklar rigningar og skyndileg úrhelli, asahláku og miklar leysingar, aukið grunnvatnsrennsli, undangröft jarðlaga og jarðskjálfta (www.ni.is).
Svo ég taki sem dæmi um mögulegar afleiðingar hlýnunar á grjóthrun, aurskriður og svo uppáhaldið mitt berghlaup.
En fyrst, hvað segja sérfræðingarnir um hvernig veðurfarið verður hér á Íslandi (útdráttur úr stærri skýrslu pdf skrá um 10 Mb)?:
Veðurfar
Niðurstöður margra loftslagslíkana benda til þess að fram undir miðja öld muni hlýna um rúmlega 0,2 gráður á áratug á Íslandi. Fyrir síðari hluta aldarinnar er hlýnunin mjög háð forsendum um losun gróðurhúsalofttegunda og liggur á bilinu 1,4 til 2,4°C. Líklegast er að það hlýni mest að vetralagi en minnst á sumrin. Þótt veðurfarslíkön geri ráð fyrir aukinni úrkomu ber þeim ekki saman um hversu mikil aukningin verður. Úrkomudögum mun líklega fjölga og ákefð úrkomu aukast.
Jöklar
Allir jöklar landsins sem ekki eru beinlínis framhlaupsjöklar hafa hopað hratt á liðnum árum. Vorleysingar í ám byrja heldur fyrr og vegna aukins vatnsrennslis fæst meiri orka úr íslenskum vatnsaflsvirkjunum en ráð var fyrir gert.Þess má vænta að jöklar hopi ört alla 21. öld og líklega rýrnar Langjökull örast stóru jöklanna. Haldi svo fram sem horfir verður hann með öllu horfinn um miðja næstu öld en Vatnajökull og Hofsjökull hörfa upp á hæstu tinda. Afrennsli frá jöklunum mun aukast mjög á fyrri hluta þessarar aldar en síðan minnka vegna stöðugrar rýrnunar þeirra.
Áhrif á grjóthrun:
Mynd tekin af grjóti á veginum um Þvottárskriður (fengin að láni af www2.hornafjordur.is)
Grjóthrun verður helst í þverhníptum klettabeltum við það að grjót losnar og hrynur niður fyrir áhrif þyngdaraflsins. Helstu orsakir þess að grjót losnar er að vatn kemst í sprungur bergs, það frýs og þiðnar á víxl. Það er því oftast á veturna í hláku og á vorin sem grjóthrun eru hvað tíðust, en þó alls ekki algilt (jarðskjálftar eru t.d. áhrifamikil ástæða grjóthruna, sérstaklega á Suðurlandi).
Við hlýnun: Tökum sem dæmi grjóthrun á Íslandi. Þá er líklegt að hlýnun hafi nokkur áhrif hvað varðar tímabil þar sem skiptast á frost og þíða enda er talið líklegt að það hlýni á veturna (þ.e. meiri umhleypingar gæti maður gert ráð fyrir). Ef það verða meiri umhleypingar í veðri, þá gæti tíðni grjóthruna aukist. - en óvissan er mikil.
Áhrif á aurskriður:
Aurskriða við Stakkahlíð (Borgarfirði Eystri, mynd fengin að láni af www.alfasteinn.is)
Aurskriður verða helst í hlíðum fjalla þar sem laust efni liggur annað hvort utan á hlíðinni eða í giljum hlíða. Mikil úrkoma og mikil leysing er aðalorsökin fyrir aurskriðum, en breytingar á grunnvatnsstreymi getur einnig haft áhrif.
Við hlýnun: Ef rétt er að hér muni rigningadögum fjölga og ákefð þeirra aukast, auk þess sem það muni hlýna yfir vetrartíman, þá er nokkuð ljóst að hætta á aurskriðum mun aukast. Þetta er sagt með þeim fyrirvara að talið er að hætta á aurskriðum tengist einnig hlutfalli dagsúrkomunnar miðað við meðalársúrkomu (þ.e. á votviðrasömum stöðum, þá þarf meira að rigna í einu til að aurskriða fari af stað, svona einfalt horft á það).
Áhrif á berghlaup:
Berghlaup í Svarfaðardal (mynd úr einkasafni - tekin við vinnu hjá Náttúrufræðistofnun Íslands 2005).
Fyrst smá plögg, lesið grein mína á vísindavefnum um Vatnsdalshóla, sem eru taldir vera berghlaup (reyndar myndi ég kalla þá bergflóð e. rock avalanche).
Hér er texti úr greininni Myndaði Berhlaup Vatnsdalshóla:
HVAÐ ER BERGHLAUP?
Á íslensku nefnist það berghlaup þegar heilar fjallshlíðar hafa hlaupið eða skriðið fram í einu vetfangi og myndað hauga úr bergmulningi á láglendinu neðan við.5,6 Samkvæmt erlendum skilgreiningum á berghlaupi (e. rock slide) þá er það hreyfing bergmassa sem rennur á undirlagi eða skerfleti, sem er sem næst samsíða halla fjallshlíðar. Misgengi, sprungur og lagskipting, auk veikbyggðra millilaga, auka því líkur á berghlaupum. Í hlíðinni myndast brotsár þar sem bergmassinn var áður og er það oft áberandi en fer þó eftir stærð berghlaupsins og því hvort síðari atburðir hafa afmáð þau ummerki eða ekki. Hraði við myndun berghlaupa er á bilinu nokkrir millimetrar á dag og upp í tugi metra á sekúndu. Stundum gerist það að berghlaup breytist í bergflóð (e. rock avalanche), líklega sökum mikillar fallhæðar og mikils rúmmáls þess bergmassa er fer af stað í einu. Í hlaupinu molnar bergmassinn og nær umtalsverðum hraða, eða allt að 175 km/klst. (um 50 m/sek.), og getur flust svo kílómetrum skiptir út frá hrunstað (Höskuldur Búi Jónsson, Hreggviður Norðdahl og Halldór G. Pétursson - Náttúrufræðingurinn 72, 2004).
Flest berghlaup á Íslandi eru talin hafa fallið á nútíma, skömmu eftir lok ísaldar. Einfaldasta skýringin á orsökum þeirra er að á meðan skriðjöklar fylltu dali hafi þeir sorfið hlíðar þeirra en jafnframt haldið að þeim og komið í veg fyrir að stöðugt brattari hlíðar þeirra hryndu niður. Þegar jöklarnir hurfu úr dölunum hvarf stuðningur þeirra við óstöðugar hlíðarnar, sem við það hrundu ofan í og jafnvel um þvera dalina (Höskuldur Búi Jónsson, Hreggviður Norðdahl og Halldór G. Pétursson - Náttúrufræðingurinn 72, 2004).
Við hlýnun: Eins og segir hér ofar á síðunni þá er talið að jöklar á Íslandi muni hopa töluvert á næstu áratugum og öld. Þar sem ein af grundvallarástæðum berghlaupa er undangröftur jökla sem síðan hverfa, þá er ljóst að berghlaup munu aukast töluvert á núverandi jöklasvæðum Íslands. Því er ljóst að menn ættu að vara sig á þeim slóðum í framtíðinni, þetta eru þó sjaldgæfir atburðir þótt þeim eigi eftir að fjölga. Óbein áhrif eru síðan þau að berghlaup sem annað hvort falla í jökullón eða stífla vatnsrennsli geta valdið gríðarlegum flóðum sem hlaupið geta fram á láglendi. Dæmi um flóð myndað af einhverskonar berghlaupi/berhruni (eða stóru grjóthruni) er t.d. Steinholtshlaupið 1967.
Berghlaupið í Morsárjökli vorið 2007, er dæmi um berghlaup sem er líkt því sem við getum búist við á næstu áratugum. Þorsteinn Sæmundsson og fleiri hafa rannsakað það ítarlega.
Berghlaupið í Morsárdal í baksýn (mynd Þorsteinn Sæmundsson, heimild www.nattsud.is)
Flokkur: Afleiðingar | Breytt s.d. kl. 00:08 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.