Fréttir vikunnar - afleiðingar hlýnunar jarðar.

Hérna eru nýlegar fréttir um mögulegar afleiðingar hlýnunar jarðar.

Fyrst er hér fréttatilkynning frá NOAA (National Oceanic and Atmospheric Administration) um nýlega rannsókn á hafíslíkönum sem bendir til þess að Norðurskautið geti orðið íslaust yfir sumartíman eftir 30 ár.

Sjá fréttatilkynninguna: Ice-Free Arctic Summers Likely Sooner Than Expected

 seaice

Meðal ísþykkt í metrum fyrir mars (vinstri) og september (hægri) samkvæmt sex líkönum (Mynd háskólinn í Washington/NOAA). 

Það er spurning hvað verður, einnig er áhugavert að fylgjast með fréttatilkynningu frá NSIDC um vetrarhámark hafíss sem var í síðasta mánuði en tilkynnt verður um það þann 6. apríl næstkomandi.

Þá voru að koma út skýrslur (hægt að ná í pdf skrár á þessari síðu) frá loftslagsnefnd á vegum Evrópusambandsins þar sem meðal annars er spáð að úrkomubreytingar í sunnanverðri Evrópu og þá sérstaklega á Spáni og Portúgal geti minnkað það mikið að það muni hafa geigvænleg áhrif á íbúa þar.

precipitation
Möguleg breyting í úrkomu fyrir Evrópu í kringum lok þessarar aldar í prósentum. Miklir þurrkar yfirvofandi á Íberíuskaga. Ég hegg eftir því að einhver jákvæð breyting gæti orðið í úrkomu á Norðausturlandi (mynd af http://ec.europa.eu/environment)

Svo var að birtast enn ein rannsóknin á afkomu kóralrifja við breytingu á hitastigi og pH gildi úthafana. En ég hef áður minnst á hina súrnun sjávar, einnig hér.

 

------

Við skulum enda á íslenskri forsíðufrétt, í morgunblaðinu, sem ég man reyndar ekki nákvæmlega hvernig var og ég hef ekki aðgang að hérna heima. Það var í raun forsíðumynd af Gróttu og rætt lítillega um landsig sem er að gera það að verkum að Grótta hefur smám saman orðið að eyju.

grotta2
Gróttuviti (mynd af heimasíðu Seltjarnarneskaupstaðar www.seltjarnarnes.is)

Ég vil bara bæta við þessa frétt að miðað við GPS mælingar þá er land í Reykjavík og nágrenni að síga um 2,1 mm á ári. Sjávarborðshækkun undanfarinn áratug hefur verið um 5,5 mm á ári og því hefur hækkun sjávar af völdum hlýnunar verið um 3,4 mm á ári.  Þ.e. Sjávarborðshækkun við Reykjavík (5,5 mm) = landsig (2,1 mm) + hækkun sjávar (3,4 mm). Tölur fengnar úr skýrsla um áhrif hnattrænna loftslagsbreytinga á Íslandi (pdf 10 mb)

En mig langar að fjalla um sjávarstöðubreytingar síðar og þá sérstaklega hvaða áhrif þær munu hafa hér á landi, en það flækir málið lítillega að hér eru jöklar sem munu bráðna - farg á landið minnkar og land rís, sérstaklega í nágrenni Vatnajökuls (nú er landris þar um 15 mm á ári). Það eru svokallaðar ísóstatískar hreyfingar. Líklegt er að á Suðausturlandi verði landris það mikið að hækkun sjávar af völdum hlýnunar muni ekki hafa mikil áhrif á þeim slóðum, nema hlýnunin og hækkun sjávar verði þeim mun meiri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband