Færsluflokkur: Blogg

Um loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn

loftslagVið höfum leitast við að svara ýmsu um ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftlagsmál í Kaupmannahöfn á síðunni Loftslag.is. Þar komum við inn á ýmislegt m.a. um fjölda þátttakenda, staðsetningu ásamt vangaveltum um mögulegar útkomur ráðstefnunnar.

Til dæmis má lesa eftirfarandi:

Hvað er á dagsskránni?

Samkomulag þjóðanna um loftslagsmál, á tímabilinu frá 2012 og áfram; sérstaklega á að reyna að ná samkomulagi sem sameinar virðingu fyrir umhverfinu (minnkuð losun gróðurhúsalofttegunda, af völdum manna, sem hafa neikvæð áhrif á loftslagið), lífsgæði og langtíma öryggi í orkumálum á bestan mögulegan hátt. Raunhæfar tillögur um hvernig best sé að standa að því verða lagðar fram af alþjóða samfélaginu.

Hver eru lykil umræðuefnin?

  • Hvaða viðmiðunarár á að miða við sem útgangspunkt fyrir losunartakmörk, hversu lengi á næsta tímabil að vera, þ.e. frá 2012 til hvaða árs?
  • Hvaða tillögur á að koma með fyrir losunartakmörkin sjálf, bæði fyrir næsta tímabil og þar á eftir.
  • Ásamt fleiru...
Hægt er að lesa alla færsluna og taka þátt í umræðum með því að smella á þennan tengil.
mbl.is Forsetar stefna að árangri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttayfirlit vikunnar - Loftslag.is

Hér er stutt yfirlit yfir færslur vikunnar af Loftslag.is. Einnig er yfirlit yfir fréttir sem við rákumst á við fréttaöflun vikunnar, en gerðum ekki sérstakar færslur um. Þetta eru stuttar fréttir sem í flestum tilfellum tengjast loftslagsmálum á einhvern hátt, beint eða óbeint.

Yfirlit – fréttir og pistlar vikunnar:

Nokkrar bloggfærslur litu dagsins ljós í þessari viku og voru spurningar fyrirferðarmiklar. Færsla um loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn (COP15) birtist og var þar í stuttu máli farið yfir helstu atriði ráðstefnunnar sem er á tímabilinu 7. - 18. desember. Þrjár færslur, sem fjalla um 3 mikilvægar spurningar er varða loftslagsmál birtust í vikunni. Spurningarnar eru;

Þessum spurningum er velt upp og komið er með svör við þeim, sem m.a. er sótt í heim vísinda og mælinga. Gestapistill vikunnar var að þessu sinni eftir Stefán Gíslason framkvæmdastjóra umhverfisráðgjafarfyrirtækisins UMÍS ehf. Environice í Borgarnesi, pistill hans nefnist "Er almenningi sama um loftslagsmál?" og kunnum við honum þakkir fyrir góðan pistil.

Tvær myndbandafærslur birtust í vikunni, efnið í báðum var sótt til NASA. Á YouTube er rás á snærum NASA, sem nefnist NASAexplorer og þangað sóttum við efni vikunnar. Fyrst ber að nefna myndband um bráðnandi ís og hækkandi sjávarstöðu, sem er stutt myndband, þar sem m.a. eru tekin viðtöl við vísindamenn NASA. Seinni myndbandafærslan er röð myndbanda sem birtust sem hluti Jarðvísindaviku NASA. Þetta eru 6 myndbönd sem að mestu fjalla um mikilvægi hafsins varðandi loftslagsbreytingar.

Stuttar fréttir

Nýjar rannsóknir á magni CO2 í andrúmsloftinu síðastliðin 20 milljón ár, bendir til þess að núverandi takmörk varðandi losun CO2 séu of skammsýn. Vísindamennirnir notuðu sjávarsetlög til að endurskapa CO2 magn síðustu 20 milljón ár. Það kom í ljós að þegar magn CO2 var svipað og talið er að sé ásættanlegt í dag til að tækla loftslagsbreytingar, þá var sjávarstaða um 25-40 m hærri en er í dag. Greinin, sem mun birtast í Science, eykur vitneskju um tengsl milli CO2 og loftslag. Síðustu 800 þúsund ár eru nokkuð vel þekkt út frá ískjörnum, en hingað til hefur verið erfiðara að nálgast nákvæm gögn fyrir síðustu 20 milljónir ára. Sjá umfjöllun á heimasíðu BBC.

Nýjar rannsóknir á setlögum í stöðuvatni í Svissnesku Ölpunum bendir til þess að mengun fortíðar sé að læðast aftan að okkur. Mengunarefni sem hafa verið föst í ís jöklanna í yfir 30 ár eru að koma í ljós núna vegna bráðnunar af völdum hlýnunar jarðar. Efni eins og PCB, Díoxín og mörg klórín efnasambönd með DDT hafa aukist frá tíunda áratugnum eftir að hafa minnkað á þeim níunda vegna banns og stjórnunar á notkun þeirra. Vísindamennirnir hafa áhyggjur af því sem muni gerast ef jöklar Grænlands og Suðurskautsins fara að bráðna í einhverju magni. Sjá umfjöllun á heimasíðu Discovery.

Hlýnun sjávar undanfarna áratugi hefur valdið því að risastórir flákar af slímkenndu efni hafa myndast oftar og hafa enst lengur, í Miðjarðarhafinu. Þessir slímkenndu flákar, sem eru allt að 200 kílómetra langir myndast á náttúrulegan hátt, venjulega á sumrin. Undanfarin ár hafa þeir þó einnig myndast á veturna. Vísindamenn hafa fundið út að þeir eru ekki eingöngu óþægilegir fyrir baðgesti Miðjarðarhafsins og veiðimenn, heldur mynda þeir einnig góðar aðstæður fyrir bakteríur og veirur, þar á meðal E.coli veiruna. Sjá umfjöllun á heimasíðu National Geographic.

Jöklarnir í Kashmír Indlands eru að bráðna hratt vegna hækkandi hitastigs og talið er að það geti haft slæmar afleiðingar fyrir milljónir manna á Himalaya svæðinu. Jarð- og jarðeðlisfræðingar við Háskólann í Kashmír segja að bráðnunin muni hafa áhrif á tvo þriðju íbúa svæðisins, vegna breytinga sem verði í landbúnaði, garðyrkju, hirðingjalífi og skógum. Stærsti jökullinn Indlandsmegin í Kashmír, sem heitir Kolahoi, hefur minnkað úr 13 ferkílómetrum niður í 11,5 ferkílómetra síðustu 40 ár eða um 18%. Aðrir jöklar á svæðinu hafa minnkað svipað eða um 16%. Sjá nánari umfjöllun á heimasíðu Discovery.

Hitastig yfirborðsjávar við miðbaug Kyrrahafs í september heldur áfram að viðhalda El Nino aðstæðum sem sköpuðust í sumar. Þriggja mánaða frávik hitastigs var enn yfir 0,5°C sem er viðmiðið sem notað er við að skilgreina El Nino, þriðja mánuðinn í röð. Samt sem áður þá eru önnur fyrirbæri sem eru einkennandi í tengslum við El Nino ekki í takt við það sem vanalegt er. Kyrrahafssveifluvísirinn (Southern Oscillation Index - SOI) er tvíræður miðað við hvað menn eru vanir í tenslum við El NIno. Allt í allt þá bendir margt til þess að El Nino í vetur verði veikur eða miðlungs. Sjá nánari umfjöllun á heimasíðu NOAA.


Sumarbráðnun hafíss á Norðurskautinu

loftslagMeiri ís varð eftir við lok sumarbráðnunar en síðustu tvö ár á undan, þrátt fyrir það hefur hafísinn ekki jafnað sig – en þetta ár var lágmarksútbreiðsla sú þriðja minnsta frá því mælingar hófust árið 1979. Síðustu fimm ár eru þau ár sem hafa minnstu útbreiðslu.

Meðalútbreiðsla fyrir septembermánuð var 5,36 miljón ferkílómetrar, sem er 1,06 milljón ferkílómetrum meira en metárið 2007 og 690.000 ferkílómetrum meira en árið 2008. Samt sem áður var útbreiðslan 1,68 milljón ferkílómetrum minni en meðaltal áranna 1979-2000 í september...   

Þetta er hluti fréttar sem tekin er af Loftslag.is, en hægt er að lesa hana nánar með því að smella þennan tengil


mbl.is Norðurskautsísinn verður horfinn eftir áratug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er jörðin að hlýna?

Það eru þrjár góðar spurningar sem gott er að hafa í huga þegar rætt er um loftslagsbreytingar og þá hnattrænu hlýnun jarðar sem vísindamenn telja að séu af mannavöldum:

  • Er jörðin að hlýna?
  • Er CO2 valdur að hlýnuninni?
  • Er aukning á CO2 af völdum manna?

Ef hægt er að svara þessum spurningum játandi með sannfærandi vísindalegum hætti, þá hlýtur hver sá sem er vísindalega þenkjandi að komast að sömu niðurstöðu og mikill meirihluti vísindamanna: þ.e. að jörðin sé að hlýna vegna aukningar CO2 í andrúmsloftið af mannavöldum. Í þessari bloggfærslu lítum við á fyrstu spurninguna.

Er jörðin að hlýna?

Restina af þessari bloggfærslu, af Loftslag.is, má lesa með því að klikka á þennan tengil

loftslag


mbl.is Húsflugur hrella í grunnbúðum Everest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttayfirlit síðustu viku - Loftslag.is

Hér er stutt yfirlit yfir færslur vikunnar af Loftslag.is. Einnig er yfirlit yfir fréttir sem við rákumst á við fréttaöflun vikunnar, en gerðum ekki sérstakar færslur um. Þetta eru stuttar fréttir sem í flestum tilfellum tengjast loftslagsmálum á einhvern hátt, beint eða óbeint.

Yfirlit - fréttir og pistlar vikunnar

loftslagÝmsar fréttir og blogg hafa birst í vikunni. Fyrst má nefna 2 nýjar fastar síður, undir mýtunum. Þetta eru mýturnar "Aukning CO2 í andrúmsloftinu er góð" og "Aðrar reikistjörnur í sólkerfinu eru að hlýna". Samhliða seinna efninu var einnig gerð bloggfærsla, þar er hægt að gera athugasemdir og setja umræðu í gang um efnið. Helstu fréttir vikunnar eru m.a. um nýja skýrslu frá umhverfisráðuneytinu, um nýtt verkefni NASA þar sem gerðar eru mælingar á ísnum á Suður- og Norðurskautinu, frétt um sumarbráðnun hafíssins á Norðurpólnum og ekki má gleyma frétt um viðtalið sem við félagarnir fórum í, á Útvarp Sögu, í Vísindaþættinum. Í stað gestapistils vikunnar, sem ekki gat orðið af, þá gerðum við bloggfærslu um það sem við megum eiga í vændum á komandi vikum. Ýmis myndbönd og einnig léttmeti komu á vefinn í vikunni, helst ber að nefna 2 fróðleg myndbönd, í fyrsta lagi ber að nefna fræðslumyndband NASA um hafísinn og svo myndband um loftslagssamsærið - hvað er nú það? Síðast en ekki síst má nefna léttmeti vikunnar, dæmi er myndband með Bill Maher, þar sem hann veltir fyrir sér spurningum um efasemdarfólk og svo færsluna um torfþök á öll hús - ætli það geri nú eitthvað gagn?

Stuttar fréttir

Það er margt gert til að draga úr losun koldíoxíðs. Japanska flugfélagið All Nippon Airways hefur t.d. hafið tilraun sem gengur út á að flugfarþegum er boðið að pissa áður en gengið er um borð í flugvélar félagsins. Þetta er enn á tilraunastigi hjá flugfélaginu, en gert er ráð fyrir að hægt sé að draga úr heildarþyngd flugvélanna með þessari ráðstöfun. Þetta gengur þannig fyrir sig að sérstakir "klósett verðir" eru til staðar sem minna fólk á að létta á sér áður en gengið er um borð. Flugiðnaðurinn hefur nýlega samþykkt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, sem svarar 50% frá 2005 losuninni fyrir árið 2050. Bæði á að nota ýmiskonar stefnubreytingar (eins og þessi tilraun er hluti af) og með notkun skilvirkari tækni. Sjá nánar hér.

Ný rannsókn bendir til þess að frá árinu 1850 þá megi rekja um helming sjávarstöðubreytinga til mannlegra athafna. Einnig fundu vísindamennirnir að einungis fjórir sentimetrar af þeim 18 sentimertum af hækkandi sjávarstöðu væri af náttúrulegum ástæðum. Fyrir 1800 þá er hægt að útskýra allar sjávarstöðubreytingar með náttúrulegum breytingum - t.d. vegna breytinga í hita sem nær til jarðar frá sólinni (sveiflur í virkni sólar eða vegna eldgosa). Sjá nánar hér.

Greining á kínverskum annálum sem spanna yfir tvö þúsund ár, sýna að engisprettufaraldar eru líklegri í heitu og þurru veðri, sérstaklega í norðurhluta Kína.  Vistfræðingar hafa deilt um það hvað hefur áhrif mest áhrif á stofnstærð dýrategunda á löngum tíma - sumir halda því fram að loftslag hafi mest áhrif á meðan aðrir halda því fram að t.d. samkeppni og afrán séu meira ráðandi. Sjá nánar hér.

 

Veðurfarsskýrslur James Cook, sem hann skráði skipulega á hádegi dag hvern á ferð sinni um hið óþekkta, eru taldar geta hjálpað vísindamönnum að spá fyrir um loftslagsbreytingar. Skrár Cooks og fleiri landkönnuða er nú verið að endurrita og setja á stafrænt form og er talið geta hjálpað loftslagsfræðingum að greina breytingar í veðrakerfum. Gögnin sem geymd eru í Kew, innihalda einstök og nákvæm gögn með hitastigi, hafís, loftsþrýstingi og vindstyrk og átt víða að úr heiminum. Sjá nánar hér.

 


Lausnin er að minnka losun

Því fyrr sem við tökum ákvörðun um að minnka losun, því stærri möguleika höfum við á að koma í veg fyrir óafturkræfar loftslagsbreytingar af mannavöldum.

Það hafa ýmsir möguleikar verið viðraðir sem mögulegar lausnir við loftslagsvandanum. Hægt er að skipta mótvægisaðgerðunum (lausnunum) í þrjá hluta. Í fyrsta lagi eru lausnir sem stuðla að minni losun gróðurhúsalofttegunda,  svo er það kolefnisbinding og í þriðja lagi eru það loftslagsverkfræðilegar (geoengineering) aðferðir sem snúa að því að kæla jörðina.

Minni losun

Í fyrsta lagi eru lausnir sem stuðla að minni losun gróðurhúsalofttegunda. Eitt af grunnatriðum kenningarinnar um gróðurhúsaáhrifin gerir ráð fyrir því að gróðurhúsalofttegundir valdi hækkandi hitastigi.  Þar af leiðandi eru t.d. lausnir þar sem gert er ráð fyrir minni losun gróðurhúsalofttegunda  mikilvægar í mótvægisaðgerðunum vegna hlýnunar jarðar...

Nánar er hægt að lesa um lausnir og mótvægisaðgerðir á Loftslag.is


mbl.is Skiptar skoðanir um loftslagsmál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttir liðinnar viku - Loftslag.is

Hér er yfirlit yfir ýmsar fréttir sem við rákumst á við fréttaöflun vikunnar. Þetta eru stuttar fréttir sem í flestum tilfellum tengjast loftslagsmálum á einhvern hátt, beint eða óbeint. Einnig er hér stutt yfirlit yfir færslur vikunnar af Loftslag.is. Þess má einnig geta að á næsta þriðjudag verður viðtal við okkur í Vísindaþættinum á Útvarp Sögu. Þátturinn er á dagskrá klukkan 17-18 á þriðjudag.

Stuttar fréttir

Fæðuöryggi í vanþróuðum löndum heims minnkar töluvert og allt að 25 milljónir fleiri börn verða hungri að bráð árið 2050 ef ekkert er gert til að sporna við loftslagsbreytingum samkvæmt nýrri bandarískri rannsókn. Hér er á ferðinni umfangsmikil rannsókn á tengslum milli loftslagsbreytinga og fæðuöryggis. Stærstu áhrifin verða á uppskeru hveitis og hrísgrjóna. Talið er að uppskera hveitis geti dregist saman um 20-35% árið 2050 miðað við óbreyttar áherslur í losun gróðurhúsalofttegunda. Sjá nánari umfjöllun á vef Nature.

Óvenjuhátt hitastig norðurskautsins og miklar rigningar í hitabeltinu er talið líklegur orsakavaldur fyrir hinni hnattrænu aukningu í metani í andrúmsloftinu frá árinu 2007 og 2008, samkvæmt NOAA. Áratuginn þar á undan hafði lítil sem engin aukning verið, en metan er önnur mikilvirkasta gróðurhúsalofttegundin - á eftir CO2 (koldíoxíð). Sjá nánar frétt af vef NOAA.

Votlendi sem verður til þegar lónstæði stórrar stíflu í Kína þornar að hluta á sumrin er hugsanlega stór uppspretta metans sem er áhrifarík gróðurhúsalofttegund. Vísindamenn hafa haft vaxandi áhyggjur af gróðurhúsalofttegundum frá gróðurlendi sem fer undir vatn við stíflugerð. Þegar slík lífræn efni rotna, þá losnar metan og CO2 sem bæta á þá hlýnun jarðar sem nú þegar í gangi. Aukning í metani er sérstakt áhyggjuefni þar sem áhrif þess er tuttugu sinnum áhrifameira en áhrif CO2. Sjá nánari umfjöllun á vef Nature.

Yfirlit - fréttir og pistlar vikunnar:

loftslagSíðastliðinn laugardag þá birtum við 2 færslur sem fjölluðu beint og óbeint um jökulísinn og hækkun sjávarborðs. Fyrst má nefna myndband um sjávarstöðubreytingar og síðan frétt um nýjar rannsóknir sem skoðuðu þynningu jökulíssins á Grænlandi og Suðurskautinu. Önnur merkileg frétt úr vikunni sem leið var fréttin um fjórar gráðurnar, sem er ný frétt um rannsóknir á vegum Met Office (bresku veðurstofunnar), þar sem því er haldið fram að óheft losun koldíoxíðs geti leitt til allt að 4°C hækkun hitastigs fyrir næstu aldamót. Myndbönd vikunnar voru nokkur, má þar helst nefna myndband af sýn Carl Sagan á bláa punktinn sem við lifum á, hversu agnarsmár hann er í samanburði við alheiminn, auglýsing frá Bandaríkjunum sem hefur vakið furðu og svo heimildamynd um súrnun sjávar. Einnig skrifuðum við um Sea Level Explorer, þar sem hægt er að skoða áhrif sjávarstöðubreytinga á hina ýmsu staði í heiminum. Síðast en ekki síst þá skrifaði Einar Sveinbjörnsson gestapistil vikunnar, sem fjallar um "Veðurfar Norðurheimskautsins frá upphafi okkar tímatals" og kunnum við honum þakkir fyrir.


Loftslag.is - Nýtt efni síðustu daga

loftslagHér kemur stutt kynning á því efni sem birst hefur á Loftslag.is síðustu daga.

Í athyglisverðu myndbandi Carl Sagan eru hugleiðingar um stærð Jarðar í alheiminum gerð skil á fróðlegan hátt. Hversu stór er eiginlega hinn blái punktur sem við búum á.

Það eru ýmis tól sem okkur standa til boða á netinu, meðal annars er hægt að skoða ýmis áhrif af sjávarstöðubreytingum, hvaða áhrif hefur t.d. 1 m hækkun sjávarborðs? Skoðið tengilinn í þessari færslu á Sea Level Explorer.

Bandarísk auglýsing vekur furðu. 

Í kjölfarið á auglýsingunni er svo hægt að skoða blogg sem kemur inn á hugsanlega áhrif aukningar CO2 í andrúmsloftinu, eru þau áhrif eingöngu jákvæð?

Að lokum er svo frétt um rannsóknir sem Met Office (breska veðurstofan) hefur birt um hugsanlega hitastigshækkun verði ekkert að gert til að draga úr losun koldíoxíðs.


Fréttir liðinnar viku - Loftslag.is

Ritstjórn Loftslag.is hefur tekið þá ákvörðun að útbúa vikuyfirlit yfir fréttir liðinnar viku. Þetta eru m.a. fréttir sem við rekumst á við fréttaöflun vikunnar. Þetta verða stuttar fréttir sem í flestum tilfellum tengjast loftslagsmálum á einhvern hátt, beint eða óbeint. Við munum segja stuttlega frá innihaldi frétta og höfum svo tengil á þær, svo lesendur geti kynnt sér málið betur ef áhugi er fyrir því. Þetta geta verið ýmsar fréttir sem við rekumst á, en skrifum ekki frekari fréttir um í undanfarinni viku. Einnig verður stutt yfirlit yfir nokkrar af þeim færslum sem birst hafa á Loftslag.is í vikunni.

Stuttar fréttir:

100 ára veður viðburðir eru veðurfyrirbæri sem er svo öfgakennd, að öllu jafna má aðeins búast við því að atburðurinn eigi sér stað einu sinni á hverri öld. T.d. getur þetta átt við um storma, mikla úrkomu og fleiri þess háttar atburði. Það er misjafnt eftir svæðum hvaða atburðir teljast 100 ára veður viðburðir. Í borginni Atlanta í fylkinu Georgíu í BNA, hefur verið fossandi rigning að undanförnu. Þetta er veðurviðburður sem hægt er að flokka sem 100 ára veður viðburð. En verða 100 ára veður viðburðir aðeins einu sinni á hverri öld? Í raun er verið að tala um líkur á að ákveðin atburður geti átt sér stað miðað við fyrri reynslu, en þeir geta í raun gerst með nokkura ára millibili þó slíkt sé mjög sjaldgæft. Sjá nánar frétt af vef Live Science.

Sökkvandi óshólmar er vandamál sem virðist vera að aukast á flestu þéttbýlustu svæðum heims. Hér er þó ekki hægt að kenna hlýnandi loftslagi um, en það gæti aftur aukið á vandan sem hækkandi sjávarstaða í framtíðinni getur valdið og gera svæði sem milljónir manna búa á í aukinni hættu vegna storma og flóða. Ástæðan er talin vera margs konar, meðal annars út af stíflum sem koma í veg fyrir frekari framburð fljótana og vegna aukinnar búsetu á þeim - sem eykur á þyngsli jarðlaganna. Einnig er dæling vatns úr jarðlögum undir óshólmanum líklegur orsakavaldur. Sjá nánar frétt á vef BBC.

Mikið moldviðri var í Sydney fyrr í vikunni, en Einar Sveinbjörnsson fjallaði um það allvel. Einnig er góða umfjöllun að finna á vef BBC.

Yfirlit vikunnar af Loftslag.is:

Laugardaginn 19. september opnaði síðan Loftslag.is formlega. Fyrsti gestapistillinn er eftir Halldór Björnsson og ber titilinn “Um gróðurhúsaáhrif og afleiðingar þeirra“. Síðan hafa ýmsar fréttir birst í vikunni, m.a. um myndun íshellunnar á Suðurskautinu, hitastig sjávar í síðastliðnum ágústmánuði, um niðursveiflu í virkni sólar og um nýjar rannsóknir varðandi bráðnun í Grænlandsjökli fyrir 6000-9000 árum, svo einhver dæmi séu tekin. Fyrir utan bloggfærslur þær sem birtust á opnunardaginn, þá hefur Höskuldur bloggað um eldvirkni og loftslag. Síðast en ekki síst viljum við nefna gestapistil eftir Emil Hannes Valgeirsson, nefnist pistill hans “Er hafísinn á hverfanda hveli?“.

Við viljum þakka gestapistlahöfundunum sérstaklega fyrir vandaða pistla. Við hlökkum til að afhjúpa næstu gestapistlahöfunda og gerum við ráð fyrir að birting gestapistla verði fastur liður á fimmtudögum.


Loftslag.is - upplýsingasíða um loftslagsmál

Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér nánar upplýsingar um loftslagsmál, þá er upplýsingasíðan Loftslag.is full af fróðleik um málefnið.

M.a. er hægt að lesa um kenningarnar, fyrri loftslagsbreytingar, hugsanlegar afleiðingar, ýmsar mýtur um loftslagsmál ásamt ýmsu fleiru. 

 


mbl.is Blásið til sóknar í loftslagsmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband