Kviksyndið.

quicksand_0208_445x260 

Á þessum tíu dögum síðan ég byrjaði þetta blogg hef ég notað þann litla tíma sem ég hef til að þvælast inn á ótal síður með og á móti kenningum um hlýnun jarðar og þvílíkt kviksyndi sem þetta viðfangsefni er. Öfgarnir eru miklir og hvort sem maður skoðar þá sem eru á móti kenningunni (um hlýnun jarðar af mannavöldum) og þá sem eru fylgjandi henni, þá er sífellt verið að vitna í rannsóknir sem eru annað hvort illa ígrundaðar eða algjört rugl. Svo er það blásið upp fram og til baka. En inn á milli reynast gullmolar sem verðugt er að skoða. 

Þegar ég byrjaði þetta blogg þá var hugmyndin að tæpa á helstu kenningum með og á móti kenningunni um hlýnun jarðar af mannavöldum og færa fréttir í leiðinni utan úr heimi um það helsta sem væri nýtt í þessum málum. Í leiðinni að velta upp hugmyndum um það hvaða áhrif þetta hefur á okkur hér á Íslandi og fleira og fleira. Þetta hefur þróast í allar áttir og ég hef ekki hugmynd um framhaldið.

Þeir sem tekið hafa eftir á hvaða tímum sólarhrings ég er að blogga, sjá að ég stunda þetta helst eftir klukkan níu á kvöldin og um helgar, en það eru einu lausu stundirnar sem ég hef því ég er í fastri vinnu, auk þess sem ég þarf að aðstoða við að næra börnin og koma þeim til svefns. Auk þess er nauðsyn að fylgjast með pólitískri umræðu hérlendis og um efnahagsmálin, svona eins og maður hefur orku í. Svo þarf maður víst að sofa í sirka 6 tíma á sólarhring. Nú er það skattaskýrslan sem mun taka alla mína aukaorku og því verður líklega lítið skrifað hér á næstunni.

Nefni þó sitthvað sem gæti verið gaman að kynna fyrir ykkur, þegar tími gefst:

  • Sjávarstöðubreytingar og þá deilur um sjávarstöðubreytingar á Indlandshafi og ræða það í samhengi við hvað við megum búast hér, en við bráðnun jökla hér þá minnkar fargið á landið og því rís landið miðað við ímyndað fast sjávarborð, hvort það vegi upp á móti hækkun sjávarstöðu vegna hlýnunar jarðar, mun ég vonandi komast að.
  • Annað sem gaman væri að skrifa um er t.d. skriðuhætta vegna loftslagsbreytinga og þá er sérstaklega áhugavert að skoða hvort eitthvað hefur verið skrifað um hættu á berghlaupum þar sem jöklar eru að hopa (t.d. á Íslandi, Ölpunum og Himalajafjöllum).
  • Í síðustu færslu datt mér í hug að skoða áhrif loftslagsbreytinga á farflug fugla.
  • Svo datt mér í hug við eldgosið í Tonga að skoða hvort það sé nægilega öflugt til að hafa áhrif á veðurfar tímabundið til kólnunar.

En allavega þá er ekki líklegt að það verði skrifaðar langar færslur fyrr en ég er búinn með skattaskýrsluna.

Ég held þó ótrauður áfram að vaða kviksyndið að henni lokinni og held áfram að sökkva í þetta upplýsingakviksyndi sem internetið er. Því meira sem ég les því fleiri umfjöllunarefni langar mig að fjalla um og því meira fattar maður hvað maður veit lítið.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband