Færsluflokkur: Afleiðingar
28.3.2009 | 10:44
Súrnun sjávar
Ég vil benda á góða grein um súrnun úthafanna í fréttablaðinu í dag, en þar er viðtal við Jón Ólafsson hafefnafræðing. Þeir sem hafa ekki aðgang að fréttablaðinu geta nálgast blaðið hér.
Hér er þó ekki verið að ræða hlýnun. Þetta er í raun önnur afleiðing útblásturs CO2 út í andrúmsloftið og enn einn hvati fyrir mannkynið að taka til í sýnum útblástursmálum.
Breyting á pH gildi sjávar frá 18. öld til lok 20. aldar (heimild earthtrends.wri.org).
-----------------------
Hérna eru nokkrar heimasíður þar sem fjallað er um súrnun sjávar:
Heimasíða EPOCA (sem minnst er á í fréttinni). Tengillinn vísar beint á blaðsíðu á íslensku - en hún er annars á ensku.
Wikipedia (á ensku).
Blogg um súrnun sjávar (á ensku)
Ocean Acidification Network (heimasíða á ensku um þetta vandamál)
Ég hef eitthvað minnst á það áður á þessari síðu, t.d. hér (þar eru t.d. tenglar á meira lesefni).
-----------------------
Ég vil benda á tvennt í greininni sem Jón segir:
"Við sjáum vissulega að sýrustig er að falla hér við land," segir Jón. "Í samanburði við önnur hafsvæði er það að falla hraðar hér en annars staðar. Það er út af því að hér við land, sérstaklega norðan við landið, tekur hafið í sig mikið af koldíoxíði." Ástæðurnar fyrir því að þetta gerist hraðar í sjónum í kring um Ísland eru að mestu kunnar, að sögn Jóns. Þær tengist meðal annars straumakerfi Norður-Atlantshafsins.
og
Jón segir hins vegar áhrifin af auknu magni koltvísýrings í höfunum vera tvíþætt: "Annars vegar lækkar sýrustig sjávar og hins vegar lækkar kalkmettun."
Minni kalkmettun í höfunum hefur bein áhrif á kalkmettandi lífverur, en það eru lífverur sem mynda stoðvef eða skeljar úr kalki. Þetta eru til dæmis kóralar og skeldýr ýmis konar.
"Kóralar eru til dæmis farnir að líða fyrir þetta strax, og þetta er ein ástæðan fyrir því að kóralrifum er að hnigna. Þessar kalkmyndandi plöntur og dýr eru reyndar mjög mikilvægur þáttur í vistkerfum hafsins og skemmdir á þeim eða hreinlega eyðilegging þeirra mun hafa mikil áhrif á vistkerfið í heild."
Því fór ég að velta því fyrir mér hvort hrun hörpudiskstofnsins hér við land, sé í tengslum við þessa súrnun?
Ég hef reyndar ekkert fyrir mér í því, þyrfti að lesa þessa skýrslu sem unnin var fyrir háskólastetur Snæfellsnes og Náttúrustofu Vesturlands í Nóvember 2007 af Jónasi Páli Jónassyni. Datt þetta bara í hug, en líklegast er þó að áhrifin séu ekki orðin það alvarleg ennþá, enda væru vísindamenn búnir að benda á það ef svo væri.
Afleiðingar | Breytt 29.3.2009 kl. 22:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.3.2009 | 00:16
Hlýnun jarðar - flæðirit
Ég bjó mér til flæðirit sem sýnir nokkra ferla í hlýnun jarðar, þetta er ekki endanleg mynd.
Smellið á myndina tvisvar til að sjá hana í réttri stærð.
24.3.2009 | 00:04
Skriðuföll - áhrif hlýnunar.
Hér eru stuttar pælingar um skriðuföll og hvaða afleiðingar loftslagsbreytingar þær sem spáðar eru, geta haft á skriðuföll.
Hér er fyrst texti eftir Halldór G. Pétursson, fyrrum vinnufélaga minn og sérfræðing í skriðuföllum hjá Náttúrufræðistofnun Íslands:
Sem dæmi um mismunandi gerðir skriðufalla hérlendis má nefna grjóthrun, aurskriður úr giljum og urð utan á fjallahlíðum, ýmiss konar jarðföll eða jarðvegsskriður, aurblandin krapahlaup, berghlaup og jarðsig af ýmsum gerðum. Sem dæmi um helstu orsakir skriðufalla má nefna miklar rigningar og skyndileg úrhelli, asahláku og miklar leysingar, aukið grunnvatnsrennsli, undangröft jarðlaga og jarðskjálfta (www.ni.is).
Svo ég taki sem dæmi um mögulegar afleiðingar hlýnunar á grjóthrun, aurskriður og svo uppáhaldið mitt berghlaup.
En fyrst, hvað segja sérfræðingarnir um hvernig veðurfarið verður hér á Íslandi (útdráttur úr stærri skýrslu pdf skrá um 10 Mb)?:
Veðurfar
Niðurstöður margra loftslagslíkana benda til þess að fram undir miðja öld muni hlýna um rúmlega 0,2 gráður á áratug á Íslandi. Fyrir síðari hluta aldarinnar er hlýnunin mjög háð forsendum um losun gróðurhúsalofttegunda og liggur á bilinu 1,4 til 2,4°C. Líklegast er að það hlýni mest að vetralagi en minnst á sumrin. Þótt veðurfarslíkön geri ráð fyrir aukinni úrkomu ber þeim ekki saman um hversu mikil aukningin verður. Úrkomudögum mun líklega fjölga og ákefð úrkomu aukast.
Jöklar
Allir jöklar landsins sem ekki eru beinlínis framhlaupsjöklar hafa hopað hratt á liðnum árum. Vorleysingar í ám byrja heldur fyrr og vegna aukins vatnsrennslis fæst meiri orka úr íslenskum vatnsaflsvirkjunum en ráð var fyrir gert.Þess má vænta að jöklar hopi ört alla 21. öld og líklega rýrnar Langjökull örast stóru jöklanna. Haldi svo fram sem horfir verður hann með öllu horfinn um miðja næstu öld en Vatnajökull og Hofsjökull hörfa upp á hæstu tinda. Afrennsli frá jöklunum mun aukast mjög á fyrri hluta þessarar aldar en síðan minnka vegna stöðugrar rýrnunar þeirra.
Áhrif á grjóthrun:
Mynd tekin af grjóti á veginum um Þvottárskriður (fengin að láni af www2.hornafjordur.is)
Grjóthrun verður helst í þverhníptum klettabeltum við það að grjót losnar og hrynur niður fyrir áhrif þyngdaraflsins. Helstu orsakir þess að grjót losnar er að vatn kemst í sprungur bergs, það frýs og þiðnar á víxl. Það er því oftast á veturna í hláku og á vorin sem grjóthrun eru hvað tíðust, en þó alls ekki algilt (jarðskjálftar eru t.d. áhrifamikil ástæða grjóthruna, sérstaklega á Suðurlandi).
Við hlýnun: Tökum sem dæmi grjóthrun á Íslandi. Þá er líklegt að hlýnun hafi nokkur áhrif hvað varðar tímabil þar sem skiptast á frost og þíða enda er talið líklegt að það hlýni á veturna (þ.e. meiri umhleypingar gæti maður gert ráð fyrir). Ef það verða meiri umhleypingar í veðri, þá gæti tíðni grjóthruna aukist. - en óvissan er mikil.
Áhrif á aurskriður:
Aurskriða við Stakkahlíð (Borgarfirði Eystri, mynd fengin að láni af www.alfasteinn.is)
Aurskriður verða helst í hlíðum fjalla þar sem laust efni liggur annað hvort utan á hlíðinni eða í giljum hlíða. Mikil úrkoma og mikil leysing er aðalorsökin fyrir aurskriðum, en breytingar á grunnvatnsstreymi getur einnig haft áhrif.
Við hlýnun: Ef rétt er að hér muni rigningadögum fjölga og ákefð þeirra aukast, auk þess sem það muni hlýna yfir vetrartíman, þá er nokkuð ljóst að hætta á aurskriðum mun aukast. Þetta er sagt með þeim fyrirvara að talið er að hætta á aurskriðum tengist einnig hlutfalli dagsúrkomunnar miðað við meðalársúrkomu (þ.e. á votviðrasömum stöðum, þá þarf meira að rigna í einu til að aurskriða fari af stað, svona einfalt horft á það).
Áhrif á berghlaup:
Berghlaup í Svarfaðardal (mynd úr einkasafni - tekin við vinnu hjá Náttúrufræðistofnun Íslands 2005).
Fyrst smá plögg, lesið grein mína á vísindavefnum um Vatnsdalshóla, sem eru taldir vera berghlaup (reyndar myndi ég kalla þá bergflóð e. rock avalanche).
Hér er texti úr greininni Myndaði Berhlaup Vatnsdalshóla:
HVAÐ ER BERGHLAUP?
Á íslensku nefnist það berghlaup þegar heilar fjallshlíðar hafa hlaupið eða skriðið fram í einu vetfangi og myndað hauga úr bergmulningi á láglendinu neðan við.5,6 Samkvæmt erlendum skilgreiningum á berghlaupi (e. rock slide) þá er það hreyfing bergmassa sem rennur á undirlagi eða skerfleti, sem er sem næst samsíða halla fjallshlíðar. Misgengi, sprungur og lagskipting, auk veikbyggðra millilaga, auka því líkur á berghlaupum. Í hlíðinni myndast brotsár þar sem bergmassinn var áður og er það oft áberandi en fer þó eftir stærð berghlaupsins og því hvort síðari atburðir hafa afmáð þau ummerki eða ekki. Hraði við myndun berghlaupa er á bilinu nokkrir millimetrar á dag og upp í tugi metra á sekúndu. Stundum gerist það að berghlaup breytist í bergflóð (e. rock avalanche), líklega sökum mikillar fallhæðar og mikils rúmmáls þess bergmassa er fer af stað í einu. Í hlaupinu molnar bergmassinn og nær umtalsverðum hraða, eða allt að 175 km/klst. (um 50 m/sek.), og getur flust svo kílómetrum skiptir út frá hrunstað (Höskuldur Búi Jónsson, Hreggviður Norðdahl og Halldór G. Pétursson - Náttúrufræðingurinn 72, 2004).
Flest berghlaup á Íslandi eru talin hafa fallið á nútíma, skömmu eftir lok ísaldar. Einfaldasta skýringin á orsökum þeirra er að á meðan skriðjöklar fylltu dali hafi þeir sorfið hlíðar þeirra en jafnframt haldið að þeim og komið í veg fyrir að stöðugt brattari hlíðar þeirra hryndu niður. Þegar jöklarnir hurfu úr dölunum hvarf stuðningur þeirra við óstöðugar hlíðarnar, sem við það hrundu ofan í og jafnvel um þvera dalina (Höskuldur Búi Jónsson, Hreggviður Norðdahl og Halldór G. Pétursson - Náttúrufræðingurinn 72, 2004).
Við hlýnun: Eins og segir hér ofar á síðunni þá er talið að jöklar á Íslandi muni hopa töluvert á næstu áratugum og öld. Þar sem ein af grundvallarástæðum berghlaupa er undangröftur jökla sem síðan hverfa, þá er ljóst að berghlaup munu aukast töluvert á núverandi jöklasvæðum Íslands. Því er ljóst að menn ættu að vara sig á þeim slóðum í framtíðinni, þetta eru þó sjaldgæfir atburðir þótt þeim eigi eftir að fjölga. Óbein áhrif eru síðan þau að berghlaup sem annað hvort falla í jökullón eða stífla vatnsrennsli geta valdið gríðarlegum flóðum sem hlaupið geta fram á láglendi. Dæmi um flóð myndað af einhverskonar berghlaupi/berhruni (eða stóru grjóthruni) er t.d. Steinholtshlaupið 1967.
Berghlaupið í Morsárjökli vorið 2007, er dæmi um berghlaup sem er líkt því sem við getum búist við á næstu áratugum. Þorsteinn Sæmundsson og fleiri hafa rannsakað það ítarlega.
Berghlaupið í Morsárdal í baksýn (mynd Þorsteinn Sæmundsson, heimild www.nattsud.is)
Afleiðingar | Breytt s.d. kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.3.2009 | 22:30
Sniðugir krakkar
43 punda geimtilraun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.3.2009 | 23:10
Ef Norður-Atlantshafsstraumurinn stöðvast.
Hérna er áhugaverð frétt af visir.is
Hlýnunin er talin munu valda því að hafstraumar í Atlantshafinu breytist á þann veg að mun meiri sjór berist að austurströnd Bandaríkjanna en áður hefur gerst og muni þessi breyting hækka yfirborð sjávar um allt að 51 sentimetra fyrir eða um árið 2100.
Frá þessu greinir rannsókn sem birtist í tímaritinu Nature Geoscience í dag en hana framkvæmdu vísindamenn við ríkisháskólann í Flórída. Talsmaður rannsakendanna segir að þetta geti haft töluverða þýðingu fyrir borgir á borð við New York, Boston og Washington þegar fram líða stundir og eru borgaryfirvöld í New York þegar tekin að ræða hvernig bregðast megi við hækkun sjávarborðsins í framtíðinni.
Vísindamennirnir segja áhrif hnattrænnar hlýnunar mun hraðvirkari en áður var talið, til dæmis hafi ýmis reikningsdæmi og spár sem lögð voru fram á stórri loftslagsráðstefnu árið 2007 gjörbreyst nú þegar, innan við tveimur árum síðar.
Mér skilst eftir að hafa lesið sambærilegar greinar um málið á erlendum vefmiðlum að það sé ekki beint meiri sjór sem að muni berast að austurtrönd Bandaríkjanna, heldur muni Norður-Atlanshafsstraumurinn hægja á sér það mikið að sjórinn mun hitna við austurströnd Bandaríkjanna. Við það muni sjórinn í fyrsta lagi þenjast út og sjávarborð rísa (vatn þenst út við hita), auk þess sem hitamismunur á milli hafs og lands eykst og þar með aukast fellibylir og krappar lægðir á þessu svæði - en við krappar lægðir þá rís sjávarborð enn meir (vegna lágs loftþrýstings og vegna þess að vindur ýtir sjóinn upp að landinu).
Það skal tekið fram að greinin birtist í Nature Geoscience og voru niðurstöðurnar fengnar með því að skoða þau loftslagslíkön sem IPCC notaði í sinni samantekt á hlýnun jarðar.
Sjá frétt af Science Daily :Sea Level Rise Due To Global Warming Poses Threat To New York City og af National Geographics news: New York Seas to Rise Twice as Much as Rest of U.S.
¨¨¨¨¨¨¨¨¨¨¨¨¨¨¨¨
Undirliggjandi í þessari frétt er nokkuð sem ég hef tæpt á áður hér á Loftslagsblogginu, þ.e. breytingar úthafsstrauma. Mitt helsta áhyggjuefni hvað þetta varðar er möguleikinn á því að kaldur næringarríkur sjór úr norðri hætti að blandast heitum næringaríkum sjó úr suðri - sem myndi hafa geigvænleg áhrif á sjávarlífverur við Íslands strendur.
Hafstraumar við Ísland
Næring átunnar er uppruninn við þessa blöndun og átan er fæða annarra lífvera (t.d. síli, loðnu og síld) sem aftur er undirstaða lífvera hærra í fæðukeðjunni (t.d. þorsks og ýsu). Sem sagt slæmt mál ef þessi blöndun hættir við Íslandsstrendur. [Hér er grein sem er nokkuð löng, en mér sýnist hún fjalla um þetta að einhverju leiti, á eftir að skoða hana - en set hana hér til minnis - Fisheries and aquaculture in the Central North Atlantic (Iceland ...]
Það er þó ekkert að óttast í bili (einhverjir áratugir geta verið í þetta ef spár ganga eftir), því þótt það hafi hægt eitthvað á þessari blöndun þegar ein af pumpunum stöðvaðist (í áratug), þá kom hún sterk aftur til baka árið 2007-2008. Þessi pumpa er keyrð áfram við það kalt þungt vatn í Norður-Atlantshafi sekkur á veturna. Við það þá dregur hann heitan yfirborðssjór úr hitabeltinu norður eftir Atlantshafi. Samkvæmt vísindamönnunum þá hægði á pumpunni vegna hlýnunar jarðar, en ástæða þess að hann fór aftur af stað er talin vera að hluta til vegna þess að veturinn var óvenju kaldur á Norður-Atlantshafi. Sem dæmi þá segir á heimasíðu Veðurstofu Íslands:
Meðalhiti vetrarins var rétt yfir meðallagi í Reykjavík en svo hlýtt hefur verið undanfarin ár að hann var sá kaldasti frá 2002. Á Akureyri var vetrarhitinn -0,6 stig og er það 1 stigi ofan meðallags þó veturinn sé sá kaldasti frá 2002 eins og í Reykjavík.
Mikill hafís var í Labrador sundinu sumarið áður sem síðan fraus um veturinn, þannig að hafís náði lengra frá landi en venja er. Við það náði kalt loft frá Norður-Ameríku að ferðast lengra yfir ís áður en það fór yfir hlýjan sjóinn. Hitastigsmunurinn setti svo af stað pumpuna. Svo er hér punktur frá vísindamönnunum:
that the increased liquid and frozen freshwater flux into the Labrador Sea was probably tied to the large export of sea ice from the Arctic Ocean that contributed to the record minimum in sea-ice extent observed in the summer of 2007. Ironically, this disappearance of Arctic sea ice, which has been linked to global warming, may have helped trigger the return of deep wintertime [water sinking] to the North Atlantic.
Það er sem sagt talið að hér hafi hlýnun jarðar slökkt á pumpunni, en að sama skapi hafi hún sett hana af stað aftur með því að bræða hafís á Norðurskautinu.
Þessi mikli útúrdúr sem þessi færsla hefur farið segir í raun að þó jörðin hlýni, þá er ekki víst að það slokkni á úthafsstraumum endanlega, þó margt bendi til þess að það geti gerst. Ef það aftur á móti gerist, þá yrðu afleiðingarnar nokkuð skelfilegar eins og rannsóknin sem vísað er í, í upphafi færslunar gerir ráð fyrir. Margt annað má sjá fyrir sér, t.d. geta afleiðingarnar orðið þær, ef hinn hlýi Norður-Atlantshafsstraumur hægir á sér eða stoppar, að hér geti kólnað umtalsvert, sjá t.d. Could Global Warming Cause a Mini Ice Age?
16.3.2009 | 23:34
Age of Stupid
Senn kemur út mynd sem ég ætla að sjá, þrátt fyrir og kannski vegna þess hversu dramatísk hún virðist vera. Hún heitir The Age of Stupid.
Hér er trailer, en það er byrjað að sýna myndina á Englandi, en ég hef ekki heyrt af því hvort hún verði sýnd hér.
Þetta er heimsendamynd í heimildarmyndastíl hef ég heyrt og ef ég skil plottið rétt, þá er einhver sagnfræðingur í framtíðinni að skoða heimildir frá árinu 2015 þegar allt fer til andskotans hér á jörðinni vegna hlýnunar jarðar.
Afleiðingar | Breytt s.d. kl. 23:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.3.2009 | 22:28
Ráðstefnan.
Þeir sem ekki vita, þá byrjaði þessi ráðstefna á þriðjudaginn og endaði í dag. Nú þegar hefur ýmislegt áhugavert komið fram, eins og ég hef minnst á áður (t.d. ný gögn um súrnun úthafana)
Fyrir þá sem vilja lesa um ráðstefnuna, þá er heimasíða hennar hér. Þar má meðal annars komast í ágrip erinda með því að fara inn á þessa síðu og velja eitthvert session (eftir því hvað hentar hverjum), t.d. session 4 (Vulnerability in Carbon Sinks-fjallað um kerfi sem gleypa CO2 t.d. hafið og hitabeltisfrumskógarnir).
Vísindamenn sendu frá sér fréttatilkynningu með 6 atriðum í lok ráðstefnunarinnar:
Concress key findings - final press release
Hér eru skilaboðin (lauslega þýdd og nokkuð stytt):
Lykilskilaboð 1: Loftslagsbreytingar
Nýjar ransóknir benda til að svartsýnustu spár IPCC séu að rætast. T.d. Hnattrænn meðalhiti yfirborðs jarðar, hækkun yfirborðs sjávar, breytingar í hafís, súrnun úthafana og öfgar í veðri. Margt bendir til að breytingarnar verði hraðari sem leitt geti til að skyndilegra og óbreytanlegra loftslagsbreytinga.
Lykilskilaboð 2: Samfélagsleg upplausn
Rannsóknir sýna að samfélög eru gríðarlega viðkvæm fyrir smávegilegum loftslagsbreytingum, fátæk ríki eru í sérstakri hættu. Það yrði erfitt fyrir okkur nútímamenn að ráða við, ef hækkun í lofthita færi yfir 2 gráður á selsíus.
Lykilskilaboð 3: Langtímamarkmið
Fljótvirk, samfelld og áhrifarík vöktun, með hnattrænni og svæðsibundinni samvinnu er nauðsynleg til að forða okkur frá hættulegum loftslagsbreytingum. Ef farið er hægar í rannsóknirnar er hætt við að ekki verði aftur snúið. Því seinna sem brugðist er við, því erfiðara verður að snúa þróuninni við.
Lykilskilaboð 4: Sanngirni
Loftslagsbreytingar hafa og munu hafa mismunandi áhrif á fólk eftir löndum og landshlutum, hafa mismunandi áhrif á þessa kynslóð og næstu, og á samfélag manna og lífríki jarðar. Öryggisnet þarf að setja upp fyrir þá sem eiga í mestum erfiðleikum með að ráða við áhrif loftslagsbreytinga.
Lykilskilaboð 5: Aðgerðarleysi er óafsakanlegt
Það eru engar afsakanir fyrir aðgerðarleysi. Við höfum nú þegar mörg tól og nálganir til að glíma við loftslagsbreytingar. Þau þarf að nota til að draga úr kolefnisnotkun hagkerfisins.
Lykilskilaboð 6: Standast áskorunina
Til að breyta samfélaginu svo það standist loftslagsbreytinga-áskoruninni, verðum við að velta þungu hlassi og grípa gæsina þegar hún gefst [Nú var ég að komast í þýðingagírinn en komst ekki lengra í bili]
Jörðin hlýnar hratt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.3.2009 | 23:44
CO2 - vágestur úthafanna
Ég er sjómannssonur, frændur mínir og vinir eru margir hverjir sjómenn. Ég eyddi 12-13 sumrum frá 12 ára aldri út á sjó, verðmæt reynsla. Mig langar í litla trillu þegar ég verð kominn á seinni hluta ævinnar, stunda handfæri og jafnvel leggja nokkur grásleppunet á vorin. Kenna sonum mínum handtökin og ef synir mínir myndu vilja verða sjómenn þá myndi ég ekki hika við að hvetja þá í því.
Því hef ég sérstakar áhyggjur af ástandi sjávar og hingað til mestar áhyggjur af afleiðingum hlýnunar á vistkerfi sjávar við Ísland. Ég hef ekki kynnt mér nýjustu kenningar um mögulegar breytingar á hafstraumum, en einhvern tíma las ég kenningar um það að við aukna bráðnun hafíss norðurskautsins þá gæti flæði kaldra hafstrauma úr norðri, með lítilli seltu, haft þau áhrif að Golfstraumurinn myndi þrjóta kraftur og að Norður-Atlantshafstraumurinn myndi ekki lengur ná til Íslands. Hafsvæðið í kringum Ísland er á mótum kaldra næringarríkra hafstrauma úr norðri og heitra næringarsnauðra hafstrauma úr suðri. Það er ein meginástæða þess hversu mikill fiskur hefur verið við Íslands strendur síðastliðna öld.
Hér sést hringrás Norður-Atlantshafsstraumsins (tekið af vísindavefurinn.is).
Ef eitthvað er að marka þessar kenningar um hafstraumabreytingar (en það hefur lítið farið fyrir fréttum af þeim síðustu ár), þá er rétt að fylgjast vel með breytingum á hafís norðurskautsins sem helst í hendur við hlýnun jarðar undanfarin ár, sjá t.d. nýja bloggfærslu um hafís norðurskautsins og frétt á mbl.is um leiðangur á norðurskautið. En þetta er bara útúrdúr, ég ætlaði ekki að tala um þessa gömlu kenningu.
¨¨¨¨¨¨
Nú koma fréttir af annarri vá sem bætist ofan á hlýnunina sem talin er fylgja útblæstri manna á CO2, eitthvað sem gæti ógnað lífríki sjávar allóhugnalega. Sjá frétt á vefsíðunni Guardian, Carbon emissions creating acidic oceans not seen since dinosaurs. Ég rakst einnig á blogg þar sem nær eingöngu er fjallað um þessa súrnun úthafana, en þar er viðtal við einn af þeim sem eru með erindi á ráðstefnunni í Kaupmannahöfn sem ég minntist á í fyrri færslu, en erindi um súrnun úthafana var til umræðu þar í dag (hægt er að skoða ágrip erinda hér). Svo ég grípi niður í brot úr þessari færslu af fyrrgreindu bloggi (Deep reductions, or deep trouble for the oceans):
A researcher from Californias Carnegie Institution presents a stern warning. If current trends in carbon dioxide emissions are not reversed soon, we will produce chemical changes in the oceans of a magnitude that has not been seen for many tens of millions of years, says climate scientist Ken Caldeira. A failure to cut carbon dioxide emissions deeply and soon risks widespread extinctions in the marine environment, with difficult-to-predict consequences for marine ecosystems generally.
Lauslega þýtt þá segir þessi Ken Caldeira: "Ef núverandi þróun í útblæstri CO2 er ekki snúið við fljótlega, þá verða breytingar í efnafræði úthafanna af stærðargráðu sem við höfum ekki séð í tugi milljón ára." Svo segir hann: "Ef okkur mistekst að draga úr losun CO2 mikið og fljótt, þá er gríðarleg hætta á viðamiklum útdauða í úthöfunum, með afleiðingum sem erfitt er að sjá fyrir í vistkerfi sjávar." [Illa þýtt, en þið skiljið þetta hvort sem er]
Fleiri fréttir um þessi mál hafa rekist inn á erlendar síður undanfarnar vikur og mánuði, t.d. PlanetEarth: Ocean acidification - the other CO2 problem og önnur af vefsíðu TimesOnline: The toxic sea og hér er svo ein af vefsíðunni ScienceDaily: Coral Reefs May Start Dissolving When Atmospheric Carbon Dioxide Doubles.
Hörpudiskur er ein af þeim sjávarlífverum sem verða hart úti ef spárnar ganga eftir (mynd af vísindavefnum)
Það er spurning hvort þetta er eitthvað rugl og að þeir séu í sínum spám að fara með einhverjar fleipur, en ef sá möguleiki er fyrir hendi að eitthvað sé til í þessu, þá er ljóst að jarðarbúar verða að taka sig saman í andlitinu og minnka útblástur CO2. Ég veit að við Íslendingar erum ekki stór biti af heildar-CO2-kökunni, en við hljótum að geta haft einhver áhrif, framtíð okkar sjávarútvegs gæti oltið á því að losun CO2 minnki.
Þetta var heimsendaspá dagsins í dag.
10.3.2009 | 22:50
Vöktun plantna á tindum Tröllaskaga.
Starri Heiðmarsson, fyrrum vinnufélagi minn af Náttúrufræðistofnun er grasafræðingur, nánar tiltekið fléttufræðingur. Nú fyrir stuttu hélt hann erindi sem hét Vöktun tegundafjölbreytni við loftslagsbreytingar. Ég missti reyndar af þessu erindi, en ég veit fyrir víst að það hefur verið áhugavert.
Þar fjallaði hann um GLORIA-verkefnið (The Global Observation Research Initiative in Alpine Environments). Hann sagði meðal annars í erindinu (texti af heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands):
Loftslag á jörðinni fer hlýnandi, líklegast af manna völdum (IPCC). Hver áhrif hlýnunarinnar verður á gróðurfar heimsins er erfitt að spá en sá gróður sem er viðkvæmastur fyrir hlýnuninni og mun líklega fyrst bregðast við er háfjallagróður. GLORIA-verkefnið er alþjóðlegt og byggir á að lagðir eru út fastir reitir á fjallatindum í mismunandi hæð. Gróðurþekja og tegundasamsetning er skráð í reitunum og þær mælingar svo endurteknar á 810 ára fresti. Vöktunarnet GLORIA mun geta sýnt fram á breytileg áhrif hlýnunar við mismunandi loftslagsskilyrði í mismunandi heimshlutum auk þess sem góður mælikvarði fæst á gróðurbreytingar á Íslandi vegna hlýnandi loftslags.
Tröllaskagi er meðal þeirra staða sem verða vaktaðir (mynd af heimasíðu GLORIU-verkefnisins)
Ef ég skil þetta rétt, þá voru 64 reitir mældir út síðastliðið sumar í Öxnadal. Það verður fróðlegt að sjá hvað kom út úr þessum mælingum (ég verð bara að bíða eftir grein í náttúrufræðingnum þar sem ég missti af erindinu). Einnig verður áhugavert að sjá hvort einhverjar breytingar verða næst þegar reitirnir verða mældir, eftir hvað 7-9 ár?
Afleiðingar | Breytt s.d. kl. 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.3.2009 | 20:55
Sofandi risi?
Ég rakst á áhugaverða frétt á heimasíðu um loftslagsbreytingar á vegum hins virta tímarits Nature, en sú grein heitir á ensku A sleeping giant?
Greinin fjallar í stuttu máli um hættuna af því þegar stór forðabúr af metani (sem er gróðurhúsalofttegund) fara að losna úr frosnum jarðlögum, meðal annars á landgrunni Síberíu við hlýnun jarðar og hafsins.
Vísindamenn eru nú þegar farnir að sjá merki þess að metan geti verið byrjað að losna úr þessum jarðlögum, en metan er um 25 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2. Því gæti þetta haft geigvænleg áhrif og magnað upp hlýnun jarðar margfalt og sett af stað atburðarrás sem ekki sér fyrir endan á. Hlýnun - nokkurt magn Metans losnar - hlýnar enn meir - meira magn Metans losnar og svo koll af kolli (svokallað á ensku "positive feedback" - "jákvæð afturverkun").
Þetta er vissulega áhyggjuefni, en bent hefur verið á að þetta geti verið staðbundið fyrirbæri eða hluti af lengri atburðarrás og því ótengt núverandi hlýnun jarðar.
Landgrunn Síberíu er talið geyma um 1400 milljarða tonna af metangasi, um tvöfallt meira af kolefni en öll tré, grös og blóm á jörðinni.
Landgrunn Síberíu er ljósbláa hafsvæðið norðan við Síberíu Rússlands (mynd stolin frá Wikipedia).
Ofan á þessum jarðlögum á botni Síberíu-landgrunnsins er grjótharður freri sem virkar eins og lok á undirliggjandi jarðlög og kemur í veg fyrir að metangasið losni (reiknað hefur verið út að ef sjórinn hitni um eina gráðu þá losni metanið). Metan hefur mælst í nokkru magni undan ströndum landanna við norðurskautið en hvort hægt sé að sanna að það sé úr þessum jarðlögum er annar höfuðverkur.
Einnig hafa menn áhyggjur af sífrera á landi á norðurslóðum (þá einna helst í Síberíu), en þiðnun hans er nú þegar hafin. Talið er að samtals sé um 950 miljarðar tonna af kolefni bundið í sífrera á norðurhveli jarðar, helmingur þess í sífrera sem kallaður er yedoma og er mjög ríkur af lífrænum efnum en megnið af því hefur verið frosið síðan á Pleistósen (tímabil jarðsögunnar frá því ísöld hófst og þar til síðasta jökulskeiði lauk fyrir um 10 þúsund árum). Þar sem yedoma er byrjað að þiðna hefur orðið vart við nokkurn metan-leka.
Yedoma sífrerinn er byrjaður að losa kolefni við þiðnun (mynd stolin af Nature síðunni).
Jæja, ég ætla nú ekki að endurskrifa alla greinina þar sem ég er enginn þýðandi (hvað þá þíðandi), en mæli með að fólk renni í gegnum hana.
Bendi þó á línurit sem er í greininni sem sýnir magn metans í lofthjúpnum síðastliðin ár.
Svolítið óskýr mynd, en hún sýnir magn metans í lofthjúpi jarðar frá sirka 1997-2008 (tekin af Nature síðunni).
Vísindamenn veðja á að skýringin á þessari aukningu árið 2007 sé að finna í votlendi norðurslóða og að metan-aukningin sé til komin vegna bráðnunar sífrera. Það verður áhugavert að sjá á næstu árum hvort metan eykst eða hvort það minnki aftur.
Athugið að nú er upplagt að koma fram með kenningar um auknar meltingatruflanir hjá kvikfénaði árið 2007.