Metanstrókar - hlýnun og súrnun sjávar

Ég hef áður lýst hér áhyggjum vísindamanna af því hvað gæti gerst ef metan færi að losna í miklu magni úr frosnum sjávarsetlögum á landgrunninu norður af Síberíu (sjá færsluna Sofandi risi?), en metangas er gríðarlega öflug gróðurhúsalofttegund (um 25 sinnum öflugri en koldíoxíð).

Nú hafa breskir og þýskir vísindamenn kortlagt metanstróka (mín þýðing, mætti einnig vera metanleki e. methan seeps) sem koma upp úr sjávarbotninum við Svalbarða (sjá grein).

Methanstrókar
Sjóarar kannast við myndir sem þessar (þetta eru þó ekki fiskitorfur), en með nákvæmum sónartækjum hafa menn fundið metanstróka koma úr landgrunninu við Svalbarða við bráðnun úr áður frosnum sjávarsetlögum (mynd úr grein vísindamannanna, smella á myndinni tvisvar til að stækka).

Þetta er talin vísbending um að spár varðandi magnandi svörun (e. positive feedback) séu að rætast hvað varðar metangas (við hlýnun losni metangas, sem veldur svo aftur meiri hlýnun og svo koll af kolli).  

Við hækkun sjávarhita þá bráðna frosnir metanmettaðir vatnskristallar úr setlögunum og metanið losnar (t.d. var sjávarhiti í júlí sá hæsti frá upphafi mælinga sjá frétt NOAA).

Vísindamennirnir fundu meira en 250 metanstróka á svæði sem þeir kortlögðu við Svalbarða. Þeir notuðu samskonar sónara (dýptarmæla) og notaðir eru um borð í fiskiskipum til að finna fiskitorfur (sjálfsagt eitthvað nákvæmari græjur þó). Tekin voru sýni til að staðfesta að um metan var að ræða. Þessir metanstrókar komu úr setlögum sem voru á 150-400 m dýpi.

Metanvatnskristallarnir (e. methane hydrate) eru stöðugir við mikinn þrýsting og lítið hitastig og eru þeir nú stöðugir á meira dýpi en 400 m við Svalbarða. Fyrir 30 árum voru þeir stöðugir á 360 m dýpi svo ljóst er að óstöðugleikinn nær dýpra nú - á sama tíma hefur hitastig sjávar á þessum slóðum hækkað um 1°C.  Þetta er í fyrsta skipti sem hægt er að tengja óyggjandi saman hlýnun sjávar og losnun metans, en norðurskautið hefur verið að hlýna óvenju hratt undanfarna áratugi (sjá grein frá því í mars - Hafís á norðurslóðum - Hver er staðan?).

 27011501
Eins og sést á neðri myndinni sem sýnir frávik frá meðalhita fyrir árið 2008, þá hlýnar norðurheimsskautið óvenju hratt. Efri myndin sýnir aukningu metans í lofthjúpnum (mynd af www.NewScientist.com).

Það merkilegasta við þessa rannsókn er að metangas er að losna af meira dýpi en áður hefur verið staðfest við norðurheimsskautið. Mikill hluti metangassins nær enn sem komið er ekki yfirborði og leysist upp í sjónum, en talið er að stærstu strókarnir nái upp á yfirborðið þegar þeir eru hvað virkastir.

Þótt mikill meirihluti strókanna nái ekki yfirborði sjávar þá er talið að þeir hjálpi til við að ýta undir annað vandamál, sem er súrnun sjávar (sjá nýlega færslu Súrnun sjávar - heimildarmyndir.).

Graham Westbrook einn höfunda segir ennfremur:

"If this process becomes widespread along Arctic continental margins, tens of megatonnes of methane a year - equivalent to 5-10% of the total amount released globally by natural sources, could be released into the ocean."

Lauslega þýtt: "Ef þetta ferli breiðist út á landgrunni Norðurheimskautsins, tugir megatonna af metani á ári - jafngildi 5-10% af hnattrænni náttúrulegri heildarlosun, mun losna út í sjóinn."

Þessu tengt þá sýnir ný rannsókn að sjórinn undan ströndum Alaska er að sýna aukið sýrustig (sjá frétt).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Þessi magnandi svörun er umhugsunarverð, eitt leiðir af öðru...

Sveinn Atli Gunnarsson, 18.8.2009 kl. 22:46

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Alltaf hressandi að fá smá dómsdagstíðindi svona í lok dags. Heldur manni við efnið.

Emil Hannes Valgeirsson, 19.8.2009 kl. 00:52

3 Smámynd: Loftslag.is

Ég veit ekki hvort það kemur almennilega fram í þessari færslu, en talið er að þetta hafi átt sér stað frá lokum ísaldar á minna dýpi (stöðugleikinn fer eftir hita og þrýstingi). Nú virðist þetta þó vera að aukast töluvert samkvæmt þessari grein - vegna hækkunar hitastigs.

Loftslag.is, 19.8.2009 kl. 08:22

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Er ekki einhvernveginn hægt að fanga allt þetta metan sem streymir þarna upp án þess að þurfi einu sinni að bora eftir því, og nota það svo sem eldsneyti?

Guðmundur Ásgeirsson, 21.8.2009 kl. 03:18

5 Smámynd: Loftslag.is

Mig minnir að ég hafi heyrt þessa hugmynd áður og að einhver hafi svarað því til að þetta sé hvergi mikið magn á litlu svæði, heldur frekar mikið magn á stóru svæði og tæknin til þess sé allavega ekki komin fram (það þyrfti þá að vera einhverskonar færanlegar græjur en ekki hefðbundnir borpallar).

Loftslag.is, 21.8.2009 kl. 09:40

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Í mörgum eldhúsum er "háfur" sem fangar gufuppstreymi frá kraumandi pottum. Mér dettur í hug eitthvað svipað fyrirbæri bara miklu stærra, en auðvitað þyrfti það að vera færanlegt og þá dettur mér í hug önnur auðlind sem líka krefst færanlegra tækja til að fanga auðinn: þ.e. fiskveiðar. Spurning hvort þetta væri ekki úrlausnarefni fyrir færustu menn á sviði veiðarfæratækni, sem sagt hvernig förum við að því að "veiða" uppstreymisgas úr hafinu?

Guðmundur Ásgeirsson, 21.8.2009 kl. 12:54

7 Smámynd: Loftslag.is

Góð hugmynd. 

Spurning hvort hægt væri að leggja gildrur (væntanlega er hugmynd þín um háfa best) yfir möttulstrókana, með tilheyrandi leiðslur upp í safntanka sem myndu fljóta á yfirborðinu. Síðan myndu skip sigla á milli tankana (skip sem notuðu metangas sem eldsneyti að sjálfsögðu) og tappa af tönkunum og sigla með það í land - með reglulegu millibili.

Hvað segirðu Guðmundur - eigum við að græða á þessu

Góða helgi.

Loftslag.is, 21.8.2009 kl. 13:16

8 Smámynd: Loftslag.is

Ég átti að sjálfsögðu við metanstróka en ekki möttulstróka eins og í síðustu athugasemd - það er eflaust erfiðara að virkja möttulstrókana ;)

Loftslag.is, 24.8.2009 kl. 08:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband