Áhugaverð frétt hjá mbl.is, þó sumar fullyrðingar í fréttinni stangist á við aðrar fullyrðingar hennar. Við leit að upprunalegu greininni fundum við á Loftslag.is ekki greinina sjálfa, þannig að við verðum að áætla að rétt sé sagt frá í grein Guardian sem mbl.is segir frá.
Árið 2007 var að mörgu leiti frekar óvenjulegt hvað varðar útbreiðslu hafíss, en á þeim tíma héldu menn að hafísinn væri jafnvel kominn að ákveðnum mörkum og bjuggust sumir við að hann gæti horfið innan áratugs yfir sumartímann. En þótt horfið sé framhjá þessari miklu bráðnun árið 2007, þá má ljóst vera að það styttist í hafíslaust Norðurskaut - hvort svo verði eftir áratug eða öld, er erfitt að spá um.
Ef ég skil þessa frétt rétt, þá hafa óhagstæðar vindáttir ýtt undir bráðnun á Norðurskautinu á þessum tíma og telja höfundar að allt að helmingur bráðnunarinnar þá hafi verið af völdum vinda (reyndar ber fréttinni í Guardian ekki saman hvað þetta varðar - því höfundurinn sjálfur segir þriðjungur).
Svo virðist sem að sífellt fleiri séu að átta sig á því að það sé margt sem spilar inn í varðandi bráðnun hafíssins á Norðurskautinu. Fyrir stuttu kom út grein í Geophysical Research Letter um að ísblokkir, eða ísstíflur (e. ice arch) hefðu náð að bráðna árið 2007 (Kwok o.fl. 2007) - svo auðveldara varð fyrir hafísinn að reka og bráðna.
Hafís Norðurskautsins og bráðnun hans er því flóknari en virðist vera við fyrstu sýn - en eitt er víst að undanfarna áratugi þá hefur hafís hnignað töluvert og greinilegt að það er ekki bara hlýnunin sem veldur - heldur samspil margra þátta. Hvort þessar breytingar í vindakerfum séu komnar til að vera eða hvort þetta hafi verið tímabundið, næ ég ekki að lesa út úr þessari frétt - en ljóst er að loftslagsbreytingar eiga enn eftir að hafa áhrif á þróunina á Norðurskautinu.
Af loftslag.is:
Útbreiðsla hafíssinn á Norðurskautinu hefur dregist saman á síðustu áratugum. Hafís Norðurskautsins er í lágmarki í september ár hvert og eins og sjá má á efri myndinni hérundir, þá hefur útbreiðsla hafíss síðan mælingar með gervihnöttum hófust minnkað úr u.þ.b. 8 miljónum ferkílómetra í um 5,5 miljón ferkílómetra árið 2009. Árið 2009 var 3. minnsta útbreiðsla hafíss síðan gervihnattamælingar hófust. Hafísinn á Norðurskautinu hefur verið að minnka um 11 % á áratug, miðað við meðaltal 1979-2000. Neðri myndin sýnir hvernig þróunin er núna, brotalínan er veturinn 2006-2007, sú bláa er veturinn núna og sú gráa þykka er meðaltal áranna 1979-2000. En auk útbreiðslu hafíssins þar einnig að skoða rúmmál, sem hefur farið minnkandi, þ.e. þykkt hafíssins, sem er þynnri en áður.
Septemberútbreiðsla hafíss á Norðurskautinu í milljónum ferkílómetra. Rauða línan sýnir beinar mælingar, en svarta línan spár loftslagslíkana IPCC ásamt óvissu. Eins og sést þá hefur bráðnun hafíss farið fram úr svörtustu spám IPCC. 2009 gildið var ekki teiknað inn, en það var hærra en 2008 gildið - eða um 5,1 milljón ferkílómetrar sem er töluvert neðan við spá IPCC.
Ítarefni
Við fundum ekki greinina sjálfa sem fjallað er um í fréttinni á mbl.is sem að bloggað er við, en frétt Guardian um málið virðist nokkuð góð: Wind contributing to Arctic sea ice loss, study finds
Athyglisverð grein um ísblokkir: Kwok o.fl. 2010 - Large sea ice outflow into the Nares Strait in 2007
Íssíða NSIDC: Arctic Sea Ice News & Analysis
Ýmislegt efni má finna á loftslag.is þar sem fjallað er um hafís á einn eða annan hátt: Hafís