Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

19. mars - Tímamót

Nú eru þau tímamót að hálft ár er liðið síðan Loftslag.is fór í loftið, sem var þann 19. september 2009. Að því tilefni ætlum við að taka saman yfirlit yfir það helsta frá þessu fyrsta hálfa ári, t.d. hvaða færslur og hvaða föstu síður hafa verið vinsælastar. Fyrst lítum við til bloggfærslna, frétta og gestapistla, þar sem við lítum á hvað hefur verið vinsælast hingað til.

RöðHeiti færsluTegund færslu
1.Að sannreyna staðhæfingarGestapistill
2.Jöklar Himalaya og álitshnekkir IPCCBlogg
3.Að stela bíl og nota fyrir sjónvarpBlogg
4.Er jörðin að hlýna?Blogg
5.Hakkarar afrita tölvupósta og skjölHeit málefni
6.Vegur niðursveifla í virkni sólar upp á móti hlýnun jarðar af mannavöldum?Frétt
7.19. september – Opnun Loftslag.is – 55.000 dagarFrétt
8.Hitahorfur fyrir árið 2010Blogg
9.Mikil bráðnun Grænlandsjökuls fyrir 6000-9000 árumFrétt
10.Meðalsjávarhiti í ágúst sá hæsti fyrir mánuðinn síðan mælingar hófustFrétt

Það er mjög passandi að það sé gestapistill eftir Halldór Björnsson sem er mest lesna færslan. Við viljum að sjálfsögðu þakka öllum hinum frábæru gestapistla höfundum fyrir góða gestapistla.

En það eru einnig ýmsar fastar síður hjá okkur, m.a. mýtusíðan, kenningarnar ásamt fleiru. Hér undir má sjá hvað var vinsælast af þeim.

RöðHeiti síðuTegund
1.MýturYfirlitssíða
2.Spurningar og svörYfirlitssíða
3.KenninginYfirlitssíða
4.AfleiðingarAfleiðingar
5.Orsakir fyrri loftslagsbreytingaKenningin
6.Um okkurYfirlitssíða
7.Lausnir og mótvægisaðgerðirLausnir
8.Hlýnunin nú er af völdum sólarinnarMýta
9.Grunnatriði kenningarinnarKenningin
10.Það er að kólna en ekki hlýnaMýta

Síðuflettingar hafa verið rúmlega 37.000 á þessu tímabili. Birtar fastar síður eru 66, en fjöldi færslna, þ.e. blogg, fréttir, gestapistlar, myndbönd og þess háttar eru orðnar 222.

Það má segja að á ýmsu hafi gengið í loftslagsumræðunni. Þar má m.a. nefna ýmsar nýjar rannsóknir sem við höfum tekið fyrir, climategate málið svokallaða og COP15 sem við fylgdumst nokkuð ítarlega með. Þar fyrir utan hafa fréttir og blogg fengið sinn sess á síðunni.

Við erum með síður á Facebook, Twitter og Blog.is og langar okkur að hvetja lesendur til að fylgjast með síðunni þar. Við erum jafnframt að skoða fleiri möguleika til að koma síðunni á framfæri.

Við höfum haft 2 skoðannakannanir og er önnur þeirra í gangi, sjá hliðarstikuna á Loftslag.is.

Við ætlum að sjálfsögðu að halda okkar striki í framtíðinni og fylgjast af krafti með þróun rannsókna og vísinda varðandi loftslagsmál og þeirri, oft á tíðum, heitu umræðu sem umlykur þessi mál nú um stundir. Við hlökkum til að takast á við verkefnið og viljum þakka lesendum okkar fyrir móttökurnar á þessu fyrsta hálfa ári.

Þessi færsla birtist einnig á Loftslag.is - 19. mars - Tímamót


Vísindin hýdd

Í nýju myndbandi sem er á Loftslag.is skoðar Greenman3610 hvar best er að nálgast áreiðanlegar heimildir um loftslagsvísindin og einnig fer hann yfir mál þar sem fram kom frétt, á Daily Mail, um að Phil Jones (loftslagsvísindamaður) hefði fullyrt að engin hlýnun hefði verið síðan 1995, sem reyndist ekki sannleikanum samkvæmt, en það kom þó ekki í veg fyrir að sumir fréttamiðlar og fjöldin allur af bloggsíðum endurómuðu það sem einhverja staðreynd og reyndu að hýða vísindin, ef svo má að orði komast. En hvernig nálgast maður upplýsingar um vísindin? Eftirfarandi er lýsing Greenman3610 á myndbandinu:

Þar sem ég er ekki vísindamaður, þá dregur hið mikla magn upplýsinga um hnattrænar loftslagsbreytingar, úr mér kjarkinn þegar kemur að því að skoða þær. Ég hef komist að því að lang áreiðanlegustu heimildirnar koma úr virtum ritrýndum tímaritum. En tímarit hafa mörg löng orð, mikið af smáu letri og lítið af myndum, sem auðveldar mér ekki lífið. Það er því auðvelt að sjá hvers vegna þeir sem afneita loftslagsvísindunum líkar ekki við þau. En það er þar sem staðreyndirnar eru.

Hvernig er hægt að bera kennsl á góð vísindatímarit?

Að venju eru myndbönd Greenman3610 nokkuð kaldhæðin, en þau innihalda oft nokkuð fróðlegan vinkil á málin, sjá önnur myndbönd frá honum á Loftslag.is hér. Til að sjá sjálft myndbandið smellið á krækjuna hér undir:

 


Opið bréf vísindamanna varðandi IPCC

Nokkrir vísindamenn í Bandaríkjunum hafa tekið sig saman og skrifað opið bréf um störf IPCC og villur þær sem fundist hafa í fjórðu matsskýrslu IPCC um loftslagsmál frá 2007.

Nú þegar hafa um 250 vísindamenn skrifað undir þetta bréf og enn er verið að safna undirskriftum. Til að sjá allan lista undirskrifenda, vinsamlega skoðið þessa síðu. Föstudaginn 12. mars var bréfið afhent stjórnvöldum. Stór hluti þeirra sem skrifa undir bréfið eru vísindamenn sem rannsaka loftslagsbreytingar og vinna við leiðandi stofnanir og háskóla í Bandaríkjunum. Þar er bæði að finna höfunda efnis í skýrlsur IPCC og þá sem ekki hafa tekið þátt í þeirri vinnu. Til viðbótar má nefna undirskrifendur sem stunda rannsóknir á tengdum efnum, má þar m.a. nefna á vísindamenn á sviði eðlis-, líf- og félagsfræða.

Á Loftslag.is er bréfið birt eins og það kemur frá höfundum, á ensku, sjá hér undir:

 


Villa í sjávarstöðuútreikningum IPCC

Þessi færsla birtist áður á loftslag.is 

Einn af höfundum kaflans um sjávarstöðubreytingar í IPCC skýrslunni, skrifaði áhugaverða færslu á realclimate.org fyrir skemmstu.  

Fyrst býr hann til ímyndaða villu í IPCC skýrslunni- sem, ef hún hefði verið gerð, hefði eflaust valdið uppþoti og fjölmiðlafári. Síðan segir hann frá raunverulegri og vísvitandi villu sem er í IPCC skýrslunni og veltir því fyrir sér af hverju sú villa hefur ekki orðið að fjölmiðlafári, líkt og hin hefði eflaust gert.

Ímyndaða villan

Í síðustu skýrslu IPCC frá 2007, þá spáði IPCC að hámarki 59 sm hækkun í sjávarstöðu í lok aldarinnar. Ímyndaða villan er þessi:

Í fyrsta lagi þá eru efri mörk hlýnunar í lok aldarinnar um 6,4°C, í IPCC skýrslunni, en í ímynduðu villunni er ákveðið að miða sjávarstöðubreytingar við að efri mörk hlýnunar verði 7,6°C. Í öðru lagi, þá ákveða höfundar IPCC að reikna út sjávarstöðubreytingar fram til ársins 2105, frekar en til ársins 2100 – þá til að auka við þá ógn sem stafar af sjávarstöðubreytingum. Það sem veldur síðan mestu skekkjunni er að IPCC veit að sjávarstöðubreytingar síðustu 40 ár hafa verið 50% meiri en útreikningar sýna samkvæmt loftslagslíkönum – samt eru þessi líkön notuð, óleiðrétt, til að segja til um framtíðina. Að lokum er reiknað með mikilli bráðnun stóru jökulbreiðanna – sem er þá í andstöðu við fyrri hegðun jökulbreiðanna.

Við ímyndum okkur að vísindamenn hafi varað við þessu og að það gæti haft alvarleg áhrif á trúverðugleika IPCC, en samt væri ákveðið að nota þessa útreikninga.

Samkvæmt þessu ímyndaða dæmi, þá bætast 31 sm við sjávarstöðuhækkunina, með því að nota hlýnun upp á 7,6°C og með því að reikna fram til ársins 2105 þá er sjávarstöðuhækkunin orðin sirka 150 sm. Þegar bætt er við skekkjan, þar sem líkönin meta sjávarstöðubreytingar 50% hærri en þau í raun og veru eru, þá erum við komin upp í sirka 3 m sjávarstöðuhækkun.

Að ímynda sér viðbrögðin sem þessi villa hefði valdið, er erfitt – en víst er að bloggarar og fjölmiðlar hefðu krafist afsagnar þeirra sem að IPCC stóðu og að öll IPCC skýrslan væri uppspuni frá A-Ö.

Raunverulega villan

Í síðustu skýrslu IPCC frá 2007, þá spáði IPCC að hámarki 59 sm hækkun í sjávarstöðu í lok aldarinnar. Raunverulega villan er þessi:

Í fyrsta lagi þá eru efri mörk hlýnunar í lok aldarinnar um 6,4°C, í IPCC skýrslunni, en í spánni var ákveðið að miða sjávarstöðubreytingar við það að efri mörk hlýnunar verði eingöngu 5,2°C – sem lækkaði mat sjávarstöðubreytinga um 15 sm. Í öðru lagi, þá var ákveðið að reikna út sjávarstöðubreytingar fram til ársins 2095, frekar en til ársins 2100 – til að minnka matið um aðra 5 sm. Það sem olli síðan mestri skekkju er að sjávarstaða síðastliðin 40 ár hefur risið 50% meir en líkönin segja til um – samt eru líkönin notuð óleiðrétt, til að segja til um framtíðina. Að lokum var reiknað með að jökulbreiðan á Suðurskautinu myndi vaxa og þar með lækkka sjávarstöðu, sem er í andstöðu við fyrri hegðun jökulbreiðunnar.

Sumir vísindamenn innan IPCC vöruðu við þessari nálgun og það hún gæti haft alvarleg áhrif á trúverðugleika IPCC, en samt var ákveðið að nota þessa útreikninga.

Þessi villa gefur okkur hæstu mögulega sjávarstöðubreytingu upp á 59 sm, eins og áður segir.

Eðlilegt mat

Við eðlilegt mat á hæstu mögulegu sjávarstöðuhækkun – þ.e. ef miðað er við hæstu mögulegu hlýnun, rétt ár notað sem viðmiðun og það að líkönin vanmeta sjávarstöðubreytingar þá eru 59 sm nokkuð frá því að vera eðlilegt mat á hæsta gildi sjávarstöðubreytinga í lok þessarar aldar.

Við  þessa 59 sm getum við bætt 15 sm til að sjá efri mörkin miðað við 6,4°C hlýnun og 5 sm bætast við ef farið er til ársins 2100. Það eru um 79 sm. Síðan þarf að bæta við 50% til að bæta upp vanmat það sem líkönin gefa okkur og þá erum við komin upp í 119 sm sjávarstöðuhækkun – sem er mun nær því sem að sérfræðingar í sjávarstöðubreytingum reikna með nú (sjá heimildir neðst í þessari færslu).

Með því að skoða þessa tölu í samhengi við þá tölu sem að IPCC gaf út, þá er í sjálfu sér merkilegt að ekki hefur orðið fjölmiðlafár yfir þessari leiðu villu. Líklega er ástæðan sú að fólk sættir sig frekar við vanmat en ofmat. En þetta er samt undarlegt ef tekið er tillit til þess hversu slæmar afleiðingar þessi villa getur haft í för með sér – þ.e. ef verstu afleiðingar hlýnunar jarðar af mannavöldum myndu koma fram.

Heimildir og ítarefni

Færsluna, sem er eftir Stefan Rahmstorf, má finna á Real Climate:  Sealevelgate

Ýmsar skýrslur sem tekið hafa saman núverandi þekkingu á sjávarstöðubreytingum – frá síðustu IPCC skýrslu – reikna með því að sjávarstaða geti hækkað um og yfir einn metra fyrir árið 2100: Þ.e. skýrslur Dutch Delta CommissionSynthesis Report, Copenhagen Diagnosis auk SCAR skýrslunnar. Þetta er einnig niðurstaða nokkurra nýlegra ritrýndra greina: Rahmstorf 2007, Horton o.fl. 2008, Pfeffer o.fl. 2008, Grinsted o.fl. 2009, Vermeer og Rahmstorf 2009, Jevrejeva o.fl. 2010 (í prentun hjá GRL). Eina undantekningin – Siddall o.fl. 2009  var dregin til baka eftir að í ljós koma að útreikningar stóðust ekki (sjá umfjöllun loftslag.is um það mál Að ýta undir efann) .

Sjá einnig fasta síðu loftslags.is um sjávarstöðubreytingar og fyrri umfjallanir um sjávarstöðubreytingar


Hvað er Cap and Trade?

Cap and Trade er fyrirbæri sem mikið er rætt um í umræðunni um loftslagsmál. Hér verður ekki tekin afstaða með eða á móti þessari aðferð, heldur verður reynt að útskýra hana á einfaldan hátt. Þessi færsla er byggð á 2 færslum af vefsíðunni www.justmeans.com. En nú að efninu, hvað er þetta “cap and trade” eiginlega?

Hvað er Cap and Trade?

Cap er einhverskonar takmörkun eða þak, í þessu tilfelli á losun kolefnis út í andrúmsloftið í tonnum. Það er kannski hægt að líta á “Cap and trade” eins og það að skipta á milli sín pizzu, allir fá sneið, en takmörkunin “cap” í “cap and trade” er í því tilfelli skorðað við eina endanlega pizzu. “Trade” hlutinn af “cap and trade” skírskotar til þeirra gagnkvæmu áhrifa sem þú ættir ef þú myndir vilja meiri pizzu, en þá þyrftir þú að borga einhverjum öðrum fyrir þeirra hlut. Eitthvað af fólki myndi vilja fleiri sneiðar af pizzu en aðrir; stundum myndu margir vilja fá fleiri sneiðar af pizzu, en hafa verður í huga að það er aðeins ein pizza! Húngur er sterkt hvatningarafl, og sú persóna sem er viljug til að selja sína sneið gæti þannig hagnast.

Nú skulum við skipta pizzunni út fyrir kolefnis takmörkunina (cap) og svo skipta eigendum pizza sneiða út fyrir raunveruleg fyrirtæki. “Cap and trade” er hannað til að takmarka magn kolefnis sem er losað út í andrúmsloftið með því að takmarka hlut hvers fyrirtækis til ákveðins hluta af kolefnistakmörkuninni. Sum fyrirtæki sem nota mikið af orku/kolefnislosun gætu því valið að annað hvort að losa minna, en til þess að vega á móti því er hægt að fjárfesta í betri orkunýtingu eða endurnýjanlega orku (framleiða orkuna sem þau nota með aðferðum sem leiða til minni losunnar) eða þá að kaupa réttinn til að losa meira með því að borga öðru fyrirtæki fyrir þeirra losunarheimildir. En hvar, hvenær og hvers vegna kom þessi hugmynd eiginlega upp?

...

Nánar má lesa um Cap and Trade í færslunni Hvað er Cap and Trade ? á Loftslag.is.

Tengt efni:


Ráðgátan um ísöldina á Ordovician leyst?

Í lok tímabilsins Ordovician skall á ísöld sem að hefur valdið vísindamönnum um allan heim mikinn höfuðverk. Í sjálfu sér er ekki óalgengt í jarðsögunni að það skelli á ísaldir, eins og sjá má á eftirfarandi mynd:

Hér er áætlað hitastig jarðar aftur til byrjun Kambríum fyrir um 540 milljónum ára (af wikipedia). Neðarlega á myndinni má sjá bláa kassa, sem vísa í þau tímabil sem að ísaldir urðu.

Ordovician endaði fyrir um 444 milljónum ára, við fyrrnefnda ísöld og talið er að um 60% þálifandi sjávarlífvera hafi dáið út.

...

Nánar á Loftslag.is; Ráðgátan um ísöldina á Ordovician leyst?

Ýmislegt annað efni um fornloftslag af Loftslag.is:

 

 


Sjávarstöðubreytingar

Hækkun sjávarstöðu er ein af verri afleiðingum hækkandi hitastigs og því eitt af því sem margir vísindamenn eru að fylgjast með ítarlega. Við hækkun sjávarstöðu geta þéttbýl landsvæði farið undir sjó, sjávarflóð geta aukist og haft verri afleiðingar, með tilheyrandi mengun grunnvatnsstöðu og strandrofi. En hvað mun sjávarstaða hækka mikið það sem af er þessari öld?

Líkleg hækkun sjávaryfirborðs til loka aldarinnar er háð því hversu mikið hlýnar, en varmaþennsla veldur um 70% af hækkuninni. Stór óvissuþáttur í sjávaryfirborðshækkun felst í hugsanlegum breytingum á ísflæði í stóru íshvelunum á Grænlandi og Suðurskautslandinu. Þessi óvissuþáttur er ekki tekinn inn í útreikninga IPCC, en gæti aukið við sjávaryfirborðshækkunina. Hér að neðan verður því miðað efri mörk hækkunarinnar sem kemur fram hjá IPCC. Þetta er ófullkomin aðferð við að vega saman óþekkta óvissu vegna hugsanlegrar aukningar ísflæðis og þekktrar óvissu vegna annarra þátta, og mikilvægt er að hafa í huga að ekki er hægt að útiloka mun meiri sjávaryfirborðshækkun (Úr skýrslunni Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi – gefin út af Umhverfisráðuneytinu árið 2008).

Með því að taka hæstu gildi IPCC skýrslunnar fást allt að 0,6 m hækkun sjávarstöðu til ársins 2100 (frá árinu 1990) miðað við 4°C hækkun hitastigs. Í skýrslunni sem ég vitna í hér fyrir ofan kemur einnig fram að frá 1904-2003 hafi sjávarborð hækkað um 1,74 mm á ári (eða um 17 sm á öld), en einnig kemur fram að frá 1997-2007 hafi sjávarborð hækkað um 3,4 mm á ári og því ljóst að hækkun yfirborðs sjávar hefur sótt í sig veðrið, þá vegna aukinnar hlýnunar sjávar og aukinnar bráðnunar jökla.

Það skal tekið fram að allar sjávarstöðubreytingar hér er um rætt, eru hnattrænar breytingar fengnar út með mælingum á sjávarföllum á síðustu öld og síðar með gervihnattamælingum. Þá er búið að leiðrétta fyrir landrisi og landsigi, en það flækir málið víða, t.d. hér á Íslandi. Sem dæmi þá er land að rísa á Suðausturlandi vegna minna jökulfargs og er það frá 10-15 mm á ári. Á móti kemur að landsig er víða annars staðar, t.d. er það um 3,4 mm á ári í Reykjavík og allt að 8 mm á ári yst á Reykjanesi. Hugsið það bara þannig að þegar talað er um hækkun sjávarstöðu í kringum aldamótin 2100, þá má bæta 0,34 m við sjávarstöðuhækkunina í Reykjavík og 0,8 m við hækkunina á Reykjanesi, en draga 1,0-1,5 m frá hækkuninni á Suðausturlandi.

Í skýrslu sem gefin var út sem niðurstaða ráðstefnu í Kaupmannahöfn í vor (mars 2009), kemur einnig fram að hækkun sjávarstöðu hafi sótt í sig veðrið undanfarin ár:

Sjávarstöðubreytingar frá 1970.

Sjávarstöðubreytingar frá 1970.

Sjávarstöðubreytingar meiri en búist var við?

Nýlegar rannsóknir um mögulega hækkun sjávarstöðu eru nokkuð hærri en áætlanir IPCC gerir ráð fyrir, t.d. gerir ein rannsókn ráð fyrir möguleikanum á 0,5-1,4 m hækkun sjávarstöðu til ársins 2100. Önnur rannsókn gerir ráð fyrir 0,8-2,0 m hækkun sjávarstöðu til ársins 2100.

-----------------------------------

Þetta er hluti færslu um sjávarstöðubreytingar af Loftslag.is, sjá nánar - Sjávarstöðubreytingar

Tengt efni af Loftslag.is:


mbl.is Forseti Maldíveyja kemur til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er vitað um ísbirni?

Þessi færsla birtist einnig á loftslag.is

ísbirnir-polar bear

Eitt af einkennisdýrum afleiðinga hlýnunar jarðar af mannavöldum eru ísbirnirnir – enda talið ljóst að þeir muni eiga erfitt uppgangar við hlýnun jarðar. Það kemur því varla á óvart að efasemdamenn um hlýnun jarðar af mannavöldum haldi því fram að þeim fjölgi.

Það er nokkuð fjarri lagi. Það er frekar ólíklegt að hægt sé að finna líffræðinga sem rannsaka ísbirni, sem myndu halda því fram að þeim hafi fjölgað síðustu áratugi – það er ekki heldur auðvelt að segja til um að þeim hafi fækkað – til þess eru rannsóknir á ísbjörnum of stutt á veg komnar.

Á sjöunda áratug síðustu aldar, var giskað á að ísbirnir væru á milli 5-20 þúsund og er seinni talan sú tala sem oftast er talað um núna.

Aðaláhyggjuefni varðandi ísbirnina er sú staðreynd að örlög þeirra ráðast að miklu leiti á útbreiðslu hafíss á Norðurskautinu, sem bæði hvað varðar þykkt og útbreiðslu er að hnigna allverulega (sjá t.d. Hafís Norðurskautsins og Helstu sönnunargögn).

Samkvæmt mati IUCN sérfræðingahóps um ísbirni, þá eru 19 þekktir undirstofnar ísbjarna, fjöldi í einum þeirra er að aukast, þrír eru stöðugir og átta eru að hnigna (ekki eru til nægilega góð gögn til að meta hina undirstofnana).

Heimildir og ítarefni

Heimasíðu sérfræðingahóps IUCN um ísbirni má finna hér: IUCN/SSC Polar Bear Specialist Group

Tafla sem sýnir besta mat á undirstofnum ísbjarna má finna hér: Summary of polar bear population status per 2005

Einnig er hér áhugavert kort sem sýnir skiptingu svæða og áætlaðan stofnfjölda fyrir hvert svæði: Polar bear population map

Fréttatilkynning frá sérfræðingahópi IUCN sem gefin var út í fyrra: 15th meeting of PBSG in Copenhagen, Denmark 2009


mbl.is Fleiri birnir koma í heimsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fornhitastig sjávar við Íslandsstrendur

Hér er áður birt færsla af loftslag.is um sömu rannsókn og mbl.is fjallar um. 
Nýlega birtist í tímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences (PNAS) fróðleg grein sem áhugasamir um fornhitastig sjávar við Íslandstrendur og tengsl við atburði úr íslensku fornannálunum, ættu ekki að láta framhjá sér fara. 

Í greininni er sagt frá rannsóknum á skeljum úr sjávarseti við Íslandsstrendur, en með mælingum á samsætuhlutfalli súrefnis 18 í skeljunum er hægt að búa til sjávarhitaferil fyrir þann tíma sem skeljarnar lifðu, sem er á milli 2-9 ár.

Staðsetningu borkjarnanna sem notaðir voru við rannsóknina má sjá á þessari mynd (Patterson o.fl. - PNAS). Vekjum sérstaka athygli á kjarnanum MD99-2266, út af Ísafjarðardjúpi sem mest var notaður við þessa rannsókn.

 

Hver skel gefur ákveðna skyndimynd af því hvernig sjávarhiti var á því svæði, á þeim tíma þegar skeljarnar lifðu og sýna auk þess árstíðabundnar breytingar í sjávarhita - nokkuð sem ekki hefur verið áður hægt á jafn nákvæman hátt við rannsóknir á fornhitastigi. Hitastig sjávar gefur nokkuð góðar vísbendingar um það hvernig hitastig var almennt á landinu á sama tíma, sérstaklega út við ströndina.

Með skoðun á rituðum heimildum fornannálanna þá kom í ljós að það sem var skrifað um veðurfar frá tímum landafundanna og fram að sautjándu öld (hungursneyðar og hafís t.d.), sýndi nokkuð góða samsvörun við sjávarhita út frá skeljunum.  Því er ein af niðurstöðum greinarinnar að þessar tvær aðferðir við að meta hitastig styðji hvora aðra.

Mynd sem sýnir sjávarhita frá sirka 360 fyrir krist og fram til 1660. Fylltu táknin sýna hæsta hita hvers árs og ófylltu táknin lægsta hita hvers árs. Línurnar sýna hvar tengd eru saman gögn úr borkjarnanum MD99-2266 (Patterson o.fl. - PNAS) Hægt er að stækka myndina með því að smella á hana.

 

Það má ljóst vera að hér er komin fram aðferð sem á örugglega eftir að gefa góða raun við að meta fornan sjávarhita og líklegt að ef hægt er að endurtaka þessa rannsókn fyrir fleiri staði, þannig að úr fáist hnattræn dreifing - þá verði hægt að meta loftslagsbreytingar langt aftur í tímann með meiri nákvæmni en áður. Upplausnin á þessum gögnum er meiri en í öðrum gögnum, sem sýnt hafa frekar árlegan breytileika en ekki breytileika innan hvers árs eins og þessi sýnir (hægt er að fá sjávarhita á vikufresti, jafnvel daglega fyrir stærri skeljar).  Meðalárshiti eru vissulega góðar upplýsingar, en fyrir gróður og dýr - hvað þá menn, þá skiptir mestu máli hvernig hitastig breytist á árstíðarfresti - sérstaklega er nauðsynlegt fyrir okkur á norðlægum breiddargráðum að fá hlýtt sumar.

Það skal þó tekið fram að rannsaka þarf töluverðan fjölda af skeljum til viðbóart til að fá samfellda mynd af breytingunum - eins og áður segir, þá sýnir hver skel einungis breytingu í hitastigi fyrir 2-9 ár og hingað til er einungis búið að mæla 26 skeljar.

Talið er líklegt að auðveldara verði að kortleggja staðbundnar veðurfarssveiflur, t.d. sveiflur í Norðuratlantshafssveiflunni (NAO) með þessari aðferð, en þær sveiflur hafa t.d. mikil áhrif á veðurfar hér við Íslandsstrendur og víðar í Norður Evrópu. Höfundar segjast ætla að halda áfram með þessa rannsókn og stefna að því að ná fram upplýsingum um hitastig við Íslandsstrendur allt aftur til loka síðasta jökulskeiðs fyrir um 10-11 þúsund árum.

Heimildir og ítarefni

Greinina sjálfa má lesa á heimasíðu PNAS: Two millennia of North Atlantic seasonality and implications for Norse colonies

Fréttasíða tímaritsins Nature - Nature News hefur fjallað um málið: Shellfish could supplant tree-ring climate data

Áhugavert yfirlit yfir veðurfarssögu út frá Fornannálum, eftir Sigurð Þór Guðjónsson má finna á heimasíðu Veðurstofunnar: Veðurannálar - Uppskrift Sigurðar Þórs Guðjónssonar

Á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar Íslands má nálgast upplýsingar um mældan sjávarhita síðustu áratugi: Sjávarhitamælingar við strendur Íslands


mbl.is Fornritin góð heimild um veður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er aukning CO2 í andrúmsloftinu náttúruleg?

Mýta: Aukningin í CO2 í andrúmsloftinu er náttúruleg.

Þessi mýta virðist fyrst og fremst miða að því að segja að maðurinn hafi ekkert með aukningu CO2 í andrúmsloftinu að gera - aukningin sé náttúruleg og þar með sé  hlýnunin nú af völdum náttúrulegra ferla.

Af mannavöldum 

Vitað er að gróðurhúsalofttegundirnar hafa aukist mikið frá upphafi iðnbyltingunnar (miðað við 1750). Styrkur CO2 er nú 37% meiri en fyrir iðnbyltingu og styrkur CO2 og metans er nú meiri en hann hefur verið í a.m.k. 650 þúsund ár (jafnvel milljónir ára). Aukninguna má að mestu rekja til bruna jarðefnaeldsneytis, en hún er einnig að hluta vegna breytinga í landnotkun (eyðing skóga t.d.). CO2 magn hefur verið mælt skipulega frá því á sjötta áratug síðustu aldar (en fyrri tíma gögn fást með óbeinum mælingum - t.d. mælingar á magni CO2 í loftbólum ískjarna):

Breyting í magni CO2 í lofthjúpnum frá lokum sjötta áratugs.

Breyting í magni CO2 í lofthjúpnum frá lokum sjötta áratugs.

 

Mynd sem sýnir CO2 magn andrúmsloftsins út frá ískjörnum og mæld 
gildi frá Hawai.

Efri myndin sýnir CO2 magn andrúmsloftsins út frá ískjörnum og mæld gildi frá Hawai. Neðri myndin sýnir brennslu jarðefnaeldsneytis fyrir sama tímabil.

Það fer ekki milli mála ef skoðuð eru línuritin hér fyrir ofan að losun CO2 vegna bruna jarðefnaeldsneytis hefur töluverða samsvörun við magn CO2 í andrúmsloftinu.

En það er ekki sjónrænt sem vísindamenn vita að aukningin er tilkomin af völdum losunar manna á CO2. Það hefur verið staðfest með svokölluðum samsætumælingum – þ.e.  mælingum á hlutfalli milli samsæta (e. isotopes) kolefnis (C), en í náttúrunni finnst það í stöðugri mynd sem samsæturnar 12C (98,9%) og 13C (1,1%) en einnig finnst samsætan 14C í snefilmagni og er hún geislavirk. Helmingunartími 14C er um það bil 5750 ár og hefur þessi samsæta meðal annars verið notuð til aldursgreiningar á lífrænum efnum (í jarðfræði og fornleifafræði).

Hlutfall þessara kolefnissamsæta í andrúmsloftinu hefur breyst á þann veg að ekki fer á milli mála hvaðan CO2 í andrúmsloftinu kemur – þ.e. frá bruna jarðefnaeldsneytis að mestu leiti, en einnig frá eyðingu skóga og jarðvegs.  Jarðefnaeldsneyti er laust við 14C sökum aldurs (en jarðefnaeldsneyti er tugir ef ekki hundruða milljón ára gamlar jarðmyndanir) og því hefur hlutfall þess minnkað í andrúmsloftinu í kjölfar bruna jarðefnaeldsneytis.

Eldvirkni

Eldfjallið Anak Krakatau í Indónesíu, en eldfjöll gefa frá sér 
ýmis gös, meðal annars CO2.

Eldfjallið Anak Krakatau í Indónesíu, en eldfjöll gefa frá sér ýmis gös, meðal annars CO2.

Fyrir fáeinum árum reiknuðu vísindamenn magn útblásturs CO2 frá eldfjöllum (bæði á landi og á botni sjávar) og útreiknað magn þess sem eldfjöll gefa frá sér, er samtals um 130-250 milljón tonn af CO2 á ári - sem er slatti. Menn losa um 29 milljarða tonna á ári í allt (tölur frá árinu 2006).

Eldfjöll gefa því frá sér tæplega 1 % af því sem menn gefa frá sér af CO2. Þau hafa því sáralítil áhrif miðað við mennina.

Sjórinn

Þrátt fyrir þá staðreynd að kalt vatn geymir CO2 betur en heitt vatn og að sjórinn er að hitna eins og öll jörðin, þá er ljóst að aukningin í CO2 er ekki að koma frá sjónum. Málið er að við aukningu CO2 í andrúmsloftinu hefur sjórinn dempað þau áhrif og sogið í sig meira af CO2. Það hefur meðal annars leitt til þess að sjórinn hefur súrnað meira undanfarin sirka 200 ár en nokkurn tíman síðan fyrir 55 milljón árum. Það er því ljóst að CO2 hefur verið að aukast í sjónum en ekki minnka og því er aukningin í andrúmsloftinu ekki sjónum að kenna.

Niðurstaða

Það er því ljóst að aukning CO2 í andrúmsloftinu er af völdum manna, en ekki náttúrulegra þátta.

Heimildir og frekari upplýsingar

Þessi færsla er afrit af færslunni: Mýta - Aukningin í CO2 í andrúmsloftinu er náttúruleg af Loftslag.is

Aðrar færslur af Loftslag.is sem eru áhugaverðar í þessu samhengi:

Hér má fræðast um útreikninga á losun CO2 vegna eldvirkni, svo er heimasíðan Nordvulk  góð byrjunarstöð til að fræðast um eldvirkni.

Peter Sinclair hefur gert gott myndband um CO2 í andrúmsloftinu: Climate Denial Crock of the Week – Sense from Deniers on CO2? Don’t hold your breath….


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband