Hlýnun.

Ég hef sagt nokkrum sinnum hér á þessu bloggi að hitastigsþróun undanfarinna nokkurra ára segi ósköp lítið um undirliggjandi hlýnun sem er í gangi vegna hlýnunar jarðar af mannavöldum (sjá Er að kólna? og Annar kaldasti apríl á þessari öld!).

Undanfarin nokkur ár hefur hiti jarðar nefnilega staðið í stað að mestu, sumir segja að loftslag sé jafnvel að kólna, sem er fjarri lagi (sjá þessar erlendu bloggfærslur: What cooling trend? og Global Warming? why is it so freaking cold?).

Ástæðan fyrir því að hitinn hefur nánast staðið í stað er sú, að þrátt fyrir hina sterku undirliggjandi hlýnun sem á sér stað, þá hafa náttúrulegar sveiflur í sólinni (sjá Er það virkilega ekki sólin?) og ENSO (sjá El Nino/La Nina - tímabundnar sveiflur í hitastigi.) verið í þannig fasa að þau hafa náð að draga úr hlýnuninni það mikið að hlýnunin hefur að einhverju leiti týnst, sérstaklega fyrir þá sem gleyma því að það er búið að hlýna töluvert undanfarna nokkra áratugi.

Það hefur þó valdið mér nokkrum áhyggjum að þrátt fyrir kuldafasa náttúrulegra sveiflna, þá hefur hitinn staðið í stað í hæstu hæðum (en ekki hefur kólnað jafn mikið og kuldafasarnir myndu valda venjulega), en heitustu ár frá því mælingar hófust hafa verið langflest undanfarin nokkur ár (sjá grein Sveins Atla: Heitustu ár í heiminum frá 1880).

06_13_08_globalairtemp
Hitastig jarðar frá því mælingar hófust.

Því kemur það mér ekki á óvart að vísindamenn eru nú að spá aukningu í hlýnun jarðar næstu fimm árin (sjá fréttatilkynningu Hér, sjá síðan neðst í þessari færslu fyrirvara vegna fréttatilkynningarinnar*). Í fréttatilkynningunni er meðal annars sagt:

The analysis shows the relative stability in global temperatures in the last seven years is explained primarily by the decline in incoming sunlight associated with the downward phase of the 11-year solar cycle, together with a lack of strong El Niño events. These trends have masked the warming caused by CO2 and other greenhouse gases.

Lauslega þýtt: "Greiningin sýnir að hið tiltölulega stöðuga hitastig síðustu sjö ára, geti verið útskýrt að mestu með niðursveiflu í útgeislun sólar í hinni 11 ára sólblettasveiflu, ásamt skorti á sterkum El Nino. Þessi ferli hafa hulið hlýnunina sem er af völdum CO2 og annarra gróðurhúsalofttegunda".

Vísindamenn spá því nú að hlýnunin muni aukast töluvert næstu árin og að jafnvel verði slegið metið frá 1998. Það getur vel verið að við séum byrjuð að sjá þessa aukningu í hitastigi nú þegar (sjá færslu Emils: Meðalhiti jarðar í hæstu hæðum), enda virðist El Nino vera byrjaður:

surfacetemp_lastweek_300
Sjávarhiti í kyrrahafinu 1. júlí 2009 við miðbaug, er að minnsta kosti einni gráðu hærri en að meðaltali - sem er vísbending um El Nino (appelsínugula svæðið við miðbaug noaanews.noaa.gov).

Undirliggjandi hlýnun jarðar af mannavöldum hefur því haldið áfram að aukast samkvæmt þessari grein og munu náttúrulegar sveiflur næstu ára magna hitastigstölurnar upp í hæstu hæðir (með þeim fyrirvara að ekki komi eldgos sem dragi úr vægi hlýnunarinnar á móti) á svipaðan hátt og náttúrulegar sveiflur undanfarinna ára hafa lækkað hitastigstölur.

--- --- --- ---

Þessu tengt þá verð ég að minnast á undarlega rannsókn sem komst í gegnum ritrýningakerfi hins þekkta tímarits Journal of Geophysical Research, en greinin heitir Influence of the Southern Oscillation on tropospheric temperature. Þeir sem efast um hlýnun jarðar af mannavöldum hafa fjallað um þessa grein (sjá t.d. bloggfærslu eftir Ágúst og Watts).

Það hefur komið í ljós að þetta er gölluð grein. Aðferðafræðin er vafasöm og niðurstöðukaflinn líka. Ef ég skil þetta rétt, þá er aðferðafræði þeirra þannig að með tölfræðilegum aðferðum þá eyða þeir út trendinu sem er í hlýnun jarðar. Þeir semsagt eyða út sveiflur úr gögnunum, nema sveiflur sem eru með tíðnina 1,5-7 ár, sem þeir magna upp (sveiflur í ENSO magnast þannig upp) og álykta sem svo að það sé ekkert sem bendi til þess að það sé trend til staðar annað en það sem ENSO gefur og þar með sé engin hlýnun í gangi vegna útblásturs manna.

Það sem verra er, er að yfirlýsingarnar voru jafnvel mun sterkari í fréttatilkynningum um þessa "frábæru" grein og hvernig hún "afsannaði" hlýnun jarðar af mannavöldum. Fréttatilkynningarnar voru alls ekki í samræmi við umfjöllunarefnið. 

Sjá ágætar umfjallanir um þetta í erlendum bloggum: How not to analyze climate data, Mother nature’s sons, Old News og Is our whole dissembly appeared?

Eitt af því sem ég lærði af því að fylgjast með þessu fíaskó í kringum þessa grein, er að framvegis ætla ég að skoða fréttir og fréttatilkynningar sem fylgja nýjum greinum með varúð (ég mun þó birta það sem mér þykir áhugavert - en hafa fyrirvara á).

Einnig hefur þetta afhjúpað mögulegan galla í ritrýningakerfinu (það er nánast skandall að hleypa þessari grein í gegn, fer ekki ofan af því), en sem betur fer er þetta undantekning frekar en regla - það er ekki oft sem slíkar greinar sleppa í gegnum það kerfi - en það getur gerst.

Það er vitað mál að það er búið að fara mikið í pirrurnar á efasemdamönnum um hlýnun jarðar að þeir hafa ekki fengið birtar greinar eftir sig í ritrýnd tímarit, einfaldlega af því að vísindin eru ekki þeirra sterkasta hlið. Þeir hafa því reynt mikið að gera lítið úr því kerfi. Með einhverjum lúalegum vinnubrögðum tókst þeim að koma þessari grein í gegnum ritrýningakerfið, en um leið afhjúpa þeir skort sinn á vísindalegri rökhugsun. Ég verð ekki hissa þótt að ritstjóri þessa tímarits muni segja af sér - lágmarkið væri að sjálfsögðu að hann komi með opinbera afsökunarbeiðni. Yfirlýsingar um að ekki sé hægt að treysta þessum tímaritum eru þó ekki tímabærar (þetta er undantekning frekar en regla).

* Fyrirvari: Það er ekki hægt að treysta fréttatilkynningum um málið fyrr en búið er að lesa greinarnar og því skuluð þið taka umfjöllunum um fréttatilkynningar sem ég er að fjalla um með fyrirvara.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Takk fyrir tenginguna

Ég las aðra grein í dag, þar segir m.a. eftirfarandi:

"...that 50 per cent of the 10 years after 2011 will be warmer than 1998. After that any year cooler than 1998 will be considered unusual."

Þetta verður að sjálfsögðu að taka með ákveðnum fyrirvara, en þetta rímar þó við fréttinatilkynninguna á Guardian sem þú vitnar til.

Sveinn Atli Gunnarsson, 28.7.2009 kl. 20:22

2 Smámynd: Loftslag.is

Jámm, mér sýnist þetta vera tilkynning um sömu greinina.

Loftslag.is, 28.7.2009 kl. 20:42

3 Smámynd: Loftslag.is

Ég rakst á bloggfærslu þar sem loftslagsbloggari fjallar um bloggfærslu hjá öðrum loftslagsbloggara. Sá bloggari er búinn að reikna út líkurnar á því hvenær næsta hitamet verður slegið, miðað við þá undirliggjandi hlýnun sem er í gangi. Árið 2008 var líklegasta árið til að slá metið samkvæmt tölfræðinni (það gerðist ekki og ólíklegt að það gerist í ár), en það er ekki fyrr en árið 2012 sem óhætt er að fara að undrast yfir því að ekki sé búið að slá metið. Þannig skil ég þetta allavega.

Loftslag.is, 28.7.2009 kl. 20:59

4 Smámynd: Loftslag.is

Það þarf að sjálfsögðu að taka það fram að ef niðursveiflan í sólinni heldur áfram (sem mér hefur sýnst), þá mun dragast eitthvað að fá nýtt met í hitastigi, en það mun koma því það er bullandi hlýnun í gangi undirniðri (af völdum útblásturs gróðurhúsalofttegunda).

Loftslag.is, 29.7.2009 kl. 08:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband