Færsluflokkur: Blogg
22.9.2009 | 07:49
Fyrstu dagar Loftslag.is
Fyrstu dagar heimasíðunnar Loftslag.is hafa gengið ljómandi. Frá því vefurinn fór í loftið hafa komið yfir 1.000 gestir og yfir 2.000 heimsóknir. Það verður að teljast nokkuð gott fyrir svona framtak.
Eyjan.is setti tengil á síðuna að morgni þess 19. september. Opnunin gekk að óskum og klukkan 18:00 byrjuðu fyrstu færslurnar að dúkka upp, þær síðustu birtust svo örstuttu síðar. Ýmsar fréttir, ásamt opnunarbloggfærslunum og gestapistli eftir Halldór Björnsson voru aðalefniviður síðunnar við opnunina.
Að kvöldi þess 19. september skrifaði Einar Sveinbjörnsson færslu þar sem hann fjallaði um Loftslag.is og kunnum við honum þakkir fyrir. Að morgni þess 20. september var frétt á MBL um opnun síðunnar og í gær (21. september) mætti Sveinn í viðtal í Síðdegisútvarpinu (um klukkan 16:40) á Rás 2 um Loftslag.is og loftslagsbreytingar almennt.
Það má því segja að við höfum fengið ágætis byr í seglin þessa fyrstu daga og erum við að vonum sáttir við það.
Nú er stefnan tekin á áframhaldandi starf við síðuna, næsti gestapistill fer væntanlega í loftið á fimmtudag og einnig verður unnið að áframhaldandi efnisöflun fyrir síðuna. Við viljum líka minna á Facebook síðuna, þar eru nú komnir um 240 meðlimir.
Blogg | Breytt s.d. kl. 08:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.9.2009 | 22:02
Fyrirlestur Dr. Pachauri, formanns IPCC, laugardaginn 19. september
Dr. Rajendra K. Pachauri formaður Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) mun halda fyrirlestur í Hátíðasal Aðalbyggingar Háskóla Íslands laugardaginn 19. september klukkan 11:30. Fyrirlesturinn ber heitið "Can Science determine the Politics of Climate Change". Í upphafi fundarins flytur forseti Íslands stutt ávarp en Kristín Ingólfsdóttir rektor stýrir samkomunni.
Dr. Pachauri tók við Nóbelsverðlaunum fyrir hönd IPCC árið 2007, þegar Al Gore fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna voru einnig veitt Nóbelsverðlaunin. Dr. Pachauri er jafnframt forstöðumaður vísinda- og tæknistofnunarinnar TERI í Delhi á Indlandi en hún fæst öðru fremur við rannsóknir á orkunýtingu og endurnýjanlegum orkugjöfum. Samningur hefur verið gerður milli Háskóla Íslands og TERI.
Fyrirlesturinn fer fram á ensku og er öllum opinn.
Í leiðinni er rétt að minnast á það að á loftslag.is munum við halda utan um spennandi viðburði sem tengjast loftslagsbreytingum. Viðburðaskráin mun sjást á stikunni sem er hægra megin neðarlega, endilega kíkja, því það er margt spennandi í gangi á næstu vikum.
Blogg | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.9.2009 | 09:38
Loftslag.is - Hvað er það?
Síðan Loftslag.is fer formlega í loftið laugardaginn 19. september klukkan 18. En hvað er þetta Loftslag.is eiginlega og hverju viljum við ná fram með þessari síðu?
Það má kannski segja að aðal markmiðið sé að koma ýmsum upplýsingum á framfæri, ýmsum upplýsingum eins og t.d. óvissa varðandi loftslagbreytingarnar og hvaða ár eru þau heitustu í heiminum frá því mælingar hófust ásamt t.d. ýtarlegri upplýsingum um t.d. um loftslagbreytingar fyrri tíma.
Þá mun ritstjórnin leitast við það að fá gestapistla, þar sem gestir skrifa um mál sem tengjast loftslagsvísindunum og eru þeim hugleikinn. Ritstjórn hefur nú þegar fengið vilyrði tveggja gestahöfunda sem við hlökkum til að kynna til sögunnar á Loftslag.is. Blogg ritstjórnar verður fastur liður, ásamt reglulegum fréttum úr heimi loftslagsvísindanna. Heitur reitur þar sem ýmis málefni, tenglar og myndbönd fá sitt pláss, verður einnig einn af föstu liðunum á Loftslag.is.
Vefurinn verður lifandi, þ.e. hægt verður að gera athugasemdir við m.a. blogg og fréttir, sem gerir það að verkum að lesendur geta tekið þátt í umræðunni strax frá upphafi.
Við viljum einnig minna á Facebook síðu Loftslag.is fyrir Facebook notendur.
Blogg | Breytt 16.9.2009 kl. 15:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.9.2009 | 08:36
Lausnir og aðlögun - Loftslag.is
Lausnir
Það hafa ýmsir möguleikar verið viðraðir sem mögulegar lausnir við loftslagsvandanum. Hægt er að skipta mótvægisaðgerðunum (lausnunum) í þrjá hluta. Í fyrsta lagi eru lausnir sem stuðla að minni losun gróðurhúsalofttegunda, svo er það kolefnisbinding og í þriðja lagi eru það loftslagsverkfræðilegar (geoengineering) aðferðir sem snúa að því að kæla jörðina.
Minni losun
Í fyrsta lagi eru lausnir sem stuðla að minni losun gróðurhúsalofttegunda. Eitt af grunnatriðum kenningarinnar um gróðurhúsaáhrifin gerir ráð fyrir því að gróðurhúsalofttegundir valdi hækkandi hitastigi. Þar af leiðandi eru t.d. lausnir þar sem gert er ráð fyrir minni losun gróðurhúsalofttegunda mikilvægar í mótvægisaðgerðunum vegna hlýnunar jarðar. Betri nýting orkunar er t.d. einn af þeim þáttum...
Til að lesa alla greinina, klikkið á Loftslag.is - einnig er boðið upp á spjallborð, sjá tengil á hliðarstikunni á Loftslag.is.
Loftslag.is opnar formlega þann 19. september, en hægt er að kíkja á ýmsar síður nú þegar.
Blogg | Breytt s.d. kl. 08:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.8.2009 | 21:40
Loftslagsumræða á Íslandi
Sjálfhverfni er hluti af mannlegu eðli, menn hugsa hlutina oftast nær út frá eigin hagsmunum.
Svona orðaði kunningi minn hlutina þegar við vorum að ræða Evrópumálin fyrir nokkrum vikum síðan. Þessi orð fengu mig til að hugsa um loftslagsumræðu á Íslandi.
Þessi sjálfhverfni gæti mögulega verið hluti af ástæðunni fyrir því af hverju margir Íslendingar taka umræðuna um hlýnun jarðar af mannavöldum vetlingatökum.
Getur það verið að meirihluti Íslendinga sé að hugsa þetta eingöngu út frá eigin hagsmunum?
Oft heyrir maður að hlýnun jarðar sé bara nokkuð jákvæð fyrir okkur Íslendinga. Hér á landi sjá menn fyrir sér ýmsa kosti - skógrækt og akuryrkja virðist vera eitthvað sem menn horfa til, alþjóðleg uppskipunarhöfn vegna bráðnunar hafíss norðurskautanna, auk þess sem suma þyrstir í það að geta verið í stuttermabol úti í garði að grilla allt sumarið eða fara niður á sólarströnd og baða stæltan kroppinn.
Ef þetta er ástæðan fyrir hugsunarleysi manna hér á landi, hvað varðar hlýnun jarðar, þá er fólk ekki alveg með á nótunum. Því ef allt fer á versta veg þá er svo margt sem er búið að fara úrskeiðis í heiminum að það er eiginlega varla hægt að ímynda sér það né afleiðingarnar þess, meðal annars fyrir okkur Frónbúa.
Ég sé fyrir mér flóttamenn og stríðsátök víða um heim vegna hlýnunarinnar, uppskerubrest vegna þurrka og flóða, auk þess sem almenn eymd í heiminum getur orðið til þess að farsóttir breiðist út af meira offorsi en áður hefur þekkst, sem hafa munu áhrif um allan heim. Allt þetta kemur okkur við og mun hafa áhrif hér á landi.
Það er einnig talið víst að aukaafurð hlýnunarinnar, hin svokallaða súrnun sjávar, muni hafa mikil áhrif á lönd sem byggja mikinn hluta af tekjum sínum á fiskveiðum.
Það sagt, þá ættu jafnvel þeir sem vilja hag Íslands sem bestan að sjá það í hendi sér að við verðum að draga úr losun CO2 sem fyrst, því það er fyrirsjáanlegt að afkoma okkar Íslendinga verði ekkert betri þótt jörðin hlýni (og sjórinn súrni) - það er öðru nær.
Blogg | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.8.2009 | 17:48
Raunverulegt vandamál
Þeir sem eru orðnir vissir í sinni sök um að ástæður hlýnunar jarðar séu af mannavöldum verða oft hissa á viðbrögðum þeirra sem eru í afneitun eða efast um málið.
Umræðan gegn kenningunni um hlýnun jarðar af mannavöldum er nefnilega á því stigi að allir, jafnvel fólk með lítinn vísindalegan bakgrunn, ættu að geta orðið sammála um að hlýnun jarðar af mannavöldum er raunveruleg (sönnunargögnin eru yfirgnæfandi).
Niðurstaðan er ljós:
- Aukningin í CO2 er vegna brennslu jarðefnaeldsneytis, þetta vitum við út frá kolefnissamsætum í andrúmslofti (hlutfall C-14, C13 og C12 sjá t.d. útskýringu á Real Climate). Auk þess sem það er augljóst ef skoðuð eru gröf sem sýna aukninguna sem orðið hefur frá upphafi iðnbyltingarinnar - ekki hafið, ekki eldgos, ekkert annað útskýrir aukninguna.
- Eðlisfræði CO2, metans og annarra gróðurhúsalofttegunda segir okkur að þau geisla frá sér hita, nokkuð sem hefur verið vitað í rúmlega öld.
- Hitastig hefur aukist gríðarlega síðan fyrir iðnbyltingu, ekki nóg með það þá hefur það aukist meira undanfarna nokkra áratugi en þekkt er í nánustu fortíð hvort heldur með beinum mælingum eða óbeinum mælingum. Tengslin við aukningu CO2 vegna bruna eru augljós, þrátt fyrir sveiflur í hitastigi sem verða vegna náttúrulegra orsaka, t.d. breytinga í virkni sólar, El Nino eða eldfjalla. Þessar náttúrulegu sveiflur og aðrar útskýra á engan hátt þessa miklu uppsveiflu sem orðið hefur í hitastigi undanfarna áratugi.
Ef fólk vill fræðast meira um loftslagsbreytingar, þá rakst ég á ágætis heimasíðu þar sem fjallað er um Loftslagslæsi (e. Climate Literacy), en þar er ætlunin að útskýra fyrir fólki hvað loftslag og loftslagsbreytingar eru (ekki er krafist mikillar þekkingar í vísindum). Þar eru eftirfarandi kaflar með nokkrum undirstöðuatriðum þessarar þekkingu (hér eru íslensk kaflaheiti en textinn er á ensku): - Loftslagi er stjórnað af flóknum víxlverkunum í kerfum jarðar
- Líf á jörðinni veltur á, er mótað af og hefur áhrif á loftslag
- Loftslag breytist í tíma og rúmi vegna náttúrulegra ferla og af mannavöldum
- Þekking okkar á loftslagskerfum jarðar hefur aukist með athugunum, tilgátum og líkönum
- Athafnir manna eru að hafa áhrif á loftslagskerfi jarðar
- Loftslagsbreytingar munu hafa áhrif á kerfi jarðar og líf manna
Blogg | Breytt s.d. kl. 17:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.7.2009 | 18:39
Positive feedback
Í vísindum er oft notað orðasambandið positve feedback sem hefur verið þýtt á íslensku sem jákvæð afturverkun eða jákvæð svörun (sem ég nota mest). Þeir sem hafa verið að pæla í loftslagsmálum vita að jákvæð svörun er alls ekki jákvæð í sjálfu sér, heldur einstaklega neikvætt ferli (í sambandi við hlýnun jarðar sem er óneitanlega neikvætt).
Jákvæð svörun felur í sér að eitthvað magnast upp, t.d. þegar hafís bráðnar vegna hlýnunar jarðar þá endurspeglast minna sólarljós út úr lofthjúpnum og sjórinn gleypir meiri hita og því hitnar meira - meiri hafís bráðnar - meira hitnar og svo framvegis. Ekki beint jákvætt.
Ég rakst á orðasamband sem einn blaðamaður notar í útlandinu þ.e. amplifying feedback í staðinn fyrir positive feedback.
Því spyr ég ykkur: Dettur ykkur eitthvað í hug til að nota í staðin fyrir jákvæða svörun?
Blogg | Breytt s.d. kl. 18:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.7.2009 | 21:57
Lýsandi næturský
Ég rakst á áhugaverða bloggfærslu um breytingar á skýjafari, sem sumir tengja hlýnandi loftslagi. Hvort svo er ætla ég ekki að fullyrða en vissulega er þetta áhugavert.
Skýin sem um ræðir eru kölluð á íslensku Lýsandi næturský en á ensku heita þau Noctilucent cloud (samkvæmt heimasíðu Veðurstofunnar, sjá neðst á þessari síðu).
Ofan við háský eru til glitský / perlumóðuský (nacreous clouds) í um 15 - 30 km hæð og lýsandi næturský (noctilucent clouds) í um 75-90 km hæð. Þessar skýjagerðir eru mjög sjaldgæfar og tengjast ekki veðri. (tekið af vedur.is)
Mynd af blogginu sem ég minntist á áðan. Þess ber að geta að mér sýnist ein myndin af þeirri heimasíðu vera af ósköp venjulegu glitský, sem er þó glæsileg sjón.
Ástæða þess að menn hvá yfir þessum skýjum núna, er að þau eru farin að sjást á breiddarbaugum utan beltis sem þau sjást venjulega (þau sjást venjulega á milli 50. og 70. breiddargráðu Norður og Suður). Þessi ský myndast í 75-85 km hæð eða í miðhvolfinu.
Miðhvolfið (mesosphere) er næst heiðhvolfinu og nær upp í 80 km hæð. Í neðri hluta þess er fremur hlýtt og stafar það af geislanámi útfjólublárrar geislunar sem aftur veldur myndun ósons. (af vedur.is)
Ástæða þess að menn tengja þessa auknu útbreiðslu Lýsandi næturskýja við hlýnun jarðar er að við aukningu gróðurhúsalofttegunda þá er ekki nóg með að jörðin hlýni, heldur kólna efri lög lofthjúpsins (vegna þess að útgeislun jarðar nær ekki í gegnum lofthjúpinn) og gæti þetta tengst því að einhverju leiti. Það sem einnig virðist styðja þessa kenningu er að fyrstu heimildir um þessi ský komu ekki fram fyrr en eftir að iðnbyltingin hófst. Til eru aðrar kenningar t.d. um aukið methan vegna landbúnaðar.
Blogg | Breytt s.d. kl. 22:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.7.2009 | 21:41
Föst síða
Bloggfærslan sem ég setti inn rétt fyrir sumarfrí er nú orðin að fastri síðu eins og ég lofaði. Hana má finna hér til vinstri undir heitinu Yfirlitssíða.
Sjá hér.
Blogg | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.6.2009 | 01:05
Hvað veldur?
Hvernig vitum við að það erum við mennirnir sem erum að valda þeirri hlýnun sem orðið hefur?
Einfalda svarið í þremur liðum, skoðið tenglana fyrir nánari útskýringar eða tilvísun í þær.
- Aukningin í CO2 er vegna brennslu jarðefnaeldsneytis, þetta vitum við út frá kolefnissamsætum í andrúmslofti (hlutfall C-14, C13 og C12 sjá t.d. útskýringu á Real Climate). Auk þess sem það er augljóst ef skoðuð eru gröf sem sýna aukninguna sem orðið hefur frá upphafi iðnbyltingarinnar - ekki hafið, ekki eldgos, ekkert annað útskýrir aukninguna.
- Eðlisfræði CO2, metans og annarra gróðurhúsalofttegunda segir okkur að þau geisla frá sér hita, nokkuð sem hefur verið vitað í rúmlega öld.
- Hitastig hefur aukist gríðarlega síðan fyrir iðnbyltingu, ekki nóg með það þá hefur það aukist meira undanfarna nokkra áratugi en þekkt er í nánustu fortíð hvort heldur með beinum mælingum eða óbeinum mælingum. Tengslin við aukningu CO2 vegna bruna eru augljós, þrátt fyrir sveiflur í hitastigi sem verða vegna náttúrulegra orsaka, t.d. breytinga í virkni sólar, El Nino eða eldfjalla. Þessar náttúrulegu sveiflur og aðrar útskýra á engan hátt þessa miklu uppsveiflu sem orðið hefur í hitastigi undanfarna áratugi.
Blogg | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)