13.11.2009 | 09:21
Bráðnun jökla og sjávarstöðubreytingar
Aukningin á massamissi Grænlandsjökul virðist vera óvenju mikil, en þrátt fyrir það þá skulum við varla búast við mörgum metrum í hækkun sjávarstöðu á þessari öld.
Þeir kræfustu hafa spáð allt að tveggja metra hækkun sjávarstöðu á þessari öld - á meðan IPCC hefur spáð allt að 0,6 m hærri sjávarstöðu (miðað við stöðuna 1990 - en það er almennt séð viðmiðunarárið). Þar fyrir utan, þá er talað um að hækkun um innan við hálfan metra muni skapa mikið vandamál á lágt liggjandi svæðum eins og Bangladesh (sjá loftmynd hér til hliðar).
Bráðnun jökla hefur töluverð áhrif á hækkun sjávarborðs og getur haft enn meiri áhrif þegar bráðnun stóru jökulskjaldanna á Grænlandi og Suðurskautinu fer almennilega af stað - en hingað til hefur hækkun sjávarstöðu fyrst og fremst verið vegna varmaþennslu (hlýnunar sjávar) eða um 70%. Afganginn má síðan rekja til jökla sem dreifðir eru víða um heim, t.d. í Ölpunum, Alaska, Suður Ameríku, Himalaya, Íslandi og fleiri stöðum - ásamt bráðnun á Grænlandi og Suðurskautinu. Í skýrslu Vísindanefndar um loftslagsbreytingar sem gefin var út í fyrra segir:
Líkleg hækkun sjávaryfirborðs til loka aldarinnar er háð því hversu mikið hlýnar, en varmaþennsla veldur um 70% af hækkuninni. Stór óvissuþáttur í sjávaryfirborðshækkun felst í hugsanlegum breytingum á ísflæði í stóru íshvelunum á Grænlandi og Suðurskautslandinu. Þessi óvissuþáttur er ekki tekinn inn í útreikninga IPCC, en gæti aukið við sjávaryfirborðshækkunina. Hér að neðan verður því miðað efri mörk hækkunarinnar sem kemur fram hjá IPCC. Þetta er ófullkomin aðferð við að vega saman óþekkta óvissu vegna hugsanlegrar aukningar ísflæðis og þekktrar óvissu vegna annarra þátta, og mikilvægt er að hafa í huga að ekki er hægt að útiloka mun meiri sjávaryfirborðshækkun (Úr skýrslunni Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi – gefin út af Umhverfisráðuneytinu árið 2008).
Eins og kemur fram hér þá hefur óvissan að mestu tengst því hvernig jöklar á Grænlandi og Suðurskautinu bregðast við hlýnuninni og því er talað um vanmat hjá IPCC því hvorki er reiknað með breytingum í ísflæði stóru jöklanna, né hversu hratt það getur gerst.
Sjá nánar um sjávarstöðubreytingar á loftslag.is: Sjávarstöðubreytingar
Greinina sjálfa sem vísað er í, í fréttinni á mbl.is, má finna hér: Partitioning Recent Greenland Mass Loss
Grænlandsjökull bráðnar hraðar en áður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:37 | Facebook
Athugasemdir
IPCC vanmetur líklega hækkun sjávar. Ísflæði stóru jöklana er þegar farið að breytast ískyggilega...
http://www.youtube.com/watch?v=TQqlzxD1BqY
Hörður Þórðarson, 13.11.2009 kl. 11:03
Það er staðreynd að sjávarborð var á níundu öld um tveim metrum hærra en í nútímanum. Þetta má sjá í athugunum og rannsóknum sem gerðar
hafa verið á vegum Víkingasafnsins í Hróarskeldu. Hvaðan kom allt þetta koldioxíð á víkingatímanum.???
Leifur Þorsteinsson, 13.11.2009 kl. 11:51
Leifur: Þarna er líklega um að ræða rugling á sjávarstöðubreytingum á heimsvísu annars vegar og hins vegar staðbundnum breytingum vegna landriss/landsigs.
Eins og þú sérð á meðfylgjandi mynd, þá er t.d. landris í Svíþjóð og Finnlandi - á meðan það er landsig í suðurhluta Danmerkur.
Ég fann ekki nýrri mynd, en þetta er sú klassíska og sýnir enn hvernig þetta er gróflega séð. Þetta er vegna svokallaðrar farglosunar eða ísóstatískra hreyfinga - en landið er enn að rísa þar sem jöklarnir voru þykkastir í lok síðasta jökulskeiðs. Aftur á móti myndast landsig utan við jaðar þykkasta jökulsins.
Samskonar ferli er í gangi hér á Íslandi - en land er að síga við Reykjavík og á Reykjanesskaga - á meðan Suðurland og Suðausturland er að rísa.
Höskuldur Búi Jónsson, 13.11.2009 kl. 12:15
Hörður: Jamm, en breytingin þarf að auka við sig enn meir til að við förum að fá nokkra metra á þessari öld. Ég held að menn geti þó ekki útilokað það lengur miðað við nýlegar rannsóknir á Grænlandsjökli og Suðurskautinu.
Höskuldur Búi Jónsson, 13.11.2009 kl. 12:18
Voruð þið búnir að frétta að loftslagsmál eru orðin að trúarbrögðum? Með æðstaprestinn Al Gore.
http://www.newsweek.com/id/220552
The Evolution Of An Eco-Prophet
Gore: "Simply laying out the facts won't work."
Gore: "I've done a Christian [-based] training program; I have a Muslim training program and a Jewish training program coming up, also a Hindu program coming up. I trained 200 Christian ministers and lay leaders here in Nashville in a version of the slide show that is filled with scriptural references. It's probably my favorite version, but I don't use it very often because it can come off as proselytizing."
Gullvagninn (IP-tala skráð) 13.11.2009 kl. 12:23
Gullvagninn: Vísindamenn tilbiðja ekki Al Gore - þetta er vísindablogg og loftslag.is er vísindasíða - svo við skulum halda Al Gore utan við efnið á þessum vettvangi
Sjá einnig á loftslag.is : Mýtan um trúarbrögð í loftslagsvísindum
Höskuldur Búi Jónsson, 13.11.2009 kl. 12:32
Ég má til með að benda á nýjan gestapistil á loftslag.is sem er nátengdur efni þessarar færslu. Tómas Jóhannesson jarðeðlisfræðingur á Veðurstofunni fjallar um Jöklabreytingar og hækkun sjávarborðs heimshafanna.
Höskuldur Búi Jónsson, 13.11.2009 kl. 23:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.